Hvatvísi og óskrifaðar reglur í asnalegri tilveru

Gott þykir í lok vinnuvikunnar að sturta í sig brennivíni og bregða sér niður í miðbæ til að sinna félagslegum þörfum. Ölvað fólk, sem undir öðrum kringumstæðum hefði engan áhuga á að kynnast, ruglar saman reitum sínum og fer jafnvel í sleik. Þegar þetta sama fólk hittist svo seinna á götu úti allsgáð, hefur það ekki svo mikið fyrir því að heilsa hvoru öðru, rétt eins og það séu þegjandi samkomulag um að það sem gerist undir áhrifum áfengis tilheyri öðrum heimi, sem hefur ekkert með raunveruleikann að gera.

Ég sjálfur hef ekki orðið fullur í næstum átta ár. Mér er skítsama hvaða nafni mínu edrúlífi er gefið. Ég kenni mig ekki við nein félagasamtök, né er ég síröflandi um áfengi eða ástæðuna fyrir því að ég kýs að smakka það ekki. Flestir sem umgangast mig vita heldur ekkert af því að ég drekk ekki. Og þar sem ég legg heldur ekki í vana minn í að flokka fólk niður eftir hvort það drekkur mikið eða lítið, þá velti ég stundum fyrir mér hvað gerir það að verkum að fólk safnast saman um helgar niður í bæ, blindfullt, gargandi og grenjandi eins og skepnur í dýragarði.

Fólk, hefur mikla þörf fyrir að mynda tengsl við annað fólk – það er vitað. Ekki bara til að sinna sínum sleikþörfum, heldur líka til að finna fyrir einhverjum kærleik, eða viðurkenningu. Sumir eru jafnvel í leit að afdrepi í þessari asnalegu tilveru sem ekkert okkar getur útskýrt á fullnægjandi máta. En við búum í félagslega heftum heimi, og stjórnumst af ótta við álit annarra. Og eina leiðin sem við kunnum til að finna fyrir frelsi af einhverju tagi, er að hella í okkur gnótt af brennivíni.

Væri ekki yndislegt ef við mannfólkið gætum leyft okkur að rjúka í fangið á einhverjum ókunnugum, sem við höfum miklar mætur á. Setjum sem svo, að ég væri staddur bláedrú á Laugaveginum og ég kæmi auga á Óttar Proppé – fallegasta mann Íslands – eða jafnvel bara Megas, og ég í óheftri gleði og ánægju yfir að sjá þessa prýðismenn, réðist ég á þá og faðmaði í hjartahreinum kærleik. Það er ég nokkuð viss um að þó bæði Óttar Proppé og Megas séu miklir lífskúnstnerar, þá myndu þeir draga þá ályktun að ég væri snaröfugur geðsjúklingur, sem hefði í hyggju að vinna þeim mein. Ef ég léki þennan sama leik, blindfullur niður í bæ um helgi, væri ég álitinn ægilega sniðugur, – í versta falli leiðinlegur.

Nú, eða ef ég væri staddur á kaffihúsi, sötrandi kaffilaði og ég kæmi auga á einhvern sem væri líklegur til að vita eitthvað meira en ég um eilífðarmálin – hóa í hann og spyrja hann sisona hvort dauðinn sé endirinn, eða hvort við þurfum jafnvel að fæðast og lifa sama lífinu aftur nákvæmlega eins. Sá hinn sami myndi hrökklast í burtu, viss um að ég væri snargeðveikur, talandi um einhver helvítis eilífðarmál, þegar ég ætti að vera upptekinn af því hvaða tegund af bíl ég keyri. Nákvæmlega sömu kringumstæður, nema hefði ég verið sötrandi bjór í stað kaffilaðis, hefði viðkomandi mögulega álitið mig ótrúlega flippaðan. En hvað sem eilífðarmálum líður, þá væri ég til í að búa í heimi þar sem ekki gilda einhverjar óskrifaðar reglur um hvenær maður má sýna tilfinningar og hvenær ekki.

13 thoughts on “Hvatvísi og óskrifaðar reglur í asnalegri tilveru”

 1. Já það er fínt að þurfa ekki að fara eftir þessum óskrifuðu reglum ….. ég ætla að biðja Megas að koma í sleik næst þegar ég hitti hann á förnum vegi!

 2. ég er búin að vera edrú í rúm 27 ár og alveg þoooooli ég ekki tvennt

  a) svona fólk sem faðmar og kyssir alla… mig langar ekkert að hafa fullt fólk kyssandi mig niðrí bæ
  b) þegar fólk dregur strax þá ályktun að ég sé ólétt þegar ég drekk bara vatn

 3. Jáh..Það eru fáir sem gleðja hjarta mitt líkt og þú gerir Sigurður..!
  Og fáir sem hafa lag á því að skemnmta mér eins og þú..Og mikið er ég fegin að sjá að þú hefur ekki þörf fyrir að skilgreina hvernig “drekkur ekki” gaur þú ert, enda engin ástæða til..*

  Og já..Vá hvað ég er sammála þér líka..

  Anyways*

  Vildi bara seigja þér að ég skemmti mér konunglega í nýja hlutverkinu mínu.
  Vill ekki fara neitt nánar útí af hverju,í ljósi þess að það yrði ekki vel séð að koma yfir eihverri barnalands-stemmningu á bloggið þitt..Mér finnst það alla vega ekki:)

 4. Þvottekta færsla og mannbætandi. Hef kynnst báðum meisturunum gegnum starfið og staðfesti að þeir eru formlegir og ekki allra. Ekki frekar en þú, minn kæri Sigurður og það er hrós.

 5. Ef við hittumst á förnum vegi, skal ég taka þig á hné mér og fara með húsgang frá liðinni öld.

 6. Fólk verður of barberískt fyrir minn smekk þegar það drekkur. Þess vegna djamma ég aldrei um helgar. Svo finnst mér fullt fólk ótrúlega heimskt. Ég drekk samt sjálf en bara frekar lítið.

 7. Hvílíkur fyrirmyndarskógarrjóður sem þessi afkimi óravíddanna er og dýrin svona ljómandi umburðarlynd hvert við annað.

  Hyggst ekki freista líkamlegs samaneytis við ókunnuga á förnum vegi – en ég væri vís til að knúsa þig næst þegar við hittumst.

 8. Ég skal sýna þér minn ef þú sýnir mér þinn. Innri mann.

  Það er spurning hvort það séu óskrifaðar reglur um fjarlægð, eða óskrifuð laumulöngun hjá öllum til að nudda sér upp við hvorn annan, og spurning hvort ástandið er náttúrulegra. Ein stór sósuð fjölskylda.

 9. Siggi ekki allra? Hvað gengur að þér? Hann er allra sem hafa hitt hann með mig sem miðlara. Lifi Siggi! Siggi Best!

Comments are closed.