Draumablogg

Í fallega innréttuðu sálarlífi mínu dreymdi mig eftirfarandi draum, nóttina sem leið:

Ég er á leiðinni í svokallað bekkjarríjúníon. Ég finn kyrfilega fyrir því að mig langar ekki vitund til að mæta. Ríjúníonið er haldið í fallegum veislugarði með sundlaug. Þegar þangað er komið kasta ég kveðju á nokkra bekkjarfélaga og hlakka yfir því í huganum hvað þeir eru orðnir gamlir og feitir, sem er eitthvað annað en ég sem er slim og slank. Ég er ekki búinn að vera lengi í gylleríinu, þegar allir karlgestirnir setja á höfuð sér kippot(gyðingahúfur) og fara að syngja gyðingasöng, nánar tiltekið Ma’Nishtana, sem er bæn sungin í kringum páska, eða Pesach. Ég færist allur í aukanna, en átta mig á að ég þekki í raun og veru engan þarna lengur, sem er fínt því allt er betra en að eyða tíma með þeim skoffínum sem voru með mér í skóla. Ég tek undir með söngnum, en það næsta sem ég veit, þá er ég á botni sundlaugarinnar, sem er galtóm. Ég er ekki einn, því með mér eru Marx bræður að berja á ásláttarhljóðfæri sem ég kann ekki deili á. Groucho er með vindil í kjaftinum og veifar til mín kumpánlega. Ég finn að eitthvað vott snertir andlit mitt, lít upp og sé að það ganga yfir okkur blóðgusur í takt við ásláttinn. Okkur þykir það ekki neitt óhugnanlegt, heldur lítum við á gusurnar sem ómissandi þátt í alveg prýðilegri skemmtan. Við dönsum, hamingjusamir, glaðir og frjálsir.

Um þetta leyti, vakna ég til þessa heims.

Vopnabúr

Ég vaknaði til meðvitundar sönglandi og trallandi, sjálfum mér og kettinum sem sefur mér til fóta til sérstakrar ánægju. Meðan ég saup á mjólkurkaffinu mínu, las ég nokkur moggablogg, fáeina þræði á barnalandi og horfði á eitt til tvö myndbönd með Erpi á jútjúb. Hægt og bítandi, án þess að ég fengi við það ráðið, þyrmir yfir mig. Ástin sem ég hafði á heiminum, þegar ég vaknaði, fjarar út fyrirvaralaust. Það næsta sem ég veit er ég staddur á vefsíðu vopnasala, þess viss að ekkert annað sé í stöðunni en að koma sér upp vopnabúri og setjast að í óbyggðum, þar sem ég get varist Erp, Geir Ólafs, barnlendingum og moggabloggurum.

Ég hef náð þeim merka áfanga að fatta Gísla á Uppsölum.

Stigatafla himinhæða

ny-kabbalah-center-leader-2-post_1.jpg

Hvort skorar meira í himinhæðum: Að vera auðmaður sem gefur yfirnáttúrulegar fjárhæðir til góðgerðamála og þegir yfir því, vitandi að hann uppsker ekki aðdáun pöpulsins og deyr jafnvel í minningunni sem sjálfshyggjurunksvín, eða þá að vera auðmaður sem gefur stórar fjárhæðir til góðgerðamála, mætir í fjölmiðla og röflar um hugsjónir sínar, sér og þeirri maskínu sem aflar honum peninga til upphefðar?

Einhvern tímann las í litla sæta dæmisögu í Kabbalah-poppfræðum um durt sem bjó í litlu þorpi einhversstaðar í miðjunni á andskotans engu. Hann var óvinsamlegur einfari, sem engum þótti vænt um. Í hvert sinn sem einhver af þorpsbúum óskaði eftir að hann legði sitt af mörkum til samfélagsins, hreytti hann í viðkomandi ónótum og skít. Kom svo að því að karluglan datt dauð niður og allir urðu guðs lifandi fegnir. Enginn af þorpsbúum mætti þegar honum var holað niður nema velviljaður Rabbíni, en meira að segja hann var einungis þarna staddur skyldu sinnar vegna. Við skulum kalla rabbínann Shalom og gefa honum eftirnafnið Achshav.

Rétt rúmum hálfum mánuði eftir gróðursetningu þessa ódæla manns, stóð Shalom Achshav hnarreistur í kokkhúsinu heima hjá sér og vaskaði upp eftir sérstaklega góða máltíð, sem konan hans Haviva Achshav eldaði með ást í hjarta sínu. Shalom var svo langt yfir allar spurningar um kynjahlutverk hafinn. Hann hafði þá einföldu reglu að leiðarljósi, að allir á heimilinu tæku þátt í heimilishaldinu. Honum fannst það sér síður en svo til minnkunar að taka að sér uppvask, meðan konan eldaði.

Skyndilega er drepið á dyr á kærleiksríku heimili hans. Fyrir utan er aumingi einn, sem ber sig illa. Shalom spyr hann hvað í ósköpunum ami að honum. “Jú, þannig er nú mál með vexti að síðustu ár hef ég átt ákaflega erfitt og ég hef af þessum sökum ekki getað aflað mér og fjölskyldu minni vegna erfiðleika minna,” segir auminginn og ber sig aumingjalega. “Fyrir langa löngu, ég man ekki einu sinni nákvæmlega hvenær, fóru mér að berast pakkar vikulega með peningum sem gerðu mér og mínum kleift að lifa af vikuna,” auminginn ber þess enn betur merki að hann er aumingi. “Nú, hver var svona hoffmannlegur við þig?” spyr Shalom Acshav og tjaldar þartilgerðum undrunarsvip. “Það er nú það sem ég ekki veit. En hvernig sem á því stendur, þá eru mér hættar að berast þessir pakkar og nú erum ég og fjölskylda mín að deyja úr hungri!” Auminginn þarf ekki að segja meira, því Shalom Acshav seilist í pyngju sína og gefur aumingjanum silfurpening. Auminginn verður ægilega glaður og hefur sig á brott.

Shalom heldur áfram að sinna heimilinu. Ekki líður á löngu þangað til aftur er bankað upp á hjá honum. Fyrir utan stendur annar aumingi, eins og það sé ekkert lát af aumingjum í þorpinu hans litla og sæta. Auminginn, rekur raunir sínar og segir Shalom Achshav að honum hafi einnig borist vikulegar pakkasendingar. Shalom Achshav, sem veður í peningum, gefur aumingjanum nóg til að hafa í sig og á, allavega út vikuna, ef ekki mánuðinn. Rétt í þann mund sem Shalom er að sjæna eldhúsborðið með grænsápu, er aftur bankað á dyrnar hjá honum. Enn einn auminginn stendur fyrir utan, illa á sig kominn af hor og vosbúð. Hann hefur sömu sögu að segja. Fyrir hálfum mánuði síðan hætti honum að berast pakkasendingar, með gúmmilaði og gersemum. Shalom reiðir fram pening og auminginn hverfur á braut. Næst þegar bankað er hjá Shalom, stendur fyrir utan röð af aumingjum. Allt í einu áttar Shalom sig á hvernig í pottinn er búið. Karlkvikindið sem allir lögðu sig fram um að fyrirlíta og hata, stóð ábyrgur fyrir þessum pakkaútdeilingum og á meðan allir sem fordæmdu hann fara til andskotans, drekkur þessi andlegasti maður þorpsins fínasta koníak úr kaleik með Jesú, Ghandi og Villa Vill.

Að haga sér eins og maður

Reyndu að haga þér eins og maður, var sagt við mig í gær, er ég brá á leik. Ég lét mér fátt um finnast, sem er frávik frá reglunni, því samkvæmt öllum kúnstarinnar reglum, hefði ég átt að verða miður mín. Hvað þýðir það nákvæmlega? Það að haga sér eins og maður? Ég var kominn spölkorn frá manninum sem lét tilmælin falla, er ég sneri mér við og kallaði til hans: Hvað í andskotanum þýðir það, að haga sér eins og maður? Hann heyrði ekki í mér, svo ég gargaði nokkur vel samansett fúkyrði sem ég ætla ekki að hafa eftir hér á siðprúðu vefsetri mínu.
Ég hélt mína leið.

Síðar sama dag, sat ég í leðursófa hjá Obi Wan Kenobi. Eftir að hafa tíundað lífssýn mína, var Obi sjálfur kominn á þá skoðun að öll værum við uppfull af bulli, í óendanlegri leit af viðurkenningu hjá fólki sem er líka uppfullt af bulli. Ég kvaddi hann með heillaráðum sem ég lærði þegar ég sat fundi hjá Samtökum Iðnaðarins. Heillaráð eins og “Treystu guði” eða “Það virkar ef þú verkar það”, ráð sem bjargað hafa mörgum góðum drengnum frá barmi andlegs gjaldþrots, Obi var þar enginn undantekning.

Svo var það maðurinn sem ég heyrði garga á afkvæmið sitt: Ekki haga þér eins og barn!

Hefði þá barnið kannski átt að haga sér eins og maður?

Skrítin er hún tilvera.

Marmarakúlur

Ég á von á því þegar ég hef leyst lífsins gátu að ég heyri ég svona smell í hausnum á mér, rétt eins og síðasta pússlið í pússluspilinu sé komið á sinn stað.

Þetta gerðist hjá Eckhart nokkrum Tolle. Hann sér til mikillar armæðu vaknaði upp einn morguninn, hafði sig til, setti á sig vellyktandi og rétt á meðan hann burstaði í sér tennurnar gerði hann sér grein fyrir, að líf hans var með öllu tilgangslaust. Hann skyrpti út úr sér tannkreminu, missti úr greipum sér tannburstann og lippaðist niður í gólfið náfölur af lífsins harmi. Þegar hann var búinn að liggja þar eins og hvert annað hrúgald í dágóða stund, heyrðist fyrrnefndur smellur í hausnum á honum. Hann spratt á fætur eldhress og skælbrosandi, klæddi sig í skrautlega hawaii skyrtu og valhoppaði kampakátur út úr húsinu. Er hann sprangaði í gegnum almenningsgarð borgarinnar, kom hann auga á bekk sem honum fannst einkar fallegur, hann fékk sér sæti og dáðist að fegurð heimsins. Þrjú ár liðu og ennþá sat Eckhart á bekknum. Hann vissi ekki hvað tímanum leið, enda tíminn bara asnaleg uppfinning mannskepnunnar. Í dag vilja allir ólmir sitja fyrirlestur með Eckhart Tolle þar sem hann situr og þegir í margar klukkustundir og virðir fyrir sér fataval áhorfenda.

Ég hef hitt nokkuð marga á lífsleiðinni sem hafa reynt að fullvissa mig um að þeir hafi uppgötvað leyndardóm lífsins. Þeir eru flestir sammála um að ekki er til nema ein aðferð til að nálgast lausnina, hvort sem sú aðferð feli í sér að garga og berja sjálfan sig í hausinn meðan einhver fábjáni messar yfir viðstöddum, eða hvort éta skuli einungis hráfæði til að ná settu marki, eða hvað í fjandanum það er sem lætur handhafa sannleikans halda að þeir sjálfir séu komnir heim í hlað og geti þar af leiðandi hlassað sér í sófa, hámað í sig kartöfluflögur og drukkið kóka kóla, fitnað og horft óáreittir á raunveruleikasjónvarp.

Ekki svo að skilja að ég vilji ekki glaður halda KJ og njóta augnabliksins, því fer fjarri. Ég held þó að við séum öll meira og minna stútfull af hægðum og mig grunar að um leið og við gerum okkur grein fyrir því, þá séum við búin að fatta brandarann.

Þangað til er gott að hlusta á Rhapsody In Blue:

[MEDIA=93]

Nef dagsins

[MEDIA=54]

Ég hef verið aðdáandi PJ Harvey síðan ég heyrði Rid Of Me. Því í ósköpunum er enginn búinn að ferja hana hingað til tónleikahalds í rassaborugati alheimsins?

Þeir sem mig þekkja, vita að ég er mikill áhugamaður um nef. Ég veit ekki því í ósköpunum ég er svona hrifinn af stórnefja kvenfólki. Hvaðan sá áhugi er uppurinn, kann ég enga skýringu á. Einhvern meginn finnst mér samt eins og hann hafi kveiknað eftir veru mína í Ísrael og tel ég ekki ólíklegt að hann hafi eitthvað með tíu ára þráhyggjuna að gera.

Þetta er til vandræða á mannamótum, þar sem ég sit með karlmannlegum vinum mínum og án nokkurs fyrirvara hverfur athygli mín í eitthvað nef sem á þar leið hjá. Vinum mínum verður þá spurn, hvort ég hafi komið auga á nef. Eins ef svo vill til að ég sit til borðs með kvenmanni sem samkvæmt mínum útreikningum hefur sérstaklega fallegt nef og ég gerist svo djarfur að skjalla nef viðkomandi, þá er ég í flestum tilfellum útlistaður sem sérstaklega einkennilegt eintak af manneskju; mér er fyrirmunað að skilja afhverju, þar sem áhugi minn á nefjum er af hjartahreinum toga. Til er svokallaður nef-fetish, en fetish hefur yfirleitt eitthvað með kynlífshegðan að gera og áhugi minn á nefjum er ekki af kynferðislegum toga. Hvar hafa nef gærdagsins, lit sínum glatað?

PJ Harvey er með eitt það glæsilegasta nef, sem ég hef séð. Nýjasta platan hennar White Chalk er að mínum mati eitt besta verk hennar síðan To Bring You My Love.