Skapgerð

400ft174Glitfíflum skreytt skapgerð mín var fullmótuð þegar ég var rétt liðlega 10 ára gamall, og ekki hægt að segja að hún hafi tekið stórkostlegum breytingum síðan. Flestar þær hugsanir sem ég hugsaði þá, hugsa ég enn þann daginn í dag; þær eru aðeins ruglingslegri, háværari og mun ómarkvissari. Prúður og indæll drengur, úr fjölskyldu þar sem báðir foreldrar voru læsir, varð ég yfir mig ástfanginn af sætustu stelpunni í bekknum. Hún var með sítt ljóst englahár, föl á hörund, og nokkuð kurteis miðað við heimilishagi. Ég var þá, mun kjarkaðri en núna á fertugsaldri.

Ég gerði mér sérstaka ferð með strætó til Reykjavíkur til að ná í kvikmyndir sem ég hélt að hún hefði gaman af. Síðan bauð ég henni og vinkonu hennar heim í Löngubrekkuna til kvikmyndaveislu með titlum eins og Taxi Driver, Dracula: A Love Story, Big Bad Mama, Smokey And The Bandit.

elmo3Heilu bíómyndirnar voru á þessum árum styttar niður í 20 mín, til að þær pössuðu á stærstu spólunnar. Stundum var mynd á tveimur til þremur spólum. Ef að mynd kom frá Paramount, þá var hún oftast á þremur spólum, en ef hún var frá Universal þá var hún á einni eða tveimur spólum. Allt sem þótti alger óþarfi í myndinni var klippt út, stundum svo illa að það var engin leið að átta sig á um hvað myndin fjallaði. Svo kom fyrir að spólur týndust. Ég átti tildæmis aðeins seinni hlutann af Dracula: A Love Story, og þar sem ég hafði aldrei séð fyrri spóluna, þurfti ég að nota Dracula kunnáttu mína til að skálda forsöguna ofan í þá sem sátu kvikmyndasýningar hjá mér. Ekkert af þessu skipti þó höfuðmáli. Það var lúxus að geta horft á bíómyndir með hljóði heima hjá sér, þó hljóðið væri í mónó.

Ég var himinlifandi að fallegasta stúlkan í bekknum kæmi í heimsókn til mín nánast daglega. Enginn annar í bekknum átti Elmo St. 180 kvikmyndasýningavél með hljóði. 8mm sýningavélar voru tíðar á þessum tíma, en að í þeim heyrðist annað hljóð en trtrtrtrtrtrtrtrt var sjaldgæft.

Einu sinni, sem og oft áður, hringdi ég í hana. “Hæ hæ hæ”, sagði ég fullur af sjálfstrausti. “Ég er hér með ægilega spennandi kvikmyndir”, og taldi þær upp, “vilt þú og Fribba ekki kíkja til mín í kvikmyndasýningu á eftir?” Stutt þögn. Smá andvarp. “Nei, uhhhh,” sagði hún vandræðalega, “öhhhh, ehhhh, ég kemst ekki ég þarf að…..”

Hvers vegna hún komst ekki, eyddist, eða var aldrei skráð í minni mitt. Ég kvaddi og lagði símann á. Líf mitt var í molum. Hún hefði alveg eins getað stungið úr mér augun með gaffli, vafið filmunni utan um hálsinn á mér og kyrkt mig, ekkert hefði valdið mér meiri sársauka en þessi hryllilega höfnun. Hún, með ljósa hárið, svo falleg, alveg eins og engill, var inn við beinið andstyggileg og illkvittin norn. Ég hringdi aldrei aftur í hana. Þennan dag fór nafn hennar á svartan lista sem ég geymi í kolli mínum. Þeir sem fara á þann lista mega eiga von á að ég hlakki yfir minnstu hliðarsporum þeirra um ókomna tíð, og ef svo (ó)lukkulega vill til að ég lifi lengur en fólkið á listanum þá mæti ég með typpið mitt og spræni yfir þeirra hinsta hvílustað.

Þessi listi er enn í fullri notkun.

11 thoughts on “Skapgerð”

  1. Yndislegt að lesa þetta, Sigurður. Batnandi manni er bezt að lifa; ég hef fengið að ganga í gegnum það að fara á listann og af honum aftur og þykir vænt um upplifunina.

  2. Þú hefur aldrei komist á kúkafýlulistann minn Arnór. Ég kann meira að segja mjög vel við þig.

  3. Þvagdagur í dag?

    Vildi bara láta þig vita af útvarpsþætti á rás 1 á RÚV á skírdag hafi hann farið fram hjá þér:

    17.00 „Ég var að vona að ég fyndi þjóðbrautina aftur”

    Um bandaríska leikstjórann David Lynch og kvikmynd hans, Lost Highway.

    Í þættinum „Ég var að vona að ég fyndi þjóðbrautina aftur” er fjallað um bandaríska

    leikstjórann David Lynch og kvikmynd hans Lost Highway. Grafist er fyrir um tildrög hennar

    og m.a. leitast við að varpa ljósi á samstarf Lynch við rithöfundinn Barry Gifford. Stuðst er við

    viðtöl Chris Rodley við leikstjórann en þaðan liggja þræðir í heim tónlistar, myndlistar og

    vitanlega kvikmyndalistarinnar. Einnig er fjallað um óperu austuríska tónskáldsins Olgu

    Neuwirth sem byggir á kvikmyndinni en söngtexta hennar samdi nóbelsverðlaunahafin

    Elfriede Jelinek. Umsjónarmaður er Haukur Ingvarsson en lesarar í þættinum eru leikkonan

    Arndís Hrönn Egilsdóttir og Haraldur Jónsson myndlistarmaður sem ljær Lynch rödd sína.

    Umsjón: Haukur Ingvarsson.

    Ég hef enga hugmynd um gæði efnistakanna – en þú slekkur þá bara.

  4. Stærstu algengustu spólurnar rúmuðu hátt í 20 mínútur, ef drekkhlaðnar og vel spólaðar. Myndirnar voru þó ekki mikið meira en 13 – 16 mín, eins og má sjá á Dracula hulstrinu hér að ofan. Til voru líka 30 mín spólur í Hans Petersen, en þær voru bölvað gargan. Þær voru þröngar og það ískraði í þeim þegar filman straukst við plastið. Ég setti þó Jaws, sem var í tveimur hlutum upp á eina svona 30 mín spólu. Já, svona upp á sportið.

  5. Ég var nú á tímabili á einhverjum lista. Eru þeir s.s. tveir?

  6. Ég veit ekki hvað þú ert að tala um. Þú getur ekki lesið listann í hausnum á mér.

  7. Kannski var hún að fara eitthvað með mömmu sinni sem var ekki umsemjanlegt að skorast undan og hefur svo grátið inni í sér öll þessi ár yfir að hafa misst af sýningunni?

Comments are closed.