Framhjáhald

Framhjáhald er vinsæl dægradvöl hér á landi, og með tilkomu internetsins, er hægt að kokkála meðbræður sína án mikillar fyrirhafnar. Hér á landi, er hægt að stunda stórkarlalegt framhjáhald með hjálp einkamálavefsins einkamal.is. Gárungar og öfundsjúklingar, sem ekki hafa dottið í bullsjóðandi lukkupott ástarinnar á þessum vettfangi, – kalla þetta þokkafulla vefsetur svínastían.is, – og er bitur og kynsveltur undirritaður þar engin undantekning.

Maðurinn, eða konan sem leitast við að nugga kynfærin sín saman við önnur kynfæri sem svipað er ástadd fyrir, setur saman litla kjarnyrta auglýsingu, sem oftar en ekki hljómar svona: Er gift/ur, langar í tilbreytingu, er hreinleg/ur, 100% trúnaður.

Oft fylgja með hagnýtar upplýsingar eins og líkamsþyngd, hvort viðkomandi sé iðinn í ræktinni, og svo að auglýsandinn sé lítið gefinn fyrir rugl. Sjaldgæft er að skarta auglýsingar af þessum toga – persónutöfrum, enda tilgangurinn ekki sá að hittast til að ræða vonir, væntingar, eða eilífðarmálin, – en framhjáhaldarar leiða sjaldan hugann að dauðanum, eftirlífinu, eða hvort þeir þurfi að svara fyrir léttúðina.
Eitthvað þykir mér þó skjóta skökku við að heita 100% trúnaði, þegar fífla á maka sinn. Hvernig getur manneskja sem hefur í hyggju svik af þessu tagi,- heitið 100% trúnaði. – Er hér ekki á ferðinni hið títtumrædda catch 22?

Að framhjáhaldinu loknu, er svo hægt að fara á barnaland.is, til að gorta sig hróðugur af dáðinni. Þykir þá einkar skemmtilegt að skilja eftir sig slóð sem vísar á mögulegan afrakstur framhjáhaldsins, en um 10% barna eru rangfeðruð hérlendis.

Ég?

Ég trúi á ástina, þó hún lifi og dafni aðeins í mínum eigin hugarheimi.

11 thoughts on “Framhjáhald”

  1. Mæl þú manna heilastur!

    Ég hef iðulega lyft brúnum yfir svokölluðum 100% trúnaði á þessum vettvangi.
    Einkennilega innréttað fólk.

  2. En hvernig veist þú þetta Sigurður minn, eru þetta ekki hleypidómar

  3. Sumir vilja meina að ofangreindur subbuskapur tíðkist meir nú á dögum, & jú vissulega er einfaldara með tilkomu svínastíunar að finna sér partner in crime, en ég er ekki sannfærður & trúi því af innstu sannfæringu að mannskepnan sé nákvæmlega jafn skítleg í eðli sínu & hún var fyrir einhverjum öldum síðan.

    Og jú auðvitað eru þetta helvítis hleypidómar í Segurði það geta ekki allir verið svag fyrir súkkukökum!

  4. Hér skrifa ég rannsóknarfréttapistil í hæsta gæðaflokki og ykkur dirfist að úthrópa mig fordómafullan. Ég, – sem stend vörð um kristilegt siðferði, sem jafnvel Jesúbarnið hefði verið stolt af. Ég get skilið að þetta komi við kaunin á ykkur, og ykkur finnist að ykkur vegið, þið verandi hórkarlar, báðir tveir.

  5. Guð einn & mögulega Ésú eru því starfi vaxnir að skera úr um hvort við erum hórkarlar ég & Ágúst.
    það væri réttast að kæra þig fyrir þessi ummæli þín.

  6. Hvar hefurðu komist í kynni við alla þessa Farísea, Sigurður minn? Var það meðan þú varst á villigötunum voðalegu?

  7. Maður á að taka lífinu með opnum hug og án allra fordóma, og af því að þú hefur svo mikla fodóma gagnvart svínastíunni mæli ég með því að þú falbjóðir líkama þinn þar í stað þess að taka þetta út á okkur hórkörlunum, hver veit nema að þú uppgötvir nýjar og óþektar hvatir hjá þér. Málið er að þú þorir bara ekki að taka dýfuna út í djúpulaugina lífið.

  8. Þessi athugasemd hittir mig í hjartastað. Mér líður eins og Michael Douglas í endann á myndinni Falling Down, þar sem hann stendur furðu lostinn á bryggjunni og gerir sér grein fyrir að hann er hinn raunverulegi sökudólgur. Ég sem lagði til atlögu við framhjáhaldara og hórkarla, læri dýrmæta lexíu, að þeir sem leggja ekki stund á gjálífi, eru hræddir við að lifa lífinu til fulls.
    Svona er nú tilveran einkennileg.

  9. Til að sanna það fyrir þessum félaga þínum að þú óttist ekki að taka sénsa og lifa lífinu lifandi skora ég á þig að reyna að fá hann í rúmið með þér til að explora Plató. Sjáum hvernig hann bregst við. Svo geturðu bent á hann og sagt híhí þegar hann kveðst ekki hafa smekk fyrir þessu.

  10. ….þetta gæti endað í villigötum (no.ft.þgf.)fari Sigurður að ráðum möggubest…

Comments are closed.