Súr fnykur dyggðarinnar

Það er orðið svolítið síðan ég vitnaði í Biflíuna mína. Senan og atriðið hér að neðan voru í miklu uppáhaldi hjá okkur Tvídrangabuffunum.

Uppátækjasami grallarinn og lífskúnstnerinn Windom Earle býður hressu ungmenni til gildis í litla huggulega sumarkofanum sínum. Hið hressa ungmenni sem við skulum kalla Dude, elskar að drekka bjór og skemmta sér. Hann er flippaður og alltaf til í partí.

Fyrr í senunni telur Dude hann eiga heimtingu á meiri bjór, þrátt fyrir að vera orðinn andskoti slompaður. Hann hefur meira að segja orð á því sjálfur þegar hann tilkynnir viðstöddum hátíðlega: Ég er haugfullur, eða “I’m pumped” eins og hann orðar það svo snilldarlega.
Hann er þó örlítið vonsvikinn og lætur óánægju sína í ljós. Honum finnst hann hafa keypt köttinn í sekknum þegar hann þáði heimboðið af Earle. Hann hélt að hann væri á leiðinni í brjálað partí fullt af viljugum kvenpening. Hann er hinsvegar bara einn í gleðskapnum með vangefnum manni í rauðskræpóttum náttslopp og Earle sem talar tóma vitleysu.

Earle dundar sér við að steypa Dude inn í stóran skúlptúr sem líkist skákpeði. Á meðan kaffærir hann honum í ægilegum orðskrúð. Dude botnar ekki neitt í neinu, enda borderline hálfviti, sem lifir einungis fyrir munn og maga.

Mónólókur Windom Earle: Einu sinni, endur fyrir löngu var mikill gleði- og gæðastaður kallaður Hvíta Sel. Hindir skoppuðu meðal hamingjusamra skríkjandi anda. Hljómur sakleysis og hláturs fyllti andrúmsloftið. Þegar rigndi, rigndi sætum hunangslegi sem lamaði hjartað af þrá til að lifa lífinu í sannleika og fegurð. Almennt talað skelfilegur staður, mettaður súrum fnyk dyggðarinnar, úttroðinn hvísluðum bænum knékrjúpandi mæðra, kjökrandi nýburum, og fíflum þvinguðum til að vinna góðverk án ástæðu.
En það gleður mig að hafa orð á, að saga okkar endar ekki á þessum öfgafulla sykursæta stað. Því það fyrirfinnst annar staður, sem býr yfir óhugsanlegum mætti, fullur af myrkri og illkvittnislegum leyndarmálum. Enginn bænheitur dirfist inn í þetta mynni óttans. Vættir þar kæra sig kollótta um góðgjörðir og kirkjunnar særingar. Þeir eru allt eins líklegir að bjóða þig glaðbeittir góðan daginn meðan þeir tæta holdið af beinum þér. Og ef beislaðir, þessir vættir, þetta hulda land óbældra skelfingarópa og brostinna hjarta, opnast fyrir kraft, svo gífurlegan, að sá semm hann öðlaðist væri mögulegt að endurskrifa heiminn eftir eigin höfði. Þessi staður sem ég tala um, er þekktur sem Svarta Sel. Og ég hef í hyggju að finna hann.

Dude er hrifinn af sögunni, en vill meiri bjór. Maðurinn í skræpótta sloppnum gefur honum að súpa á bjórflösku. Earle tekur fram lásaboga.

[MEDIA=177]

4 thoughts on “Súr fnykur dyggðarinnar”

 1. Sem mikill aðdáandi Tvídranga og þinna mynda verð ég að spyrja: Hefurðu horft á Riget, eða Lansann eins og mig minnir að það hafi verið þýtt af ríkissjónvarpi landsmanna?

 2. Nei, þá þætti sá ég aldrei. Ég hef einhverra hluta vegna haft antípat á öllu skandinavísku. Ég hef neitað mér um að horfa á fullt af gúmmilaði, bara út af því að það er sænskt, danskt eða norskt. Alveg ótrúlega kjánalegt, sérstaklega vegna þess að ég kann enga skýringu á þessu.

 3. Góðan daginn Meistari
  Þetta heitir að vera með fordóma eða eitthvað í þá áttina 🙂 ég hélt að þú, sem ert svo ástkær og yndislegur, ættir þetta ekki til að dæma svona fyrir fram allt sem kemur frá okkar yndislegu Scandinavíu-frændum 🙂 en fyrir utan það þá er þetta hin skemmtilegasa stuttmynd sem þú býður upp á eins og venjulega.

  Megir þú lengi lifa.

  P.S. skilaðu kveðju til hans frænda míns næst þegar þú sérð hann.

  G.F.Í.

 4. Æ þessi antípöt.
  En svona miðað við skiljanlega ástríðu þína til Tvídranga veðja ég kollvikum langafa míns að þú finnir þér skemmtan í Riget.

  “en CT-skanning?”

  Að öðru leyti styð ég Bæjarmeli til Eddu, Óskars eða jafnvel Nóbel.

Comments are closed.