Gildi þess að tilheyra

brain

Þegar rætt er um kosti þess að vera hluti af, að tilheyra einhverjum fyrirfram ákveðnum hugmyndum, sem mögulega kasta ljósi á hver maður er og hvað maður stendur fyrir, finn ég fyrir smæð minni. Ég held ég hafi aldrei fundist ég vera hluti af einu né neinu sem maðurinn hefur diktað upp og hef ég þó mikið reynt. Ég hef aldrei upplifað: “ég er kominn heim” -tilfinninguna. Tilfinning sem mannfólkinu þykir nokkuð eftirsóknarverð.

Þessi staðreynd í mínum veruleika hefur þjakað mig frá því að ég man eftir mér, en núna í seinni tíð, þegar árin færast yfir, og hjartað kólnar(ég veit ekkert hvort hjarta mitt sé að kólna), finnst mér þráin eftir að tilheyra, hvort sem það er föðurlandi, hlaupahóp, stjórnmálaflokk, eða hvað það er – vera að leysast upp og jafnvel að hverfa. Ég er að komast á þá skoðun að þessi hugmynd eins og svo margar aðrar hugmyndir mannskepnunnar, er bölvað bull.

Mmmmmmm, þetta kaffi er óþverri, en samt drekk ég það.

Þar sem ég fékk mér kakókaffi upp í Aka Demíu, komst ég ekki hjá að heyra ungar konur ræða um gildi þess að tilheyra ákveðinni kreðsu. Hvaða skilyrði maður þyrfti að uppfylla til að geta sagt hnakkakerrtur að maður heyrði undir hana. Hvað það þýddi og umfram allt: hverjir hefðu á henni velþóknun.

Það eina sem mér kom til hugar var að ef hausinn á okkur er klofinn í tvennt getur að líta stórmerkilegt fyrirbæri sem lítur ekki ósvipað út og blómkálshaus. Þetta fyrirbæri, sem er eins í okkur öllum, notum við í að finna út hvaða hóp er eftirsóknarvert að tilheyra til að öðlast stöðu og virðingu annarra sem eru líka með svona blómkál í hauskúpunni sinni. Heil mannsævi fer í þennan eltingarleik. Svo deyjum við.

9 thoughts on “Gildi þess að tilheyra”

  1. Ég hef heldur aldrei upplifað “Ég er kominn heim” tilfinninguna. Ég hef hins vegar oft upplifað “Jón er kominn heim” tilfinninguna.

  2. Þetta er nú voðalega formaliniseraður og trosnaður heili Siggi minn! Hvernig á að vera hægt að draga nokkra ályktun út frá henni? Ha? Ha?

  3. Mér líður alltaf eins og ég sé geimvera sem hefur villst frá heimaplánetu sinni og lent á annari plánetu þar sem ég passa hvergi inn. Þetta böggaði mig einu sinni, mér fannst ég verða að tilheyra einhverjum hópi en nú er mér alveg sama.

  4. non capisco molto… but this pictures makes me think of Sisilly thinking: that is why the human brain does not work so well it looks just too much like a cauliflower ….

  5. Vá hvað það var gaman að lesa þetta blogg og svo kommentin. Okkur finnst við nefnilega öll vera geimverur sem tilheyra ekki hópnum og þegar einn viðurkennir það komum við í halarófu og segjum “ég líka”. Svo ég tek þátt: “ég líka”. Og þetta með blómhálshausinn, mhm. Nákvæmlega, og samt erum við öll svo júník. Ætli hið einstæða í manninum sé þá ekki bara fyrst og fremst að upplifa á mismunandi hátt hvernig maður passar ekki inní hópinn????
    Takk fyrir ógeðslega skemmtileg blogg, eiginlega alltaf!

  6. Hugsa sér að líða illa á mótunarárunum yfir því að tilheyra ekki og komast svo að því seinna að það er af því að hinir voru svo hégómlegir og hræddir eitthvað að þeir urðu að grúppa sig saman… Af hverju var manni ekki sagt þetta strax? 😉

Comments are closed.