SiggiSiggiBangBang

2010

Jan
02

Ég var staddur í stærðarinnar kjörbúð á gamlársdag að kaupa inn hátíðarmat, þegar með mér fæddist hugsun sem ég held ég verði að telja til tímamótahugsana. Hugsuninni laust niður þegar ég leit niður í körfuna sem við vorum búin að týna í gæðavörur á borð við: svín, naut, osta, sætabrauð, baunir, súkkulaði, smákökur, sósur, hráefni í salat, – svo eitthvað sé nefnt. Hugsunin var eftirfarandi: Allar þessar fallega pökkuðu góðgjörðir sem liggja hér í körfunni eigum við á næstu dögum eftir að umbreyta í kúk. Eitthvað við þessa hugsun róaði anda minn og færði mig nær skilningi mínum á alheiminum, hvers vegna við göngum þessa jörð, og hvert við erum að fara. Eins og aðrir hugsandi menn hljóta að skilja, var óumflýjanlegt að taka þessa hugsun aðeins lengra. Ég leit upp úr körfunni og virti fyrir mér mannmergðina sem var þarna í sömu erindagjörðum og ég. Flest sem er á boðstólum hér í þessari verslun verður að kúk sem við, viðskiptavinir þessarar verslunar, komum til með að kúka. Ég sá fyrir mér stóra mykjuhauga í stað drekkhlaðinna rekkanna. Á sama tíma öðlaðist ég djúpan skilning á því að við mennirnir erum allir eins.

Með þessum orðum óska ég meðbræðrum mínum í þessu lífi gleðilegs nýs árs.

Svona eru jólin

Dec
27

Til að minnast fæðingu frelsarans hef ég og aðrir hér í heimili troðið í holu sem finna má á framhlið mannshöfuðsins – ógrynni af marglitum efnasamböndum með fjölbreytta áferð. Fögnuðurinn og gleðin seitlar um gúddí gúddí stöðvar líkamans þegar holan er fyllt af kræsingum. Hún er þá um stund upptekin við brytja og hræra saman þessum efnasamböndum, uns hún telur óhætt að sturta þeim niður, þar sem önnur líffæri taka til við enn frekari verkun. Eftir að gúmmilaðið hefur sullast eftir meltingarveginum, gúlpast restin niður í ristilinn og bíður þess að komast út um aðra holu á líkamanum. Sú stund er ekki síður ánægjuleg fyrir mannskepnuna, enda má segja að allar hennar gleðistundir eigi sér stað í gegnum holur á búknum. Eftir matarhátíðir eins og jólin getur þessi útskilun dregist. Ég hef tamið mér matarræði, sem virkar þannig á meltinguna að á morgni hvers dags skila ég af mér öllu sem ég innbyrti deginum áður. Hver dagur er nýtt upphaf með tandurhreinan ristil. En því er ekki að heilsa á hátíð Jesúbarnsins. Eftir borðhald aðfangadagsins, þurfti ég að bíða rúma tvo sólahringa eftir að svínið, súkkulaðið og piparkökurnar litu dagsins ljós og biðin reyndist mér erfið. Til að stytta mér stundir, tróð ég enn meira af súkkulaði í holuna á mér. Því meira sem holan fær að gera því meira heimtar hún að troðið sé í hana. Hún vill alltaf vera að. En nú segi ég stopp. Enginn kemur til með að segja mér að ég sé orðinn of feitur. Fólk er ekki þannig gert. Það vill að þér líki vel við það, og engum líkar vel við einhvern sem segir sannleikann, jafnvel þó að hann sé öllum kunnur nema þér.

Heilabilun

Dec
11

Í gær varð skammhlaup í heilanum á mér, eða glitch. Glitch, upprunið frá jiddíska orðinu glitsh þýðir sleipur staður, en er á ensku notað um tímabundna gloppu í kerfi. Í gær missti ég fótanna um stund. Ég náði þó að halda jafnvægi, og fékk meðan á hrösuninni stóð að fylgjast með minni eigin niðurlægingu.
Ég verð að viðurkenna að þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég verð var við sambandsleysi í heilanum mínum. Í hvert skipti sem það gerist, gapi ég yfir vitleysunni, undrandi yfir því að ég sé ekki fullkomnari maskína. Ég að sjálfsögðu reyni að fela svona uppákomur, enda misbrestur í heila varla í frásögur færandi, ekki nema að einhver annar en maður sjálfur eigi í hlut.

Ég stóð við eldhúsborðið og skar niður grænmeti í fyrsta flokks salat sem ég ætlaði að framreiða ásamt marineruðum grænum pipar, flatbrauði, og eðal hummus, lagaðan með safa úr nýkreistum sítrónum. Þessa tegund af fínsöxuðu salati lærði ég að búa til í Ísrael fyrir 14 árum síðan. Salatið samanstendur af nokkrum túmötum, þremur paprikum, öllum í sitthvorum litnum, rauðlauk, og gúrkum. Smá salt, sítrónusafi og ólífuolía. Gott að krydda með Thymian, eftir að maður fær sér á diskinn. Er kom að gúrkunum, sem fluttar voru með skipi frá Egyptalandi, vottaðar af Omar Sharif, – bilaði heilinn minn. Með stóran Norman Bates hníf, skar ég þær eftir endilöngu, og svo í kross. Ég horfði á hendur mínar handleika þær á skurðarbrettinu meðan ég brytjaði þær smátt.

Hvers vegna ætli gulrætur séu kallaðar gulrætur, þegar þær eru svona ægilega grænar, hugsaði ég og orðaði svo hugsun mína upphátt við ástkonu mína, sem sat við 350 danskkróna eldhúsborðið. Í mínum huga var þessi hugsun fullkomlega rökrétt. Ég meira að segja fór að velta fyrir mér uppruna orðsins og hvort það væri mögulega eitthvað gult í gúrkunum. Hvort þessi tegund af grænmeti, hefði einhvern tímann verið gul og svo þróast yfir í græna litinn. Í mínum huga hét gúrka gulrót, og þrátt fyrir að hafa búið til þetta salat, nánast sofandi, milljón sinnum, innihélt salatið gulrót en ekki gúrku.

Hvað áttu við? spurði heitmey mín. Pirraður yfir skilningsleysinu, hóf ég að útskýra hversu skrýtið mér þætti að eitthvað jafn grænt og gúrka hlyti nafn sem innihéldi lit sem greinilega ætti ekki við. Og þar sem ég er að útskýra þetta, með djúpri karlmannlegri röddu, átta ég mig á að ég er að verða klikkaður. Ég horfi á gúrkuna og segi við sjálfan mig: Þetta er gúrka en ekki gulrót. Þetta er gúrka! garga ég innan í mér.

Skrifstofa á Larsbjörnstræde

Dec
07

Meðan samlandar mínir, festu neikvætt fé í lúxusbifreiðum og húsum sem þeir rusluðu út úr til að rýma fyrir því nýjasta og flottasta, allt í samræmi við fegurðarmat Völu Matt, – bjó ég í misskemmtilegum holum, stundum við frekar bágbornar aðstæður í Reykjarvíkurborg. Ég lifði ekki hátt þessa daga, þar sem vigt mannsins lá í hversu miklu drasli hann gat sankað að sér til að verða ekki eftirbátur náungans.

En nú þegar þessir sömu menn og litu niður á mig fyrir að eiga ekki bíl, grenja úr sér augun í athugasemdarkerfi eyjunnar, eða í pilsfaldi morgunblaðsins, er ég sjálfur umrenningurinn orðinn virðulegur kaupsýslumaður í útibúi eigin samsteypu í Kaupmannahafnarborg.

Ég er með skrifstofuaðstöðu í eftirsóttu hverfi í borginni – Larsbjörnstræde, sem þykir mjög 101/skæs á danskan mælikvarða. Þegar ég mæti til vinnu að morgni, brosa stúlkurnar í móttökunni og hlæja að öllum bröndurunum mínum, sama hversu andskoti lélegir þeir eru – og þeir eru lélegir, meira að segja mjög lélegir. Þær fá borgað fyrir að vera almennilegar, rétt eins og allir hjá þessu andskotans skrifstofufyrirtæki.

Já, ég er með skrifstofu hjá fyrirtæki sem sérhæfir sig í að vera með skrifstofur fyrir fyrirtæki eins og mitt. Hér eru allir klæddir í glæsileg jakkaföt, með plokkaðar augabrúnir og ljósbakað hörund. Ég sjálfur er í strigaskóm, skreyttum málningaslettum, arabahúfu á höfðinu, órakaður, með nasahár sem hægt er að flækja sig í komir þú inn fyrir mitt comfort zone.

Um daginn hitti ég tvo American psychos, sem vildu endilega taka í höndina á mér og kynna sig. Ég var á leiðinni á pisseríið og hafði engan tíma í þessa viðkynningu, sem var í mínum huga alveg tilgangslaus. Ok, ég viðurkenni það, ég hræðist menn í glansandi jakkafötum, ég held þeir viti eitthvað meira en ég veit um lífið og því óttast ég þá. Þeir vita þó ekkert meira en ég. Menn sem þurfa að skrúbba sig og plokka á hverjum morgni til að fúnkera í kjötheimum, geta ekki haft mikið sjálfsálit.

Mér er þó andskotans sama um einhverja kalla sem eiga eitthvað skrifstofufyrirtæki. Ég kikna ekki í hnjánum og finnst það ekkert merkilegra en hvað annað sem mannfíflið tekur sér fyrir hendur. Mér finnst það sem ég er að gera, heldur ekkert merkilegt. Ég hef gaman að því, en mér finnst það ekki gera nokkra grein fyrir því hver ég er eða hvað ég stend fyrir. Ég er engu nær um hver ég er eða hvert ég stefni út frá hvað ég starfa við. Fáranlegar hugmyndir mannfíflsins.

En nú má ég ekki vera að þessu. Ég ætla að skreppa út og Strik og kaupa mér möndlur sem er búið að sjóða í sykurlegi.

Aðlaðandi Íslendingur

Nov
22

Í gær hitti ég, á afar fínum veitingastað hér í borg, sérlega aðlaðandi mann frá Bosníu, fyrrum Júgóslavíu. Glaður og reifur rétti hann fram hendina og kynnti sig. Elvir heiti ég, hvað heitir þú? Fyrsta hugsun mín var: Þessi maður hlýtur að vera að gera gys að mér, svona glaðlegur og brosandi. Hvað vill hann? Ég krosslagði hendur og setti mig í stellingar ef ske kynni að hann færi að dæma mig. Ég reiknaði út í huganum hvernig ég með fantabrögðum gæti komið í veg fyrir að hann lítillækkaði mig, tildæmis með því að girða niður um mig buxurnar.

Menn, svona glaðbeittir og almennilegir, eru stórvarasamir samkvæmt mínum bókum. Þaðan sem ég er – frá Íslandinu góða, er enginn kurteis og almennilegur nema hann vilji troða viðbjóðnum á sér inn í þig, eða hafa þig að féþúfu. Því þykir mér lang öruggast að hafna fólki, áður en það hafnar mér. Einmitt þess vegna er ég nánast alveg vinalaus í dag. Sem er fínt, svo lengi sem ég fæ ekki það á tilfinninguna að mér sé hafnað, sem er hræðilegasta tilfinning af öllum tilfinningum sem tilfinningakirtillinn framleiðir.

En Elvir girti ekki niður um mig. Hann rétti mér flösku af fínasta trönuberjasafa, sem ég slokraði í mig af töluverðri nautn. Kannski er hann bara ágætur, hann Elvir, hann gaf mér jú trönuberjasafa, hugsaði ég. Hann getur bara ekki viljað mér illt. Þannig að þrátt fyrir að vera varkár, ákvað ég að gefa Elvir smá séns, og hóf samræður við hann. Hann spurði mig hvað ég væri að gera í Danmörku, og sagði honum það.

Ég sagði: Ljótu vondu kallarnir í jakkafötunum stálu öllum peningunum af fólkinu í landinu, og svo verðum við bara að borga brúsann, og það er sama hversu margar athugasemdir eru skrifaðar á Eyjunni, eða hversu mörg blogg er skrifuð í pilsfaldi Morgunblaðsins, ekkert gerist og skjaldborgin sem átti að slá um fjölskyldurnar, og verðtryggingin maður, og rass og kúkur – og því ákvað ég að flýja föðurland mitt, heimkynni mín, landið þar sem ég ólst upp, en þú Elvir minn hvað ert þú að gera hérna í Danmörku. Mikið er danska annars ljótt tungumál.

Elvir brosir fallegu nærgætnu brosi, og segir: Ég fluttist hérna fyrir 17 árum síðan þegar stríðið í fyrrum Júgóslavíu braust út…… En Elvir minn, greip ég fram í fyrir honum, – var ég búinn að segja þér frá mótmælunum miklu fyrir framan Alþingishúsið í janúar, það voru sko mótmæli maður minn. Löggan beitti táragasi og allt. Hvað varstu annars að segja um Júgóslavíu og stríðið? Dó einhver? Elvir horfir undrandi á mig, og er hljóður um stund. Það er sorg í honum: Það dóu 225 þúsund manns, segir hann og kveikir sér í sígarettu.

Þegar ég kom heim á gistiheimilið, hitti ég vinalegu íslendingana sem geta ekki skammarlaust boðið gott kvöld, eða góðan daginn og ég hugsaði með mér: Ég ætla að eyða næstu árum í að skoða heiminn, og kannski, já kannski, á síðustu metrum lífs míns fer ég heim til að deyja.

Marteinn – dauði hellisbúans og íslenskrar fyndni

Nov
21

Eftirfarandi er þus.

Til að halda tengingu minni við ættjörðina, fylgist ég grannt með íslenskri dagskrárgerð. Hið ylhýra íslenska tungumál, ef fallega talað, gleður mig meira en litrík blóm, eða 75% súkkulaði. Í gær að loknum annasömum degi í heimi viðskipta, hér í útjaðri helvítis, mitt í hjarta Kaupmannahafnar, samt með annan fótinn í Svíþjóð, – kveikti ég á flataranum sem er boltaður við vegg þessarar dýflissu(mánuðurinn off season kostar bara 120.000.-), reif fram fitubollupakkningar af Doritos flögum, diet kók og horfði ásamt heitmey minni á nýjasta útspil snillingsins Bjarna Hauks: Martein(nei, ég sá ekki Hellisbúann). Nokkrar mínútur inn í þáttinn, leið mér orðið það illa að ég óskaði þess að einhver mér velviljaður linaði þjáningar mínar og tæki mig af lífi. Framleiðendur þáttarins, sem lögðu meira upp úr grafíkvinnslu, en handritinu, þurfa ekki að hafa áhyggjur af að þetta ófyndnasta sjónvarpsefni Íslandssögunnar, finnist á einhverjum torrent tracker. Það eitt og sér segir allt um hversu mikið sorp þetta er.

Að fallega talaðri íslensku.

Ég sá Styrmi Gunnarsson í Kastljósi og þar er maður sem kann að tala íslensku. Málfar hans og það sem hann hafði að segja, virkaði seiðandi á mig, eins og ég væri að borða dýrindismáltíð sem einhver hafði mikið fyrir að framreiða. Í samanburði kallaði Marteinn fram í mér löngun til að drepa, ef ekki einhvern, þá bara sjálfan mig.

Sjónvarpsfréttir og föðurlandsást

Nov
13

Þó ég sé fluttur yfir lækinn, fylgist ég gaumgæfilega með málum heima í rófuholu, svo ég leiki mér lítillega með eitt ljótasta tungumál heimsbyggðarinnar: dönsku. Til auðga anda minn, stilla hjartslátt minn í takt við þjóð mína og halda í tengingu mína við föðurlandið – les ég athugasemdir á Eyjunni, felli nokkur tár og hugsa heim í haga. Þegar svartholið í sálu minni stækkar og minningin um hver ég er og hvaðan ég kem – dofnar, þarf ekki meira en nokkrar málsgreinar í gífuryrtu moggabloggi til að fylla mig heimþrá, þjóðerniskennd og stolti yfir uppruna mínum.

Á gistiheimilinu sem ég og heitmey mín erum fangar á, er hægt að horfa á alla dagskrá Ríkissjónvarpsins. Þegar kveikt er á sjónvarpinu er stemningin eins ég hafi aldrei hoppað um borð í flugleiðavél og flogið á brott. Íslendingarnir í næsta herbergi eru einnig hjálplegir við að skapa skemmtilegt séríslenskt andrúmsloft. Það gera þeir með því að fá sér ríflega neðan í því um helgar, staulast svo inn á klósett til að gubba.

Gubbbbrrbbbbrbbbbrbb – heyri ég í gegnum svefninn.

Í gær leið mér illa. Ég var pirraður(ég er reyndar ennþá pirraður) og vildi deyja. Alveg þar til ég kveikti á sjónvarpsfréttum og sá frétt af ungri konu sem er búin að vera atvinnulaus upp í sófa í nokkra mánuði hámandi í sig sælgæti. Með fréttinni fylgdi að hún hefði bætt á sig 20 kílóum. Þetta er hræðilegt, sagði unga konan feita, og kvartaði undan því að þurfa að lesa sér til um úrræði fyrir fólk í hennar stöðu – á vefnum. Henni fannst að einhver ætti að koma heim til hennar, sparka henni á lappir, henda öllu snakkinu í ruslið, og redda þessum málum. Strax á eftir þessari frétt var frétt um mannréttindabrot í Kína. Menn sem setja sig upp á móti stjórninni í Kína, hverfa, stundum um miðjan dag, eru settir í útrýmingabúðir, sem allir vita af, en enginn þorir að nefna.

Um nóttina svaf ég eins og ungabarn með bros á vör.

Hamingja

Nov
12

Mánuð og tólf dögum betur, hef ég og heitmey mín til margra mánaða búið við nokkuð óþægilegar aðstæður, sem tekið hafa meira á sálartetrið en að sitja pakkaður inn í bómul í litlu timburhúsi í 101 Reykjavík. Hugtökin hamingja og andstæða þess, óhamingja hafa ítrekað komið í hugann.

Í einu herbergi af fimm í kjallara á gistiheimili, sem er 70% niðurgrafinn, með íslenskt par í næsta herbergi sem telja samanlagt mörg hundruð kíló, sit ég nakinn í myrkrinu búinn að maka á mig majonesi og flodeskúmmi og spyr sjálfan mig tilvistarspurninga. Yfirvigtarparið, vaknar til lífsins upp úr miðnætti. Þá fara þau að mala innantóma vitleysu. Skella hurðum og borða ostabrauð sem þau hita í brauðgrilli.

Heitmey mín er lasin, hún er með slæmskuna miklu. Þetta er í annað skiptið sem hún verður veik síðan við komum til landsins. Um daginn beit hana óféti í andlitið og hún blés út og líktist meira Joseph Merrick, en sjálfri sér. Hún var sett á margsorta fúkkalyf framleiddum á hinum og þessum stöðum í Evrópu sem við eigum aldrei eftir að heimsækja. Hún, ólíkt mér, tekur erfiðleikum með sérstöku jafnaðargeði. Þannig virðist hún vera, allavega á yfirborðinu. Mig grunar þó að hún reyni að slá mig af þegar ég sef. Hún hellir kannski yfir mig vatni, þar sem ég hrýt á rafmagnsteppinu og dreymi drauma um hluti sem aldrei geta orðið. BzzzZzzzzZzzzzZz… Ekkert ráðrúm til að hugsa um farinn veg.

Herbergið lyktar af bragðmiklum ost, sem heitir Agnes. Ég átta mig á að ég er að sturlast, myrkrið, lyktin af ostinum, sem ég setti ofan á brauð í morgun – hverfur ekki úr herberginu. Lyktin er farin að smjúga inn í heilann minn. Agnes segir mér að drepa. Annaðhvort verð ég að drepa heitmey mína eða sjálfan mig. Nú eða bæði, eins og hefð er fyrir í Ameríku.

Hefur þér einhvern tímann þótt vænt um einhvern sem þú þekkir ekki neitt?

Á sama gistiheimili, býr annað íslenskt par. Þau eru svo fúl að það kostar þau sérstök átök að bjóða góðan daginn. Góóóóóð aaaaa aaaa n daaaaaag iiiiiiiiii nn. Áreynslan er svo mikil að þau svitna. Hún, örlítið meira fráhrindandi en hann, brosir brosi sem stendur yfir í þúsund millisekúndur, svo verður hún brúnaþung og köld eins og grænn frostpinni. Nema að grænir frostpinnar eru úr öðrum heimi, en hún er frá Íslandi. Íslandinu góða.

Hin orðrómaða íslenska hlýja og mannkærleikur.

Í gær sá ég bút úr Annie Hall. Woody gekk manna á milli og spurði pör, hver lykillinn væri að arðbæru ástarsambandi. -Mér hugkvæmdist því, þegar ég hitti óaðlaðandi parið inn í eldhúsi í dag, að ganga á þau og spyrja þau hvað hamingja væri og hvað það væri í þeirra lífi sem gerði þau svona andskoti hamingjusöm. En þess í stað þá hreytti ég út úr mér: FOKKIÐ YKKUR!

Nei, ég gerði það reyndar ekki, en mig langaði til þess.

Íssparnaðarauglýsing

Oct
30

Vorum að taka upp úr kössunum…. Fyrstir koma fyrstir fá….

[media id=227 width=520 height=390]

Michael Myers á sambýli fyrir geðfatlaða

Sep
09

Í nótt dreymdi mig að ég væri að vinna á sambýli fyrir geðfatlaða, ekki ólíku því sem ég vann á hér á árum áður. Einn af heimilismönnum var kolóði hálfmennski morðinginn úr Halloween: Michael Myers, og átti hann alveg ægilega bágt. Við sem þarna störfuðum vorum mjög smeykir við hann sérstaklega ef hann komst í hnífaskúffuna, því það endaði yfirleitt með að einhver var drepinn. Við vorum nokkur á vakt, enda Michael erfiður vistmaður. Félagar mínir fóru út að reykja, en ég varð eftir inni og var að matbúa þegar ég áttaði mig á að Michael var búinn að stela einum hnífnum úr hnífaskúffunni, sama hnífnum og ég ætlaði að nota til að skera niður grænmeti. Ég vissi ekki nákvæmlega hvar hann var staðsettur í húsinu og það var myrkur. Skelfing greip um sig og í gegnum svefninn fann ég hjartað hamast í brjósti mér. Í draumnum hljómaði þemalagið úr Halloween eftir snillinginn John Carpenter.

[media id=226]

Til gamans má geta þá var Halloween fyrsta hryllingsmyndin sem ég sá og kostaði hún mig ófáar andvökunætur. Ég hef verið eitthvað í kringum 12 ára gamall – ekki eldri.
Ég fæ reglulega martraðir, þar sem Norman Bates, Freddy Kruger eða Michael Myers hrella mig.

Smá fróðleiksmoli: Gríman sem Michael Myers er með, er Captain Kirk gríma.

Klippinámskeið á vegum hins opinbera

Sep
07

Þetta prýðilega myndband fann ég í gær þegar ég var að fara í gegnum gamla harða diska. Ég klippti það á klippinámskeiði sem ég sótti fyrir 6 árum, sem haldið var á vegum Vinnumálastofnunnar. Þegar Mike sá afraksturinn, leit hann á mig, reiddi fram höndina og sagði ofursvalur: “You’re hired!” Skömmu síðar fékk ég vinnu upp í Aka Demíu.

[media id=225 width=520 height=390]

Já, ég veit að það er aðeins eitt ell í solution – þetta eru ægilega mistök.

Manngerðir í fábrotnu vanþroska samfélagi

Sep
04

Það eru ekki margar manngerðir í fábrotnu samfélagi eins og á Íslandi og lítið rými fyrir frávik. Hér má sjá sömu týpurnar ráfa um göturnar og eru tvær allsráðandi: krútt og hnakkar. Krúttin eru annaðhvort á leiðinni í Listaháskólann, búinn með hann, eða hafa átt inni umsókn sem hefur verið hafnað. Hvað hnakkanna snertir, þá hef ég ekki hugmynd um hvaðan þeir komu, eða hvert þeir eru að fara. Hver er uppruni hnakkamenningarinnar? Hvað gerðist? Eitur í brjóstamjólkinni?

Hvað um það.

Hér eru allir alveg nákvæmlega eins. Spegilmyndin af hvorum öðrum. Til að lifa og þrífast í Reykjavík, verður þú að passa inn í einhvern hóp. Annars kemur þér til með að líða illa. Manngerðir á Íslandi eru kannski aðeins fleiri en tvær, en seint verður sagt að hér þrífist fjölbreytileiki eins og er að finna í stórborgum erlendis. Reykjavík er líka bara smábær, og ekki hægt að stíga út fyrir hússins dyr án þess að rekast á einhvern sem maður vill helst ekki hitta – og á ég þá ekki við að fólk sé fífl og þess vegna sé óskemmtilegt að hitta það. Stundum er bara gott að geta brugðið sér út í Krónu án þess að þurfa að varalita sig og setja sig í einhverjar sósjal stellingar.

Nú ríkir þynnkuástand á Íslandi. Sama hvað stendur í athugasemdakerfi eyjunnar: mér verður ekki um kennt. Ég keypti ekki íbúð á uppsprengdu verði, bíl upp á margar milljónir, þyrlu, flatskjá, eða tók nokkurn þátt í hinni svokölluðu veislu. Ég bjó spart. Keypti druslu sem nú er ónýt. Stofnaði ekki til skulda, en tókst heldur ekki að leggja fyrir, einhverra hluta vegna.

Síðustu misseri hefur þótt fínt að starfa á hlutabréfamarkaði, í bankageiranum, eða einhverri stofnun sem flytur peninga á milli herbergja. Gildi Íslendings var einskis virði ef hann átti ekki stóra íbúð eða hús sem búið var að rusla öllu út og setja nýtt og glæsilegt í staðinn, bíl undir 5 milljónum, hjólhýsi, dýr og flott föt og fyrirtæki sem eins og öll hin fyrirtækin fluttu peninga á milli fyrirtækja. Og ekki var þetta nóg til að gera hann að manni. Hann varð að tileinka sér “zero tolerance” eða “núll umburðarlyndi” gagnvart fólki sem ekki passaði inn í nýju íslensku glansmyndina. Já, allir sem öfluðu sér ekki tekna á peningamarkaðnum, eða urðu uppvísir af hálfkáki, eða stefndu ekki að því að ná hámarksárangri í lífinu, voru aular og áttu ekkert erindi upp á dekk.

Hámarksárangur, hvað svo sem þú tókst þér fyrir hendur. Kúka stærst. Fá kröftugustu fullnæginguna. Fara á flottasta fylleríið. Verða manna kókaðastur. Kókaðri en Fúll á móti, svo ég vitni í Sumarliða, sem ekki er bara fullur heldur líka með nasirnar útroðnar af kókaíni.

Lífið á Íslandi síðustu ár hefur verið eins og þátttaka í raunveruleikaþætti Donald Trumps: The Apprentice, og nú hafa allir nýríku fávitarnir verið sendir heim grenjandi.

Innskot: Vitið þið að til er fullt af fólki, sem bíður gramt eftir að ástandið lagist svo það geti haldið áfram uppteknum hætti.

En ég fengið nóg af þessu þjóðfélagi. Ég hef ekki í hyggju að eyða fleiri dögum hérna. Ég ætla ekki að taka þátt í þynnkunni og bömmernum sem þjakar þjóðarsálina. Ég segi því við ykkur sem voruð sem fyllst meðan á partíinu stóð: Njótið ávaxta erfiðis ykkar. Ég ætla ásamt heitmey minni að stíga um borð í Flugleiðavél og halda út í heim.