SiggiSiggiBangBang

J’ai une âme solitaire.

Mar
22

Ég sat á Sólon Islandus fyrr í dag. Ég hef reyndar setið á einum þremur kaffihúsum í dag, sem er nokkuð mikið afrek fyrir mig á einum degi. Með mér var fólk, sem Gvuð hefur vandað sig alveg sérstaklega við að búa til. Þegar ég hugsa það, þá eru langflestir af þeim sem ég á samskipti við með fallegt hjartalag, nema kannski ________, sem er viðurstyggilegur viðbjóður.

Nema hvað, þarna sat ég á Sólon, og spjallaði við þessa vini mína, sem mér þykir, eins og fyrr segir – mikið til koma. Eitthvað var af efasemdum og depurð í hjarta mínu og þegar þannig er ástatt fyrir mér, panta ég mér mat, sem ég nota til að spartla í holuna í sálarlífi mínu. Fyrir valinu varð Minastrone súpa, afgreidd af þjónustukonu með afskaplega lögulegt nef, en ég er einmitt mikill áhugamaður um nef, og þá sér í lagi miðjarðarhafsnef, – sem eru með þeim glæsilegustu.

Inn kemur maður, sem ég sé stundum ganga göturnar. Hann er ekki fyllikall, heldur aðeins öðruvísi, en við hin, sem þykjumst vera svo heilbrigð í samanburði. Hann horfir yfir salinn, fórnar höndum og segir með hljómfagurri röddu, þannig að það fór ekki fram hjá neinum: Ég er einmana! Hann horfir spurnaraugum á gestina, og lætur hendurnar síga, eins og hann langi til að spyrja: Er ykkur alveg sama? Ég muldra: Þú ert ekki einn um það! Ég veit ekki hvort hann hafi heyrt til mín, eða hvort hann hafi veitt mér einhverja athygli, en áður en nokkur hafði tóm til að bregðast við, var hann á brott.

Eins og svo oft, þegar eitthvað undursamlegt gerist, kemur mér til hugar Biflían mín: Twin Peaks.

Harold Smith er haldinn hryllilegum fólksótta, sem er þess valdandi að hann fer aldrei út úr húsi. Laura Palmer vinnur fyrir heimsendingarþjónustu sem heitir Meals on Wheels, og er Harold Smith einn af þeim sem kaupir heimsendan mat. Laura finnur fljótt að henni stendur engin ógn af Harold, sem sjálfur er hræddur við allt og alla. Hún fer því smátt og smátt að treysta honum, og með þeim tekst vinskapur. Þegar Laura, finnst svo dáin í fjörunni, upplifir Harold þá mestu einmanakennd sem þjakað getur eina sál. Hann lýkur sínu lífi og skilur eftir miða, sem á stendur “J’ai une âme solitaire.”

[MEDIA=119]

Það sem gerðist svo á öðru kaffihúsi, seinna sama daga, er mér hulin ráðgáta. Lífið er mikið ævintýri.

E.S.
En það rangt munað hjá mér. Harold Smith var ekki með Social Phobia, heldur er hann með það sem kallast Agoraphobia, en það er hræðsla við að fá “panic attack”, á stöðum þar sem engrar undankomu er auðið. Þetta verður oft til að sá sem er haldinn þessari röskun, víkur ekki úr öryggi heimilis síns.

Og eftir að hafa rifjað aðeins betur upp þessa persónu, þá kemur í ljós að hann drepur sig ekki alveg beint í kjölfarið á dauða Laura Palmer, heldur verða svik Donna Hayward, til þess að hann fær nóg af okkar tilveru.

harold_smith.jpg

Hér er svo mynd af Harold og Donna.

Hryllilegir hlutir hafa gerst hér á Óðinsgötunni

Mar
18

Ég vaknaði upp hamingjusamur, glaður og frjáls – fékk mér espresso, las netrusl og fór því næst í sturtu. Vorið er komið og grundirnar gróa, söng ég hástöfum, meðan ég þreif mig. Ég sté út úr sturtuklefanum, þerraði mig og hugsaði með sjálfum mér: Best að stíga á vigtina, nú er ég búinn að vera svo temmilegur í sukkinu þessa vikuna, ég hlýt að hafa lagt af eitt, ef ekki tvö.

Garghhhhhh – $#%%/##$$%!$!#$.

Og á þeirri stundu var dagurinn ónýtur. Vigtin sýndi að ég hafði ekki lagt af, heldur bætt á mig heilum þremur kílóum. Ó, harmur lífs míns. Afhverju ég? Öhhhhhhh, ahhahhhahhah, með smá meira af öhhhhhhhhh.
Allan daginn, muldraði ég með sjálfum mér: Það á enginn eftir að vilja tala við mig, nú þegar ég er orðinn svona ægilega feitur. Andskotans Húsavíkur jógúrtið sem ég hef þambað alla vikuna, er svínfitandi. Ó, ó, ó, ég sem hafði svo mikið fyrir því að ná aftur anorexíulúkkinu sem fer mér alltaf svo ægilega vel. Nú, verður tekið á því. Majones og sékur bindindi þangað til að ég er farinn að lúkka nógu vel til að geta leikið í Schindlers List 2.

Í lok dags hljóp ég síðan 12 kílómetra, og þegar ég kom heim, steig ég aftur á vigtina, og var þá strax orðinn þremur kílóum léttari. Ég tók gleði mín umsvifalaust á ný.

Ég veit ekki hvort ég þori að skrifa þetta. – Jú, ég læt vaða. Þegar ég var að hlaupa, hálf grátandi yfir því hversu vondur fituguðinn er við mig, tók ég eftir gullfallegri konu í hjólastól. Hún var skælbrosandi að keyra stólinn sinn yfir þúfur og aðrar hindranir til að komast aðeins nær vinkonu sinni, sem stóð í fjörugarðinum. Þá skammaðist ég mín svolítið fyrir að hafa verið í fýlu í allan dag, bara út af því að vigtin var mér ósammála.

Viðurstyggilegur tónlistarsmekkur

Mar
17

shining3.jpgMaðurinn sem deilir með mér skrifstofu er með ógeðslegan tónlistarsmekk. Meðan ég auðga anda hans með Bob Dylan, David Bowie, Jefferson Airplane, Coco Rosie, Pixies, Cat Power, brýtur hann mig á bak aftur með endurtekinni spilun á drullukuntunni henni Enyu, Enigma, U2 og einhverjum spænskum vælukjóum sem ég til allrar guðs blessunar kann ekki nafn á.

Nú, get ég ekki haldið stillingu minni lengur – ég ræðst á hann með exi.

Bidda systir

Mar
16

Í síðasta bréfi sem Þórbergur skrifar Biddu systur, gerir hann sér grein fyrir að dauðinn er skammt undan og veltir því fyrir sér hvernig eftirlífið gangi fyrir sig á Bláu eyjunni. Þeir sem lesið hafa Sálminn, vita að Bláa eyjan er staðurinn sem við förum á þegar við deyjum; Bláa eyjan eða góðu sveitirnar. Í bréfinu ímyndar hann sér, að hann sé nýkominn til Bláu eyjunnar.
Á Bláu eyjunni er haldið manntal líkt og á jörðinni, nema þar er manntalið ekki notað sem uppflettirit fyrir málaflutningsmenn, fógeta eða sýslumenn. Hann fer að spyrja þá sem halda manntalið um Biddu systur, hvort hún sé komin á Bláu eyjuna, en fær þau svör að hún sé ennþá á jörðinni alveg sprellilifandi. Hann fær líka að vita að þó svo honum finnist hann vera nýkominn til Bláu eyjunnar sé hann í raun og veru búinn að vera þarna í 16 ár. Hann er undrandi á þessu tímaleysi.
Nokkrum mánuðum eftir að hann skrifar þetta bréf, deyr Þórbergur. 16 árum síðar deyr Bidda systir úr krabbameini.

Það var regulega gaman að sjá Lillu Heggu hjá Evu Maríu. Sálmurinn um blómið, er ein snjallasta lífsspekibók sem ég lesið. Einnig var dásamlegt að sjá fáein brot úr viðtali Magnúsar Bjarnfreðssonar við kallinn, en ég hef aldrei heyrt í honum né séð af honum hreyfimynd. Hér er brotabrot, í óþökk Ríkissjónvarpssins:

[MEDIA=118]

Sumar og hamingja

Mar
14

Ég hef legið í Summertime útgáfum síðan í gær, og út af því að Fóstradamus vinur minn nefndi Devendra Banhart í athugasemdainfrastrúktúrindexdatabasakerfinu, – þykir mér við hæfi að kunngjöra bloggheimum þessa fínu og flottu útgáfu með þessum æðisgengilega söngvara. Hann er ekki þarna einn á báti, því þetta vidjó prýðir alveg sérstaklega hæfileikaríkur nærbuxnadansari. Hann dansar satt best að segja ekkert ósvipað undirrituðum.

Andskotans snillingar.

[MEDIA=116]

Vorhret í lofti

Mar
13

6661i.jpgÍ þessari bloggþurrkuntutíð, ætla ég að tefla fram tveimur útgáfum af tvö þúsund og sex hundruð mismunandi útgáfum, sem til eru af laginu Summertime eftir George Gershwin. Einnig er þetta fyrsta lag sem ég skammarlaust lærði að spila á klarinettið mitt sáluga, og því óumflýjanlega eftirlætis lag nágranna minna, sem mér er frekar hlýtt til, eins og lesendum er fullkunnugt um.

Ég hef einnig spilað Summertime á nýja rauða klarinettið mitt, sem ég hef komist að með vísindalegum aðferðum að er ekkert annað en sorphljóðfæri. Ég hef því pantað þriðja klarinettið, á ebay, og þetta skipti ákvað ég að eyða aðeins meiri pening í þetta áhugamál mitt. Ég spurði sérfróða menn um þessa tegund klarinetta, af gerðinni Selmer, en ég spyr yfirleitt ekki sérfróða menn um eitt né neitt, því ég þykist alltaf vita allt betur, þangað til ég kemst að því að ég er búinn að pissa í buxurnar. Þetta klarinett er úr viði, en hin tvö sem ég á fyrir, eru úr ömurlegu plasti. Ég hlakka gríðarlega til að fá það upp í hendurnar, því ég hef aldrei prufað að spila á almennilegt klarinett. Já, þá verður gaman.

Með vor í hjartanu kynni ég Summertime, úr byrjunaratriði myndarinnar Porgy and Bess:

[MEDIA=114]

 

Svo í flutningi hinnar gullfallegu og jafnframt steindauðu Janis Joplin:

[MEDIA=115]

 

Þetta er ekki eina skiptið sem ég hef skrifað um Porgy and Bess. Hér er færsla um P&B, og ferð mína til Ameríku, en nú vill svo skemmtilega til að ég er að hugsa um að skreppa til Ameríku um páskana, til að skoða Tvídrangana.

Juno og Kimya Dawson

Mar
11

Ég og Magga frænka Best sáum þessa dásamlegu mynd, sem er drekkhlaðin tónlist Kimya Dawson, sem ég hef áður líst aðdáun á. Loose Lips er spilað undir kreditlistanum, og er lýrikin í þessu lagi, sem og flestum hennar lögum, alveg sérstaklega hnyttin og skemmtileg.

Hér er lagið, af plötunni Remember That I Love You:

[MEDIA=112]

 

Og svo fann ég þessa live útgáfu á þúskjá. Skemmtilegt er hversu hressilega fólk tekur undir í kaflanum þar sem hún syngur: Fuck Bush, and fuck this war. Gjörið svo vel:

[MEDIA=113]

Hér er textabrot úr viðlagi:
so if you wanna burn yourself remember that I LOVE YOU
and if you wanna cut yourself remember that I LOVE YOU
and if you wanna kill yourself remember that I LOVE YOU
call me up before your dead, we can make some plans instead
send me an IM, i’ll be your friend

Kimya Dawson hélt úti síðu, fyrir einhverju síðan, þar sem hún gaf upp símanúmerið sitt og heimilisfang – ef ske kynni að einhver hefði áhuga á að hringja, fara í heimsókn, eða senda henni línu. Hér er allavega bloggið hennar.

A man with face like harðfisk

Mar
10

Af engu sérstöku tilefni langar mig til að skrifa lítinn fallegan pistil um þurrkuntulegt viðmót okkar Íslendinga. Í þessum pistli reyni ég eftir fremsta megni að hljóma eins og maður sem er skör ofar en allir aðrir, og þess vegna vel til þess fallinn að koma auga á það sem betur mætti fara í okkar meingallaða samfélagi. Ég leitast við að stinga á þau graftarkýli samfélagsins, sem ég tel fullvíst að ég eigi ekki aðild að, og vegna þess að ég stend alltaf fyrir utan það sem ég gagnrýni, er mér fært að vera sérstaklega óvæginn í umfjöllun minni. Pistillinn, sem og flestir pistlar sem ég skrifa, verður drekkhlaðinn séríslenskri minnimáttarkennd. Inngangur hans útlistar hvað allir aðrir eru ennþá miklir fífl og fávitar, meðan ég sjálfur hef þroskast ríkulega.

Gjörið svo vel:

Grunnhugsun Íslendinga í samskiptum við meðbræður sína, er að þeir þurfi annaðhvort að ráðast á þá, eða verjast þeim. Hvort þetta sé arfleifð frá þeim tíma er þjóðin lap dauða og djöful, með tilheyrandi skammt af andskota og helvíti úr skel, vill ég ekki segja til um. Ég hef þó tekið eftir að þetta viðmót virðist sérstaklega áberandi hjá karldýrinu; má þó vel vera að fas kynbræðra minna, fangi sérstaklega athygli mína. Þó hef ég líka oft orðið vitni að íslenskum konum svo illa þjökuðum af minnimáttarkennd að þær finna öryggi í ögrandi og sérstaklega óaðlaðandi framkomu. Hver sem kynjahlutföllin eru, má sjá að þetta viðmót er áberandi hjá flestum sem ganga hér um götur borgarinnar.

Vinkona mín, af erlendum uppruna, átti til nafn yfir Íslendinga, sem þjáðust sérstaklega af þessu: a man with face like harðfisk. Með harðfiskviðmótinu vill Íslendingurinn koma þeim skilaboðum áleiðis að best sé fyrir alla að halda sig í hæfilegri fjarlægð, því ef einhver gerist of nærgöngull – þá hefur hann verra af. Undirrituðum þykir ægilega gaman að fylgjast með þeim sem tileinkað hafa sér þetta úthugsaða viðmót, því þeir leggja svo mikið á sig til að reyna að koma fyrir eins og þeir séu svalir harðjaxlar.

Ég verð þó að viðurkenna, að ég er jafn sýktur af harðfisksyndróminu og hver annar. Ég sjálfur, eins mikil blómarós og ég er, geng ekki alltaf um götur borgarinnar, frjáls og glaður, syngjandi Mary Poppins lög. Þó er ekkert sem ég vildi frekar gera. Ég hinsvegar – svo ég aðgreini mig aðeins frá harðfiskpöpulnum – legg mig alveg reiðinnar býsn fram um að berjast gegn þeim dyntum sem ég greini í fari mínu, burtséð frá því hvernig samfélagið sem ég lifi og þrífst misvel í, hefur um það að segja. Ef ég kem einhverjum fyrir sjónir, sem samkynhneigt semi-karlmenni, meðan ég flautandi lítinn lagstúf – kála skapgerðabrestum mínum, þá gott og vel.

Eitt er víst að þetta líf er alltof stutt og tilgangslaust til að haga sér eins daunillur harðfiskur.

En hver veit, kannski langar okkur öllum til að syngja og dansa niður Laugaveg, full af kærleik og hamingju.

Þegar sjúkdómurinn verður persónan

Mar
09

Orri Harðarson skrifar pistilinn: Ertu maður, eða ertu sjúkdómur? Hann skrifar skýrt og skilmerkilega um málefni sem ég kaffærði í orðaskrúða og slæmri málfræði í færslu frá 19. október, 2006: fallacius pluralibus. Ég veit reyndar ekki hvað þessi titill átti að fyrirstilla, en mér sýnist þetta hafa verið máttlaus tilraun mín til að búa til bull latínu, sem átti að hljóma eins og eitthvað ættað úr læknisfræði. Fallacius pluralibus, er eftir því sem ég best fæ séð: munnmök í fleirtölu. En munnmök er víst ekki til í eintölu. “Á ég að veita þér munnmak, kæra ungfrú?” , sagði ungi herrann og brosti góðlátlega. Nei, ekki aldeilis, – munnmak er ekki flott orð!

Orri Harðarson er frá og með deginum í dag, kominn í gúgúl rass lesarann minn.

Kexklikkaður í félagsvist

Mar
08

Ég hugsa ekki bara mikið um dauðann og eilífðarmálin, því ég hugsa einnig töluvert um ellina og hvernig ég kem til með að verða þegar ég er orðinn gamall kall. Mig hálft í hvoru langar til að verða snargeðveikur kall sem brúkar kjaft við samtíðarmenn sína. Ég vill því biðja fólk á mínu reki að koma fram við mig af sérstakri virðingu og nærgætni, því annars verðið þið fyrir barðinu á mér á félagsheimilum, í þjónustuíbúðum og öðrum stöðum þar sem aldrað fólk kemur saman.

Ég mun tildæmis verða daglegur gestur í félagsvist aldraðra og þrátt fyrir að vera alveg kexklikkaður verð ég framúrskarandi spilamaður sem allir vilja spila við. Ef einhver, sem mér er í nöp við, nálgast borðið sem ég spila við, garga ég, frussa og froðufelli. Ef ég svo myndi afhverju mér væri illa við viðkomandi, þá léti ég fylgja með einhvern vel til fundinn óhroða.

Ég verð að sjálfsögðu með staf, sem ég reiði til lofts, máli mínu til stuðnings. Sá er yrði fyrir barðinu á mér, kæmi til með að hrökklast undan og verða eins og lúpa. Þá myndi ég garga á eftir honum: Komdu svo aldrei aftur í félagsvistina, djöfuls ómennið þitt! Hann drattast þá heim til sín, færi aldrei aftur út fyrir hússins dyr og dræpist einn og yfirgefinn tuldrandi fyrir brjósti sér, hvað hann hefði nú átt að vanda sig betur í samskiptum við SiggaSiggaBangBang í árdaga.

Hvaða tegund af dementíu ég ætla svo að vera með, hef ég ekki enn ákveðið, en af nógu er að taka.

Þessar hugmyndir mínar um ellina, gætu þó hugsanlega eitthvað breyst á komandi árum. Margt af því sem ég hef ákveðið í lífinu, hefur ekki staðist eða molnað niður í tímanna rás. Ég man að fyrir u.þ.b tíu árum síðan, hélt ég að ég vissi bara æði andskoti margt. Í mínum huga, voru skoðanir mínar, hugsanir, viðhorf, með þeim betri sem finna mátti í einum Íslendingi. Ég var að mínu viti, víðsýnt bóhem, sem hafði óbeit á fólki sem lifði heilbrigðu lífi. Lá oft við, þegar ég mætti hlaupara á förnum vegi, að ég bókstaflega hrækti á hann. Núna, tíu árum síðar, veit ég ekki neitt í minn haus. Ég veit ekki hver ég er, hvað ég stend fyrir, hvert ég er að fara, hver tilgangur með þessu jarðlífi er, hvað er í kvöldmat, osfrv. Ég er þó sjálfur orðinn mikill hlaupari. Ég hleyp held ég 40-50km í viku, ef mér heilsast vel.

Kveikjan af þessum pistli mínum um ellina, varð til þegar ég hljóp Skerjarfjörðinn í morgun. Mætti ég þar hóp af eldra fólki, sem var á göngu. Hugsanlega í einhverjum gönguklúbb. Mörg þeirra voru í skærlituðum útisvistarfatnaði. Þau voru ósköp glaðhlakkaleg að sjá. En ég hugsaði með sjálfum mér: Þegar ég verð gamall þá klæði ég mig ekki í svona útivistarfatnað og ég geng ekki með hópi af grautfúlu samtíðarfólki mínu. Ég í mesta lagi, geng með einhverri vinkonu minni suður Laufásveginn, íklæddur frakka, með virðulegan hatt. Svo hugsaði ég þetta aðeins lengra, og þá datt mér í hug að það væri vel við hæfi að verða snargeðveikt gamalmenni.

Ég held þó samt að ég vilji helst verða bara ljúfmenni og ég óska mér þess að verða umkringdur börnum og ungu fólki. Fullorðna fólkið er nefnilega svo fokking leiðinlegt.

Líkræður

Mar
07

Fátt er jafn frískandi á föstudagskvöldi og hafa til tei, smurbrauð og hlusta á líkræður. Sumir drekka sig fulla. Aðrir maula kartöfluflögur og glápa á raunveruleikasjónvarp. Ég hinsvegar, drep tímann með að hlusta á líkræður. Svona er nú lífið oft á Óðinsgötunni.

Draumar – Fyrir lengra komna

Mar
06
[MEDIA=111]

 

Ég hef setið síðustu tvær vikur við eftirvinnslu á þessu glæsilega tónlistarmyndbandi, sem er við lagið Draumar af frumraun Sævars/Poetrix: Fyrir lengra komna.

Á einhverjum punkti eftirvinnslunnar tóku á mér hús, tónlistarmaðurinn, myndatökumaðurinn og framleiðandinn. Ég bauð upp á sékursnúða, espressó, tei og gamanmál. Klukkan hefur verið rétt rúmlega níu að kveldi til, þegar við sátum fyrir framan tölvutæknina sem skartar rómantískt heimili mitt. Allt í einu upphefjast ægileg læti á efri hæðinni. Góðborgarnir sem að tónlistarmyndbandinu stóðu, hver öðrum hrekklausari, horfðu spyrjandi augum á hvorn annan.

Ég andvarpaði, yfirbugaður af harmi. Hvað í ósköpunum er þetta, spurði framleiðandinn, sem er kristilega þenkjandi biblíumyndasafnari. Ég kom ekki upp einu orði, fátækur af bæði þolinmæði og náungakærleik. Er ekki verið að fífla okkur, spyr tónlistarmaðurinn.

Eins og reglulegir lesendur þessarar síðu fara nærri um, tilheyrðu óhljóðin spikfeitum nágranna mínum sem hafði ekkert þarfara að gera, þegar ég var með mikilvæga gesti úr bransanum, en að upphefja sóðaskak ásamt vinkonu sinni í veðruðu IKEA rúminu sínu.

Ekki fannst þó gestum mínum skakið tilkomumikið. Afhverju heyrist ekkert í henni, spurði myndatökumaðurinn. Þetta er engin frammistaða, sagði tónlistarmaðurinn. Liðlega þrjár mínútur liðu þangað til óhljóðin gengu niður. Þegar við höfðum náð mesta hrollinum úr okkur, héldum við áfram að spá í tónlistarmyndbandinu.

Ég hef ekki lengi verið að fikta í videogerð, svo ég er mjög hamingjusamur með að hafa fengið tækifæri til að vinna með fagfólki á því sviði. Ég held að nokkuð vel hafi tekist til. Hráefnið er allt skotið á hálfónýta 8mm vél, sem hélt hvorki stöðugum ramma, né sama hraða. Það var því talsverð vinna að láta mynd passa saman við hljóð. Það eitt og sér held ég að hafi tekið mestan tíma. Athugið að sorgarendur í ramma, eru þar af ásettu ráði.

Ég hef til þessa ekki verið neitt sérstaklega hrifinn af rappi, en ég kunni að meta þetta lag strax við fyrstu áhlustun, sem jók töluvert á ánægjuna. Sævar er mikill snillingur og alveg sérstakt prúðmenni, og söngkonan, sem syngur með honum, er frá mínum bæjardyrum séð, alger gersemi.

Ég þarf að flytja!