SiggiSiggiBangBang

Flippaðasti arinn í öllum Þingholtunum

Feb
09

Undirrituðum er umhugað um að hafa skæslegt heima hjá sér og á það til að eyða heilu og hálfu föstudagskvöldunum í að punta og gera fínt. Þetta föstudagskvöld var ekkert frábrugðið öðrum föstudagskvöldum og þrátt fyrir að blíðviðrið drægi aðeins úr framkvæmdagleðinni taldi ég rétt að vopnast ryksuginni og soga upp ló sem safnast hafði í einstaka hornum.

Ryksugan mín til tuttugu og tveggja ára af Hitachi gerð, er geymd fram á gangi, og þar sem ég opna hurðina til að ná í hana, mætir mér sterk brunalykt. Ég ákveð að bíða aðeins með að fá taugaáfall og opna út til að athuga hvaðan þessi lykt er ættuð. Sé ég þá að glóð rignir yfir húsið og virðist koma að sunnan.

Ég loka hurðinni í rólegheitunum og hugsa með sjálfum mér að ég þurfi þá andskotann ekkert að ryksuga því nú sé kveiknað í. Mér léttir svolítið við þetta, en ákveð að halda út í veðrið til að athuga hvort ég þurfi ekki að bjarga nokkrum konum og fáeinum börnum úr brennandi byggingunni. Ég hef mig til og stumra í hinn endann á húsinu og mæti þar nágrönnum mínum, sem ég hef reyndar aldrei áður hitt.

Ég spyr konuna hvort kveiknað sé í. Konan, sem ég hef grunaða um að spila Gvend á Eyrinni og Bjartmar Guðlaugsson þegar hún fær sér í aðra tánna, segir mér að ekki logi í húsinu, heldur sé arnininn á Hótel Holti flippaðasti arinn á öllu Íslandi, og úr honum gangi glóðirnar yfir allt hverfið. Ég með naumindum kemst aftur inn í íbúðina mína og tek til við að ryksuga.

Að öðrum málum.

Húsfundur á Óðinsgötu:
Fundinn sátu Sigurður Einarsson og Þórkatla köttur.
Helstu mál: Gosdrykkja og þá sérstaklega af þeirri tegund sem inniheldur aspartame. Önnur mál.

Var ákveðið að leggja blátt bann á alla neyslu gosdrykkja sem innihalda eiturefnið aspartame. Sigurður talaði um kosti og galla þess að vera alltaf að sötra gos. Hann sagði að aspartame gerði fólk snarvitlaust í skapinu og hefðu vænstu menn orðið að drepurum, við það eitt að drekka gos sem inniheldur þennan óþverra. Tillagan var samþykkt með öllum atkvæðum.

Þórkatla hafði orð á því að sér finndist að það ætti að vera grillaður kjúklingur úr Nóatúni í öll mál. Sú tillaga var felld, hótaði Þórkatla þá að láta sig hverfa í viku, eða jafnvel lengur. Fór þá Sigurður Einarsson næstum að gráta og lofaði að hér yrði ekki boðið upp á neitt annað en kjúkling úr Nóatúni.

Fundi slitið.

Svona er lífið í Þingholtunum.

Sinfóníuhljómsveit lýðveldisins misþyrmt

Feb
08

Atli Heimir komst upp með að misþyrma Sinfóníuhljómsveit lýðveldisins fyrr í kvöld, – með renniskít sem hann lét hana dæla inn í hlustir uppástrílaðra góðborgara. Ég sé allavega enga frétt um að honum hafi verið skellt í gólfið í lok tónleikanna og hann sprautaður með rotskammt af Haldol , svo ég geri ráð fyrir að hann hafi komist undan með hlussufeitt egóið sitt. Elskuleg vinkona, bekkjarsystir og andlegur leiðtogi minn Magga Best dróg mig með sér á þessa tónleika, og kann ég henni bestu þakkir fyrir. Sinfóníuhljómsveitin er afskaplega glæsileg og þótti mér mikið til um. Hvernig Atli Heimir fær afnot af henni er mér hinsvegar hulin ráðgáta. Kannski hefur hann eitthvað á forstjóra Sinfóníunnar, ég tel það líklegustu skýringuna.

Þegar liðið er á sýninguna, fer ég að skima um eftir klarinett. Það er sama hvað ég skima og píri augun, ekkert klarinett virðist vera á sviðinu. Þegar ég er búinn að leita af mér allan grun, verð ég alveg skelfilega miður mín og dreg umsvifalaust þá ályktun að Sinfóníufólkið hafi haft veður af því að ég er að læra á klarinett og hafi því ákveðið að hætta tafarlaust notkun á því.

Ég horfi á Möggu, sem situr við hliðina á mér og tyggur Tópas. Ég ætla ekki að þora að nefna þetta, en get mig svo ekki hamið og hnippi í hana.
Magga mín Best, segi ég aumingjalega, einhver hefur kjaftað því í Sinfóníuna að ég sé að spila á klarinett, nágrenni mínu til ama og leiðinda og ákveðið þess vegna að klarinett sé gersamlega úr móð.
Magga mín Best, sem er vel gefin kona, hlær að mér og segir að þetta sé nú bara vitleysa í mér, að þeir þarna á efri pöllunum séu með klarinett. Nei, þeir eru ekki neitt með klarinett, segi ég með grátstafinn í kverkunum, þeim finnst klarinett vera ömurlegt hljóðfæri eftir að ég fór að blása í það. Það liggur við að ég rjúki bara út, en ákveð að gera það ekki, því þá þarf ég að fara í gegnum mannmergðina, og ég var búinn að koma auga á fullt af fólki sem mig langaði ekkert til að heilsa og brosa til.

Magga mín Best, lætur sem ekkert sé, og heldur áfram að tyggja Tópas. Allt í einu, eins og um galdra sé að ræða, tek ég eftir, ekki einu klarinetti, heldur tveimur. Ég verð ægilega glaður á örskömmum tíma og anda léttar vitandi af því að Atli Heimir fær að vera með klarinett, til að fullkomna djöfulsins garnagaulið sem hann samdi fyrir okkur íslensku smáborgaranna, eins og það var svo pent orðað í dagskránni.

Þórkatla snýr aftur

Feb
06

Mikið hefur mér þótt lífið skelfing leiðinlegt síðan Þórkatla yfirgaf mig fyrir rúmlega viku síðan. Ég hef eiginlega bara ekkert gert, nema grátið. Mér leiddist svo ægilega að ég varð mér út um gubbupest, til að hafa ofan af fyrir mér þegar söknuðurinn var næstum eða gera út af við mig.

En undur og stórmerki. Rétt rúmlega fjögur í nótt heyri ég þrusk fram í eldhúsi. Ég hugsa með sjálfum mér, þar sem ég ligg andvaka, að líklega sé þetta feitahlussukisinn sem ég greip glóðvolgan, fyrr í vikunni, étandi mat sem ég hafði til handa Þórkötlu ef ske kynni að hún rataði aftur heim til sorgmæddasta íbúa Óðinsgötunnar..

Ég nenni ekki fram úr og held áfram að reyna að festa svefn, en heyri að þruskið nálgast svefnkompu mína. Forvitni mín eykst, en mér þykir þó vissara að setja mig í stríðsstellingar, ef þetta er skítuga feitahlussukisan og hún gerist svo djörf að stökkva upp í það allra heilagasta.

Áður en ég fæ nokkuð að gert, er næturgesturinn kominn upp í rúm, og er farinn að fikta eitthvað í bréfi utan af beiskum brjóstsykur sem hefur glatt mig, meðan ég ligg fyrir og les. Ég sest upp í rúminu og þegar ég sé að þetta er hún Þórkatla mín, fer hjarta mitt samstundist að dæla hamingju inn í lagnakerfi sálu minnar.

Elsku besta Þórkatla mín, söngla ég ölvaður af júforíu. Hún svarar mér ekki og ég geri mér grein fyrir að ég verð að hafa hraðan á og gefa henni gúmmilaði, áður en að hún yfirgefur mig enn á ný og skilur mig einan eftir í þessum grámyglulega heimi, fullum af þóttafullum moggabloggurum og viðbjóðslegum hnökkum sem sötra sponsoraða drykki.

Ég sprett á fætur, og rýk fram í eldhús. Svo vel vill til að ég á djúpsteiktar rækjur sem ég keypti dýrum dómum af okraranum Herra Nings á Suðurlandsbraut, en hann hefði betur selt mér mat á kostakjörum, þá kannski hefði ekki kveiknað í rassaborunni á honum. Einnig átti ég harðfisk, sem fallega hórkonan hún Frú Sigríður færði mér, þegar gubbulaðið mitt stóð sem hæst. Þetta tvennt hef ég til á disk handa fagrasta ketti allrar veraldar, sem heitir í höfuðið á prýðilegasta tannlækni sem um getur.

[MEDIA=108]

Hér má sjá Þórkötlu fyrr í dag. Hún er vel mett og ef lagt er við hlustir má heyra hana mala um ágæti þess að vera í fæði á Óðinsgötunni. En hvar var hún í rúma viku? Það veit enginn nema Gvuð.

Dauðinn

Feb
05

Fólki finnst ég stundum eitthvað lítið jákvæður í skrifum mínum og hefur óskað eftir að ég skrifi eitthvað um fegurð lífsins. Ég hef því ákveðið að skrifa fáeinar línur um dauðann og hvernig sé best að haga málum eftir að dauðann ber að garði.

Ég persónulega kvíði ekki dauðanum, kannski vegna þess að mig grunar að ég verði miklu eldri en ég kæri mig um að verða og því töluvert í að ég segi bæ bæ. Ég horfi þó til þess með hryllingi, allt umstangið sem kann að verða í kringum skrokkinn á mér eftir að ég hverf á vit feðra minna.

Ég hef því lagt höfuðið í bleyti, ekki til að drekkja mér heldur til að finna lausn á þessu áhyggjuefni mínu. Lausnin er lítið snjallt júnit, eða infrastrúktúr, sem komið er fyrir á heppilegum stað í líkamanum. Þegar svo litla snjalla júnitið verður þess áskynja að hjartað hefir ekki starfað sem nemur fjórum mínútum, þá setur það af stað mjög svo snyrtilega sprengju þannig að líkamlegar leifar hins nýdauða fuðra upp í örlítilli flugeldasýningu.

Júnitið er ekki fulluppfundið í mínum huga, því hægt væri að bæta við fleiri skemmtilegum eiginleikum. Tildæmis gæti júnitið spilað mp3 sem innihalda nokkur vel valin orð um ágæti þess sem er verið að stimpla út, sent sms til aðstandenda, og að því búnu leyst viðkomandi upp í öreindir.

Með tilkomu svona uppfinningar, er engin ástæða til að hafa áhyggjur af því í lifanda lífi, hvort manni verður holað niður í kristilegum garði, líkið notað í listaverk, að maður verði fórnarlamb Dr. NecroPhil, hvaða tegund af kistu verði keypt, hvort margir mæti í útförina, osfrv, og þar fyrir utan yrði ég vellauðugur á þessari uppfinningu og gæti keypt mér Range Rover, sem er eins og allir Íslendingar vita farartæki hamingjunnar.

Hafa skal í huga að þessi bloggpistill var skrifaður á öðrum degi í gubbulaði.

Pest

Feb
04

Ég held ég hljóti að vera ræfilslegasti maðurinn í gervöllu póstnúmerinu. Upp úr þrjú í nótt, vaknaði ég með slæmsku í maganum mínum. Til að hafa ofan af fyrir mér, hófst ég handa við að gubba sem nemur 10 kílóum af allskonar kræsingum sem ég hef rennt niður það sem af er ári. Þeir sem mig þekkja, vita að ekkert kætir mig eins mikið og að missa fjöldan allan af kílóum, við frekar litla áreynslu, þó svo að sum gubbulaðiköstin hafi verið svo heiftarleg, að ég hélt á tímabili að ég hefði hafið ferð mína inn í eftirlífið. Í eftirlífinu er gaman að vera til, þar er ekkert gubbulaði, enginn sjónvarpsþáttur sem heitir Silfur Egils, engin aukakíló og ekkert moggablogg. Þannig er nú eftirlífið.

Eftirfarandi gerðist á heimili mínu þegar….

Feb
01

mér bárust fréttir af því að Ellý Ármanns er hætt með Sviðsljósið á mbl.is.

[MEDIA=107]

Dr. Phil er ógeðskallinn

Jan
31

Andskoti er ég hræddur um að Gvuð hafi tekið út á sér tittlinginn og löðrungað Dr. Phil með honum. Hvern hefði grunað að þessi geðugi maður, sem borið hefur svo mikla umhyggju fyrir drulluskítugu sálarlífi mannskepnunnar, að hann sjálfur hafi verið staðinn að því að þukla á sér ógeðið, einhvers staðar þar sem hann átti síst að vera að þukla á sér ógeðið.

Þessi fallegi innréttaði maður, sem er svo sannfærandi, að hann hefur átt nokkrar grenningarbækur á metsölulista, þrátt fyrir að vera sjálfur kjagandi til og frá út af spiki. Til þess þarf mikla snilligáfu. En þó hann pretti heimska mannskepnuna, þá blekkir hann ekki Gvuð, eða Jesúbarnið. Gvuð hefur fundist Dr. Phil ganga of langt, þegar hann reyndi að auka áhorf á þættinum sínum með að þykjast ætla að bjarga Britney minni Spears úr kúkakleprakynlífsheiminum. Þá barði Gvuð í borðið upp á himninum og sagði hingað og ekki lengra, það er orðið tímabært að skrúfa fyrir Dr. Phil, sagði Gvuð. Já, ég ýkji ekki.

Þannig gerast nú hlutirnir í heiminum hans Gvuðs. Eftir að hafa leyft öllum þjökuðu ameríkönunum að gráta á öxlinni sinni, verður auminginn hann Dr. Phil að pakka saman draslinu sínu og hypja sig þangað sem fallnar stjörnur með renniskít hypja sig.

Mikið hvað það gleður sálu mína að Dr. Phil er búinn að vera.

Ég var að hugsa um að hafa mynd af honum við þessa færslu, en eftir að hafa skoðað nokkrar myndir þessum manni varð mér illt í maganum mínum.

Geðheilsa

Jan
29

Ef undurfagurt vefsetur mitt væri notað til að gera úttekt á geðheilsu minni, þá er ekki ólíklegt að ég yrði ráðinn til embættisstarfa.

Yndisleg tónlist

Jan
29

Mér var send þessi gersemi í flugpósti. Ég veit eftirfarandi um þessa hljómsveit: Þau kalla sig WE HAVE NO TV: NOT QUITE PUNK, eða er það nafnið á disknum? Ég er ekki viss. Kannski heitir hljómsveitin WE HAVE NO TV og diskurinn NOT QUITE PUNK, ég er tel það reyndar líklegt. Þau sjálf heita , eða kalla sig, Pete, Mole og A-K, búa í kommúnu í London, borða grænmeti, eiga ekki sjónvarp, eru friðelskandi, trúa á ástina og tedrykkju. Fallegt, ekki satt. Ætli verði einhvern tímann aftur jafn mikil vitundarvakning og á sjöunda áratugnum, og þá án vímuefna?

Lagið heitir Think, Keep Thinking.

[MEDIA=105]

Nótt í borg hinna dauðu

Jan
27
[MEDIA=104]

Á Þúskjá.

Fígúran sem lék í myndbandinu mínu Borgin Brennur hefur náð ótrúlegum vinsældum á Þúskjá fyrir tilstilli monitor.is. Hef ég því tekið ákvörðun um að hún leiki aðalhlutverk í öllum mínum myndböndum héðan í frá. Og þar sem mér dauðleiddist svo skelfilega í dag, settist ég niður við tölvuna mína fínu og bjó til þetta myndband um hvernig er að vera einn og yfirgefinn í ástlausum heimi, þar sem enginn skilur mann.

Fáein orð um Public Domain.
Til er fjöldinn allur af kvikmyndum í flokknum Public Domain á archive.org. Þegar eitthvað fellur undir þann flokk, hvort sem það er ritmál, mynd, eða hljóð, þýðir það að hver sem er getur tekið efnið og gert það sem hann lystir við það. Meðfylgjandi myndband um ást og umkomuleysi er búið til með atriðum úr frægustu mynd George A. Romero: Night Of The Living Dead, sem einmitt tilheyrir þessum flokki.

Meira um Public Domain á Wikipedia.

Líklega hefði undirritaður betur farið út úr húsi í dag.

Hugsuðurinn

Jan
25
monkey.jpg

Fólk sem lætur mynda sig í þessari stellingu, er einfaldlega ekki treystandi. Eiga þarna í hlut svokallaðir Sukkópatar og Mónólókar. Stórhættulegir og lítið annað að gera en að hlaupa á brott, eins og fætur toga, áður en þeir sjúga úr manni lífslöngunina með óþolandi kjaftablaðri og sjálfumgleði sem ekki einu sinni Jesúbarnið myndi fyrirgefa. Verið vakandi fyrir þessari tegund manna, því þeir leggja kapp á að fylla ykkur af allskonar fasískum óþverraskoðunum, sem ganga út á tortímingu ástarinnar. Ef ég væri andstyggilegt svín, setti ég beinan tengil á þessa menn, en þar sem ég er sérstakur talsmaður ástarinnar læt ég það ógert. Ég vil þó sérstaklega vara við ormagryfju moggans, en einnig ber mér skylda að upplýsa að sumir þeirra hafa slæðst inn á lista hjá blogg.gattin.net .

———-

Yfir í aðra sálma.

Þessi útlistun doktorsins er undurfalleg:

Mér sýnist aðallega blóðlaust fólk með uppþornuð kynfæri kalla lætin í Ráðhúsinu “skrílslæti”.

Þarna glittir í nefið mitt

Jan
24

radhus_motmaeli.jpg Eins og sjá má glögglega á þessari mynd, lét ég ekki mitt eftir liggja í mótmælum dagsins. Ef vel er að gáð, má sjá í hringnum stóra fína nefið mitt, sem víðfrægt er hérlendis sem erlendis. Nefið hefur vakið athygli hvarvetna sem það hefur stungið sér niður. Mótmælin voru sérstaklega hressandi og úúú-aði ég og óóóó-aði, eins og fagmaður í ú-i og ó-i. Einnig klappaði ég saman höndum eins og vistmaður í dagsleyfi og hrópaði einstaka slagorð. Ég verð að viðurkenna að þeir sem með mér voru, voru ekki alveg að standa sig í ú-inu, það vantaði alla ruþma og melódíu í það.