Nýju nágrannarnir mínir

Ófögnuður og hræðileg viðurstyggð af ófínustu sort. Ég er farinn að ganga um gólf tautandi fyrir munni mér: drepa, drepa, drepa. Þó hafa þau einungis búið hér á hæðinni fyrir ofan mig í tæpar tvær vikur.

Ég hef Gvuð og Jesúbarnið grunuð um að hafa sent þau hingað á Óðinsgötuna til að tortúra í mér viðkvæma sálina. Jesúbarn og Gvuð almáttugur í himinhæðum, hvað hef ég gert til að verðskulda þetta? Því sendið þið mér alltaf tóma unglinga, sem finna sér ekkert betra að gera en að stunda stórfelldar ríðingar, þegar undir áhrifum áfengis? Hvað hef ég gert? Ég sem er hjartahreinasti maðurinn í öllum Þingholtunum! Ég græt beiskum tárum. Ó, mig auman.

Til klukkan 5 í morgun bögglaðist nýi feiti nágranninn minn, við að sýna meðleigjanda sínum ástaratlot, með viðbjóðslegum ólátum sem minntu helst á dansiball svína. Hefði hann andskotast til að vera allsgáður, hefði þessi óþverri tekið af á örskömmum tíma, en eins og allir sem fengið hafa sér í aðra tánna vita, þá dregur úr virkni spritze líffæranna við neyslu áfengis. Þannig að andstyggðin stóð yfir í c.a 2 klukkustundir.

Framan af fór ég með þær helstu bænir sem ég kann, til að viðhalda kristilegu hugarfari mínu meðan á hryllingnum stóð. Næst reyndi ég að finna hinn svokallaða hamingjureit, þar sem ég var aftur orðinn barn og var að leika mér í móanum í Kópavogi. Svo greip ég bók og með herkjum las ég mig í gegnum nokkrar blaðsíður.

Yfirleitt er ég vel byrgur eyrnartöppum, ef ske kynni að nágrannar mínir lyfti sér á kreik, eða finni hjá sér löngun til að vinda ofan af sér í enda vinnuvikunnar, en vanþakklátasti köttur í öllum heiminum hún Þórkatla étur alltaf tappana, eins og hún fái ekki nóg að bíta og brenna.
Á endanum missti ég mig og fékk taugaáfall. Ég barði svefnherbergisveggina með höndunum. Endursentist síðan í réttlátu reiðikasti inn á klósett og skellti hurðinni af alefli aftur. Þegar ég kom aftur inn í svefnherbergi var allt dottið í dúnalogn.

Ég hálf skammaðist mín fyrir að missa stjórn á annars fallegu lundarfari mínu. Ég stundaði þó ekki umfangsmikla sjálfskoðun lengi, því ég sofnaði stuttu síðar.

9 thoughts on “Nýju nágrannarnir mínir”

  1. hvað segirðu um að stöðva þau á hlaðinu í miðri stressaðri vinnuviku (ekki verra að það séu mánaðarmót)og spyrja þau ofurblíðlega að því hvort þeim sé það nokkuð á móti skapi að taka þátt í samnorrænu mannfræðiverkefni. Það hafi viljað svo skemmtilega til að síðast þegar þau voru að … þá hafi verið staddur í heimsókn hjá þér mannfræðinemi sem hafi hrifist svo af mökunarhljóðunum sem berast frá þeim.

    Hann sé nýbúinn að fá styrk frá EU ásamt finnskum og gautlenskum félögum sínum til að gera athugun á kynlífsvenjum ómenntaðs alþýðufólks undir meðalgreind…

  2. Já, kæri vin, það hafa allir sinn djöful að draga. Ég bý við hliðina á svona innflytjendahverfi, hópur af hressum innflytjendadrengjum nota ganginn þar sem ég bý sem félagsmiðstöð þar sem þeir sitja, hafa hátt og reykja hass. Um daginn leiddist þeim svo að þeir eyðilögðu alla póstkassana, þar á meðal minn, bara svona til að gera eitthvað. Gaman að því, hressir strákar. Ég er að reyna að fremsta megni að detta ekki í einhvern rasistagír.

  3. er það ekki einmitt svona fólk sem aðhyllist að búa í þingholtunum með einhverjum undantekningum þó?

  4. geturðu ekki beðið um trekant og spæsað þetta með þeim

  5. Ég, sjálfur talsmaður ástarinnar 2008 að biðja um trekant? Nei, það er andstætt öllum mínum hjartahreinu rómantísku viðhorfum. Ég er nánast púrítanisti; kannski ekki vegna þess að ég óskaði mér það, heldur æxlaðist það einhvern meginn þannig. Oh, well.

  6. Nú er lag að impróvísera enn ógeðslegri kynlífsöskur með tilheyrandi gráti, stunum, korri, svipuhöggum, bænum um miskun, geðsýkislegum hlátri, hrópum eins og “pabbi, ekki hætta!” og svona… taka upp á geisladisk, setja í tækið,þrýsta á “repeat” hækka vel og yfirgefa svo húsið í svona þrjá tíma. Hehehehe…

Comments are closed.