Fullorðna fólkið


Þegar ég var barn, sór ég þess eið að fullorðnast ekki.

Eins og oft þegar ég er að vaska upp og sýsla í dúkkuhúsinu mínu í litla Skerjarfirði, hlusta ég á gömlu góðu gufuna. Vönduð dagskrárgerðin hefur mig oft upp í hæstu hæðir og auðgar anda minn. Ég man ekki hvaða þátt ég var að hlusta á, en mig minnir að hann hafi í og með fjallað um hvernig við týnum niður mikið af okkar góðu eiginleikum þegar við fullorðnumst. Sumir halda því fram að við öll fæðumst sem skapandi manneskjur, en svo gloprum við niður sköpunargáfunni þegar við eldumst. Í þættinum var sögð saga af manni sem hafði á uppvaxtarárum sínum látið húðflúra á handarbak sitt: “mundu”, vegna þess að hann vildi aldrei gleyma því hver hann var þegar hann var barn.

Þegar ég sjálfur var gutti þótti mér fullorðna fólkið alveg skelfilega leiðinlegt. Pabbi minn var vel menntaður og gegndi embætti hjá þunglamalegri menntastofnun. Þrátt fyrir að hann tilheyrði fullorðna fólkinu, var hann oftast léttur og skemmtilegur, í það minnsta þegar við vorum tveir saman. En fólkið sem hann átti í samskiptum við fannst mér viðurstyggilega leiðinlegt. Það var svo upptekið af að vera virðulegt, hugsanlega í þeirri von að aðrir héldu að það væri gáfað. Ég sem krakki hélt að fullorðna fólkið vissi sínu viti, en þar hafði ég á röngu að standa.

Stundum þegar foreldrar mínir tóku hús á vinafólki sínu, neyddist ég til að fara með. Þau klæddu sig upp í sitt fínasta fínt. Mamma puntaði sig og setti á sig vellyktandi. Boðið var til dönsku stofunnar, sem alltaf var óaðfinnanleg, skreytt flottustu og dýrustu munum sem hægt var að fá út úr búð, hérlendis eða erlendis. Ég man ekki hvað þau ræddu heilu og hálfu kvöldstundirnar, en ég tel víst að það hafi verið eitthvað sem skipti höfuðmáli. Karlarnir hafa án efa talað saman um eitthvað sem þótti karlanna að tala um, svosem menntamál, stjórnmál og annað í þá veruna. Þeir báru sig vel, reyktu vindla og drukku koníak, og töluðu í takt við menntun sína. Konurnar ræddu saman um það sem þótti við hæfi að konur töluðu um, hannyrðir, barnauppeldi og fólk sem ekki lifði lífinu eftir fyrirfram ákveðnum reglum um hvað telst eðlilegt. Hvað sem þau ræddu, þótti mér þau óspennandi, tilgerðarleg og umfram allt – hundleiðinleg.

Að einhverju leiti finnst mér eins og ég sjálfur hafi aldrei náð að fullorðnast almennilega. Stundum þegar ég sit í hópi manna, sem jafnvel eru yngri en ég, líður mér eins og krakka. Oft fjarlægist ég þó hinn unga litla bang bang og fer að taka tilveru mína alltof hátíðlega. Ég verð þrasgjarn og hugsa hugsanir sem eru ekki svo ólíkar hugsunum sem verða til í hausnum á sögupersónunni Georg Bjarnfreðarsyni. Ég verð óánægður og þóttafullur. Undir niðri kraumar réttlát reiði, og ég fæ óstjórnlega löngun til að hella mér yfir meðbræður mína, líkt og tíðkast í netheimum, þar sem allir keppast við að niðurlægja hvorn annan. En það er einmitt þegar ég les sumt af því sem fullorðna fólkið skrifar á netinu að ég man afhverju mig langaði ekki til að verða fullorðinn.

9 thoughts on “Fullorðna fólkið”

  1. Varstu einhverntímann settur í þverröndóttar peysur? Það þótti svaka fínt á þessum tíma. Ég held að ég bíði þess aldre bætur

  2. Ég hef næstum aldrei velt þessu fyrir mér, en hins vegar er ég oft spurður í móðurlegum umvöndunartón hvort ég ætli ekki að fara að fullorðnast einhvern tímann.

    Hins vegar hef ég af einhverjum orsökum aldrei getað losnað við þá tilfinningu að ég sé yngstur, hvert sem ég kem.

  3. Ég á bróðir á líkum aldri sem ég ólst upp með & ákvað hann mjög ungur að verða rígfullorðinn, ég er aftur á móti enn að gera það upp við mig hvort ég nenni því!

  4. þetta er svipurinn – þegar maður skammaðist sín fyrir að stela grænum frostpinna í Ásgeirsbúð

  5. Uppskrúfað menntahænsni. Það var gott að alast upp í bæjarblokkunum og lumbra á svona lýð. Því gleymi ég aldrei.

  6. Sorry, gleymdi að spyrja en ég er bara svo mikill rebel útávið.

Comments are closed.