Hinn arabíski shuk


Fátt er eins sárgrætilegt og þegar gullin tækifæri ganga manni úr greipum. Ég persónulega hef orðið af glæsilegum viðskiptatækifærum, vegna heimskulegra hugsjóna.

Fyrir um tíu árum síðan var ég staddur á arabíska markaðnum í Jerúsalem með fyrrum ástmey minni. Arabíski markaðurinn er fullur af allskonar helvítis skrani og skrauti, sem heillar glysgjarna túrhesta. Þar er hægt að gera góð kaup, ef maður er harður í horn að taka, og kann listina að prútta. Ég man ekki nákvæmlega hvað við vorum að skoða hjá einum kaupmanninum, hvort það voru teppi, eða 20 lítra vatnspípur – en við erum ekki búin að standa þarna lengi, þegar kaupmaðurinn gerir mér tilboð sem ástsjúkur fábjáni getur ekki annað en hafnað. “Þrír gæðaúlfaldar fyrir vinkonu þína” segir tannleysan og brosir ofurblítt. Ég trúi ekki mínum eigin eyrum og bið hann um að endurtaka tilboð sitt. Hann gerir það og ég og ástmey mín getum ekki annað en hlegið, þó svo kaupmanninum sé fúlasta alvara.

Árin liðu og þessi unga stúlka, sem ég hélt að ég myndi elska og vera með þangað til ég hrykki upp af – fór veg allrar veraldar og ég sat einn eftir með tárin í augunum. Þórkatla köttur, er stórfínn, ekki misskilja mig, en ef ég ætti þrjá eða fleiri úlfalda, þá væri gaman að vera til.

Svona er þetta oft í lífinu.

7 thoughts on “Hinn arabíski shuk”

  1. Nú hló ég upphátt Sigurður og fólk í kringum mig heldur að ég sé geðveik.

  2. Já, það hefði verið gaman að sjá þrjá úlfalda í garðinum þínum á Óðinsgötu í stað þriggja katta. Ha? Það hefði nú kætt börnin. Þessi kelling farinn veg allrar veraldar og það getum við kallað good riddens.

  3. Þarna sérðu meistari, það er betra að eiga 3 úlfalda í hendi heldur en konu sér við hlið 🙂
    En þú lærir af reynslunni vonandi.
    Batnandi manni er best að lifa.

  4. …en hugsaðu um unaðsstundirnar sem þið áttuð saman – þú og þessi stúlka.
    Svo skaltu hugsa um hvað það er óskemmtilegt að moka úlvaldataði og hvað þrír úlfaldar framleiða að jafnaði í meðalári. Svo gæti hugsast að þeir hefðu fjölgað sér innbyrðis. Reiknaðu líka með því! Þeir hefðu getað orðið lasnir og valdið þér ófyrirséðum kostnaði.

    Þegar allt kemur til alls ertu býsna vel settur:
    Þarft ekki að fara fætur fyrir allar aldir til að moka. Ert ekki þjakaður af þeim húskrossi sem útrunnar ástir verða óumflýjanlega ef þær setjast upp. Og eitthvað hlýtur nú að sparast þegar Þórkatla bregður sér í óvissuferðirnar?

    Sigurður minn Þorfinnur: Þú er lukkunnar
    pamfíll!

  5. Haha ég trúi þessu ekki, ég á nokkurn veginn nákvæmlega sömu sögu til…

    Þegar ég og Íris vorum í Túnis 2001 þá var ungur strákur sem dró okkur inn í búð eldri bróður síns. Þegar við stóðum þarna og bróðirinn spurði mig óðum hvað ég vildi borga fyrir hálsmen sem ég var að skoða (“Hvað mikið, hvað mikið?”) kallaði litli strákurinn yfir hann “Hvað viltu marga úlfalda fyrir konuna þína?”. Sá eldri brást vondur við og sló bróður sinn og sagði honum að þegja.

    Ég sé ennþá eftir því að hafa ekki gengið aðeins lengra í þessu og séð hversu marga úlfalda ég hefði getað fengið. Ég minnist þó stundum á það þegar það á við að ég gæti átt fínustu úlfalda úti í garði og þeir t.d. myndu ekki þurfa nýjan skórekka undir öll skópörin…

Comments are closed.