Tilvistarspurningar

Tilvistarspurningar naga anda minn. Ég skil ekki hvaðan þær koma, eða hvers vegna þær hringla í hausnum á mér. Ég er viss um að ég er mun meira kvalinn af tilvistarspurningum, en næsti maður. Næsti maður virðist sáttur svo lengi sem hann fær tóm til að éta, horfa á sjónvarp og ganga örna sinna. Enginn maður hugsar jafn mikið um fallvaltleika tilverunnar og ég. Nepjulegt tilgangsleysi mannskepnunnar, sem berst í bökkum, til þess eins að öðlast viðurkenningu meðbræðra sinna, sem svo sjálfir berjast í bökkum til að öðlast ámóta viðurkenningu. Lífsspeki mín er stundum skítköld og á köflum andfélagsleg.

Ég er viss um að einhver sálarinnar sérfræðingur ætti ekki í miklum erfiðleikum með að klístra merkimiða á afstöðu mína til lífsins. Í lífinu kemst enginn af án þess að finna heppilegan merkimiða til að klína á brothætta ímynd sína. Og hvað er ímyndin annað en lygaþvæla sem maður kappkostar við að aðrir trúi. Ef aðrir gleypa við þvælunni, þá kannski á endanum trúir maður sjálfur vitleysunni.

Allt er þetta góðra gjalda vert og nærandi fyrir sálarlífið. Gallinn er að sá, að þegar ég er svona þenkjandi, þá á ég ákaflega bágt með að vera með í þykjustunnileiknum sem okkur fullorðna fólkinu er uppálagt að taka þátt í. Og þetta kom greinilega í ljós, þar sem ég neyddist með þetta hugarfar að sækja afmælisveislu innan ættarinnar, sem er mun fallegri en mig minnti. Þar var ég gersamlega á flæðiskeri staddur.

Hefði ég mátt vera ég sjálfur í veislunni þá hefði útkoman orðið eitthvað á þessa leið:

Ættingi: Komdu sæll Sigurður minn. Ég hef ekki séð þig í 20 ár. Hvað ertu að gera?
Siggi Siggi Bang Bang: Mannskepnan hefur frá dögun mannkyns, reynt að skilgreina sjálfan sig í gegnum stöðu sína í samfélaginu. Þetta má glögglega sjá á legsteinum manna, sem oftar en ekki eru skreyttir með starfstitli, sem sönnun á því að sá hinn grafni hafi ekki lifað til einskis. Það skýtur skökku við að reyna að skilgreina sjálfan sig út frá atvinnu. Það er hátindur tilgangsleysisins. Hvernig maðurinn vinnur fyrir sér og aflar sér tekna hefur ekkert með það að gera hver hans innsti kjarni er. Og þegar öllu er á botninn hvolft, er öllum alveg skítsama hvort þú varst múrari eða skipstjóri í hinu lifanda lífi. Á endanum eru starfstitlar eða stéttarstöður ekkert nema stafir á legstein.
Ættingi: Ehhhhh, ehhhhhh, ahhhhhh.
Siggi Siggi Bang Bang: Afhverju er ekki letrað á legsteina hvernig manneskja viðkomandi var? Sem dæmi: Hér liggur Sigurður Einarsson, hann var hjartahreinn og velviljaður maður, sem reyndi og reyndi, en mistókst. Eða: Sigurður Einarsson bakaði fyrirtaks speltbrauð og flautaði eins og rauðbrystingur.

Ég veit ekki hvernig þessum ættinga mínum hefði orðið við, hefði ég svarað honum með þessum hætti. En í raunveruleikanum flissaði ég eins og skólastelpa, roðnaði og óskaði þess að ég væri einhversstaðar annars staðar.

E.S. Ég reyndar verð að viðurkenna að mér finnst svolítið gaman að vita hvað fólk gerði meðan það lifði. Það er þó eftirtektarvert að legsteinar kvenna, bera yfirleitt enga titla. Jú, á einstaka legstein eru konur titlaðar sem húsmæður.

14 thoughts on “Tilvistarspurningar”

 1. Starfstitlar manna eru oftar en ekki góð samantekt á hvernig mann þeir höfðu að geyma og lýsa í stuttu máli hvaða hlutverk þeir völdu sér í lífinu.
  Kannski er lífið ekkert merkilegra fyrirbæri en svo að tilgangurinn sé að finna sér grundvöll til að fá að þjóna samferðafólki sínu sem best.

  Þórbergur t.d er enn þann dag í dag að stytta fólki eins og þér stundir í gegnum ritverk sín og því full ástæða til að minnast hans fyrir þá þjónustu sem hann í lifanda lífi svo ötullega veitti.

  Rassgat

 2. Þannig að ef ég veit að einhver starfaði sem lögfræðingur í lifanda lífi, að þá get ég gengið út frá því vísu að hann hafi verið óþverri. En múrari, hvernig mann hefur múrari að geyma? Eru múrarar tildæmis þekktir fyrir að vera vinveittir dýrum?

 3. Hvorutveggja múrarar og Lögfræðingar bjóða upp á sérhæfða þjónustu sem þú minn kæri gætir þurft á að halda, hefur þú annars eitthvað fyrir þér í því að Lögfræðingar séu óþverrar, nú eða múrarar óvinveittir dýrum?

 4. Þarf ég að svara þessari spurningu?
  Þú segir að starfstitill sé góð samantekt á hvaða mann e-h hafði að geyma, þess vegna spyr ég hvort ein starfstétt framar öðrum hafi eitthvað til að bera sem flokkast getur undir eftirsóknarverða mannkosti.
  Ég man eftir manni í Kópavogi, hann var formaður barnaverndar. Eftir dauða hans kom í ljós að hann var sjálfur barnaníðingur. Hvað mann hafði hann að geyma út frá starfstitli sínum?

 5. Helduru herra Hetja að það sé kannski skýringin á allri þessari endalausu tilvistarkreppu Segurðar að hann sé úr Kópavoginum?

 6. Í Hólavallakirkjugarði austanverðum er legsteinn sem á stendur Jón(ég man ekki hvers son hann var) stúdent.

  Maður klökknar náttúrlega yfir því að maðurinn hafi dáið í blóma lífsins, nýútskrifaður.

  Við nánari athugun sést að hann lést hátt á tíræðisaldri…

 7. Böööö
  Sigurður minn og þú sem varst að taka þátt í “þiðkistu” leikun síðast í dag kaupandi þér hamingju í formi líkamsræktarvélar, þú hefðir allt eins getað keypt þér kort í Laugum og farið í ljós.
  En hver hefur sitt, þín hamingja fellst í að vera óhaminjusamur og vertu nú einusinni haminjusamur með það.
  Ha nú er það opinbert!, ég er róni!

 8. Við Edda horfðum á sjónvarpið í kvöld:

  -mamma mín, hvað heitir þessi?
  -hann heitir guðni ágústsson.
  -hvað gerir hann?
  -hann er landbúnaðarráðherra.
  -hvað gerir hann?
  -hann er mikið í sveitinni með dýrum. kúm og svona.
  -jaáá.

  þetta er nýjasta spurningin hennar. “hvað gerir hann”. hún er þriggja… 😉

 9. Eitt sinn las ég sögu eftir Maupassant (í íslenzkri þýðingu, hvorki meira né minna) um mann sem verður vitni að því er hinir dauðu rísa úr gröfum sínum til að endurskrifa legsteina sína. Athyglisverð pæling.

Comments are closed.