Flippaðasti arinn í öllum Þingholtunum
Undirrituðum er umhugað um að hafa skæslegt heima hjá sér og á það til að eyða heilu og hálfu föstudagskvöldunum í að punta og gera fínt. Þetta föstudagskvöld var ekkert frábrugðið öðrum föstudagskvöldum og þrátt fyrir að blíðviðrið drægi aðeins úr framkvæmdagleðinni taldi ég rétt að vopnast ryksuginni og soga upp ló sem safnast hafði í einstaka hornum.
Ryksugan mín til tuttugu og tveggja ára af Hitachi gerð, er geymd fram á gangi, og þar sem ég opna hurðina til að ná í hana, mætir mér sterk brunalykt. Ég ákveð að bíða aðeins með að fá taugaáfall og opna út til að athuga hvaðan þessi lykt er ættuð. Sé ég þá að glóð rignir yfir húsið og virðist koma að sunnan.
Ég loka hurðinni í rólegheitunum og hugsa með sjálfum mér að ég þurfi þá andskotann ekkert að ryksuga því nú sé kveiknað í. Mér léttir svolítið við þetta, en ákveð að halda út í veðrið til að athuga hvort ég þurfi ekki að bjarga nokkrum konum og fáeinum börnum úr brennandi byggingunni. Ég hef mig til og stumra í hinn endann á húsinu og mæti þar nágrönnum mínum, sem ég hef reyndar aldrei áður hitt.
Ég spyr konuna hvort kveiknað sé í. Konan, sem ég hef grunaða um að spila Gvend á Eyrinni og Bjartmar Guðlaugsson þegar hún fær sér í aðra tánna, segir mér að ekki logi í húsinu, heldur sé arnininn á Hótel Holti flippaðasti arinn á öllu Íslandi, og úr honum gangi glóðirnar yfir allt hverfið. Ég með naumindum kemst aftur inn í íbúðina mína og tek til við að ryksuga.
Að öðrum málum.
Húsfundur á Óðinsgötu:
Fundinn sátu Sigurður Einarsson og Þórkatla köttur.
Helstu mál: Gosdrykkja og þá sérstaklega af þeirri tegund sem inniheldur aspartame. Önnur mál.
Var ákveðið að leggja blátt bann á alla neyslu gosdrykkja sem innihalda eiturefnið aspartame. Sigurður talaði um kosti og galla þess að vera alltaf að sötra gos. Hann sagði að aspartame gerði fólk snarvitlaust í skapinu og hefðu vænstu menn orðið að drepurum, við það eitt að drekka gos sem inniheldur þennan óþverra. Tillagan var samþykkt með öllum atkvæðum.
Þórkatla hafði orð á því að sér finndist að það ætti að vera grillaður kjúklingur úr Nóatúni í öll mál. Sú tillaga var felld, hótaði Þórkatla þá að láta sig hverfa í viku, eða jafnvel lengur. Fór þá Sigurður Einarsson næstum að gráta og lofaði að hér yrði ekki boðið upp á neitt annað en kjúkling úr Nóatúni.
Fundi slitið.
Svona er lífið í Þingholtunum.