umo

Einkamálaauglýsingar eru með því grátlegasta sem ég les. Hvað á auglýsandi við þegar hann segist vera með allt sitt á tæru? Hver í andskotanum er með allt sitt á tæru? Jú, ég hef setið með og verið í návígi við fólk sem eyðir öllum sínum kröftum í að fullvissa nærstadda að þeir séu með allt sitt á tæru og er það undantekningalaust laskaðasta fólkið. Þegar betur er að gáð, kraumar undir niðri heilt haf af kúk og pissi.

Ég þarf ekki á einkamálaauglýsingum að halda. Ég er orðinn ástfanginn af einum af þeim persónum sem hausinn á mér hefur búið til. Ég hitti þessa persónu fyrst í Detroit í draumi. Hún umfaðmaði mig og fullvissaði mig um að allt yrði í fínasta lagi. Ég hefi ekki fundið fyrir öðrum eins frið.

Alveg þangað til um daginn hefur þessi kona einungis verið til í hausnum á mér. Ég var þá staddur í höfuðborginni þegar ég var presenteraður fyrir tignarlegri og jafnfram undurfagurri konu sem mér fannst svipa mjög til konunnar sem ég hitti í Detroit. Ég nánast lamaðist þegar ég áttaði mig á þessu. Ég vissi ekki hvað ég átti að gera. Taugaveiklunin sem ég þjáist af frá degi til dags var að bera mig ofurliði.

Það var engum blöðum um það að fletta þetta var ein og sama manneskjan. Það hefði ekki þótt við hæfi þar sem ég var staddur, en ég vildi að þessi kona kæmi tafarlaust til mín og faðmaði mig. Mér fannst ég eiga innistæðu fyrir þessu faðmlagi; mér fannst ég reyndar eiga tilkall til þess og það ekki seinna en strax.

Hún brosti svo fallega til mín. Ekkert í nærliggjandi umhverfi fangaði athygli mína, nema hún. Ég heyrði í fjarska að einhver var að reyna að ná tali af mér, en ég sinnti því ekki. Eina fólkið sem var statt þarna var ég og hún. Allt annað var í svart hvítu.

Við horfðumst í augu. “Hvernig hefurðu haft það,” spurði hún mig með silkimjúkri röddu. Ég vissi ekki hvað ég átti að segja. Ég vildi ómögulega fæla hana í burtu frá mér, með að segja einhverja helvítis vitleysu. “Hittumst við ekki um daginn,” spurði ég þess fullviss að hún afskrifaði mig sem mann með ekki allt sitt á tæru. Hún má ekki halda að ég sé ekki með allt mitt á tæru, hugsaði ég með sjálfum mér og ég fann fyrir óttanum yfirtaka taugakerfið. Hún brosti án afláts. Það var nóg til að róa mig niður. Ég þurfti ekkert að faðma hana. Ég gat bara staðið þarna andspænis henni og horft á hana brosa. Svo guðdómlega falleg.

“Jú, ég vitjaði þín í draumi. Ég bara mátti til. Ég gat ekki haldið aftur af mér. Ég varð að hitta þig. Ég kunni enga aðra leið, svo ég smyglaði mér inn í drauminn. Það varð allt brjálað, þegar þeir komust að þessu.”
Mér varð stórum létt, ég var þá ekki alveg jafn klikkaður og ég hélt mig vera. “Hverjir urðu brjálaðir,” spurði ég alveg gáttaður. “Ekki fást um það.” Hún rétti út höndina og leiddi mig út í bát sem lá bundinn við bryggju. Við sigldum út fyrir Gróttu, þar stoppaði hún bátinn. Áður en ég vissi af vorum við komin í hörkusleik. Eitt leiddi af öðru og áður en að ég gæti fengið rönd við reist vorum við búin að subba allan bátinn út.

Að skrönglinu loknu lá konan sem ég elska nakin í fanginu á mér. Ég strauk henni léttilega yfir hárið. “Ég elska þig,” sagði ég með gleðitár í augunum. Hún sneri sér við. “Ég elska þig líka. Siglum til Nýfundna-Lands og kaupum okkur litla útgerð.” Ég er svo hamingjusamur. Mig hefur alltaf langað til að fara til Nýfundna-Lands. Ég ræsti bátsvélina og kveikti á útvarpinu.

Í útvarpinu hljómaði þetta lag:
[MEDIA=12]

5 thoughts on “umo”

  1. ertu karlkyns útgáfan ef þessari ellý sóðabrók,, skröngl í árabát það er sennilega frekar erfitt

  2. Hver er þessi Ellý sóðabrók, er það einhver sem þér finnst að ég ætti að þekkja?

  3. Ahhaahaahaaa, Jesús minn Sigurður..
    Ég þekki engan sem er með jafn flókið tilfinningalíf og þú:)
    Þú ert ótrúlegur..Bara þér hefði dottið í hug að setja þetta snilldarlag á eftir tjáningu þinni…Sem hitti alveg í mark by the way..Haahaaaha..

    Þú ert snillingur Siggi minn.

  4. Æji takk elsku Siggi minn, ég fæ bara hlýtt í hjartað mitt…Og þú ert uppáhalds Sigurðurinn minn..

Comments are closed.