Þingholtin

Þingholtin eru yndisleg. Ein ferð út í kjörbúð verður auðveldlega að mikilli ævintýraferð. Til að ég geti kallað labbitúr um Þingholtin ævintýri, þarf ekki neina sérstaka viðurhöfn. Það þarf ekki að kalla út neinn mannskap sem sérhæfir sig í ævintýrum til að ég geti orðið fyrir andans upplyftingu.

Í kjörbúðinni Þingholt, er gullfalleg eldri kona sem mig langar undantekningalaust að fleygja mér í fangið á í hvert skipti sem ég sé hana. Hún er góðleg og ber þess merki að búa yfir mikilli lífsvisku; ég tel fullvíst að hún sé stórgáfuð. Afhverju dreg ég þessa ályktun? Jú, þegar ég fann ekki AB mjólkina, spurði ég hana sísona: Eigið þér ekki AB mjólk? Á hana kom mikill undrunarsvipur, og ég sá að hún íhugaði það um stund hvort sá er sér um pantanir á AB mjólk, hafi misreiknað sig fyrir helgina og pantað hana í skornum skammti. En þannig var því ekki farið. Ég kjánaprikið, hafði einfaldlega ekki komið auga á hana, þar sem hún er geymd í þartilgerðum prýðiskæli við hliðina á hinum almenna mjólkurkæli, sem kælt hefur mjólk möglunarlaust alveg frá þeim tíma þegar aðeins var á boðstólnum, mjólk, undanrenna og skyr. Í seinni tíð hefur úrval mjólkurvara aukist, og allskonar ávaxtajógúrt og sékurskyr hafa orðið vinsæl á þessum farsæla markaði. Þess vegna, hefur þessi undursamlega kona, sem ég þekki ekki nafnið á, bætt við svokölluðum prýðiskæli, og þar var AB mjólkin mín, sem er eins og allir vita ómissandi í transcontinental speltbrauðið sem mér hefur verið þakkað svo mikið fyrir með nýtísku sendibréfum.

En ég var ekki eini kúnninn í versluninni, því þar var líka eitt stykki af fallegri rauðhærðri stúlku. Ég sá ekki hvað hún var að kaupa, en ég efa ekki að það hafi verið eitthvað hollt og gott. Hún var á undan mér þegar að afgreiðsluborðinu var komið, hún leit í átt til mín og brosti svo himneskt. Ég sem var léttur í lundu, brosti með fallegasta brosinu mínu tilbaka. Hún raðaði hollustunni í pokann sinn og þegar hún gerði sig líklega til að fara leit hún aftur á mig ennþá skælbrosandi. Um mig fór hamingustraumur. Ég elska Þingholtin, hugsaði ég með sjálfum mér, og ég elska þig. En veistu hvað? Ég sá þig í gær. Þú snerir baki í mig. Ég hélt ég fengi taugaáfall. Ég hef svo oft talið mig sjá þig, en þarna varstu íklædd úlpunni þinni prýðilegu. Þú varst með henni, æ, hvað heitir hún? Þessi sem á kærasta sem er hálfgerður spjátrungur. Jú einmitt, sá sem álítur sig sérstaka gjöf guðs til mannkyns. Hvað um það. Þarna varstu og ég alveg skelfingu lostinn, aðeins í nokkra metra fjarlægð frá þér. Ég sagði eitthvað. Ekki þó við þig, heldur við tvær konur sem ég var að spjalla við. Ætli þú hafir heyrt í mér? Vissir þú að ég var eigandi raddarinnar? Nei, kannski ekki. Næst þegar ég leit í áttina þar sem þú stóðst, varstu farin. Kannski að reykja? Reykirðu?

6 thoughts on “Þingholtin”

 1. spjátrungar..? eru þeir enn til?
  ég hélt þeir hefðu dáið út með þórbergi

  ég er að læra að meta þingholtin.. ég versla reyndar í krambúðinni og drekanum..

  þingholtin eru ævintýraleg í snjókomunni.. og bjarnarstígurinn sem ég glápi á hérna útum gluggann hjá mér er uppáhalds gatan mín

 2. Jú, isss, spjátrungar út um allar trissur. Ég þarf ekki annað en að sjá mynd af viðkomandi, þá veit ég hvort þar fari spjátrungur eður ei. Sumir kalla þetta fordóma, en ég hræki bara framan í þá, enda er þetta innsæi mitt náðargáfa af flottustu sort.

 3. Þú hefur nú aldrei verið Spjátrungur Séra Sigurður en það gerir þig ekkert verri fyrir vikið.
  Til hamingju með að hafa fundið Hana, nú er bara að ganga skrefinu lengra og bjóða henni heim í Eðalkaffi og Speltbrauð, það getur enginn staðist þá freistingu. En láttu rækjusalatið í friði.

 4. Hver er orðabókaskýringin á orðinu “Spjátrungur”?, það þýðir ekkert að slá um sig með einhverjum svona voðalega fínum orðum sem enginn núlifandi maður veit hvað þýðir …

 5. Spjátrungur er einhver sem telur sig ofar öðrum , montinn, monthani, grobbari. Að vera spjátrungslegur er að vera skrautlegur í klæðaburði. Ég held að enska orðið yfir spjátrung, sé peacock, sem er einmitt montinn skrautfugl. Þetta er þó ekki orðabókarskýring, heldur upp úr mér. Ef einhver á góða orðabók, þá væri gaman að fá staðfestingu á þessu. Mín orðabók, þó hún vegi u.þ.b 10 kíló, tekur ekki fyrir svona fín orð.

 6. Og án þess að ég vissi, þá er ég með aðgang að flottustu og fínustu veforðabók landsins.

  spjátrungur -s, -ar KK

  yfirlætisfullur maður, monthani, sundurgerðarmaður í klæðaburði, oflátungur, snipparamenni, buxnaskjóni, spóki

Comments are closed.