Hamsa
Það er lítið gaman að heita Sasson Ben Yehuda og vera fúlasti maðurinn í öllu hverfinu. Sasson þýðir nefnilega á hebresku kæti, gleði, fögnuður, en kátína var það síðasta sem Sasson kom til hugar þar sem hann sat eins og klessa fastur í hjólastól, ekki einu sinni fær um að kasta af sér vatni án þess að verða sér og arfleifð sinni til háborinnar skammar.
Ekki aðeins var Sasson lamaður upp að mitti, heldur átti hann einnig í mestu erfiðleikum með mæli. Allt sem hann reyndi að segja – og hann hafði margt til málanna að leggja – ummyndaðist á tungu hans og varð að hræðilegu umli sem ekki nokkur maður skildi. Fólk sem áður hafði hlustað af óskilgreindri virðingu í hvert sinn sem Sasson opnaði á sér munninn, hristi hausinn yfir hinum nýja talanda.
Sasson vissi vel hvaða kenningar voru uppi um örlög hans. Ástæðan fyrir að hann gat ekki lengur talað, var sú að Guð hafði þaggað niður í honum. Munnurinn á Sasson, sagði fólkið, – er illur. Því hafði Guð tekið þá ákvörðun á stjórnarfundi að Sasson yrði refsað með hressilegu heilablóðfalli. Það heilablóðfall varð honum næstum að aldurtila.
Sasson virti mig fyrir sér með vanþóknunarsvip. Hver er þessi maður? var honum spurn. Hann er ekki héðan. Hvað kemur hann? Frá fjarlægu landi? Íslandi? Hvar í andskotanum er þetta Ísland? sagði hann án þess að mynda orð. Ísland? Þetta hljóta að vera svik, virtist Sasson segja með þónokkri fyrirlitningu.
Í NORÐUR ATLANTSHAFI! gargaði Rami sonur hans á mölbrotinni kúrdísku. Rami hélt að pabbi sinn skildi hann betur ef hann talaði tungumál Kúrdistan. Hann kunni samt eiginlega ekkert í kúrdísku – aðeins orð og orð.
Það fór óheyrilega í taugarnar á Sasson þegar sonur hans reyndi af mikilli vankunnáttu að tala tungumálið sem Sasson ólst upp við. Hann missti algerlega stjórn á sér og varð snarbrjálaður, en verandi ófær um að lesa Rami pistilinn – eins og hann gerði ítrekað þegar hann stóð lappirnar -, barði hann sjálfan sig af töluverðum þunga í hausinn til að tjá óánægju sína.
Ma’gibett Aba? hrópaði Rami, viss um að ef framburður hans væri nógu góður, ef hann talaði nógu hátt og endurtæki svo allt sem hann segði, þá kæmi pabbi hans til með að skilja hann.
Gibett la’mita? hélt Rami áfram, og skildi ekki afhverju pabbi, sem einu sinni hafði verið svo mikill karl, sat og bankaði sig í hausinn eins og geðsjúklingur í amerískri bíómynd. Rami, sem var umhugað að láta bæði Guð og viðstadda halda að hann væri með sál, draup höfði og felldi nokkur slepjuleg tár.
Ég vissi að tárin felldi hann ekki einungis fyrir hinn sírefsandi Guð, heldur voru þau einnig mér ætluð – svona til að bjóða mig velkominn í fjölskylduna.
Hamsa er einn af verndargripum gyðinga. Hamsa eða Hamesh, þýðir fimm og táknar fimm bækur Torah. Hamsa er einnig tákn fyrir bæði súnní- og sjíta múslima. Gripurinn er hönd, stundum skreytt með fiskum, stundum með auga. Hún er notuð í hálsmen, veggjaskraut, og hvar sem þörf er á vernd gegn hinu hræðilega illa auga. Hið illa auga er samkvæmt sögusögnum – öfund í garð þeirra sem eru blessaðir með mikilli lukku. En Hamsa er ekki einungis verndargripur, því einnig er hægt að nota Hamsa til að leggja álög og svipta fólk lukku sinni.
Sá sem bregður á það óráð að nota Hamsa í þeim tilgangi – afskrifar sjálfan sig sem eftirlæti Guðs, og mál hans sett í forgang á stjórnarfundum.
Sasson hataði mig eins og hann hataði allt og alla. Hann hataði Rifku svo mikið að hann lagði á hana Hamsa álög. Rifka hafði verið gift inn í fjölskylduna í mörg ár. Helen, eiginkona Rami, sagði mér að fegurri konu hefði ekki verið að finna í Maoz Tzion. Hún var svo falleg að það lýsti af henni.
En Sasson var illa við hana frá því að hann hitti hana fyrst. Eitt sinn þegar Rifka sneri við honum baki, reiddi hann út höndina með opinn lófa í átt að henni, án þess að snerta hana.
Þeir sem urðu vitni að því, voru sammála um að þarna hefði Sasson kallað yfir Rifku ógæfu með að nota hönd sína sem Hamsa, enda hófst þrautaganga Rifku upp frá þeirri stundu. Skelfilegur húðsjúkdómur lagðist á hana með svo mikilli kvöl og pínu að hún hugðist taka sitt eigið líf. Hún gekk á milli lækna, rabbína, hómópata til að fá lækningu. Á endanum var orsökin rakin til Sasson og Hömsunnar. Þegar ég hitti Rifku, var enga gleði að finna í sálu hennar og það lýsti ekki lengur af henni.
Þegiðu karlandskoti! hreytti ég út úr mér á íslensku. Tóntegundin í röddinni, hefur án efa skilað meiningunni. Stundum þarf fólk ekki tala sama tungumál til að eiga skiljanleg samskipti, að því hafði ég komist á þeim fjórum mánuðum sem ég hafði dvalið með Ben Yehuda fjölskyldunni.
Ég beygði mig niður til að þrífa upp jógurt og salat sem ég hafði haft talsvert fyrir að skera niður fyrr um morguninn. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem þreif upp æti af gólfinu, og á þegar hér var komið við sögu var ég orðinn langþreyttur á því.
HAMSA!, gargaði Helen. Ég sneri mér við skelkaður og vissi ekki alveg hvernig ég átti að bregðast við. Helen sýndi mér með lófanum, hvernig Sasson gerði í bakið á mér. Er það virkilega, spurði ég Bení sem sat þarna í sófa. Bení jánkaði.
Ég verð að komast héðan, hugsaði ég með sjálfum mér og kveikti í sígarettu.