MPD

Ég hef verið að drepast úr Multiple Personality Disorder þessa daganna. Oftast næ ég þessu úr mér á viku, en þó ekki þetta misserið. Tumi litli hefur verið fyrirferðamikill, en hann á það til að vera sérstaklega ódæll. Ég hef farið varlega með hugrenningar mínar, en mér hefur alltaf fundist blunda ofbeldi í honum Tuma. Ég hef þó ekki þorað að nefna þetta við hann – nema undir rós. Ég verð að viðurkenna að ég er svolítið smeyk við hann. Ekki að ég hafi séð hann beita ofbeldi, heldur hef ég fundið eitt og annað innan heimilisins mölbrotið, meðal annars fallegt bollastell sem ég fékk í arf. Ég tók það nærri mér. Bollastellið var í eigu bestu vinkonu minnar hennar Lovísu, og í rauninni það eina jarðneska sem sú góða kona skyldi eftir. Ó, Lovísa, því þurftir þú að fara á undan mér? Hvað um það. Lífið er rugl.

Það fellur í minn hlut að halda hýbýlunum hreinum. Fyrr á árinu var ég að dusta af og snurfusa, en þeir sem þekkja til mín vita að ég alltaf eitthvað að bedrífa innan heimilisins. Nema hvað. Ég er inn í stofu að gera fínt. Sé ég þá að einhver hefur bitið stórt stykki úr græna ljóta sófanum. Andskotans beinið hann Tumi, hann ræður ekki við skapið í sér. Hann er dýrvitlaus. Ég þoli illa hversu ókjörkuð ég er í viðureign minni við Tuma. Ég herði þó upp hugann og bið hann koma og eiga við mig orð. Varfærnislega spyr ég hann hvort hann hafi einhverja hugmynd um hvað hafi komið fyrir sófann. Hvernig á ég að vita það, hreytir hann út úr sér. Elsku Tumi minn, segi ég eins fallega og ég get við hann, – ég var ekki að gefa í skyn að þú hefðir haft eitthvað með þetta að gera, ég hélt einungis að þú kynnir að vita hvað hefði komið fyrir. Tumi roðnar og virðist gróflega misboðið. Við erum nú ekki það mörg í heimili hér, svo ég hélt kannski að þú vissir eitthvað, það var allt og sumt. Tumi snýr upp á sig og muldrar eitthvað sem ég fæ ekki með nokkru móti skilið. Æ Tumi minn, þú veist að ég skil ekki Sanskrít, segi ég og andvarpa. Alltaf þegar Tumi er reiður og hallmælir mér þá gerir hann það á Sanskrít, en Sanskrít lærði hann hjá guðsmanninum Árna. Hann og Tumi eru mestu mátar. Ég kann líka vel við Árna. Hann er ekki sami óþverrinn og Ásgrímur, sem kemur stundum í heimsókn. Það var ekki ég sem bauð Ásgrím velkominn inn á heimilið, það var Lovísa meðan hún lifði. Ásgrímur var ekki skotinn í Lovísu, hann vildi bara fá að skarkalast í neðri byggðum hjá henni, eins og allir karlmenn. Tímunum saman, þurfti ég að hlusta á sakleysingann hana Lovísu tala um Ásgrím eins og hann væri eitthvað sérstakt heiðursmenni. En ég vissi hvað klukkan sló. Typpalingur og þóttafullur drulluháleistur. Og vínið drakk hann ótæpilega líkt og öll dusilmenni sem ég haft kynni af á minni þreyttu ævi. En Árni. Mikið er hann hoffmannslegur. Hann kann sig. Ha? Hver er ég? Nú, ég er Guðrún frá Stóra Hvoli. Ég held þessu heimili hér í litla Skerjarfirði til haga.

9 thoughts on “MPD”

 1. Voðalegt væl er þetta. Ég hélt að þeir sem þjást af MPD viti aldrei af auka persónuleikunum, svo að ég held að þu sért bara ímyndunarveikur.

 2. …þarftekki stærra hús fyrir allt þetta lið?
  Eða sannast hér hið fornkveðna að þröngt megi sáttir sitja…
  Ja – mér er spurn?!

 3. as much as I can understand…welcome to the club of fun!!! 🙂
  I don’t speak englis I just wanna….
  xxx

 4. Þú ert líka ég og hefur ekki hugmynd um það – og ég er nokkrir aðrir.

 5. Skemmtileg nýbreytni þetta með að vera af mörgum kynjum og geta sósjalíserað.

  Þú ert…FJÖLMENNI!!!

  Gæti samt orðið doltið snúið að komast í sumarfrí…

 6. Mér er gróflega misboðið. Saranara vindhe, sandari sjita, svetna, sukavabode, niserasje, hala, hala $#%#&!$&%###.

Comments are closed.