SiggiSiggiBangBang

Michael Myers á sambýli fyrir geðfatlaða

Sep
09

Í nótt dreymdi mig að ég væri að vinna á sambýli fyrir geðfatlaða, ekki ólíku því sem ég vann á hér á árum áður. Einn af heimilismönnum var kolóði hálfmennski morðinginn úr Halloween: Michael Myers, og átti hann alveg ægilega bágt. Við sem þarna störfuðum vorum mjög smeykir við hann sérstaklega ef hann komst í hnífaskúffuna, því það endaði yfirleitt með að einhver var drepinn. Við vorum nokkur á vakt, enda Michael erfiður vistmaður. Félagar mínir fóru út að reykja, en ég varð eftir inni og var að matbúa þegar ég áttaði mig á að Michael var búinn að stela einum hnífnum úr hnífaskúffunni, sama hnífnum og ég ætlaði að nota til að skera niður grænmeti. Ég vissi ekki nákvæmlega hvar hann var staðsettur í húsinu og það var myrkur. Skelfing greip um sig og í gegnum svefninn fann ég hjartað hamast í brjósti mér. Í draumnum hljómaði þemalagið úr Halloween eftir snillinginn John Carpenter.

[media id=226]

Til gamans má geta þá var Halloween fyrsta hryllingsmyndin sem ég sá og kostaði hún mig ófáar andvökunætur. Ég hef verið eitthvað í kringum 12 ára gamall – ekki eldri.
Ég fæ reglulega martraðir, þar sem Norman Bates, Freddy Kruger eða Michael Myers hrella mig.

Smá fróðleiksmoli: Gríman sem Michael Myers er með, er Captain Kirk gríma.

Klippinámskeið á vegum hins opinbera

Sep
07

Þetta prýðilega myndband fann ég í gær þegar ég var að fara í gegnum gamla harða diska. Ég klippti það á klippinámskeiði sem ég sótti fyrir 6 árum, sem haldið var á vegum Vinnumálastofnunnar. Þegar Mike sá afraksturinn, leit hann á mig, reiddi fram höndina og sagði ofursvalur: “You’re hired!” Skömmu síðar fékk ég vinnu upp í Aka Demíu.

[media id=225 width=520 height=390]

Já, ég veit að það er aðeins eitt ell í solution – þetta eru ægilega mistök.

Manngerðir í fábrotnu vanþroska samfélagi

Sep
04

Það eru ekki margar manngerðir í fábrotnu samfélagi eins og á Íslandi og lítið rými fyrir frávik. Hér má sjá sömu týpurnar ráfa um göturnar og eru tvær allsráðandi: krútt og hnakkar. Krúttin eru annaðhvort á leiðinni í Listaháskólann, búinn með hann, eða hafa átt inni umsókn sem hefur verið hafnað. Hvað hnakkanna snertir, þá hef ég ekki hugmynd um hvaðan þeir komu, eða hvert þeir eru að fara. Hver er uppruni hnakkamenningarinnar? Hvað gerðist? Eitur í brjóstamjólkinni?

Hvað um það.

Hér eru allir alveg nákvæmlega eins. Spegilmyndin af hvorum öðrum. Til að lifa og þrífast í Reykjavík, verður þú að passa inn í einhvern hóp. Annars kemur þér til með að líða illa. Manngerðir á Íslandi eru kannski aðeins fleiri en tvær, en seint verður sagt að hér þrífist fjölbreytileiki eins og er að finna í stórborgum erlendis. Reykjavík er líka bara smábær, og ekki hægt að stíga út fyrir hússins dyr án þess að rekast á einhvern sem maður vill helst ekki hitta – og á ég þá ekki við að fólk sé fífl og þess vegna sé óskemmtilegt að hitta það. Stundum er bara gott að geta brugðið sér út í Krónu án þess að þurfa að varalita sig og setja sig í einhverjar sósjal stellingar.

Nú ríkir þynnkuástand á Íslandi. Sama hvað stendur í athugasemdakerfi eyjunnar: mér verður ekki um kennt. Ég keypti ekki íbúð á uppsprengdu verði, bíl upp á margar milljónir, þyrlu, flatskjá, eða tók nokkurn þátt í hinni svokölluðu veislu. Ég bjó spart. Keypti druslu sem nú er ónýt. Stofnaði ekki til skulda, en tókst heldur ekki að leggja fyrir, einhverra hluta vegna.

Síðustu misseri hefur þótt fínt að starfa á hlutabréfamarkaði, í bankageiranum, eða einhverri stofnun sem flytur peninga á milli herbergja. Gildi Íslendings var einskis virði ef hann átti ekki stóra íbúð eða hús sem búið var að rusla öllu út og setja nýtt og glæsilegt í staðinn, bíl undir 5 milljónum, hjólhýsi, dýr og flott föt og fyrirtæki sem eins og öll hin fyrirtækin fluttu peninga á milli fyrirtækja. Og ekki var þetta nóg til að gera hann að manni. Hann varð að tileinka sér “zero tolerance” eða “núll umburðarlyndi” gagnvart fólki sem ekki passaði inn í nýju íslensku glansmyndina. Já, allir sem öfluðu sér ekki tekna á peningamarkaðnum, eða urðu uppvísir af hálfkáki, eða stefndu ekki að því að ná hámarksárangri í lífinu, voru aular og áttu ekkert erindi upp á dekk.

Hámarksárangur, hvað svo sem þú tókst þér fyrir hendur. Kúka stærst. Fá kröftugustu fullnæginguna. Fara á flottasta fylleríið. Verða manna kókaðastur. Kókaðri en Fúll á móti, svo ég vitni í Sumarliða, sem ekki er bara fullur heldur líka með nasirnar útroðnar af kókaíni.

Lífið á Íslandi síðustu ár hefur verið eins og þátttaka í raunveruleikaþætti Donald Trumps: The Apprentice, og nú hafa allir nýríku fávitarnir verið sendir heim grenjandi.

Innskot: Vitið þið að til er fullt af fólki, sem bíður gramt eftir að ástandið lagist svo það geti haldið áfram uppteknum hætti.

En ég fengið nóg af þessu þjóðfélagi. Ég hef ekki í hyggju að eyða fleiri dögum hérna. Ég ætla ekki að taka þátt í þynnkunni og bömmernum sem þjakar þjóðarsálina. Ég segi því við ykkur sem voruð sem fyllst meðan á partíinu stóð: Njótið ávaxta erfiðis ykkar. Ég ætla ásamt heitmey minni að stíga um borð í Flugleiðavél og halda út í heim.

Gildi þess að tilheyra

Sep
03

brain

Þegar rætt er um kosti þess að vera hluti af, að tilheyra einhverjum fyrirfram ákveðnum hugmyndum, sem mögulega kasta ljósi á hver maður er og hvað maður stendur fyrir, finn ég fyrir smæð minni. Ég held ég hafi aldrei fundist ég vera hluti af einu né neinu sem maðurinn hefur diktað upp og hef ég þó mikið reynt. Ég hef aldrei upplifað: “ég er kominn heim” -tilfinninguna. Tilfinning sem mannfólkinu þykir nokkuð eftirsóknarverð.

Þessi staðreynd í mínum veruleika hefur þjakað mig frá því að ég man eftir mér, en núna í seinni tíð, þegar árin færast yfir, og hjartað kólnar(ég veit ekkert hvort hjarta mitt sé að kólna), finnst mér þráin eftir að tilheyra, hvort sem það er föðurlandi, hlaupahóp, stjórnmálaflokk, eða hvað það er – vera að leysast upp og jafnvel að hverfa. Ég er að komast á þá skoðun að þessi hugmynd eins og svo margar aðrar hugmyndir mannskepnunnar, er bölvað bull.

Mmmmmmm, þetta kaffi er óþverri, en samt drekk ég það.

Þar sem ég fékk mér kakókaffi upp í Aka Demíu, komst ég ekki hjá að heyra ungar konur ræða um gildi þess að tilheyra ákveðinni kreðsu. Hvaða skilyrði maður þyrfti að uppfylla til að geta sagt hnakkakerrtur að maður heyrði undir hana. Hvað það þýddi og umfram allt: hverjir hefðu á henni velþóknun.

Það eina sem mér kom til hugar var að ef hausinn á okkur er klofinn í tvennt getur að líta stórmerkilegt fyrirbæri sem lítur ekki ósvipað út og blómkálshaus. Þetta fyrirbæri, sem er eins í okkur öllum, notum við í að finna út hvaða hóp er eftirsóknarvert að tilheyra til að öðlast stöðu og virðingu annarra sem eru líka með svona blómkál í hauskúpunni sinni. Heil mannsævi fer í þennan eltingarleik. Svo deyjum við.

Lífið á Íslandi

Sep
01

Ég vakna hress og kátur, fullur af lífsorku, von og gleði. Ég trúi á mannkynið, að ofur-gnægð af kærleik sé til í heiminum, nóg til að sigra alla illa vætti. Ég hef fyrir venju að drekka stórt glas af mjólkurkaffi meðan ég athuga hvort eitthvað spennandi hafi flætt um kapla internetsins stóra og mikla meðan ég svaf. Fyrst fer ég á vef morgunblaðsins, síðan á vísi, ef ég er í stuði athuga ég dé vaff, en enda svo með að fara sem leið liggur á eyjuna. Eftir að hafa lesið nokkur hundruð athugasemdir, langar mig til að deyja eða drepa einhvern.

En nú eru tímamót framundan. Það verða tímamót, því ég hef ákveðið að nú verði tímamót. Þannig verða tímamót til.