Ég ætla að gera vísindalega tilraun á sjálfum mér sem felst í því að hætta að fylgjast með fréttum í heila viku. Megnið af því sem birt er í fréttum er verðlaust niðurdrepandi rusl, sem kemur engum til góða, nema þeim sem hafa atvinnu sína af að búa til uppfyllingarefni fyrir fréttaveitur. Ég tek sem dæmi, nokkrar fréttir af formföstum og drepleiðinlegum morgunblaðsvefnum.
“Bush ætlar að skoða skógareldasvæðið í Kalíforníu”
Ég kemst vel í gegnum daginn án þess að vita hvað þetta djöfuls fífl gerir og segir.
“Bæjarráð vill kaupa 5% hlut í stofnfé Sparisjóðs Vestmannaeyja”
Mér er andskotans sama um Vestmannaeyjar og Sparisjóðinn þeirra.
“Naumt tap gegn Dönum”
Ég hata fótbolta og Dani, svo þessi frétt gerir ekkert nema pirra mig.
“82 ára gömul brúður er látin”
82 ára gömul kona giftist 24 ára gömlum manni og geyspar golunni. Drepleiðinlegt og ógeðslega depressing.
“Kidman bætir á sig”
Jú, þetta gæti skipt sköpum fyrir mig og andlega heilsu mína. Ég má ekki til þess hugsa að Nicole Kidman verði að einhverju fituhlassi sem engum þykir vænt um.
“Leita móður fimm ára breskrar stúlku sem féll af hótelsvölum á Mallorca”
Ömurlegt, gagnslaust og niðurdrepandi.
“Hverjir stela mjólkurbrúsa?”
Nú garga ég!
“Zellweger segist vera sátt við að vera ógift”
Arggghhhhhhhhhh
Ég veit ekki um neinar fréttir sem kveikja í mér jafnmikið vonleysi og ömurð eins og linnulausar fréttir af Madeleine og foreldrum hennar. Hvað er búið að flytja okkur fréttir af þessu máli í langan tíma? Einni frétt of mikið. Ein frétt af þessu til viðbótar og ég kveiki í Óðinsgötunni.
Að láta af fréttum í viku er áskorun fyrir mig, því það heyrir til undantekningar að ég missi af fréttatíma. Ég er þó viss um að lífssýn mín verði mun fallegri fyrir vikið.