Blaðberabíó
Ég heyrði þetta lag fyrst í blaðberabíói, þegar ég var krakki. Þeir krakkar sem báru út Þjóðviljann heitinn, fengu vikulega senda bíómiða í Regnbogann, þar sem sýndar voru æsispennandi krakkamyndir á borð við Sinbað sæfara, 20.000 League under the sea, Töfragarðinn, ásamt fleiri titlum sem festust mér ekki í minni. Á undan einni sýningunni heyrði ég Life on Mars spilað meðan við krakkarnir vorum að koma okkur fyrir í sætunum. Þótti mér lagið undursamlegt; svo dulúðlegt, hlaðið óskiljanleika lífsins. Ég hef verið um 10 ára aldurinn og vissi ekkert hver David Bowie var.
Lagið kemur svo aftur við sögu 10 árum seinna, þegar ég og snjallasti vinur minn á þeim tíma marineruðum í fjölbreyttu menningargúmmilaði í húsi að Hlíðarvegi 1 í Kópavogi. Húsið var ekki af þessum heimi, enda spilar það helsúra rullu í svokölluðu Dauðatafli, undir videoverk hér til vinstri.