Hressu þvagfærin

Ég hef frá ómunatíð verið álitinn alveg sérstaklega hress tappi, eins og sagt er. Til að halda sjálfum mér í dúndurstuði, hef ég lagt stund á svokallað Hemma Gunn jóga, sem hefur gert mér gott. Ég legg mikinn metnað í að fríska upp á umhverfi mitt með glaðlegu viðmóti. Það lætur mér líða vel innan í mér.

Í samskiptum mínum við fólk er ég óspar að slá um mig með tískufrösum sem koma öllum nærstöddum í hátíðarskap. Þetta hefur þó virkað sérstaklega vel, þegar koma skal konu til. Á stefnumóti við lögulega konu er mjög mikilvægt að vera hress og kátur. Konum finnast menn lítið töfrandi sem ekki tala um annað en öldrun og dauða. Kátína og glaðlyndi eru því kjörorð sem tryggja arðbært stefnumót.

Stundum kemur þó fyrir á stefnumótum að gat kemur í samræður og þú veist ekki alveg hvað þú átt að segja næst. Þá er mikilvægt að bregðast fljótt við áður en stemningin verður vandræðaleg og allt stefnir í voða. Gott er þá að eiga eitthvað tiltækt í handraðanum til að lífga upp á andrúmsloftið. Eitthvað sem er vinsælt og allir þekkja. Áður fyrr voru það frasar úr hinum sígilda sjónvarpsþætti: Á tali hjá Hemma Gunn. Núna þykir óbrigðult að vitna í hinn sympatíska Ólaf Ragnar úr Nætur- og Dagvaktinni og segja sí-svona: “Sæll! Eigum við að ræða þetta eitthvað!” Og viti menn. Það þarf ekki að spyrja að því. Stefnumótaaðilum líður umsvifalaust vel, samræðurnar ná nýjum hæðum og áður en þú veist ertu farinn að njugga þvagfærunum þínum saman við þvagfærin á sessunautnum.

4 thoughts on “Hressu þvagfærin”

  1. Ég hélt okkur hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu varðandi þvag-/kynfæraumfjöllun þína….en getur verið að þú sért á/í villigötum?

  2. Já, það kann að vera rétt hjá þér Linda. Það er ólíklegt að ég öðlist langþráða virðingu meðbræðra minna með þessu háttalagi.

Comments are closed.