SiggiSiggiBangBang

Ferðalagið á grafarbakkann.

Mar
30

Engin hugsun er jafn notaleg og sú hugsun að einn sólríkan dag muni hjartað í brjósti mér hætta að slá og ég fái að deyja. Ég veit ekki hvers vegna, en ég held að flestir ímyndi sér að sólin skíni og fuglarnir tísti á þessum degi. Það er ósköp skiljanlegt. Ef sálin á að geta ferðast klakklaust alla leið upp til himna, er betra að veðrið sé gott. Ég ætla allavega að reyna hvað ég get til að deyja á góðviðrisdegi.

Mörgum, sem ég hef mætt á lífsgöngu minni, finnst einkennilegt að jafn ungur maður og ég hugsi jafn mikið og ég geri um dauðann – hlakki jafnvel til. En auðvitað hlakka ég til! Ég hlakka til að eldast og ég hlakka til að deyja. Ég fæ mögulega svar við einni stærstu spurningu lífsins. Spurningu sem maðurinn hefur spurt sig, allt frá dögun mannkyns og enginn kann að svara. Já, dauðinn er sannarlega tilhlökkunarefni. Ég get ekki beðið. – Ég get samt alveg beðið. Ég veit að það liggur fyrir að ég verði manna elstur. Alveg í minni óþökk. Ég á eftir að lifa alla. Ellinni ætla ég að eyða í að pissa á leiði þeirra sem ég kann illa við.

Oftast leiðist mér lífið alveg ægilega og hef heldur ekki verið neitt sérstaklega feiminn við að viðurkenna það. Það verður mér því kærkomið að losna úr þessari prísund sem mér finnst ég hafa verið ranglega dæmdur í. Ég bað ekki um þetta, svo mikið er víst. Hver, sem ég svo er. En ég veit ég er ekki einn um þessa hugsun. Ég sé það þegar ég horfi í kringum mig. Þjakað einmana fólk. Dapurlegt, ekki satt?

En ég má passa mig að flíka ekki um of, þessum hugðarefnum mínum. Það þykir nefnilega ekki heilsusamlegt að horfa á lífið með þessum hætti. Það eru til allskonar sjúkdómsheiti fyrir fólk sem í heiðarleika viðurkennir að lífið sé í raun helber þrautganga og þjáning. Þrátt fyrir að flestir — nema þeir sem eru snillingar í að uppdikta einhvern tilgang með þessu brambolti — þjáist.

En þó svo ég hugsi eins mikið og ég geri um dauðann, þá ber ég mikla virðingu fyrir lífinu. Það sama verður ekki sagt um þá sem þykjast vera þess megnugir að gagnrýna mig fyrir skort á jákvæðni og fallegum gúllí gú lífsviðhorfum. Þeir hinir sömu, bera oft enga virðingu fyrir líkama sínum og gera honum erfitt fyrir með reykingum, drykkju, hreyfingarleysi og óheilbrigðu matarræði. Ég hleyp, drekk ekki, reyki ekki, borða hollan mat, hugsa fallegar hugsanir, allt í þeim tilgangi einum að auka lífsgæði mín og fyrirbyggja að ég þurfi hjálp á klósettið þegar árin færast yfir. Ég þarf líka að vera í toppformi þegar ég þræði kirkjugarðanna á tíræðisaldri. Einhver þarf að pissa á öll þessi leiði.

Matar æðið

Mar
29

Hér í Kaupmannahöfn NV hafa heimilismenn tileinkað sér fúndementalískt kólesterólskert matarræði sem fer silkihönskum um munn, maga og ristil. Hægðirnar sem fara hér í klósettið eru svo mikilfenglegar og fallegar – og trúið mér hér er mikið kúkað – að herra Kelloggs hefði veitt okkur sérstök verðlaun væri ristillinn á honum ennþá starfandi. Eftir svínslegt matarræði yfir jólahátíðina, horfðum við á nokkrar heimildarmyndir um kólesteról, viðurstyggilega meðferð á dýrum, og matvælaiðnaðinn og ákváðum að dýr ættu ekkert erindi í gegnum meltingarveginn á okkur. Við gætum allt eins étið gæludýrin okkar, eða bara hvort annað. Við skiljum tildæmis ekki hvers vegna manninum þykir í lagi að éta hrossakjöt, en ekki hundakjöt? Heilsíðuauglýsingar Bónus á blóðugum niðursneiddum skrokkum, gæti þess vegna verið mannakjöt. Afhverju borðum við ekki bara hvort annað? Afhverju má ekki bara skella Afa inn í ofn eftir að hann er kominn yfir móðuna miklu? Honum er örugglega alveg sama!

Hvað um það. Eftir að við tókum upp þetta prýðilega matarræði, sem samanstendur af dýrindisgúmmilaði, sem bragðast svo vel og er svo spennandi að við varla tölum um nokkuð annað en hvað skal kokka næst og hvernig, þá hefur okkur liðið líka svona skínandi vel. Eftir máltið, er ekki úr okkur allur þróttur og við liggjum ekki afvelta með bumbuna út í loftið, jarmandi eins og mæðuveikar rollur. Nei, við erum Bylgju og Hemma Gunn hress. Spilum spil. Syngjum fagnaðarsöngva um lífið. Hugsum fallegar hugsanir, í þágu kærleiks og friðar.

Má segja að megin uppistaðan í fæði okkar sé hrátt grænmeti, og við því líklega u.þ.b 60% hráfæður. Ég og heitmey mín höfum meira að segja sótt hráfæðisstað hér í Köben, í allavega tvígang. Maturinn þar er rándýr, en andskoti góður. Kranavatn, eins ógeðslegt og það er hér í Danmörku kostar þar 10 dkr, sem gera um 230 krónur af verðlausum íslenskum. Ég læt hér fylgja með hráfæðisáróður frá þessum stað sem er mjög bjánalegur. Ætli maðurinn sem fann upp þessi rök, sitji á kaffihúsum allan liðlangan daginn, slái um sig og líði í jíhadinu sínu eins og hann sé gáfaður? Ég hugsa að ég borði aldrei þarna aftur! – það eru bara hálfvitar sem kaupa sér danskt skólp á 10 krónur.

Vaíla Veinólína

Mar
21

Hér er orðið ári dapurlegt um að litast og framleiðsla á tímamótahugsunum mikið til legið niðri. Hvernig stendur á því? Þessi brennandi þörf mín til að fjalla um sannleikann, eins og hann kemur mér fyrir sjónir, hefur dvínað undanfarin misseri. Ég að sama skapi fylgist lítið orðið með bloggi. Sumir halda því fram að kreppubloggin hafi drepið niður alla stemningu. Það kann að vera. Bloggin sem ég fylgist með eru teljandi á fingrum annarrar handar og ekkert þeirra er pólitískt.

Á árunum fyrir hrun, þá gekk allt út á að vera ríkur og eftirsóttur. Nú eftir hrun, væla allir, þusa og þrasa og eru duglegir að finna einhvern/eitthvað til að skella skuldinni á. Allt frá því að heimstyrjöldinni síðari lauk hefur fólk spurt sig hvað olli því að þjóðarsál Þýskalands gat orðið svona hræðilega ill. Mér finnst einnig forvitnilegt hvernig stendur á því að flestir íslendingar trúðu því að auðsöfnun og ríkidæmi væri eina rétta leiðin til að lifa lífinu. En fæstir velta þessu fyrir sér. Núna gengur líf Íslendingsins út á að væla og hata. Fáir hafa hugrekki til að mæta sinni eigin spegilmynd. En nú er ég farinn að hljóma eins og þjóðfélagsrýnir og það vil ég síður. Mér er andskotans sama. Það er ekki mitt að syrgja hvernig meðbræður mínir í þessum heimi kjósa að lifa lífinu, nóg er nú sorgin fyrir.

Þessa daganna er ég mjög upptekinn af muninum á að vera og að lifa. Flestir eru bara – fæstir lifa.

Ég ætla að halda áfram að skrifa. Ég er svolítið búinn að týna niður tilgangnum, en hann er að rifjast upp fyrir mér. Ég hef skráð hér þau spor sem ég hef tekið í lífinu síðan 2002. Þetta er þroskasaga. Fyrir mig eru þetta ómetanleg verðmæti.

Hitler í stuði

Mar
15

Þessi hreyfimynd kætir mig alveg ægilega.

Þegar manneskjan fyrnist

Mar
10

Á lífsleið minni hef ég fyrirhitt heila hjörð af fólki sem ég hefði helst aldrei viljað þekkja. Svonefndir viðbjóðar og drulluháleistar, sem ganga þessa jörð mér til ama og leiðinda. Þetta á sérstaklega við um skóla- og unglingsárin, þar sem ég fékk litlu eða engu um það ráðið hverja ég átti í samskiptum við. En nú hefur fæðst með mér enn ein tímamótahugsunin. Ég hef í rauninni aldrei hitt þetta fólk! Þetta fólk er ekki lengur til! Einstaka sinnum hefur orðið á vegi mínum einhver sem ég þekki úr fortíðinni. Suma finnst mér gaman að sjá, en aðrir eru þannig gerðir að ég vil helst aldrei rifja upp kynni mín af þeim. En nú er mér ljóst að tengsl mín við viðkomandi eru einungis huglæg og langt því frá að vera raunveruleg. Þetta get ég þakkað líffræðinni. Líkamsfrumur eru svo duglegar að endurnýja sig að á u.þ.b átta árum á sér stað svo mikil umskipting að með réttu er hægt að segja að maðurinn sé ekki sá hinn sami og hann var. Að hann sé nýr og vonandi betri maður. Þó mín reynsla sé að fúlegg verði einungis fúlari með aldrinum. Fúlari og fyrirferðameiri á þverveginn. Það má því segja að hitti ég einhvern sem ég hef ekki séð í rúm átta ár út á götu, þá þekki ég viðkomandi ekki neitt, enda ekki sama manneskjan. Þetta eru góðar fréttir fyrir mig og alla drauga fortíðar.

Svíþjóð fyrr í dag – myndband

Mar
07

[media id=233 width=520 height=290]

Í dag dauðleiddist mér lífið og hefði helst bara viljað vera dauður. Til að lyfta mér á kreik skrapp ég yfir lækinn til Svíþjóðar. Allt er gott í Svíþjóð meðan Danmörk er viðbjóður. Allir voru vinalegir og fullir af fölskvalausri gleði. Ég fékk mér fair trade kaffi og ökkólógíska pönnsu með jurtarjóma. Ég brá mér á salernið, og svei mér þá, þar var allt svo dásamlegt. Í hátalara var falleg músik og skilaboð til mín um hvað ég get gert til að verða að betri og meðvitaðri manni. Já, Svíþjóð er fullkomin. Þegar strætisvagn keyrir um göturnar hljómar kvenmaður í hátalarakerfi utan á honum sem segir eitthvað fallegt á sænsku. Svo er sænska miklu fallegra tungumál en danska og þegar Svíar tala ensku þá hljóma þeir ekki eins og þeir vilji þukla á þér lærin.