Hvort skorar meira í himinhæðum: Að vera auðmaður sem gefur yfirnáttúrulegar fjárhæðir til góðgerðamála og þegir yfir því, vitandi að hann uppsker ekki aðdáun pöpulsins og deyr jafnvel í minningunni sem sjálfshyggjurunksvín, eða þá að vera auðmaður sem gefur stórar fjárhæðir til góðgerðamála, mætir í fjölmiðla og röflar um hugsjónir sínar, sér og þeirri maskínu sem aflar honum peninga til upphefðar?
Einhvern tímann las í litla sæta dæmisögu í Kabbalah-poppfræðum um durt sem bjó í litlu þorpi einhversstaðar í miðjunni á andskotans engu. Hann var óvinsamlegur einfari, sem engum þótti vænt um. Í hvert sinn sem einhver af þorpsbúum óskaði eftir að hann legði sitt af mörkum til samfélagsins, hreytti hann í viðkomandi ónótum og skít. Kom svo að því að karluglan datt dauð niður og allir urðu guðs lifandi fegnir. Enginn af þorpsbúum mætti þegar honum var holað niður nema velviljaður Rabbíni, en meira að segja hann var einungis þarna staddur skyldu sinnar vegna. Við skulum kalla rabbínann Shalom og gefa honum eftirnafnið Achshav.
Rétt rúmum hálfum mánuði eftir gróðursetningu þessa ódæla manns, stóð Shalom Achshav hnarreistur í kokkhúsinu heima hjá sér og vaskaði upp eftir sérstaklega góða máltíð, sem konan hans Haviva Achshav eldaði með ást í hjarta sínu. Shalom var svo langt yfir allar spurningar um kynjahlutverk hafinn. Hann hafði þá einföldu reglu að leiðarljósi, að allir á heimilinu tæku þátt í heimilishaldinu. Honum fannst það sér síður en svo til minnkunar að taka að sér uppvask, meðan konan eldaði.
Skyndilega er drepið á dyr á kærleiksríku heimili hans. Fyrir utan er aumingi einn, sem ber sig illa. Shalom spyr hann hvað í ósköpunum ami að honum. “Jú, þannig er nú mál með vexti að síðustu ár hef ég átt ákaflega erfitt og ég hef af þessum sökum ekki getað aflað mér og fjölskyldu minni vegna erfiðleika minna,” segir auminginn og ber sig aumingjalega. “Fyrir langa löngu, ég man ekki einu sinni nákvæmlega hvenær, fóru mér að berast pakkar vikulega með peningum sem gerðu mér og mínum kleift að lifa af vikuna,” auminginn ber þess enn betur merki að hann er aumingi. “Nú, hver var svona hoffmannlegur við þig?” spyr Shalom Acshav og tjaldar þartilgerðum undrunarsvip. “Það er nú það sem ég ekki veit. En hvernig sem á því stendur, þá eru mér hættar að berast þessir pakkar og nú erum ég og fjölskylda mín að deyja úr hungri!” Auminginn þarf ekki að segja meira, því Shalom Acshav seilist í pyngju sína og gefur aumingjanum silfurpening. Auminginn verður ægilega glaður og hefur sig á brott.
Shalom heldur áfram að sinna heimilinu. Ekki líður á löngu þangað til aftur er bankað upp á hjá honum. Fyrir utan stendur annar aumingi, eins og það sé ekkert lát af aumingjum í þorpinu hans litla og sæta. Auminginn, rekur raunir sínar og segir Shalom Achshav að honum hafi einnig borist vikulegar pakkasendingar. Shalom Achshav, sem veður í peningum, gefur aumingjanum nóg til að hafa í sig og á, allavega út vikuna, ef ekki mánuðinn. Rétt í þann mund sem Shalom er að sjæna eldhúsborðið með grænsápu, er aftur bankað á dyrnar hjá honum. Enn einn auminginn stendur fyrir utan, illa á sig kominn af hor og vosbúð. Hann hefur sömu sögu að segja. Fyrir hálfum mánuði síðan hætti honum að berast pakkasendingar, með gúmmilaði og gersemum. Shalom reiðir fram pening og auminginn hverfur á braut. Næst þegar bankað er hjá Shalom, stendur fyrir utan röð af aumingjum. Allt í einu áttar Shalom sig á hvernig í pottinn er búið. Karlkvikindið sem allir lögðu sig fram um að fyrirlíta og hata, stóð ábyrgur fyrir þessum pakkaútdeilingum og á meðan allir sem fordæmdu hann fara til andskotans, drekkur þessi andlegasti maður þorpsins fínasta koníak úr kaleik með Jesú, Ghandi og Villa Vill.