SiggiSiggiBangBang

Tómas Sigurpáll Jónsson – minning um mann

Jun
20

Hér er minning um mann.

Tómas Sigurpáll Jónsson var vinur minn. Hrjúfur stórgerður karl, með gullslegið hjarta sem fyrir 14 árum sveik hann og neitaði að slá meir. Þetta einkennilega tæki, sem dælir rauðleitum vökva um lagnakerfi líkamans, hafði svo sem áður verið með dynti, en alltaf hrokkið í gang aftur. En ekki þennan dag árið 1995. Þeir, og á ég við þá sem fengið hafa hjartaáfall, segja að sársaukinn sé gersamlega óbærilegur, að maður óski sjálfum sér frekar dauða en að upplifa hann. En sársauki Tomma varð ekki meiri í þessu lífi og hann fékk hvíld. Hvíld frá þessari skrýtnu tilveru, sem hafði í raun aldrei gert honum nógu góð skil. Skapara himins og jarðar þótti mikill fengur í sál Tomma, enda hún glæsilega búin flottum og eftirsóknarverðum mannkostum.

Ég og Tommi kynntumst fyrir austan fjall, í húsi sérstaklega ætlað fólki sem vildi læra að hætta drekka brennivín og styrkja lyfjaiðnaðinn og erindreka hans. Við vorum látnir sitja í hópi með fólki sem átti alveg ægilega bágt, að okkur fannst. Einn maður, með nokkur námskeið að baki, stýrði hjálpargrúppunni þrátt fyrir borderline-þroskaheftu í mannlegum samskiptum. Tomma leiddist hóparnir alveg hræðilega, þannig að hann svaf þá vel flesta af sér.

Eitt sinn er Tommi svaf værum og fallegum svefni, sem ég allavega öfundaði hann af, grét kona ein yfir óförum sínum. Hún var svo hrædd, volaði hún og vældi og var alveg miður sín. Eitthvað af því sem konan grét yfir, allavega þetta með hræðsluna, hefur skilað sér yfir í draumlandið til hans Tomma, því Tommi rumskar og horfir Bambi-augum á aumingjans konuna, sem í fyrsta skipti hefur opnað á sár lífs síns. “Ertu líkhrædd?”, spyr Tommi eins varfærnislega eins og honum var unnt, þó hann hljómi meira eins og hann sé að urra á hana. Hann skilur ekki alveg hvað aumingjans konan er hrædd við. Það eina sem Tomma kemur í hug þegar talað er um ótta, er þegar hann var að vinna á Borgarspítalanum sem vaktmaður og var látinn sækja lík upp á deildir til að rúlla niður í frysti. Þá fann hann fyrir ótta. En við lifandi fólk var Tommi ekki hræddur, það var frekar að það væri hrætt við hann.

Í sveitinni voru daglega haldnir fundir. Heimilismenn söfnuðust þá saman í litlum loftlausum sal í kjallara hússins. Stólunum var raðað upp þannig að úr yrði gangvegur fyrir miðju að pontu, sem fólk var hvatt til að tala úr, um endalausa erfiðleika sína. Tommi sat alltaf í öftustu röð, þannig að hann gæti teygt úr löppunum og sofið, frekar en að hlusta á þessa bölvuðu vitleysu sem vall upp úr fólki, en honum var alveg fyrirmunað að skilja hvernig í ósköpunum það gat hjálpað einhverjum að standa frammi fyrir ógæfufólki og játa á sig allskonar ófögnuð. Ef hann svaf ekki, þá einbeitti hann sér að því að ná augnsambandi við þann sem stóð í pontunni. Þegar því var náð, lét hann efri tanngóm, sem var úr plasti, detta fram fyrir þann neðri. Ef það dugði ekki til, geiflaði hann sig enn frekar og lét góminn hálfan út um munninn. Svona hélt hann áfram að leika sér, alveg þar til viðkomandi kom ekki upp orði, heldur veltist um af hlátri og varð frá að hverfa til að skyggja á ekki á alvöruna sem fylgir fundum af þessu tagi.

Tommi var mikill öðlingur og þótti öllum sem komust inn fyrir hrjúfa skelina, ofurvænt um hann.

Á árum áður starfaði Tommi sem lögreglumaður í Reykjavík. Hann hafði því hlutverki að gegna að skjóta flækingshunda og var því alltaf með hundabyssu tiltæka. Einhvern tímann, er hann gekk sinn rúnt niður í bæ, er hann fenginn til að elta þjóf sem tekur á rás út úr búð. Tommi, mikill að vexti, byrjar að hlaupa á eftir þjófnum sem var töluvert frárri á fæti en hann. Er bilið tekur að lengjast milli Tomma og þjófsins og Tommi alveg að gefast upp á hlaupunum, tekur hann upp hundabyssuna, sem hann geymdi í belti sínu og öskrar: “Stoppaðu, eða ég skýt!” Þjófurinn lætur viðvaranir Tomma sig engu varða, og eykur hraðann. Tommi miðar þá byssunni út í loftið og hleypir af. Manngreyiinu verður svo mikið um þetta að hann kastar sér á jörðina og liggur þar skelfingu lostinn, lamaður af ótta. Eftir þetta var Tommi aldrei kallaður neitt annað en Tommi hundabyssuhvellur.

Hér eru videomyndir af Tomma, sem ég tók af honum þegar hann bauð mér í stórsteik að heimili sínu rétt hjá Rauðavatni. Ég hafði þennan dag, komið til hans með slátturorf frá Kópavogsbæ og slegið garðinn hans. Svo þakklátur var hann fyrir viðvikið að hann keypti tvo innkaupapoka fulla af kjöti og meðlæti og sló upp veislu sem er eitt rausnarlegasta borðhald sem ég hef setið. Það má sjá á þessum klippum að hann var mikill húmoristi, og alltaf til í að bregða á leik.

[media id=217 width=520 height=436]

Gönguhópurinn Rass

Jun
14

Ég hef í hyggju að stofna gönguhóp sem ber nafnið: Gönguhópurinn Rass. Meginmarkmið þessa gönguhóps verður að ganga(liggur í hlutarins eðli) og hatast út í aðra gönguhópa. Við komum til með að nota “annað hvort ertu með okkur eða móti okkur” hugmyndafræðina, sem hefur virkað svo andskoti vel í gegnum mannkynssöguna. Þannig að ef þú tilheyrir öðrum gönguhóp en Gönguhópnum Rass með stóru Gé-i og stóru Err-i, hefur þú – að okkar mati – fyrirgert rétti þínum til að ganga sömu gönguleiðir og við, og munum við beita bolabrögðum til að ryðja þér úr veginum.

Önnur stórkostleg hugmynd sem ég hef fengið, er að Gönguhópurinn Rass, gangi allsnakinn. Það gæti þó verið leiðinlegt fyrir karlpeninginn, því hér er oft kalt í veðri og því oft vesældarlegt um að litast í neðri byggðum. Fátt er óskemmtilegra en að vera með krumputyppi í félagi við bræður sína. Það er skarð í karlmennsku hvers manns, hversu vel sem hann er meðvitaður, eða gáfum gæddur.

Hugmyndir þessar hafa komið til mín þar sem ég hef þreytt hlaup á gönguleiðum höfuðborgarinnar. Ég mæti ófáum gönguhópum, og eiga þeir allir það sameiginlegt að vera alveg ótrúlega hallærislegir og sérstaklega tillitslausir gagnvart hjólandi og hlaupurum. En þó að hatur mitt á gönguhópum sé stórt, þá eru þeir þó skömminni skárri en hlaupahópar, sem eru með öllu óþolandi. Öll umferð úr gagnstæðri átt, hvort sem um er að ræða einstaka hlaupara, haltrandi gamalmenni, eða fótgangandi, er hrakin út af, því hlaupurum í hóp er svo mikilvægt að hlaupa hlið við hlið svo þeir geti talað kúk við hvorn annan. Þeim kemur ekki til hugar að víkja. Aldrei nokkurn tímann! Það er bara ekki í karakter einhvers sem hleypur í hóp. Þeim finnst almenn tillitsemi jafngilda ósigri í mannlegum samskiptum. Það má sjá þessa sömu menn í umferðinni, svínandi og brjótandi á öðrum vegfarendum. Jú, einmitt – þessir sem gefa í ef þú reynir að skipta yfir á akreinina þeirra. Ég segi við ykkur sem gangið og hlaupið í hópum: Étið skít! Göngu- og hlaupahópurinn Rass verður stofnaður til höfuðs ykkur.

leiðindi.blog.is

Jun
05

Að ybba blogg er orðin þreytandi iðja. Samkvæmt nýjustu reglugerðum, skrifuðum og samþykktum einróma af moggabloggurum, á ritmál skrifað undir formerkinu blogg, að vera málefnalegt. Að skrifa um óumdeilanlega kosti þess að geta sogið sinni eigin spena, er ekki málefnalegt og bætir engu við þjóðfélagsumræðuna. Umræða þar sem grútskítugur ristill þjóðarinnar er skoðaður gagnrýnum rauðþrútnum augum almúgamannsins, sem hangir í pilsfaldi skítableðils sem hefur verið honum óvinveittur frá stofnun.

Að benda á að skapari himins og jarðar hefði getað komið í veg fyrir efnahagshrun með að gera graðpungunum Hannesi Smárasyni, Sigurði Einarssyni og vinum þeirra, kleift að veita sjálfum sér munngælur, er ekki við hæfi og skapar undirrituðum ekki þá eftirsóttu stöðu í bloggheimum að í hann sé vitnað. Ég get því ekki séð að ég eigi mikið erindi í bloggheima. Ég þarf ekki annað en að skoða bloggfyrirsagnir á blogg.gattin.is, eða eyjunni.is, til að sjá að jafn órökviss maður og ég, er best að pakka saman og fara að gera eitthvað annað, eins og kannski að sitja á kaffihúsum og tala digurbarkalega eins og hann hafi eitthvað til málanna að leggja.

Umræðan er þó alltaf eins. Hún gengur í hringi. Allir sem í henni taka þátt eru vissir um að hafa rétt fyrir sér. Hún byrjar á að einhver andmælir eða er sammála viðfangsefninu. Fjöldi fólks tekur undir. Hnuss, fuss, og allskonar fúkyrði. Á einhverjum punkti í umræðunni gerist einhver svo djarfur að skoða málið frá öðru sjónarhorni, oftar en ekki í formi samviskuspurningar. Einhverjir taka undir, en þeir sem ráku lestina, snúast gegn honum, persónugera málið og ata viðkomandi saur. Svona gengur þetta í 30-100 athugasemdir, þar til umræðan deyr út. Svo endurlífgast sama umræða undir nýrri fyrirsögn, og gengur fyrir sig með nákvæmlega sama hætti.

Svo fer fólk á námskeið til að læra að skrifa málefnaleg blogg, sem vitnað er í, og hátindur bloggara verður að fá teiknaða af sér mynd og blogga í nafni miðils, sem hringir í bloggarana sína til að skamma þá fyrir ómálefnaleg blogg.

Ég er hættur að skrifa blogg. Ég verð að finna eitthvað annað nafn á þetta.

Hönnuður alheimsins

Jun
04

Stundum finnst mér ég sjálfur svo hræðilega leiðinlegur að ég vildi að ég gæti skellt á mig hurðinni. Hönnuður alheimsins hefði átt að gera ráð fyrir þessum möguleika, ásamt því að gera karlmönnum kleift að sjúga sinn eigin typpaling. Hafsjór af samfélagsvandamálum væru ekki til ef það væri hægt.

Í þessu samhengi bendi ég á myndina Shortbus, en þar er að finna atriði sem sýnir einkar liðugan mann veita sjálfum sér munngælur. Enginn kvikmyndaunnandi ætti að láta þessa mynd framhjá sér fara.

Parthenófóbía

Jun
03

Eitt og annað í nálgun minni á lífið bendir til að ég sé haldinn skelfilegum sjúkdómi sem herjar einvörðungu á heilann. Já, má jafnvel segja að ég sé með skakkan hýpóþalamus, eða að sjálfur þalamusinn sé ofvaxinn og þrýsti á framheilann, sem útskýrir allar þessar skrýtnu hugsanir. Hvaða fræðilega skýring sem kann að vera á misbrestum í heilastarfsemi minni, þá er mér ljóst ef ég ber mig saman við geðprýðismódelið hannað af sérstöku yfirvaldi í Geðheilbrigðisfræðum með stóru Gé-i, að ég – með allar mínar fóbíur, persónuleikaraskanir, og dynti sem til eru latnesk heiti yfir – er spölkorn frá því að vera eðlilegur.

Það þarf því engan að undra að ég leiti skýringa á hvað gerir mig frábrugðinn meðbróður mínum, sem — að mér virðist — siglir óáreittur í gegnum lífið sáttur við sjálfan sig, menn og málefni, meðan aumingjans undirritaður engist sundur og saman við tilhugsunina eina að þurfa að fara út fyrir hússins dyr til að sinna samfélagslegum skyldum.

Ásamt því að lesa töluvert af greinum um afbrigðilegheit og sjúkdóma sem eiga sér upptök í heilanum, hef ég skráð mig á póstlista, þar sem ég fæ sendan póst ef vísindin uppgötva nýja tegund fóbíu, eða geðveikissjúkdóm sem ég mögulega er haldinn. Ég er nú þegar búinn að viða að mér á annan tug fóbía sem naga anda minn frá sólarupprás til sólseturs; lengur á sumrin.

En þó ég geti tileinkað mér margar fóbíurnar, er ein afar merkileg fóbía sem ég fæ ekki séð að eigi við mig. Parthenófóbía er fóbía, einkennilegri en allar aðrar fóbíur sem ég hef lesið mér til um. Hún er jafnvel einkennilegri en hippopotomonstrosesquipedaliofóbía sem er lýsir sér í ótta við afskaplega löng orð.

Sá sem er haldinn Parthenafobíu, situr kannski á kaffi Hressó og talar borubrattur um stjórnmál og listir, þar til ung stúlka gengur hjá, þá fölnar viðkomandi, verður andstuttur, svitnar og upplifir að hann sé að deyja. Parthenófóbía er sumsé hræðsla við ungar stúlkur, sérstaklega ef grunur leikur á að stúlkukindin sé hrein mey. Menn haldnir þessari tegund fóbíu geta ekki búið nálægt grunnskólum. Öll þeirra tilvera gengur út á að forðast aðstæður þar sem ein eða fleiri hreinar meyjar koma saman. Maður með Parthenófóbíu héldi því líklega ekki til á Hressó, sem er krökkur af yngismeyjum, þó ósennilegt sé að stúlkur af þeirra manngerð sem sækja þann ágæta stað séu óspjallaðar.

21

Jun
01

[media id=216 width=520 height=436]

Í dásamlegri fortíðarþrá, hef ég á liðnum dögum gruflað í gömlum myndböndum. Í bútnum hér að ofan, sem tekin er um sumarið 1991, er ég einungis 21 árs gamall. Ég er staddur í kaffi og sígó að Hlíðarvegi 1, í Kópavoginum. Í bakgrunni má heyra Steina Bjarna(Þorsteinn Óttar Bjarnason), tala við einhvern í síma; ég giska á Hörð Júlíusson, eða Stein Skaptason, en ég er samt ekki viss um að Steinn hafi átt síma þegar þetta var, þar sem hann var fráhverfur nútímatækni. Í klippunni er ég hærðari en mexíkóskur flagari á fengitíma, en fáeinum árum síðar rakaði ég í fyrsta skipti hárið alveg af mér, og hefur það ekki fengið að vaxa af neinu ráði síðan. Ekki hefði hvarflað að mér að ég ætti eftir að gera heiminum þessa klippu aðgengilega 18 árum síðar.

Enginn heima

May
30

Laugardagstrítið:

[media id=215 width=520 height=390]

Vísindaleg útskýring

May
29

Ég hef verið í alveg skelfilega þungu skapi undanfarna daga. Ég hef komist að því, með vísindalegum aðferðum, að lífsleiði minn tengist eitthvað líffæri vinstra megin í brjóstholi, sem dregst sundur og saman og dælir rauðleitum vökva um lagnakerfi líkamans.

Hvaða illvirki fann upp þessa maskínu?

Nágrannar

May
27

“Grannar, allir þurfa góða granna, trallallallalallalla…..”

tva_douglas_dam_jack_hammer

Nágranni minn, karl yfir fimmtugt, á mikið af kraftmiklum verkfærum sem gefa frá sér allskonar andstyggðarhljóð. Í dag má heyra glakk, glakk, glakk, glakk í milljón vatta múrbrjót. Í gær, sagaði hann með hjólsög allan daginn. Ekki var hann að saga ektakvinnu sína í búta, því núna þessa stundina, þegar ég reyni að skrifa ólund mína í burtu, situr hún með vinkonum sínum út í garði og talar hátt og snjallt með reykmettaðri viskíröddu.

Stundum vildi ég að ég byggi út í sveit.

Partí á öðru tilverustigi

May
13

Nokkrir menn, sem ég hef mætt á lífsleiðinni, hafa verið svo fullir af hlýhug í minn garð að þeir hafa eytt dýrmætum tíma sínum í að útskýra fyrir mér hinn gullna sannleik lífsins. Í sumum tilfellum hef ég ekki einu sinni þurft að biðja þá um að miðla mér af visku sinni, heldur hafa þeir bara ákveðið í guðlegri óeigingirni að ég þyrfti á henni að halda. Ég kann þeim engar þakkir fyrir. Aðra hef ég sótt heim, í þeirri von að þeir gætu sagt mér eitthvað sem mögulega tendraði ljós í myrkustu skúmaskotum sálu minnar. Eitthvað sem víkkaði skilning minn á tilverunni.

Einn af þessum kyndilberum sannleikans, sagði mér að ástæðan fyrir því að ég er viðþolslaus og frústreraður, er að ég er gömul og þreytt sál. Eftir að hafa verið hérna á jörðinni ótal sinnum, er ég lúinn og vil ekkert frekar en hvíld. Spræka og FM hressa liðið, eins og tildæmis Simmi og Jói/Jón og Gulli, sagði andlegi maðurinn – eru splunkunýjar sálir. Þeim þykir svo ægilega gaman að vera til, því fyrir þeim er allt svo nýtt, ferskt og hresst.

Við fæðumst aftur og aftur þar til við höfum öðlast æðri skilning. Þegar þeim skilningi er náð, fáum við að taka þátt í svakalegu partíi sem haldið er á öðru tilverustigi og tekur engan enda. Hann útskýrði ekki nákvæmlega hvaðan allar sálirnar kæmu, eða hvernig þær yrðu til, en það er auðvelt að geta í eyðurnar. Það má tildæmis gera ráð fyrir að upplag af sálum sé á bilinu 7 – 10 milljarðar. Látum þó liggja á milli hluta hvernig sálirnar voru framleiddar í byrjun. Það eiginlega segir sig sjálft.

Jarðarbúar eru núna í kringum 6.7 milljarðar. Einhver afföll verða á degi hverjum, og ný líf kvikna, sum með nýjum sprækum Simma og Jóa sálum, önnur með sálum sem hafa verið hér áður, en hafa ekki öðlast skilning samboðin partíhöldurum í partíinu endalausa. Sálunum er skipað niður á jörðina, eftir kerfi, æðra öllum öðrum kerfum. Mögulega fær sál sem hefur verið á jörðinni einu sinni, að taka þátt í partíinu þó hún hafi ekki náð fullum þroska, svo þegar kemur óhjákvæmilega að því að hún hellir niður, gubbar, eða móðgar einhverja sál henni æðri, er hún umsvifalaust send niður til jarðar þar til hún hefur vitkast.

Þegar hér er komið við sögu er ekkert sem lýsir hugarástandi mínu betur en þetta: $#&%!#$//&%#!#!#$$%&/!

Eru dýrin annars með sál? Eru moskítoflugur með sál? Er eftirlífið kannski fullt af moskítóflugum? Endurfæðumst við alltaf sem menn? Afhverju?

Andlegir menn, með skilning á heiminum, segja allir sömu söguna. Leit þeirra var píslarganga sem stóð yfir í mörg ár. Órakaðir, sveittir og vonlausir á síðustu metrum tilveru sinnar uppgötvuðu þeir allt í einu hinn eina sanna sannleik. Þannig verður þetta í mínu tilfelli líka. Ég á eftir að staulast yfir sjó og land í leit að svörum við spurningum mínum. Þegar ég svo öðlast æðri skilning, ætla ég að ganga götur borgarinnar, með þóttafullan, en mjög svo andlegan – svip. Það mun lýsa af mér, svo guðlega þenkjandi verð ég. Ég mun hugsa öllum þeim sem ekki hafa sama skilning og ég – þegjandi þörfina. Þá verður gaman.

Bubba Ho-tep

May
12

Fyrir menningarþyrsta lesendur mína mæli ég með prýðilegri mynd sem ég sá í gær í huggulegheitum heimilis míns í litla Skerjó. Hún heitir Bubba Ho-tep og gerist á elliheimili á okkar tímum. Stirðir og elliærir gamlingjarnir eru 1000 ára gömlum egypskum uppvakningi auðveld bráð. Hann eltir þá upp í rólegheitum, drepur þá og sýgur svo sálina úr þeim í gegnum rassgatið, en eins og allir vita er sálin staðsett í ristlinum. Vistmaður, sem heitir Elvis Presley og er Elvis Presley(sá sem fékk hjartaáfall og dó var eftirherma), ásamt besta vini hans, svertingja sem segist vera John F. Kennedy, reyna að ráða niðurlögum uppvakningsins, áður en hann nær í rassinn á þeim.

Í hlutverki Elvis, er Bruce Campbell sem svo eftirminnilega lék í Evil Dead myndunum. John F. Kennedy er leikinn af gamla öðlingnum Ossie Davis. Bubba Ho-tep skorar 7.4/10(20,226 votes) á imdb og prequel/undanfari sem ber nafnið Bubba Nosferatu: Curse of the She-Vampires er væntanleg 2011 með Ron Perlman í hlutverki Elvis og Paul Giamatti sem umboðsmaður hans Colonel Tom Parker.

Hér er svo aftanívagn:

[media id=214 width=520 height=390]

Ó þú helsúra tilvera

May
10

gunther460

Hér skal, eins og svo oft áður, skrifað um mannskepnuna og hennar helsúru tilveru. Pistillinn hefst á orðinu: “mannskepnan”, en þetta prýðilega orð hefur komið fyrir í 164 pistlum sem ég hef skrifað hér á þessum vef.

Mannskepnan – nema að hún verði veik eða hafi af því atvinnu – veltir því lítið fyrir sér hvað er að gerast að tjaldarbaki mannslíkamans. Það er skiljanlegt, hún er alltof upptekin af málefnum sem skipta hana meira máli, eins og tilfinningalífi, efnahagsstöðu, hvort hún sé meira virði en nágranni hennar í næsta húsi, hvað hún tekur mikið í bekkpressu osfrv. Þegar hún vaknar á morgnana, er ekki það fyrsta sem hún hugsar:”Það er stórfurðulegt líffæri í brjóstholinu á mér sem dregst sundur og saman og dælir rauðleitum vökva um pípulagnakerfi líkamans. Hvað á það eiginlega að fyrirstilla, er verið að gera gys að mér?” Nei, hún andvarpar og hugsar:”Oh mæ god! Oh mæ god! Ætti ég að lita á mér hárið í dag?”

Hér er rétt að staldra við og hafa orð á, að skrif þessi eru ekki hugsuð til að vekja sofandi fólk til meðvitundar um kraftaverk lífsins. Ég er einungis að viðra einstaka hugsun sem nagar tilveru mína, og kemur án efa til með að gera það þar til ég dett blessunarlega dauður niður. Þankagangur af þessu tagi er stórhættulegur. Ein tilvistarspurning kallar á aðra og fyrr en varir stendur maður uppi allsnakin með enga blekkingu eftir til að staðsetja sig í lífinu.

Lífið og tilkoma þess er alveg stórskrýtin. Við verðum til vegna þess að einhver másandi og blásandi maður samsettur úr milljónum lífvera sem allar hafa sjálfstæðan vilja, fær óskiljanlega löngun til að stinga typpinu sínu inn í aðra manneskju og sprauta hana fulla af próteinríkum vökva. Enn óskiljanlegra er að öll okkar tilvera virðist snúast um þessa einkennilegu athöfn. Við skreytum hana með rósum og rómantík, yrkjum um hana ljóð, grenjum og görgum. Allt í þeim eina tilgangi að kynfæri manns og konu eigi saman fund.

Þegar hinu undirliggjandi markmiði er náð og karlskepnan hefur komið frá sér próteinhleðslunni – deyr eitthvað innra með honum. Öll rómantíkin, hamingjan, tilfinningasemin, vonir og þrár – verða um stund að engu. Alveg þar til líkaminn bætir fyrir vökvamissinn og hefur framleiðslu á meira gutli, sem hann vonar að kveiki líf. Líf sem verður svo að enn einni glórulausri mannskepnu sem eyðir ævinni í að spyrja sig: “því í andskotanum”, ef hún – eins og flestir – trúir ekki þessum fáranlegu hugmyndum um hvað gerir mann að manni og verður þóttafull, feit og hálslaus vera á stórum jeppa, sem lifir einungis fyrir meltingarveginn. Og á plánetu, sem tilheyrir einu sólkerfi af sæg sólkerfa sem við vitum ekkert um, undir skinni einnar mannskepnu, hamast maskína, sem enginn veit hvers vegna starfar.

Myndin hér að ofan er af látnum manni, sem gaf líkama sinn, umdeildum snillingi sem heitir Dr. Gunther Von Hagens. Hann er líffærafræðingur, sem fann upp plöstunaraðferð til að varðveita líkamsvefi. Fyrstu 20 árin var uppfinningin notuð til að varðveita minni líkamsparta í læknisfræðilegum tilgangi, en svo plastaði hann heilan mannslíkama og tók það hann og teymi hans 1500 vinnustundir. Hann flakkar um heiminn með sýningu sem heitir Body Worlds. Sýningin inniheldur nokkur lík, sem hafa verið plöstuð, og settar í lifandi stellingar. Tildæmis, maður að sparka bolta. Eða menn að spila póker, osfrv. Hann hefur einnig tekið sum líkin og sagað þau í sundur, til að sýna þverskurð af líkamanum.

Ég held að þetta sé ein merkilegasta sýning, fyrr og síðar. Hún er þó ekki fyrir forpokaða trúarnöttara. Það er þó lítil von til að hún komi til Íslands, en ég væri til í að ferðast gagngert til að sjá hana.