Stafræn samskipti í lyktarlausum heimi

Ég kom sjálfum mér reglulega á óvart í gærkveldi, þegar ég lét undan hvatvísi minni og skrifaði óhroða í athugasemdakerfi hjá manni sem ég þekki ekki neitt. Í óumflýjanlegri sjálfskoðun minni í dag, gat ég ekki með nokkru móti munað eftir að hafa gert annað eins. Það er mér því mikið áfall að verða þess áskynja, þegar svona illþyrmilega hriktir í stoðum minnar fallegu skapgerðar, sem er eins og allir eru meðvitaðir um: blómum skreytt.

Ég les urmul af veflókum á degi hverjum. Ég fylgist grannt með því sem er að gerast í blogheimum. Hvernig svo sem á því stendur, þá virðast – með tilkomu moggablogsins – blogheimar loga í illdeilum og persónulegu skítkasti, þar sem menn er nafngreindir og lagðir svívirðilega í einelti. Stundum er að verki hópur fólks sem telur það heilaga skyldu sína að gera einhverjum sem er ekki sama sinnis lífið leitt.

Sem er mjög fyndið í ljósi þess að ekki alls fyrir löngu var í gangi herferð gegn einelti unglinga á netinu. Hvað með fullorðið fólk? Er allt í lagi að það stundi einelti á netinu, eða kallast það kannski heilbrigt debat, þegar fullorðið fólk eys hlandi og skít yfir samtíðarmenn sína, í þeirri von að það líti aðeins betur út í samanburði.

Vegur minn er prýddur góðum ásetningi. Ég tók þá ákvörðun að kveða mér ekki til hljóðs í athugasemdakerfi fólks sem ég þekki ekki neitt og er ósammála. Ég sé mér persónulega engan hag í því að skeina fólki með dyggðugum skoðunum mínum, og skilja jafnvel eftir tengingu í mitt eigið vefsetur, svo gremjuboltarnir geti í réttlátri reiði sinni elt mig uppi og sagt mér hvað þeim finnst ég ömurlegur.

En rétt eins og ég væri andsetinn skrifaði ég eftirfarandi skeyti:

Ummæli þín um Stefán Friðrik, mann sem þú greinilega álítur ekki jafningja þinn, eru til vitnis um hvaða manngerð þú hefur að geyma.
Þannig að þegar öllu er á botninn hvolft, ert þú í raun og veru Bolur Bolsson: fordómafullur, óumburðarlyndur, athyglissjúkur, andstyggilegur og alveg yfirnáttúrulega leiðinlegur. Moggabloggið er ekki bara á moggablogginu, svo mikið er víst.

Ég hefði rétt eins getað bankað upp á hjá viðkomandi, girt niður um mig og skitið á gólfið.

Ég sé að póstmaðurinn vinalegi er að koma með spánýja bók af amazon.co.uk, er þetta kannski metsölubókin: “How to be splendid, in an imperfect world.”

4 thoughts on “Stafræn samskipti í lyktarlausum heimi”

  1. Segurður, venur minn.
    Að elta ólar við menn sem kjósa að kalla sig Bolur Bolsson?? Hvað er það?

    Ekki eyða fagurri sköpunarorku þinni í rotþró Bols, haltu frekar áfram að tjá þig í sögu Dr. Jacoby 🙂

    Að skrifa skáldsögu, það er jú gaman !!

  2. Hahahahaha fyndið Sigurður!
    Ég las þetta komment inni hjá Henrý Birgi og hjarta mitt tók aukaslag af feginleik að til væri fólk eins og ég.

Comments are closed.