Það eru ekki margar manngerðir í fábrotnu samfélagi eins og á Íslandi og lítið rými fyrir frávik. Hér má sjá sömu týpurnar ráfa um göturnar og eru tvær allsráðandi: krútt og hnakkar. Krúttin eru annaðhvort á leiðinni í Listaháskólann, búinn með hann, eða hafa átt inni umsókn sem hefur verið hafnað. Hvað hnakkanna snertir, þá hef ég ekki hugmynd um hvaðan þeir komu, eða hvert þeir eru að fara. Hver er uppruni hnakkamenningarinnar? Hvað gerðist? Eitur í brjóstamjólkinni?
Hvað um það.
Hér eru allir alveg nákvæmlega eins. Spegilmyndin af hvorum öðrum. Til að lifa og þrífast í Reykjavík, verður þú að passa inn í einhvern hóp. Annars kemur þér til með að líða illa. Manngerðir á Íslandi eru kannski aðeins fleiri en tvær, en seint verður sagt að hér þrífist fjölbreytileiki eins og er að finna í stórborgum erlendis. Reykjavík er líka bara smábær, og ekki hægt að stíga út fyrir hússins dyr án þess að rekast á einhvern sem maður vill helst ekki hitta – og á ég þá ekki við að fólk sé fífl og þess vegna sé óskemmtilegt að hitta það. Stundum er bara gott að geta brugðið sér út í Krónu án þess að þurfa að varalita sig og setja sig í einhverjar sósjal stellingar.
Nú ríkir þynnkuástand á Íslandi. Sama hvað stendur í athugasemdakerfi eyjunnar: mér verður ekki um kennt. Ég keypti ekki íbúð á uppsprengdu verði, bíl upp á margar milljónir, þyrlu, flatskjá, eða tók nokkurn þátt í hinni svokölluðu veislu. Ég bjó spart. Keypti druslu sem nú er ónýt. Stofnaði ekki til skulda, en tókst heldur ekki að leggja fyrir, einhverra hluta vegna.
Síðustu misseri hefur þótt fínt að starfa á hlutabréfamarkaði, í bankageiranum, eða einhverri stofnun sem flytur peninga á milli herbergja. Gildi Íslendings var einskis virði ef hann átti ekki stóra íbúð eða hús sem búið var að rusla öllu út og setja nýtt og glæsilegt í staðinn, bíl undir 5 milljónum, hjólhýsi, dýr og flott föt og fyrirtæki sem eins og öll hin fyrirtækin fluttu peninga á milli fyrirtækja. Og ekki var þetta nóg til að gera hann að manni. Hann varð að tileinka sér “zero tolerance” eða “núll umburðarlyndi” gagnvart fólki sem ekki passaði inn í nýju íslensku glansmyndina. Já, allir sem öfluðu sér ekki tekna á peningamarkaðnum, eða urðu uppvísir af hálfkáki, eða stefndu ekki að því að ná hámarksárangri í lífinu, voru aular og áttu ekkert erindi upp á dekk.
Hámarksárangur, hvað svo sem þú tókst þér fyrir hendur. Kúka stærst. Fá kröftugustu fullnæginguna. Fara á flottasta fylleríið. Verða manna kókaðastur. Kókaðri en Fúll á móti, svo ég vitni í Sumarliða, sem ekki er bara fullur heldur líka með nasirnar útroðnar af kókaíni.
Lífið á Íslandi síðustu ár hefur verið eins og þátttaka í raunveruleikaþætti Donald Trumps: The Apprentice, og nú hafa allir nýríku fávitarnir verið sendir heim grenjandi.
Innskot: Vitið þið að til er fullt af fólki, sem bíður gramt eftir að ástandið lagist svo það geti haldið áfram uppteknum hætti.
En ég fengið nóg af þessu þjóðfélagi. Ég hef ekki í hyggju að eyða fleiri dögum hérna. Ég ætla ekki að taka þátt í þynnkunni og bömmernum sem þjakar þjóðarsálina. Ég segi því við ykkur sem voruð sem fyllst meðan á partíinu stóð: Njótið ávaxta erfiðis ykkar. Ég ætla ásamt heitmey minni að stíga um borð í Flugleiðavél og halda út í heim.