Nytsamlegir ofurkraftar

Í dag þar sem ég sinnti mikilvægum störfum í þágu mannkyns kom í heimsókn til mín á kontórinn ungur drengur. Við höfðum ekki spjallað saman lengi þegar hann treysti mér fyrir því að hann gæti með hugarorkunni einni saman látið sérstaklega leiðinlegt fólk hverfa, og ekki bara fólkið sjálft heldur líka bílana þeirra.

Þetta fannst mér nytsamlegur hæfileiki og ekki er laust við að ég hafi orðið örlítið afbrýðisamur út í hann fyrir að búa yfir þessum ofurkröftum. Ég hef lengi sjálfur reynt að galdra fólk í burtu úr eigin lífi – með takmörkuðum árangri.

Eitthvað ræddum við svo um geimverur og fljúgandi diska, en óumflýjanlega barst talið að barsmíðum og ofbeldi, þar sem ég fann mig tilneyddan til að leggja honum lífsreglurnar. Maður á að vera góður við fólk, sagði ég öruggur með sjálfan mig. Að berja á öðrum er ekki töff, bætti ég við – viss um að orð mín yrðu þess valdandi að hann helgaði lífi sínu kærleik og góðum ásetningi.

Þar sem ég stend þarna, heillaður yfir hversu uppbyggileg áhrif ég hef á ungviðið, stekkur strákurinn í átt til mín og sparkar af alefli í punginn á mér. Ég verð alveg steinhissa, búinn að gleyma því að ég er með pung, hvað þá að ég muni til hverra hluta hann er gagnlegur. Þegar hér er komið við sögu þykir mér rétt að taka það fram að drengurinn er rauðhærður. Það rennir stoðum undir grunsemd mína: að ég eigi að forðast samskipti við rauðhært fólk. Enda þetta ekki í fyrsta skipti sem ég ligg í valnum skaðbrenndur á sálinni með auman pung eftir að hafa vingast við fólk af þessari tegund manna.

6 thoughts on “Nytsamlegir ofurkraftar”

  1. Hnuss – já nú hnussar í mér & ég hristi rauðhærðan kollinn yfir þessu öllu saman.

  2. Þér finnst þetta súrt Hjördís, en vittu til, meðan ég var að jafna mig í neðri byggðum, reyndi örvæntingafullur mexíkani að sannfæra mig um heilindi í einkalífi. Honum tókst ekki ætlunarverk sitt.

  3. Vantar eitthvað inn í atburðarásina?

    …eða eru þetta samtvinnuð áhrif af Þórbergi og Moggabloggurunum – vinum þínum?

  4. Því miður er þetta örugglega sönn saga. Það er enn mikið af ótömdu rauðhærðu fólki úti í þjóðfélaginu. Ég geng ekki svo langt að kalla þetta faraldur, en þetta er umhugsunarvert engu að síður.

    Að reyna að skemma æxlunarfæri þeirra sem ekki eru aruðhærðir er auðvitað liður í því að auka völd þeirra í heiminum, maður þarf nú ekki að vera paranoid til að sjá það.

  5. Ég er bæði hrifin og hrædd við rauðhært fólk. Þú veist hvað ég meina. Betra að forðast það.

Comments are closed.