Gífuryrði

Er ekki bara gullfallegt orð, heldur eitt af frumefnum bloggheima.

Um daginn skráði ég mig á gæludýravef til að óska eftir ráðleggingum um hvernig best væri að venja kött við ógnvekjandi útiheima. Ég var þarna nýorðinn kattareigandi og afskaplega upptekinn af því hversu mikill dýravinur ég væri. Ég áleit sem svo að allir dýravinir væru í eðli sínu dásamlegir og þótti gott að vera loksins kominn í hóp jafningja í dásamlegheitum. Fyrirspurn mín var kurteis og hjartnæm, og ekki hægt að lesa neitt annað úr henni, en að ég bæri hag kattarins mér fyrir brjósti. Mikið leið mér vel með sjálfan mig. Mér fannst ég svo yndislegur.

En þegar mér svo fóru að berast svör varð ég meira en lítið hissa. Ég var húðskammaður fyrir að láta mér detta í hug að hleypa kettinum mínum út fyrir hússins dyr. Að það væru aðeins nasistar og barnamorðingjar sem fengju svona hugmyndir. Það var þá sem ég fór að átta mig á að það skiptir nánast engu máli hvar maður stígur niður fæti á internetinu, fólk virðist hafa þessa ægilegu þörf fyrir að segja öðrum til syndanna. Eitthvað gerist í gúddí gúddí verksmiðju líkamans þegar maður hallmælir einhverjum sem maður finnst ekki vera með jafn frábæra skoðun á lífinu og maður sjálfur. Til verða ægilega fín boðefni sem láta þeim sem tekur að sér að hallmæla, líða örlítið betur. Og eins og annað boðefnasvindl, ánetjast fólk þeirri vellíðan sem fylgir því að niðra meðbræðrur sína á internetinu, og vandamálið eykst á þann veginn að sumir eyða bróðurparti úr degi í að skrifa um hversu þeir sjálfir eru frábærir meðan aðrir í samanburði eru ömurlegir.

Það sorglega við þetta er að ég er ekki barnanna bestur, því að bara í þessum örfáu línum hér að ofan, er ég að segja að þeir sem ánetjast því að segja öðrum til syndanna, séu ömurlegir meðan ég sjálfur er svo ægilega snjall að hafa áttað mig á þessu.

Hvað ætli það sé í okkur mönnunum sem kallar á að við finnum eitthvað í samfélaginu sem er aumkunarverðara en við sjálf(samkvæmt okkar mati), þannig að okkur líði örlítið betur í okkar eigin skinni. Kjarninn í flestu af því sem skrifað er í bloggheimum og á umræðuvefum er hægt að draga saman í eina setningu: Ég er frábær, en þú ert fáviti! Fyrir tíma internetsins vissum við ekki nákvæmlega hvað er að brjótast um í hausnum á fólki. Við að vísu vitum það ekki alveg fyrir víst, því fólk annaðhvort dregur upp mun fegurri mynd af sjálfu sér, eða reynir að fegra sig í samanburði við einhvern sem þykir ömurlegur. Að mínu mati er þetta heil stúdía sem einhver ætti að gera að akademísku verkefni.

Þeir sem upphefja sjálfan sig á þeim forsendum að þeir séu betri en aðrir, eru náttúrulega ömurlegir.

Þið sjáið að það er ekki nokkur leið að vinna þetta stríð.

14 thoughts on “Gífuryrði”

 1. Lestu Tolle – hann er með útlistun á þessu fyrirbæri. Sáraeinfalt allt saman.

 2. Vetu ekkert að blanda viðkvæmu geði þínu við kattakerlingar sem eru svo óspennandi að þær þurfa að halda kettinum sínum í gíslingu!

  Maður á að forðast að gera þennan flokk fólks að efnaskiptum í höfðinu á sér.

  …og með þessu er ég farin að dissa einhvern ákveðinn hóp….sættum okkur við að bloggið er stærsta forausa sem völ er á – og við fílum það!!!

 3. Uppáhalds ástæðan mín fyrir því að lesa þetta blogg þitt er að það má draga það saman í “ég er fáviti þið eruð fávitar”.

  Mér LÍÐUR rosa vel með það

 4. Já Hetja þú ert svona gaur sem LÍÐUR einhvernveginn og pælir rosa mikið í því, það er aftur annað akademískt verkefni!

 5. Tilgangur alls sem við tökum okkur fyrir hendur er að gúddí gúddí verksmiðjan framleiði handa okkur betri líðan. Þannig að öll okkar tilvera snýst um hvernig okkur líður, hvort sem það er töff eður ei.

 6. Nú þykir mér draga til tíðinda þegar þú ert farinn að svara fyrir hetjuna siggi.

  Ég svosem var ekki með töff-mælistikuna á lofti þegar ég skrifaði þessa athugasemd ,ótrúlegt en satt.

  En ég er samt ekkert sammála þér, nú eða hetjunni, nema þið séuð einn og sami maðurinn?

 7. Sem er enn ein blekkingin, að halda að ég þurfi samþykki og virðingu meðbræðra minna til að fullkomna myndina af sjálfum mér. Ég ítreka að þetta eru mínar hugrenningar, og hvorki þú né hetjan þurfið að gera lífsspeki mína að ykkar. Ennfremur er mér eiginlega alveg skítsama hver stendur uppi sem fáviti eða töffari í þessu naggi, ef þörf þykir að tefla það tafl hér í ákúrukerfinu. Ég hef þó persónulega mikinn áhuga á að brjótast út úr þessu fangelsi mannshugans.

 8. Þetta er of mikil sandkassaheimsspeki til að afla mér virðingar meðal þeirra sem tefla sjálfum sér fram sem intellektjúal. Þannig að ég runka mér ekki við þá tilhugsun.

 9. Bið að heilsa blessuninni henni Guðrúnu frá Stóra-Hofi. Hún er svo hlý.

 10. Sammála síðasta ræðumanni!

  Leyfðu Guðrúnu að vera leiðtoga lífs þíns –

  Hún lumar máski á góðum kaffibrauðsuppskriftum?

Comments are closed.