Það kemur fyrir að ég er staddur í umhverfi, þar sem ég beinlínis neyðist til að haga mér eins og tilheyri heimi hinna fullorðnu. Það er mér þungur róður. Í þessum aðstæðum er ekki óalgengt að að ég finni hjá mér þörf til að annaðhvort bresta í söng eða bara garga. Garga þar til kraftar mínir eru uppurnir.
Fólk sem sýnir það með einhverju móti að það sé á lífi, þykir mér alveg sérstaklega aðlaðandi. Það þarf ekki að vera stór uppákoma, mér nægja fáein tár, að einhver segi eitthvað óviðeigandi, andartaks hvatvísi, ófyrirséð ástríða, klaufaskap eða einhvern vísi þess að viðkomandi manneskja sé ekki steindauð. Ef ég tek eftir breyskleika í fari einhvers, á sá hinn sami mun greiðari leið að hjarta mínu.
Ég þoli illa að þurfa að setja mig í stellingar, eftir því í hvaða aðstæðum ég er í. Við fullorðna fólkið erum uppfull af alveg sérstaklega leiðinlegum látalátum. Hvernig við klæðumst, hvað við tölum um, hvað við tölum ekki um, hvaða mat við borðum, hvað við drekkum, hverja við þekkjum, hvaða bækur við höfum lesið, hvaða tónlist við hlustum á, hvernig bíl við keyrum, í hvaða hverfi við búum, hverjum við erum skyld, osfrv. Ömurleg og niðurdrepandi látalæti, sem persónulega koma mér ekki að neinu gagni.
Þess vegna er svo gaman að eiga samskipti við börn. Þau eru ekki þjökuð af þessum leiðindum sem fullorðna fólkið hefur tileinkað sér. Þau eru í flestum tilfellum, bara þau sjálf. Nema náttúrulega þau börn sem eiga foreldra sem eru sérstaklega sýkt af mikilvægum og stórfenglegum heimi hinna fullorðnu.
Jú, ég viðurkenni, að það að vera fullorðinn hefur sína kosti. Ég get tildæmis farið sisona út í kjörbúð og keypt mér ástarsorgarumbúðir(5l) af vanilluís, lagst upp í sófa og mokað honum í mig af áfergju. En að öðru leiti finnst mér heimur hinna fullorðnu alveg afskaplega kjánalegur. Hverjum og einum er hinsvegar það í sjálfval sett hvort hann taki þátt í þessum skrípaleik. Ég held því að kúnstin liggi í því að finna leið til að vera frjáls til að vera það sem maður vill vera, burtséð frá því hvað þeir sem ákvarða hvað er við hæfi eða ekki við hæfi, finnst um það.