nostalgía

Ég hef alla tíð borið í brjósti mér óskilgreindan ljúfsáran söknuð til áranna í kringum 1928-1936. Tónlist, arkitektúr, fatnaður og stemning þessa tímabils fyllir sálu mína af hlýjum og notalegum tilfinningum. Söknuður sem þessi er stundum kallaður nostalgía, þrátt fyrir að nostalgía sé upprunalegum skilningi notuð um heimþrá.

Fyrir mörgum árum síðan kynntist ég konu sem starfar enn þann daginn í dag sem miðill. Einn föstudag eftir skóla, bauð hún mér að koma á miðilsfund á heimili hennar. Ekki var laust við að örlítill beygur væri í mér, en ég þáði þó heimboðið með þökkum. Þegar þar var komið útskýrði þessi góða kona fyrir mér hvernig fundurinn færi fram. Hún félli í trans og á meðan hún væri í transinum, ætti ég samskipti við eldri mann sem hún nafngreindi. Hann hefði aðgang að fólki með allar þær upplýsingar sem þeim væri heimilt að láta mér í té.

Rödd konunnar sem var frekar mjóróma breyttist eftir að hún féll í trans og varð hrjúf og karlmannleg. Það hefði komið meira á mig, hefði þessi vinkona mín ekki verið búin að undirbúa mig. Gamli maðurinn kynnti sig og hóf síðan að útskýra fyrir mér hvernig lífið virkaði. Hann tjáði mér að megintilgangur okkar væri að læra af mistökum okkar og þroskast.

Fyrir fæðingu væru okkur úthlutuð markmið sem við þyrftum að keppa að áður en yfir lyki. Næðum við markmiðum okkar, yrði okkur sett ný verkefni til að kljást við í næsta lífi. Tækust okkur ekki að ná markmiðum okkar, þyrftum við að þreyta sömu þrautir í næstu atrennu. Hann sagði mér að fólk sem gerði slæma hluti, væri á fyrstu lífunum sínum. Ég man ekki til þess að hann hafi sagt mér hvað gerðist áður en fyrsta lífið væri lifað, eða hvaðan allar þessar sálir koma. Ekki man ég heldur hvort hann hafi skýrt það út fyrir mér hvað yrði þegar öllum markmiðunum hefur verið náð.

Þegar við höfðum spjallað saman um tilgang lífssins og hann hafði svarað öllum mínum spurningum um þroskaferli og endurfæðingar, spurði hann hvort það væri eitthvað sem mig fýsti að vita um mína persónulegu tilveru. Ég spurði hann þá, hvers vegna ég væri haldinn nostalgíu gagnvart þessu ákveðna tímabili í sögunni. Hann leit upp og til hliða og virtist eiga í einhverjum samskiptum við einhverja sem ég heyrði ekki í. “Já, var það þannig,” sagði hann, “já, einmitt.” Hann jánkaði. Eftir að hann virtist hafa viðað að sér svar við spurningu minni, sagði hann mér að ég hefði verið uppi á þessum tíma. Hann sagðist sjá mig í sjakket með pípuhatt. Ég bjó ekki á Íslandi, heldur á erlendri grundu. Hann segist sjá á öllum aðbúnaði að ég hafi verið heldri borgari. Skör ofar en almúginn. “Þú stendur við hliðina á sjálfrennireið,” sagði hann mér, “ekki margir á þessum tíma áttu þessa tegund af bíl; aðeins efnað fólk gat leyft sér þann munað.” Hann sagði mér að ég hefði verið ástfanginn af ungri konu. Eitthvað sem hann gat ekki útskýrt gerðist, varð þess valdandi að upp úr slitnaði. Þjakaður og kvalinn batt ég enda á líf mitt með að keyra bifreið minni inn í tré.

Þegar vinkona mín kom aftur úr transinum, sagði hún mér að hún hefði séð mig í mínu fyrra lífi, þar sem ég stóð hnarreistur íklæddur sjakket með pípuhatt í fjarlægu landi. Hún sagðist upplifa transinn sem áhorfandi, þar sem hún væri notuð sem samskiptatæki fyrir þennan gamla mann og félaga hans.

Ég sjálfur er fullur af efasemdum. Ég held þó að það sé meira í heimi hér en mætir augum okkar. Það eru einhver einkennileg óskilgreind lögmál, sem laga það af sem aflaga fer. Einhver töfrabrögð sem við getum ekki útskýrt.

Ég vil vita meira um þessi töfrabrögð. Ég ætla ekki að dala uppi, svínalinn sitjandi í sófa glápandi á ömurlegt raunveruleikasjónvarp.

16 thoughts on “nostalgía”

  1. Mér hefur alltaf þótt athyglisvert að fyrritilverustigamenn virðast nær eingöngu hafa verið höfðingjar og fyrirfólk, sem dundaði sér við eitthvað skemmtilegt – þegar það var ekki beinlínis að vinna einhver afreksverk.

    Er það smiðshöggið á misskiptingu gæðanna að þrælar(væntanlega fjölmennt mengi á veraldrsöguvísu)sem dóu úr vosbúð, virðast ekki hafa áunnið sér þessa framhaldspunkta?

  2. hver var hámarkshraði bíla á þessum árum?

    þú hefur náttúrulega alltaf verið frekar veikbyggður þannig að gamli fordinn hefur hugsanlega dugað sem sjálfsmorðstæki!

  3. Það kveiknaði í bílnum þegar hann rakst á tréð? 🙂

    Linda: Ég var hefðarmaður í fyrra lífi og þannig er það bara.

  4. Hafðu bestu þakkir fyrir fagurgalann. 🙂 En ömurlegt er lífið ekki. Kannski vita tilgangslaust og asnalegt, en alveg bráðfyndið.

  5. Kveinkaðirðu þér þegar kviknaði í bifreiðinni, innti kvikindið yndislega og yljaði honum undir uggum og iljum.
    Þannig er það og ekkert bara með það!!!

  6. Siggi þetta er satt hjá Pétri. Þú ert hefðarmaður í þessu lífi. Þú hefur allt sem þeir hafa og meira til. Ert dannaður, elegant, upplýstur og aðeins ofar en hinir. Þetta með áhuga þinn á tónlist þessa tíma… já, ég verð að segja að mér þótti skrítið að heyra þig syngja upphátt við lögin í bresku þáttunum sem flest voru frá þessum árum.

    Hvað spíritisma varðar þá finnst mér hann fyndinn. Ég hef nánast enga trú á þessu en væri samt heldur betur til í að fá að falla svona í trans og vera líkamningur annara. Eflaust mjög lærdómsríkt og skemmtilegt.

  7. Minntist þessi náungi á hver væri tilgangurinn með þessari endurvinnslu í eilífðinni? Eru þá ákveðinn fjöldi stöðugilda og engin nýliðun? Sömu gömlu,þreyttu sálirnar að væflast í kringum byrjunarreitinn?

    …og þú búinn að vita þetta í áravís og lúrðir bara á þessu sisona?

  8. Ef ég tæki inn lyf sem ég hef ekki gert í sjö ár, þá tæki ég þau ekki inn samkvæmt lyfseðli, svo mikið er víst.

    Linda: Nei, ég man ekki til að hann hafi útskýrt þetta fyrir mér, annars á þessi fundur að vera til á segulbandi í einhverjum kassa, hvar svo sem hann er nú niðurkominn. Gaman væri að grafa hann upp og pósta nokkrum klippum.

  9. Allt að fyllast af segulbandsspólum að handan.

    Ég hélt að það væru bara ekkjur og ástsjúkar eldri stúlkur sem ættu þetta í fórum sínum…

  10. Hey, ég var að taka eftir einu. Vissirðu að mínúturnar á færslunum þínum fylgja mánuðunum? Nú eru allar færslur kl x:11. Ertu svona nákvæmur, maður? Þá er ekki furða að þú sért endurunninn trekk í trekk. Ég gæti hins vegar klónað þig því ég er ofurnemi. Viltu það? Ég er að verða nokkuð flink í því.

  11. Þvílík athyglisgáfa. Ofurneminn er sannkallað réttnefni. Er ellefu mínútur yfir fimm á þriðjudaginn hentugur tími fyrir þig?

  12. …Asperger spasberger – Ofurneminn eins og í mennskur reykskynjari orðsins?

Comments are closed.