Partí á öðru tilverustigi

Nokkrir menn, sem ég hef mætt á lífsleiðinni, hafa verið svo fullir af hlýhug í minn garð að þeir hafa eytt dýrmætum tíma sínum í að útskýra fyrir mér hinn gullna sannleik lífsins. Í sumum tilfellum hef ég ekki einu sinni þurft að biðja þá um að miðla mér af visku sinni, heldur hafa þeir bara ákveðið í guðlegri óeigingirni að ég þyrfti á henni að halda. Ég kann þeim engar þakkir fyrir. Aðra hef ég sótt heim, í þeirri von að þeir gætu sagt mér eitthvað sem mögulega tendraði ljós í myrkustu skúmaskotum sálu minnar. Eitthvað sem víkkaði skilning minn á tilverunni.

Einn af þessum kyndilberum sannleikans, sagði mér að ástæðan fyrir því að ég er viðþolslaus og frústreraður, er að ég er gömul og þreytt sál. Eftir að hafa verið hérna á jörðinni ótal sinnum, er ég lúinn og vil ekkert frekar en hvíld. Spræka og FM hressa liðið, eins og tildæmis Simmi og Jói/Jón og Gulli, sagði andlegi maðurinn – eru splunkunýjar sálir. Þeim þykir svo ægilega gaman að vera til, því fyrir þeim er allt svo nýtt, ferskt og hresst.

Við fæðumst aftur og aftur þar til við höfum öðlast æðri skilning. Þegar þeim skilningi er náð, fáum við að taka þátt í svakalegu partíi sem haldið er á öðru tilverustigi og tekur engan enda. Hann útskýrði ekki nákvæmlega hvaðan allar sálirnar kæmu, eða hvernig þær yrðu til, en það er auðvelt að geta í eyðurnar. Það má tildæmis gera ráð fyrir að upplag af sálum sé á bilinu 7 – 10 milljarðar. Látum þó liggja á milli hluta hvernig sálirnar voru framleiddar í byrjun. Það eiginlega segir sig sjálft.

Jarðarbúar eru núna í kringum 6.7 milljarðar. Einhver afföll verða á degi hverjum, og ný líf kvikna, sum með nýjum sprækum Simma og Jóa sálum, önnur með sálum sem hafa verið hér áður, en hafa ekki öðlast skilning samboðin partíhöldurum í partíinu endalausa. Sálunum er skipað niður á jörðina, eftir kerfi, æðra öllum öðrum kerfum. Mögulega fær sál sem hefur verið á jörðinni einu sinni, að taka þátt í partíinu þó hún hafi ekki náð fullum þroska, svo þegar kemur óhjákvæmilega að því að hún hellir niður, gubbar, eða móðgar einhverja sál henni æðri, er hún umsvifalaust send niður til jarðar þar til hún hefur vitkast.

Þegar hér er komið við sögu er ekkert sem lýsir hugarástandi mínu betur en þetta: $#&%!#$//&%#!#!#$$%&/!

Eru dýrin annars með sál? Eru moskítoflugur með sál? Er eftirlífið kannski fullt af moskítóflugum? Endurfæðumst við alltaf sem menn? Afhverju?

Andlegir menn, með skilning á heiminum, segja allir sömu söguna. Leit þeirra var píslarganga sem stóð yfir í mörg ár. Órakaðir, sveittir og vonlausir á síðustu metrum tilveru sinnar uppgötvuðu þeir allt í einu hinn eina sanna sannleik. Þannig verður þetta í mínu tilfelli líka. Ég á eftir að staulast yfir sjó og land í leit að svörum við spurningum mínum. Þegar ég svo öðlast æðri skilning, ætla ég að ganga götur borgarinnar, með þóttafullan, en mjög svo andlegan – svip. Það mun lýsa af mér, svo guðlega þenkjandi verð ég. Ég mun hugsa öllum þeim sem ekki hafa sama skilning og ég – þegjandi þörfina. Þá verður gaman.

9 thoughts on “Partí á öðru tilverustigi”

  1. Ég hef það fyrir satt að núna lifi fleiri menn á jörðinni en hafi nokkru sinni verið til. Það gerir að sjálfsögðu það að verkum að það er hlutfallslega minna af gömlum sálum í umferð á hverju tíma en nýjum.

  2. Þróun mannkyns eins og flestir kjósa að kalla þessa píslagöngu mannapans er samt þegar maður pælir í því í raun hnignun, fullkomnleikinn er galli & fegurðin afskræming.
    Þú ert aftur á móti prýðilegur miðað við allt og alla!

  3. Nú leggst ég í þunglyndi yfir að afkomendur mínir eigi eftir að verða fyrir óæskilegum áhrifum af misslitnum Simmum og Jóum.

    Ég vil miklu frekar bara verða áburður í kálgarði einhvers sem mér er hlýtt til.

  4. Getur þá verið að börn mans séu afar mans, og að maður sé giftur systir ömmu?

  5. Já, þá verður gaman. En nú og alveg þangað til verður leiðinlegt.

  6. Leiðinlegt leiðinlegt. Þetta er bara vinna og ef maður er að gera vinnuna sína leiðinlega nú þá er þetta ekkert gaman. Hitt er svo annað mál að ég er ábyggilega alveg hrútgömul sál sem er búinn að gera hverja vitleysuna á fætur annarri líf eftir líf. Vonandi að ég nái að rétta úr kútnum með 12spora prógramminu. Það er ágætt verkfæri sem ég hef til að færa mig yfir næsta tilverustig þegar ég drepst.

  7. Nú er það þannig Sigurður og þið öll að öll erum við eitt. Eintóm blekking og fjarstæða. Við höldum að gerla og bakteríu sambýlið sem hefur hópað sig saman í hrúgaldið líkama séum við. En svo er ekki. Það er líka blekking. Því efnið er ekki til. Það er nánast bara vídeó, víbrasjón sem við, í blekkingarmynd okkar, höldum að sé heimurinn. En það er ekkert til nema ég. Semsagt ég-Siggi, ég-Efraim, ég-frú_Sigríður og ég-Ágúst. Kannski samt ekki ég-Mjálmar ef það er huggun…

  8. Sætum við Pjétur G. vísvitandi mismunun?
    Þurfum við að leita réttar okkar?
    Eða er hann enginn í þessu limbó rokki sem við dönsuðum í réttunum sem lífið væri – ef það væri?
    Þó það nú væri!

Comments are closed.