“Lying is the currency of the world!”
Ég veit ekki með þessa línu úr myndinni Closer. Það að ákvarða að fólk yfir höfuð segi ósatt eða snyrti til sannleikann eftir behag, er að mínu mati ósanngjarnt gagnvart þeim sem að reyna eftir fremsta megni að lifa lífinu í heiðarleika gagnvart sjálfum sér og öðru fólki.
Ég mæli hikstalaust með myndinni. Ég viðurkenni að ég varð eilítið afhuga henni, sökum þess hversu mikið Jude Law er inn þessa daganna, en myndin var alveg til sérstakrar prýði og þá kannski sér í lagi fyrir viðbjóðslegt sálarlíf mitt þessa daganna. Þess ber að geta að ég þoli ekki hluti sem að eru í tísku. Þess vegna las ég ekki DaVinci lykilinn, sá ekki Titanic, eða fer á hráfæði eða í runkbindindi, sem er að mínu mati magnaðasta trend-ið sem gengið hefur í akademíunni.
Closer fer ofan í saumana á ástarsambandi fjegurra persóna staðsettum í Lundúnarborg. Öll halda þau á einhverjum tímapunkti að þau hafi allt í hendi sér og þau séu svo gott sem ósigrandi. Boðskapurinn er sá að raunveruleg ást sé einungis tímabundið hugarástand sem deyr kvalarfullum dauðdaga þegar fólk fær sínu framgengt í allri sinni djöfuls andstyggð.
Ég náttúrulega samþykki það. Ég meina, – ekki er ég fólk.

Hún situr enn pikkföst í mér þessi magnaða mynd. Mér tókst að hlæja mig vitlausan yfir sársaukafyllstu atriðinum. Ég held samt sem áður að salurinn hafi ekki fylgt mér eftir í sumu af því sem mér þótti alveg sérstaklega fyndið. Uppáhaldssenan mín er án efa þar sem hann neyðist til að tala við fyrrum eiginkonu sína og núverandi eiginmann. Sársaukinn og viðbjóðsleg líðanin lekur af honum í þessu atriði. Paul Giamatti handleikur angist sögupersónu sinnar af einstakri fagmennsku. Það hvarflar aldrei að manni annað en að hann hafi upplifað alla þessa niðurlægingu sjálfur.
Til eftirbreytni í mannlegum samskiptum.
Nytjapunktar í mannlegum samskiptum.
Einu sinni sem oftar varð mér það á að reyna fyrir mér í mannlegum samskiptum. Þolandinn að þessu sinni var alveg ágætis kona sem vinnur á bókasafninu. Ég hitti hana fyrir í hádeginu og tók upp létt hjal við hana. Einhverra hluta vegna barst hjalið að auglýsingum umferðarstofu og ég gat ekki á mér setið og sagði blessaðri konunni að þetta væru frá mínum bæjardyrum séð alveg bráðfyndnar auglýsingar. Ég lét mér ekki nægja að viðra þessa skoðun mína heldur lýsti ég því á myndrænan hátt þegar fulli frændinn kastar krakkanum út í vegg eftir að hafa sveiflað honum hring eftir hring. Að því búnu hló ég hysterískum hlátri og titraði af ánægju.
Í þau örfáu skipti sem að undirritaður hefur verið við kvenmann kenndur hafa munnleg samskipti verið iðkuð. Ég á þá við samskipti af þeim toga sem framkvæmd eru með því að annar aðilinn hvetur til aukinna kynna með því að opna fyrir einhverja umræðu. Umræðan þarf í raun og veru ekki að vera hástemmd eða vísindaleg að neinu leiti. Viðfangsefnið gæti verið svo til hvað sem er, svona svo lengi sem að annar aðilinn kemur ekki út þannig að honum finnist hann vera feitari eftir umræðuna heldur en fyrir hana. Það er þó hægt að koma í veg fyrir það að maður þurfi nokkurn tímann að kynnast maka sínum eða kærustu, til þess var sjónvarpið fundið upp. Hvers vegna kemur mér þetta í hug á þessari líka örlagastundu. Það er kannski vegna þess að mér er það í fersku minni hversu skelfileg þessi samskipti geta verið.
Við hér er látum okkur málið varða heimtum fréttir frá Memphis. Þannig er mál með vexti að fyrir rúmum mánuði flutti góðvinur minn hann Rúnar J. frá Alaskaskaska til Elvis byggðarinnar Memphis. Enginn hérlendis hefur hinsvegar orðið hans var, en ég veit þó að hann á það til að kíkja hér inn á litla sæta vefinn minn. RÚNAR!!! Ef þú sérð þennan veflók láttu okkur endilega vita hvernig lífið leikur þig á þessum nýja samastað.
Hér er svo fallegt blóm sem heitir dalía. Þess ber að geta að undirritaður ólst upp í dalíuhafi dauðans fyrir sunnan og norðan skítalæk. Pabbi sem var mikill áhugamaður um allskyns blómarækt sá til þess að við krakkarnir værum umkringd blómum og trjám í fallegasta garðinum í allri Löngubrekkunni.