Nóbelsblogg

stiginn til himnaríkisÉg hafði einungis verið vakandi í rúma þrjá tíma, þegar sótti að mér alveg ægilegur lífsleiði. Ég íhugaði hvað ég gæti gert til að létta mína lund, en það eina sem mér kom til hugar var að baka heilan stafla af pönnukökum, þeyta líter af rjóma og éta mig síðan í ómegin. Ég sé þá fyrir mér koma að mér þar sem ég ligg ósjálfbjarga í rjómapolli á gólfinu. En þar sem ég átti ekki hvorki hveiti né rjóma prílaði ég upp á svefnloftið og lagðist aftur til hvílu.

Ekki leið á löngu þar til ég yfirgaf þennan leiðinlega veruleika og hélt á vit ævintýra í öðrum heimi þar sem mér eru engar skorður settar. Ég rankaði við mér í leikfimishúsi Kópavogsskóla, en þaðan á ég margar hunangssætar minningar. Í leikfimishúsinu var áhorfendapallur, en á honum sat ég ásamt nokkrum íslenskum celeb bloggurum. Fram í sal var prúðbúið þjónustulið að leggja glæsilegar kræsingar á langt veisluborð sem svignaði undan gúmmilaðinu. Á miðju borðinu var heilbakaður geirfugl á skrúðbúnu silfurfati með epli eða appelsínu í gogginum. Í salnum var einnig stórt svið, þar sem einhver var að koma fyrir míkrafóni.

Mikið tilstand er þetta, hugsa ég, hvað ætli sé á seyði? Ég spyr mann sem situr skammt frá mér hvaða athöfn þetta sé. Hann horfir undrandi á mig, en segir mér síðan að við séum öll tilnefnd til Nóbelsverðlauna fyrir besta bloggið. Það munar ekki um það, segi ég. Hann horfir á mig með vanþóknun og hreytir út úr sér að einu sinni hafi hann verið kona, en hann hafi látið breyta sér í karlmann. Ég hvái, en hann hunsar mig.

Áður en ég skildi við draumaheiminn, reyndi ég eftir fremsta megni að útskýra fyrir fjölmiðlakonu, sem var að gera heimildarmynd um Nóbelsbloggarana, að ég væri í raun ekki bloggari, heldur skrifaði ég pistla á netið mér til upplífgunar. Að blogg væri ömurleg iðja, sem gengi út á að lappa upp á brotna sjálfsmynd með að niðurlægja alla sem ekki eru á sömu skoðun og bloggskrifari. Svo vaknaði ég og varð þar af leiðandi af verðlaununum.

4 thoughts on “Nóbelsblogg”

  1. Þú ert ekki einstakur, þú ert hinsvegar sérstakur. Ég elska sjúkdóminn í þér, en hata þig sem persónu. Eða var það, ég elska þig sem persónu og hata sjúkdóminn. Oh well.

Comments are closed.