Úr andans heimi

Fyrir um ári síðan fékk ég mann, með reynslu af hugleiðslu og andlegum fræðum, til að kenna mér kúnstina að hugleiða. Hann hafði dvalið í eitt ár á hugleiðslubúgarði í Nýju Jórvík og lært að hugleiða og lifa í samfélagi við fólk með áhuga á andlegu lífi. Ég hafði þá lengi langað til að prufa, en aldrei verið jafn opinn fyrir því og þá.

Í fyrstu skiptin vorum við bara tveir. Hann uppfræddi mig um þessa tegund hugleiðslu og hvernig hún var framkvæmd. Hann hafði meðferðis disk, með konu sem talaði okkur seiðandi röddu inn í hugleiðsluna. Í allavega tvígang komst ég í afskaplega þægilegt ölvunarástand, sem var kærkomið frelsi frá róti hugans. Eftir að hafa hist í 3-4 skipti, og hugleitt bara tveir, bættist í hópinn ósköp indæl stúlka frá Þýskalandi. Hún var að ganga í gegnum erfiðleika í lífinu, þannig að við buðum henni að vera með, í von um að það gerði eitthvað fyrir hana. Það gekk fínt, þó svo að ég efist um að líf hennar hafi orðið léttara við hugleiðsluna.

Vinkona mín vissi að við værum þrjú að hugleiða heima og vildi ólm vera með. Hún var örlítið frábrugðin stúlkunni frá Þýskalandi, að því leitinu til, að hún hefur kynþokka. Eftir að við vorum orðin fjögur, breyttist stemningin í hópnum. Maðurinn sem fram að þessu hafði haft það eitt að markmiði að hjálpa okkur út úr myrkrinu inn í ljósið, varð allur annar í hátt. Hann hóf að mæta í sinni bestu skyrtu angandi af fínum rakspíra. Rödd hans varð hrjúfari og viðmótið smeðjulegra, en það hafði verið þegar við vorum aðeins þrjú.

Í síðasta skiptið sem við hugleiddum komum við okkur fyrir á gólfinu, eins og áður, með púðum og teppum, til að sem best færi um okkur. Hugleiðslan hófst og ég lokaði augunum og reyndi hvað ég gat að hverfa úr þessum heimi inn í draumaveröld hugleiðslunnar. Alveg óumbeðið læddist sama hugsun að mér aftur og aftur. Sú hugsun, að meðan við hin vorum með lokuð augun að froðufella í andans heimi, var lærimeistari okkar með augun opin starandi á vinkonu mína, hugsandi tantrafistinghugsanir.

Ég vil þó taka fram að ég hafði þar engra hagsmuna að gæta. Mér var nokkuð sama þó þessi maður hefði kynferðislegan áhuga á vinkonu minni. En testosterónmagnið sem hann dældi inn í hugleiðsluna fór fyrir brjóstið á mér og eyðilagði fyrir mér ánægjuna að hugleiða í hóp. Allavega þessum hóp.

Í klukkutíma, beið ég í óþægilegum jógastellingum eftir að hugleiðslunni lyki. Þegar henni svo lauk, fórum við að spjalla saman, en ekki um andans málefni, heldur um ástina og erfiðleika henni tengdir.
Hans helsta umkvörtunarefni, voru íslenskar konur. Jú, hér var hann staddur á Íslandinu góða, rómantískur, með svo mikla ást að gefa, en einu konurnar sem hann tengdist voru þær sem hann endaði með upp í rúmi blindfullur eftir djamm í Reykjavíkurborg. Þær vildu einungis hólkast á honum eins og á tilfinningalausum hamborgarhrygg, en gáfu honum að því loknu ekki svo mikið sem símanúmer sem hann gæti hringt í.

Frá og með þessu kvöldi fjaraði vinskapur okkar út. Ég er honum þó þakklátur fyrir það sem hann kenndi mér, en ég hef aldrei átt lengi vingott við menn sem eyða öllum sínum tíma í neðri byggðum.

Ég hélt í áhuga minn á hugleiðslu, þó svo að ég hafi ekki stundað hana af neinu ráði síðan. Ég hef þó skoðað nokkur jógaafbrigði og prufað eitt og annað. Þessa daganna er ég að lesa bók, sem telst án efa til kvennabókmennta, en hún heitir Eat, Pray, Love – og er ákaflega innspírandi. Hana skrifar Elizabeth Gilbert, en heimur hennar hrundi eitt kvöld inn á baðherbergi í glæsilegri íbúð hennar á Manhattan. Í kjölfar hrunsins ákveður hún að skilja við manninn sinn og fyrra líferni. Hún heldur út í heim í leit að lífsgleði. Hún fer meðal annars til Indlands þar sem hún dvelur á svokölluðu Ashram, en það er einskonar hugleiðslumiðstöð. Þar heyjir hún hatramma orustu við sjálfa sig, sem hún lýsir af frískandi heiðarleika í bókinni.

Ég byrjaði í gær að hugleiða aftur. En í þetta skiptið einn.

8 thoughts on “Úr andans heimi”

 1. ég var einu sinni í svona andlegum hóp sem hugleiddi. Konurnar þar sögðu að ég væri norn svo ég hætti.

 2. Siggi minn þú þarft ekkert að vera að vesenast þetta í að hugleiða, Krísuvíkurleiðin er að finna ótta hugans og málið er dautt. Annars hvað verður áramótaáheitið í ár!

 3. Nornir eru töff!

  Áramótaheitið verður það sama og um hver áramót, að minnka umfang mitt hér á þessari jörð.

  Þetta verður annars meira árið.

 4. ertu með þessu að segja að ljósbrúnn kúkur sé lyktarlaus og fallegur, öfugt við þannn dökkbrúna sem er ógeðslegur?

 5. Alveg er ég viss um að það sé mikið riðið í andans heimi.

  Ég hef það fyrir satt að þar sé allt fullt af rólum…

Comments are closed.