SiggiSiggiBangBang

Enginn heima

May
30

Laugardagstrítið:

[media id=215 width=520 height=390]

Vísindaleg útskýring

May
29

Ég hef verið í alveg skelfilega þungu skapi undanfarna daga. Ég hef komist að því, með vísindalegum aðferðum, að lífsleiði minn tengist eitthvað líffæri vinstra megin í brjóstholi, sem dregst sundur og saman og dælir rauðleitum vökva um lagnakerfi líkamans.

Hvaða illvirki fann upp þessa maskínu?

Nágrannar

May
27

“Grannar, allir þurfa góða granna, trallallallalallalla…..”

tva_douglas_dam_jack_hammer

Nágranni minn, karl yfir fimmtugt, á mikið af kraftmiklum verkfærum sem gefa frá sér allskonar andstyggðarhljóð. Í dag má heyra glakk, glakk, glakk, glakk í milljón vatta múrbrjót. Í gær, sagaði hann með hjólsög allan daginn. Ekki var hann að saga ektakvinnu sína í búta, því núna þessa stundina, þegar ég reyni að skrifa ólund mína í burtu, situr hún með vinkonum sínum út í garði og talar hátt og snjallt með reykmettaðri viskíröddu.

Stundum vildi ég að ég byggi út í sveit.

Partí á öðru tilverustigi

May
13

Nokkrir menn, sem ég hef mætt á lífsleiðinni, hafa verið svo fullir af hlýhug í minn garð að þeir hafa eytt dýrmætum tíma sínum í að útskýra fyrir mér hinn gullna sannleik lífsins. Í sumum tilfellum hef ég ekki einu sinni þurft að biðja þá um að miðla mér af visku sinni, heldur hafa þeir bara ákveðið í guðlegri óeigingirni að ég þyrfti á henni að halda. Ég kann þeim engar þakkir fyrir. Aðra hef ég sótt heim, í þeirri von að þeir gætu sagt mér eitthvað sem mögulega tendraði ljós í myrkustu skúmaskotum sálu minnar. Eitthvað sem víkkaði skilning minn á tilverunni.

Einn af þessum kyndilberum sannleikans, sagði mér að ástæðan fyrir því að ég er viðþolslaus og frústreraður, er að ég er gömul og þreytt sál. Eftir að hafa verið hérna á jörðinni ótal sinnum, er ég lúinn og vil ekkert frekar en hvíld. Spræka og FM hressa liðið, eins og tildæmis Simmi og Jói/Jón og Gulli, sagði andlegi maðurinn – eru splunkunýjar sálir. Þeim þykir svo ægilega gaman að vera til, því fyrir þeim er allt svo nýtt, ferskt og hresst.

Við fæðumst aftur og aftur þar til við höfum öðlast æðri skilning. Þegar þeim skilningi er náð, fáum við að taka þátt í svakalegu partíi sem haldið er á öðru tilverustigi og tekur engan enda. Hann útskýrði ekki nákvæmlega hvaðan allar sálirnar kæmu, eða hvernig þær yrðu til, en það er auðvelt að geta í eyðurnar. Það má tildæmis gera ráð fyrir að upplag af sálum sé á bilinu 7 – 10 milljarðar. Látum þó liggja á milli hluta hvernig sálirnar voru framleiddar í byrjun. Það eiginlega segir sig sjálft.

Jarðarbúar eru núna í kringum 6.7 milljarðar. Einhver afföll verða á degi hverjum, og ný líf kvikna, sum með nýjum sprækum Simma og Jóa sálum, önnur með sálum sem hafa verið hér áður, en hafa ekki öðlast skilning samboðin partíhöldurum í partíinu endalausa. Sálunum er skipað niður á jörðina, eftir kerfi, æðra öllum öðrum kerfum. Mögulega fær sál sem hefur verið á jörðinni einu sinni, að taka þátt í partíinu þó hún hafi ekki náð fullum þroska, svo þegar kemur óhjákvæmilega að því að hún hellir niður, gubbar, eða móðgar einhverja sál henni æðri, er hún umsvifalaust send niður til jarðar þar til hún hefur vitkast.

Þegar hér er komið við sögu er ekkert sem lýsir hugarástandi mínu betur en þetta: $#&%!#$//&%#!#!#$$%&/!

Eru dýrin annars með sál? Eru moskítoflugur með sál? Er eftirlífið kannski fullt af moskítóflugum? Endurfæðumst við alltaf sem menn? Afhverju?

Andlegir menn, með skilning á heiminum, segja allir sömu söguna. Leit þeirra var píslarganga sem stóð yfir í mörg ár. Órakaðir, sveittir og vonlausir á síðustu metrum tilveru sinnar uppgötvuðu þeir allt í einu hinn eina sanna sannleik. Þannig verður þetta í mínu tilfelli líka. Ég á eftir að staulast yfir sjó og land í leit að svörum við spurningum mínum. Þegar ég svo öðlast æðri skilning, ætla ég að ganga götur borgarinnar, með þóttafullan, en mjög svo andlegan – svip. Það mun lýsa af mér, svo guðlega þenkjandi verð ég. Ég mun hugsa öllum þeim sem ekki hafa sama skilning og ég – þegjandi þörfina. Þá verður gaman.

Bubba Ho-tep

May
12

Fyrir menningarþyrsta lesendur mína mæli ég með prýðilegri mynd sem ég sá í gær í huggulegheitum heimilis míns í litla Skerjó. Hún heitir Bubba Ho-tep og gerist á elliheimili á okkar tímum. Stirðir og elliærir gamlingjarnir eru 1000 ára gömlum egypskum uppvakningi auðveld bráð. Hann eltir þá upp í rólegheitum, drepur þá og sýgur svo sálina úr þeim í gegnum rassgatið, en eins og allir vita er sálin staðsett í ristlinum. Vistmaður, sem heitir Elvis Presley og er Elvis Presley(sá sem fékk hjartaáfall og dó var eftirherma), ásamt besta vini hans, svertingja sem segist vera John F. Kennedy, reyna að ráða niðurlögum uppvakningsins, áður en hann nær í rassinn á þeim.

Í hlutverki Elvis, er Bruce Campbell sem svo eftirminnilega lék í Evil Dead myndunum. John F. Kennedy er leikinn af gamla öðlingnum Ossie Davis. Bubba Ho-tep skorar 7.4/10(20,226 votes) á imdb og prequel/undanfari sem ber nafnið Bubba Nosferatu: Curse of the She-Vampires er væntanleg 2011 með Ron Perlman í hlutverki Elvis og Paul Giamatti sem umboðsmaður hans Colonel Tom Parker.

Hér er svo aftanívagn:

[media id=214 width=520 height=390]

Ó þú helsúra tilvera

May
10

gunther460

Hér skal, eins og svo oft áður, skrifað um mannskepnuna og hennar helsúru tilveru. Pistillinn hefst á orðinu: “mannskepnan”, en þetta prýðilega orð hefur komið fyrir í 164 pistlum sem ég hef skrifað hér á þessum vef.

Mannskepnan – nema að hún verði veik eða hafi af því atvinnu – veltir því lítið fyrir sér hvað er að gerast að tjaldarbaki mannslíkamans. Það er skiljanlegt, hún er alltof upptekin af málefnum sem skipta hana meira máli, eins og tilfinningalífi, efnahagsstöðu, hvort hún sé meira virði en nágranni hennar í næsta húsi, hvað hún tekur mikið í bekkpressu osfrv. Þegar hún vaknar á morgnana, er ekki það fyrsta sem hún hugsar:”Það er stórfurðulegt líffæri í brjóstholinu á mér sem dregst sundur og saman og dælir rauðleitum vökva um pípulagnakerfi líkamans. Hvað á það eiginlega að fyrirstilla, er verið að gera gys að mér?” Nei, hún andvarpar og hugsar:”Oh mæ god! Oh mæ god! Ætti ég að lita á mér hárið í dag?”

Hér er rétt að staldra við og hafa orð á, að skrif þessi eru ekki hugsuð til að vekja sofandi fólk til meðvitundar um kraftaverk lífsins. Ég er einungis að viðra einstaka hugsun sem nagar tilveru mína, og kemur án efa til með að gera það þar til ég dett blessunarlega dauður niður. Þankagangur af þessu tagi er stórhættulegur. Ein tilvistarspurning kallar á aðra og fyrr en varir stendur maður uppi allsnakin með enga blekkingu eftir til að staðsetja sig í lífinu.

Lífið og tilkoma þess er alveg stórskrýtin. Við verðum til vegna þess að einhver másandi og blásandi maður samsettur úr milljónum lífvera sem allar hafa sjálfstæðan vilja, fær óskiljanlega löngun til að stinga typpinu sínu inn í aðra manneskju og sprauta hana fulla af próteinríkum vökva. Enn óskiljanlegra er að öll okkar tilvera virðist snúast um þessa einkennilegu athöfn. Við skreytum hana með rósum og rómantík, yrkjum um hana ljóð, grenjum og görgum. Allt í þeim eina tilgangi að kynfæri manns og konu eigi saman fund.

Þegar hinu undirliggjandi markmiði er náð og karlskepnan hefur komið frá sér próteinhleðslunni – deyr eitthvað innra með honum. Öll rómantíkin, hamingjan, tilfinningasemin, vonir og þrár – verða um stund að engu. Alveg þar til líkaminn bætir fyrir vökvamissinn og hefur framleiðslu á meira gutli, sem hann vonar að kveiki líf. Líf sem verður svo að enn einni glórulausri mannskepnu sem eyðir ævinni í að spyrja sig: “því í andskotanum”, ef hún – eins og flestir – trúir ekki þessum fáranlegu hugmyndum um hvað gerir mann að manni og verður þóttafull, feit og hálslaus vera á stórum jeppa, sem lifir einungis fyrir meltingarveginn. Og á plánetu, sem tilheyrir einu sólkerfi af sæg sólkerfa sem við vitum ekkert um, undir skinni einnar mannskepnu, hamast maskína, sem enginn veit hvers vegna starfar.

Myndin hér að ofan er af látnum manni, sem gaf líkama sinn, umdeildum snillingi sem heitir Dr. Gunther Von Hagens. Hann er líffærafræðingur, sem fann upp plöstunaraðferð til að varðveita líkamsvefi. Fyrstu 20 árin var uppfinningin notuð til að varðveita minni líkamsparta í læknisfræðilegum tilgangi, en svo plastaði hann heilan mannslíkama og tók það hann og teymi hans 1500 vinnustundir. Hann flakkar um heiminn með sýningu sem heitir Body Worlds. Sýningin inniheldur nokkur lík, sem hafa verið plöstuð, og settar í lifandi stellingar. Tildæmis, maður að sparka bolta. Eða menn að spila póker, osfrv. Hann hefur einnig tekið sum líkin og sagað þau í sundur, til að sýna þverskurð af líkamanum.

Ég held að þetta sé ein merkilegasta sýning, fyrr og síðar. Hún er þó ekki fyrir forpokaða trúarnöttara. Það er þó lítil von til að hún komi til Íslands, en ég væri til í að ferðast gagngert til að sjá hana.

Ung í anda/Young at heart

May
07

Meira um öldrun og dauða; eitt af mínum helstu hugðarefnum. Í gær sá ég frískandi og skemmtilega heimildarmynd um gamlingja í U and S of the A. Myndin er um öldrunarkór, flestir meðlimir yfir 75 ára og einstaka á hundraðasta aldursári. Í stað þess að halda sig við hefðbundna ellismelli, flytur kórinn lög eftir Sonic Youth, David Bowie, Coldplay, Jimi Hendrix.
Gamla fólkið er misvel á sig komið, og þegar líður á myndina hverfa tveir kórmeðlimir á vit feðra sinna. Stemningin í kórnum er þó sú að ef einhver dettur dauður niður, þá er honum ruslað út af meðan kórinn heldur ótrauður áfram.

Í myndbandinu hér að neðan(eitt af mörgum í myndinni) er leitast við að svara tilvistarspurningum í laginu: “Road to no where”, eftir snillingina í Talking Heads.

[media id=213 width=512 height=390]

Young at heart á imdb.

Tortryggni

May
06

Almennt viðmót Íslendinga er hægt að draga saman í eitt orð: tortryggni. Þannig hefur það verið síðan ég man eftir mér. Íslenskt samfélag er því mjög þungt og erfitt fyrir menn eins og mig, sem passa hvergi inn. Ef ég keypti mér stóran jeppa og safnaði ægilega miklu spiki yrði lífið hér á Íslandi mun léttara.

Hér er skemmtilegt lag um tortryggni með Dawn Landes. Myndbandið er tekið upp í New York, en þó þar sé þröngt um manninn er þar meira rými fyrir frávik en hér í Reykjarvíkurborg.

[media id=212 width=520 height=390]

Tónlist Comments Off on Tortryggni