SiggiSiggiBangBang

Íslenskir durgar

Jun
30

Hið ylhýra fallega móðurmál er þessa daganna mestmegnis notað í að tjá leiðindi, og þá alveg án þess að stuðst sé við fegurri orð íslenskrar tungu sem eru: kúkur og rass, enda það orð sem hinir svokölluðu páverbloggarar forðast að nota af ótta við að þeir þyki ekki nógu málefnalegir.

Reglulega gaman væri að taka saman ólund samlanda minna í rituðu máli og athuga hversu mikið hún vegur í gigabætum. Gigabæt af texta er óhemjumikið af fúkyrðum. Sem fyrri daginn er google leitarvélin, góð í að taka púlsinn á Jóni og Gunnu. Eitt leitarorð umfram öll önnur, stendur ekki fyrir neitt nema tæra ómengaða angist, reiði og brostnar vonir og er það orðið: icesave, en það skilar 89,300 niðurstöðum á blog.is, sem er mekka óhamingjunnar. Á eyjunni kemur orðið fyrir 14,500 sinnum, og ef leitað er á öllum vefsíðum sem hafa punktur is endingu, þá telja niðurstöður 406,000 síður. Já, það ætti að vera regulega gaman að lesa sig í gegnum það og aldrei að vita nema ég noti sumafríið til þess. Til gamans má geta þá kemur orðið rass fyrir á 66,200 síðum og kúkur 18,400.

Annars átti þessi pistill upphaflega að vera um íslenska durga, en sá efniviður bíður betri tíma.

Síðasta hugsunin fyrir dauðann

Jun
23

Nú er ægileg kreppa í landinu mínu. Ég sé mig því tilneyddan til að skrifa pistil sem vekur von í brjóstum fólks. Hér er hann:

Dauðinn, dauðinn, dauðinn. Er til fegurra orð í íslenskri tungu? Hvar verð ég þegar ég ligg banalega, að því gefnu að ég verði liggjandi þegar dauðinn tekur mig í faðm sér.

Þegar ég vil létta lund mína, og mæli ég með þessu við hvern þann sem er dapur í hjarta sínu, – þykir mér fátt skemmtilegra en að renna í gegnum nokkrar krassandi samræður úr flugritum véla sem hafa brotlent og kostað alla um borð lífið. Það er eitthvað heillandi við síðustu orð manna sem átta sig á að innan skamms – muni þeir deyja. Viðbrögðin eru mismunandi. “Þetta er allt og sumt! Andskotinn!” hrópar einhver í rússnesku flugi og 23 sekúndum síðar springur vélin í tætlur yfir síberísku skóglendi.

Áhafnarmeðlimur í annarri flugvél – skrúfuvél með 29 farþega um borð – gerir sér grein fyrir að allar tilraunir félaga sinna til að bjarga vélinni eru til einskis. Síðasta sem hann hugsar og segir er: “Amy! Ég elska þig!” Nokkrum sekúndum síðar brennur vélin upp í eldhafi með þeim afleiðingum að allir um borð deyja.

“Jæja, þetta er búið. Ég er dauður!” segir flugvirki sekúndu áður en hann og 187 manns láta lífið í nauðlendingu í Paramaribo, Surinam.

Í kóreskri farþegaþotu sem flaug óvart inn fyrir rússneska landhelgi og var skotin niður 1983, deyja allir nær samstundis. Flugritinn nemur rödd í hátalarakerfi vélarinnar, sem virðist vera af segulbandi: “Slökkvið í sígarettunum og spennið beltin,” og svo að síðustu: “setjið grímuna yfir nef og munn.” Tilmælin eru svo endurtekin, þar til vélin hverfur í Japanssjó.

Síðustu orðin. Síðustu hugsanirnar.

Eitt af því sem heillar mig meira en nokkuð annað í lífinu er sú vitneskja að á einhverjum tímapunkti í minni tilveru geyspa ég golunni. Lífið stefnir allt að þessum punkti. Hvernig er hægt annað en að vera bergnuminn af hrifningu yfir þessum mesta leyndardómi lífsins.

Um daginn hlustaði ég á útvarpsviðtal við Alfreð Flóka á sýningu honum tileinkuð. Í viðtalinu er hann spurður hvort hann hugsi mikið um dauðann, hann svarar því til að þannig menn hljóti að vera hálfdauðir sjálfir. Á sömu sýningu má sjá blaðaviðtal með eftirfarandi úrdrætti: “Hugsa mikið um dauðann.” Hann hefur því að öllum líkindum eitthvað spáð í þessu þegar nær dróg.

Hvar verð ég? Hvað mun ég hugsa á þessari stundu?

Þessar spurningar láta mig ekki í friði. Hálft í hvoru langar mig að skrifa að ég geti ekki beðið, en ég læt það eiga sig því flestir lifa eftir þeim hugmyndum að dauðann beri að taka hátíðlega, og að öll umræða um hann verði að fara fram hvíslandi.

Föðurhlutverk

Jun
23

fossvogskirkjugardur

Ég og ellefu ára gömul dóttir mín fórum um helgina á sýningu hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur, sem okkur þótti frekar fátækleg. Hvað um það. Svo settumst við niður á Cafe Paris og hún pantaði sér Egils Gull og ég mjólkurkaffi. Henni varð þó ekki að ósk sinni, en fékk heitan súkkulaðidrykk með rjóma, og nokkuð myndarlega tertusneið. Ég bað um svokallaða pönnukökuveislu með kaffinu mínu, sem samanstóð af þremur upprúlluðum pönnukökum og smá rjómaklessu. “2463.- krónur takk,” sagði Cafe Paris, “vinsamlegast borgið á barnum á leið ykkar út.”

Eftir göngutúr um miðbæinn, með viðkomu í Eymundsson, keyrðum við upp í Öskjuhlíð og ég lagði til að við fengum okkur göngutúr um kirkjugarðinn. “Afhverju er skemmtilegt að fara í kirkjugarðinn?” spurði dóttir mín alveg undrandi á gamla manninum. Og ég sem hefði kannski átt að taka mér örlítið lengri tíma í að upphugsa svar við spurningu hennar, útskýrði fyrir henni að gamanið fælist í því að við værum sprellilifandi meðan fólkið í garðinum væri allt dautt.

Ég verð að segja mér til málsbóta að fram að þessari stundu var ég búinn að standa mig nokkuð vel í föðurhlutverkinu. Ég var tildæmis búinn að uppfræða hana um hver Hörður Torfa væri og hvernig hann hefði barist fyrir réttindum samkynhneigðra(það var mynd af honum á ljósmyndasýningunni). Einnig var ég búinn að miðla til hennar hagnýtum upplýsingum eins og að maður eigi aldrei að hrækja þar sem gangandi fólk kemur mögulega til með að leggja leið sína. Með því að passa sig á hvar maður hrækir, sýndi maður öðru fólki virðingu sína.

Það að skemmtilegt sé að vera í kirkjugarðinum, út af þessum andstæðum, var ég svo sem búinn að hugsa nokkrum sinnum á heilsuskokki í gegnum garðinn. Eitthvað á þessa leið: Hér hleyp ég, heilbrigður, með fulla hreyfigetu, meðan allt þetta fólk liggur í moldinni steindautt – einhvern tímann mun ég liggja dauður á kistubotni, þ.e.a.s ef ég mun eiga fyrir útförinni. En það var ekki þess vegna sem ég vildi fara með telpunni minni í göngutúr um garðinn. Mér hefur alltaf fundist garðurinn heillandi. Á bakvið hverja áletrun og hvert ártal er saga einhvers sem einhvern tímann lifði. Einhver sem fæddist frjáls inn í þennan heim, týndi frelsinu þegar hann eltist og eyddi lífinu í að leita að því. Eða hugsaði kannski aldrei á þessum nótum. Vann mögulega bara myrkranna á milli, efaðist aldrei um tilveru sína, var sáttur ef hann gat séð fyrir sér og sínum og spurði aldrei neinna spurninga. Ólíkt mér, sem geri ekki annað en að spyrja spurninga – alveg þar til ég ærist: Afhverju dó þessi ungur? Hvernig var lífið á Íslandi á þeim tíma sem þessi fæddist? Hvað var hann gamall í seinni heimstyrjöldinni? Hefur þessi verið harður húsbóndi? Ætli kona þessa manns hafi elskað hann? Osfrv.

Dóttur minni fannst hinsvegar sú hugmynd að gaman væri að vera lifandi meðan allir aðrir væru dauðir – mjög fyndin. Hún hafði aldrei hugsað svona um dauðann. Í hennar huga var dauðinn bara sorglegur, hún vissi ekki að hann gat líka verið fyndinn.

Tómas Sigurpáll Jónsson – minning um mann

Jun
20

Hér er minning um mann.

Tómas Sigurpáll Jónsson var vinur minn. Hrjúfur stórgerður karl, með gullslegið hjarta sem fyrir 14 árum sveik hann og neitaði að slá meir. Þetta einkennilega tæki, sem dælir rauðleitum vökva um lagnakerfi líkamans, hafði svo sem áður verið með dynti, en alltaf hrokkið í gang aftur. En ekki þennan dag árið 1995. Þeir, og á ég við þá sem fengið hafa hjartaáfall, segja að sársaukinn sé gersamlega óbærilegur, að maður óski sjálfum sér frekar dauða en að upplifa hann. En sársauki Tomma varð ekki meiri í þessu lífi og hann fékk hvíld. Hvíld frá þessari skrýtnu tilveru, sem hafði í raun aldrei gert honum nógu góð skil. Skapara himins og jarðar þótti mikill fengur í sál Tomma, enda hún glæsilega búin flottum og eftirsóknarverðum mannkostum.

Ég og Tommi kynntumst fyrir austan fjall, í húsi sérstaklega ætlað fólki sem vildi læra að hætta drekka brennivín og styrkja lyfjaiðnaðinn og erindreka hans. Við vorum látnir sitja í hópi með fólki sem átti alveg ægilega bágt, að okkur fannst. Einn maður, með nokkur námskeið að baki, stýrði hjálpargrúppunni þrátt fyrir borderline-þroskaheftu í mannlegum samskiptum. Tomma leiddist hóparnir alveg hræðilega, þannig að hann svaf þá vel flesta af sér.

Eitt sinn er Tommi svaf værum og fallegum svefni, sem ég allavega öfundaði hann af, grét kona ein yfir óförum sínum. Hún var svo hrædd, volaði hún og vældi og var alveg miður sín. Eitthvað af því sem konan grét yfir, allavega þetta með hræðsluna, hefur skilað sér yfir í draumlandið til hans Tomma, því Tommi rumskar og horfir Bambi-augum á aumingjans konuna, sem í fyrsta skipti hefur opnað á sár lífs síns. “Ertu líkhrædd?”, spyr Tommi eins varfærnislega eins og honum var unnt, þó hann hljómi meira eins og hann sé að urra á hana. Hann skilur ekki alveg hvað aumingjans konan er hrædd við. Það eina sem Tomma kemur í hug þegar talað er um ótta, er þegar hann var að vinna á Borgarspítalanum sem vaktmaður og var látinn sækja lík upp á deildir til að rúlla niður í frysti. Þá fann hann fyrir ótta. En við lifandi fólk var Tommi ekki hræddur, það var frekar að það væri hrætt við hann.

Í sveitinni voru daglega haldnir fundir. Heimilismenn söfnuðust þá saman í litlum loftlausum sal í kjallara hússins. Stólunum var raðað upp þannig að úr yrði gangvegur fyrir miðju að pontu, sem fólk var hvatt til að tala úr, um endalausa erfiðleika sína. Tommi sat alltaf í öftustu röð, þannig að hann gæti teygt úr löppunum og sofið, frekar en að hlusta á þessa bölvuðu vitleysu sem vall upp úr fólki, en honum var alveg fyrirmunað að skilja hvernig í ósköpunum það gat hjálpað einhverjum að standa frammi fyrir ógæfufólki og játa á sig allskonar ófögnuð. Ef hann svaf ekki, þá einbeitti hann sér að því að ná augnsambandi við þann sem stóð í pontunni. Þegar því var náð, lét hann efri tanngóm, sem var úr plasti, detta fram fyrir þann neðri. Ef það dugði ekki til, geiflaði hann sig enn frekar og lét góminn hálfan út um munninn. Svona hélt hann áfram að leika sér, alveg þar til viðkomandi kom ekki upp orði, heldur veltist um af hlátri og varð frá að hverfa til að skyggja á ekki á alvöruna sem fylgir fundum af þessu tagi.

Tommi var mikill öðlingur og þótti öllum sem komust inn fyrir hrjúfa skelina, ofurvænt um hann.

Á árum áður starfaði Tommi sem lögreglumaður í Reykjavík. Hann hafði því hlutverki að gegna að skjóta flækingshunda og var því alltaf með hundabyssu tiltæka. Einhvern tímann, er hann gekk sinn rúnt niður í bæ, er hann fenginn til að elta þjóf sem tekur á rás út úr búð. Tommi, mikill að vexti, byrjar að hlaupa á eftir þjófnum sem var töluvert frárri á fæti en hann. Er bilið tekur að lengjast milli Tomma og þjófsins og Tommi alveg að gefast upp á hlaupunum, tekur hann upp hundabyssuna, sem hann geymdi í belti sínu og öskrar: “Stoppaðu, eða ég skýt!” Þjófurinn lætur viðvaranir Tomma sig engu varða, og eykur hraðann. Tommi miðar þá byssunni út í loftið og hleypir af. Manngreyiinu verður svo mikið um þetta að hann kastar sér á jörðina og liggur þar skelfingu lostinn, lamaður af ótta. Eftir þetta var Tommi aldrei kallaður neitt annað en Tommi hundabyssuhvellur.

Hér eru videomyndir af Tomma, sem ég tók af honum þegar hann bauð mér í stórsteik að heimili sínu rétt hjá Rauðavatni. Ég hafði þennan dag, komið til hans með slátturorf frá Kópavogsbæ og slegið garðinn hans. Svo þakklátur var hann fyrir viðvikið að hann keypti tvo innkaupapoka fulla af kjöti og meðlæti og sló upp veislu sem er eitt rausnarlegasta borðhald sem ég hef setið. Það má sjá á þessum klippum að hann var mikill húmoristi, og alltaf til í að bregða á leik.

[media id=217 width=520 height=436]

Gönguhópurinn Rass

Jun
14

Ég hef í hyggju að stofna gönguhóp sem ber nafnið: Gönguhópurinn Rass. Meginmarkmið þessa gönguhóps verður að ganga(liggur í hlutarins eðli) og hatast út í aðra gönguhópa. Við komum til með að nota “annað hvort ertu með okkur eða móti okkur” hugmyndafræðina, sem hefur virkað svo andskoti vel í gegnum mannkynssöguna. Þannig að ef þú tilheyrir öðrum gönguhóp en Gönguhópnum Rass með stóru Gé-i og stóru Err-i, hefur þú – að okkar mati – fyrirgert rétti þínum til að ganga sömu gönguleiðir og við, og munum við beita bolabrögðum til að ryðja þér úr veginum.

Önnur stórkostleg hugmynd sem ég hef fengið, er að Gönguhópurinn Rass, gangi allsnakinn. Það gæti þó verið leiðinlegt fyrir karlpeninginn, því hér er oft kalt í veðri og því oft vesældarlegt um að litast í neðri byggðum. Fátt er óskemmtilegra en að vera með krumputyppi í félagi við bræður sína. Það er skarð í karlmennsku hvers manns, hversu vel sem hann er meðvitaður, eða gáfum gæddur.

Hugmyndir þessar hafa komið til mín þar sem ég hef þreytt hlaup á gönguleiðum höfuðborgarinnar. Ég mæti ófáum gönguhópum, og eiga þeir allir það sameiginlegt að vera alveg ótrúlega hallærislegir og sérstaklega tillitslausir gagnvart hjólandi og hlaupurum. En þó að hatur mitt á gönguhópum sé stórt, þá eru þeir þó skömminni skárri en hlaupahópar, sem eru með öllu óþolandi. Öll umferð úr gagnstæðri átt, hvort sem um er að ræða einstaka hlaupara, haltrandi gamalmenni, eða fótgangandi, er hrakin út af, því hlaupurum í hóp er svo mikilvægt að hlaupa hlið við hlið svo þeir geti talað kúk við hvorn annan. Þeim kemur ekki til hugar að víkja. Aldrei nokkurn tímann! Það er bara ekki í karakter einhvers sem hleypur í hóp. Þeim finnst almenn tillitsemi jafngilda ósigri í mannlegum samskiptum. Það má sjá þessa sömu menn í umferðinni, svínandi og brjótandi á öðrum vegfarendum. Jú, einmitt – þessir sem gefa í ef þú reynir að skipta yfir á akreinina þeirra. Ég segi við ykkur sem gangið og hlaupið í hópum: Étið skít! Göngu- og hlaupahópurinn Rass verður stofnaður til höfuðs ykkur.

leiðindi.blog.is

Jun
05

Að ybba blogg er orðin þreytandi iðja. Samkvæmt nýjustu reglugerðum, skrifuðum og samþykktum einróma af moggabloggurum, á ritmál skrifað undir formerkinu blogg, að vera málefnalegt. Að skrifa um óumdeilanlega kosti þess að geta sogið sinni eigin spena, er ekki málefnalegt og bætir engu við þjóðfélagsumræðuna. Umræða þar sem grútskítugur ristill þjóðarinnar er skoðaður gagnrýnum rauðþrútnum augum almúgamannsins, sem hangir í pilsfaldi skítableðils sem hefur verið honum óvinveittur frá stofnun.

Að benda á að skapari himins og jarðar hefði getað komið í veg fyrir efnahagshrun með að gera graðpungunum Hannesi Smárasyni, Sigurði Einarssyni og vinum þeirra, kleift að veita sjálfum sér munngælur, er ekki við hæfi og skapar undirrituðum ekki þá eftirsóttu stöðu í bloggheimum að í hann sé vitnað. Ég get því ekki séð að ég eigi mikið erindi í bloggheima. Ég þarf ekki annað en að skoða bloggfyrirsagnir á blogg.gattin.is, eða eyjunni.is, til að sjá að jafn órökviss maður og ég, er best að pakka saman og fara að gera eitthvað annað, eins og kannski að sitja á kaffihúsum og tala digurbarkalega eins og hann hafi eitthvað til málanna að leggja.

Umræðan er þó alltaf eins. Hún gengur í hringi. Allir sem í henni taka þátt eru vissir um að hafa rétt fyrir sér. Hún byrjar á að einhver andmælir eða er sammála viðfangsefninu. Fjöldi fólks tekur undir. Hnuss, fuss, og allskonar fúkyrði. Á einhverjum punkti í umræðunni gerist einhver svo djarfur að skoða málið frá öðru sjónarhorni, oftar en ekki í formi samviskuspurningar. Einhverjir taka undir, en þeir sem ráku lestina, snúast gegn honum, persónugera málið og ata viðkomandi saur. Svona gengur þetta í 30-100 athugasemdir, þar til umræðan deyr út. Svo endurlífgast sama umræða undir nýrri fyrirsögn, og gengur fyrir sig með nákvæmlega sama hætti.

Svo fer fólk á námskeið til að læra að skrifa málefnaleg blogg, sem vitnað er í, og hátindur bloggara verður að fá teiknaða af sér mynd og blogga í nafni miðils, sem hringir í bloggarana sína til að skamma þá fyrir ómálefnaleg blogg.

Ég er hættur að skrifa blogg. Ég verð að finna eitthvað annað nafn á þetta.

Hönnuður alheimsins

Jun
04

Stundum finnst mér ég sjálfur svo hræðilega leiðinlegur að ég vildi að ég gæti skellt á mig hurðinni. Hönnuður alheimsins hefði átt að gera ráð fyrir þessum möguleika, ásamt því að gera karlmönnum kleift að sjúga sinn eigin typpaling. Hafsjór af samfélagsvandamálum væru ekki til ef það væri hægt.

Í þessu samhengi bendi ég á myndina Shortbus, en þar er að finna atriði sem sýnir einkar liðugan mann veita sjálfum sér munngælur. Enginn kvikmyndaunnandi ætti að láta þessa mynd framhjá sér fara.

Parthenófóbía

Jun
03

Eitt og annað í nálgun minni á lífið bendir til að ég sé haldinn skelfilegum sjúkdómi sem herjar einvörðungu á heilann. Já, má jafnvel segja að ég sé með skakkan hýpóþalamus, eða að sjálfur þalamusinn sé ofvaxinn og þrýsti á framheilann, sem útskýrir allar þessar skrýtnu hugsanir. Hvaða fræðilega skýring sem kann að vera á misbrestum í heilastarfsemi minni, þá er mér ljóst ef ég ber mig saman við geðprýðismódelið hannað af sérstöku yfirvaldi í Geðheilbrigðisfræðum með stóru Gé-i, að ég – með allar mínar fóbíur, persónuleikaraskanir, og dynti sem til eru latnesk heiti yfir – er spölkorn frá því að vera eðlilegur.

Það þarf því engan að undra að ég leiti skýringa á hvað gerir mig frábrugðinn meðbróður mínum, sem — að mér virðist — siglir óáreittur í gegnum lífið sáttur við sjálfan sig, menn og málefni, meðan aumingjans undirritaður engist sundur og saman við tilhugsunina eina að þurfa að fara út fyrir hússins dyr til að sinna samfélagslegum skyldum.

Ásamt því að lesa töluvert af greinum um afbrigðilegheit og sjúkdóma sem eiga sér upptök í heilanum, hef ég skráð mig á póstlista, þar sem ég fæ sendan póst ef vísindin uppgötva nýja tegund fóbíu, eða geðveikissjúkdóm sem ég mögulega er haldinn. Ég er nú þegar búinn að viða að mér á annan tug fóbía sem naga anda minn frá sólarupprás til sólseturs; lengur á sumrin.

En þó ég geti tileinkað mér margar fóbíurnar, er ein afar merkileg fóbía sem ég fæ ekki séð að eigi við mig. Parthenófóbía er fóbía, einkennilegri en allar aðrar fóbíur sem ég hef lesið mér til um. Hún er jafnvel einkennilegri en hippopotomonstrosesquipedaliofóbía sem er lýsir sér í ótta við afskaplega löng orð.

Sá sem er haldinn Parthenafobíu, situr kannski á kaffi Hressó og talar borubrattur um stjórnmál og listir, þar til ung stúlka gengur hjá, þá fölnar viðkomandi, verður andstuttur, svitnar og upplifir að hann sé að deyja. Parthenófóbía er sumsé hræðsla við ungar stúlkur, sérstaklega ef grunur leikur á að stúlkukindin sé hrein mey. Menn haldnir þessari tegund fóbíu geta ekki búið nálægt grunnskólum. Öll þeirra tilvera gengur út á að forðast aðstæður þar sem ein eða fleiri hreinar meyjar koma saman. Maður með Parthenófóbíu héldi því líklega ekki til á Hressó, sem er krökkur af yngismeyjum, þó ósennilegt sé að stúlkur af þeirra manngerð sem sækja þann ágæta stað séu óspjallaðar.

21

Jun
01

[media id=216 width=520 height=436]

Í dásamlegri fortíðarþrá, hef ég á liðnum dögum gruflað í gömlum myndböndum. Í bútnum hér að ofan, sem tekin er um sumarið 1991, er ég einungis 21 árs gamall. Ég er staddur í kaffi og sígó að Hlíðarvegi 1, í Kópavoginum. Í bakgrunni má heyra Steina Bjarna(Þorsteinn Óttar Bjarnason), tala við einhvern í síma; ég giska á Hörð Júlíusson, eða Stein Skaptason, en ég er samt ekki viss um að Steinn hafi átt síma þegar þetta var, þar sem hann var fráhverfur nútímatækni. Í klippunni er ég hærðari en mexíkóskur flagari á fengitíma, en fáeinum árum síðar rakaði ég í fyrsta skipti hárið alveg af mér, og hefur það ekki fengið að vaxa af neinu ráði síðan. Ekki hefði hvarflað að mér að ég ætti eftir að gera heiminum þessa klippu aðgengilega 18 árum síðar.