SiggiSiggiBangBang

Fótalausi maðurinn

Jul
28

Ég sit fund um andleg málefni. Kona og karl standa í sitthvorri pontunni og tala af þrótt og innlifun. Ég veit að ég er ekki á heimavelli. Ég er aðkomumaður. Ég þekki þó venjur fólks þarna og í kurteisisskyni læt ég sem ég sé upphrifinn af því sem þarna fer fram. En ég er það ekki. Mér leiðist og vildi óska þess að ég væri einhversstaðar annars staðar.
Fundinum lýkur og fólk þyrpist að konunni til að þakka henni fyrir. Ég ætla að gera slíkt hið sama, en kemst ekki að henni fyrir slefandi múgnum. Ég finn að ég verð vandræðalegur og íhuga að læðast í burtu, þegar ég kem auga á karlinn þar sem hann stendur enn í pontunni. Hann er hálfsköllóttur, dökkur yfirlitum, klæddur í sportlega gula peysu yfir bláa skyrtu. Allt í einu stekkur hann fram fyrir pontuna út á gólfið. Ég verð svolítið undrandi, því hann er pínulítill. Undrun mín minnkar ekki þegar ég átta mig á að ástæðan fyrir því að hann er svona lítill, er sú að hann er alveg fótalaus. Hann horfir á mig, með hlutlausum svip. Þrátt fyrir fótaleysið hefur hann öðlast talsverða leikni í að mjaka sér eftir gólfinu. Það kemur honum vel, því honum liggur lífið á að komast í burtu frá mér. Ég sé á eftir honum þar sem hann skreiðist á ógnarhraða út í sal. Ég vakna við að feiti kötturinn og prímadonnan hann Avraham, heimtar morgunverð. Ég fer inn á baðherbergi og sé að ég er kominn með bólu á nefið. Ó, þú súra tilvera.

Martröð á Fossagötu

Jul
26

Í nótt sem leið dreymdi ég að einhver hefði hoggið af mér hausinn með myndarlegri sveðju. Ég man ekki mikið eftir atvikinu sjálfu, þannig að ég get ekki sagt til um hvers vegna einhverjum fannst ég þurfa að verða höfðinu styttri.

Kannski var það einhver lesandi þessarar síðu?

Þegar ég kemst til meðvitundar í draumnum, hefur einhver tekið hausinn minn, skellt honum á strjúpinn og járnabundið hann á nokkrum stöðum. Þó ekki betur en svo að ég mátti ekki halla höfðinu of mikið aftur eða til hliðanna, þá gapti á milli þar sem hausinn var reyrður niður og var mér hollast að rétta hann af ef ég vildi ekki að hann rúllaði í götuna.

Þegar ég vaknaði íhugaði ég hvað í andskotanum þessi draumur ætti að fyrirstilla. Það fyrsta sem mér kom til hugar var að ég væri kannski að fara að deyja á næstu dögum, en þegar ég hugsa það aðeins betur tel ég það af og frá – ég er nefnilega nokkuð viss um að ég þurfi að hanga hér mun lengur en ég kæri mig um. Það var svo ekki fyrr en í kvöld að ég áttaði mig á að draumurinn væri fyrirboði þess að ástin er leiðinni í bæinn. Guð hjálpi mér! Þá er nú betra að vera dauður.

Hvað er í gangi með hvað er í gangi?

Jul
22

“Hvað er í gangi?” telur 81,000 niðurstöður þegar leitað er á google án skilyrða. Sé leitin framkvæmd þannig að hún skili einungis niðurstöðum fyrir blog.is eða moggabloggið, fást 30,500 síður. Athyglisvert, ekki satt.

Við hvaða aðstæður eru þessi haglega röðuðu orð notuð jafn óhóflega og google ber vitni um? Ég veit að þegar ég í móðursýkiskasti garga hér innan veggja heimilisins: Hvað er í gangi? – er kötturinn minn yfirleitt búinn skeina loðinn rassinn sinn á nýþvegnu baðherbergisgólfinu. Ég verð sár og móðgaður og spyr sjálfan mig tilhvers í andskotanum ég er að eiga kött, ef hann þakkar fyrir sig með að breyta húsi mínu í eitthvað sem lítur út eins sambýli fyrir geðfatlaða. Það hvarflar ekki að mér þegar “Hvað er í gangi?” gállinn er á mér, að kisinn minn eigi í erfiðleikum með hægðir og að þá erfiðleika megi að öllum líkindum rekja til að ég gef honum of mikinn blautmat.

En við aðstæður keimlíkar þeim er ég lýsi hér að ofan, ímynda ég mér að fólk noti ótæpilega: “Hvað er í gangi?” Sá er grípur til þessarar upphrópunar finnst á sér eða sínum brotið og ákveður að móðgast persónulega eða fyrir hönd þeirra sem um er rætt. Hann telur að einhver skuldi einhverjum útskýringu. Að einhver eigi að gera eitthvað í einhverju. Helst þó einhver annar en hann sjálfur.

Eftir að hafa hrópað yfir sig: “Hvað er í gangi?” – finnst honum, hann örlítið heilbrigðari fyrir að koma auga á hvað mætti betur fara. Hann upplifir að hann sé betur áttaðri um hver hann er og hvaða tilgangi hann þjónar í tilverunni. Þóttafullur lygnir hann aftur augunum og andvarpar um leið og þægileg tilfinning skýtur upp kollinum: “Ahhhhh, ég hef rétt fyrir mér. Ég er frábær, þau eru fífl.”

En sú tilfinning er ekki komin til að vera.

Geðsýki gerir vart við sig

Jul
21

Þegar líf mitt er rétt u.þ.b fullkomið finn ég að undir niðri kraumar geðsýki af verstu sort. Hryllilegt ástand sem ekki er svo ólíkt því að vera haldinn djöflinum, hafi einhver einhverja reynslu af því. En ég kann að sporna við þessari geðveiki sem herjar á mig þegar ég má síst við. Ég sest upp í bifreið mína af Opel gerð og keyri sem leið liggur niður í Krónuverslunina út á Granda.

Einhver kann að spyrja sig hversvegna í ósköpunum ég fari ekki í Kringluna, eða jafnvel Smáralindina þegar geðsýki þessi herjar á huga minn. En það dugar skammt á þessa veiki. Fólk sem spartlar upp í tómarúmið í sálu sinni með að fara í verslunarmiðstöð, gerir það til að eyða peningum í ónauðsynjar – og það er mun skemmtilegra en að hanga nauðbeygt í Krónuverslun. Þar af leiðandi er töluverður munur á stemningu í matvöruverslun og verslunarmiðstöð.

Til halda niðri þeirri tegund af geðveiki, sem fær vænstu menn til að drepa, stela, svíkja og fremja allskonar ódæði, er langbest að fara í verslun þar sem stemningin er rotin og fylgjast með hvernig fólk sem parað hefur sig saman virkar í innkaupum á nauðsynjavörum. Parað fólk í matvöruverslun er oftar en ekki pirrað og langþreytt á hvoru öðru og á í mestu erfiðleikum með að dylja tilfinningar sínar.

Þegar ég svo verð vitni að því hversu margir eru óánægðir með pörunina, held ég heim á leið uppfullur af gríðarlegu þakklæti yfir að vera einbúi með geðstirðan kött. Öll þrá eftir ást og samlífi hverfur eins og dögg fyrir sólu. Allavega í c.a hálftíma.

Á næstu dögum mun ég brydda upp á fleiri heimilisráðum gegn ástsýki, tildæmis hið óbrigðula ráð að bora gat á höfuðkúpuna með steinbor, eða pissa í fjöltengi.

Myosotis arvensis

Jul
18
[MEDIA=167]

“…And these children
that you spit on
as they try to change their worlds
are immune to your consultations.
They’re quite aware
of what they’re going through…”
David Bowie

Þetta lag var mjög vinsælt löngu áður en ég varð gamall geðstirður kall í kjallara á Óðinsgötu. Molly Ringwald og félagar hennar í morgunverðarklúbbnum höfðu afar innspírandi áhrif á mína kynslóð, að undanskildum þeim er aðhylltust pönkið, en ég var ekki einn af þeim.
Við vorum unglingar og skildum ekki okkar hlutverk í tilverunni, sama hvað við reyndum. Áttum við að treysta brotnum foreldrum okkar, bekkjarsystkinum, fasískum skólastjóra, rugluðum kennurum – eða áttum við að fara eigin leiðir. Óteljandi spurningar þjökuðu huga okkar.

Ég samhæfði einna mest með persónu Ally Sheedy. Ég held að ég geri það enn, rúmum tuttugu árum síðar.

Hver var eftirlætispersónan þín?

Bless Óðinsgata

Jul
16

Fyrir viku síðan fékk ég mig fullsaddan af Óðinsgötunni og ungu áfengissvolgrandi ríðurunum sem deildu með mér húsi.

Hvað gerði útslagið?

Í góðærinu sem leið komst það í tísku að vera með heitan pott í miðju íbúðarhverfi. Eftir erfiðan dag í Kauphöllinni þótti gott að koma heim, skella sér í pottinn, drekka kampavín og stunda fjölbreytilega kynlífsleiki af þeirri tegund sem gaman er að taka upp á símann sinn og senda tengdó upp í Breiðholti. Fyrir einhverjum árum síðan, löngu áður en ég fluttist á Óðinsgötuna, steypti eigandi efri hæðarinnar meðfram húsinu heitan pott. Gallinn á þeim potti var sá að hann var staðsettur beint fyrir utan eldhúsgluggann á íbúðinni minni.

Til þessa höfðu nágrannar mínir sýnt mér þá tillitsemi að lauga sig ekki í pottinum. En tillitsemi er fyrir kattelskandi aumingja. Að sýna tillitsemi eyðileggur alla þá skemmtun sem hafa má út úr að runka sjálfum sér á kostnað annarra. Það var svo fyrir viku síðan, þegar ég kom heim eftir annasaman dag, að ég sá þau vera að skrúbba og sjæna pottinn fyrir gillerí sem til stóð að halda um helgina.

Hefði þarna verið um sómakært fólk að ræða, hefði því í það minnsta fundist svolítið einkennilegt að bera á sér rassaboruna einungis hálfan metra frá glugga nágrannans. En ekki þessu fólki. Þau eru frjáls fyrir eigin líkama og vilja fyrir alla muni leyfa nágrenninu að njóta þess að horfa upp á öll aukakílóin sem þau hafa svo ötullega safnað utan á sig. Þeim hefur ugglaust fundist ég lukkunnar pamfíll að fá að glápa á þau, meðan ég hlustaði á Víðsjá og gæddi mér á speltbrauði og hummus.

Eftir að mér varð ljóst í hvað stefndi, brjálaðist ég innra með mér. Gremja og óþverri sem ég hélt ég hefði losað mig við með Zen hugleiðslu og úberjóga bullsauð á mér. Eftir að hafa gengið fram og aftur um íbúðina, tautandi fyrir munni mér: Drepa, drepa, drepa, – settist ég niður og skoðaði nokkrar húsnæðisauglýsingar. Leigumarkaðurinn er óþverri og saup ég hveljur yfir okrinu og hryllingnum.

En bíðið nú við: hvað er þetta? Lítið sumarhús í stórum bakgarði í litla Skerjarfirði, á sama verði og kjallarinn á Óðinsgötu. Jeminn einasti og guð í himinhæðum. Ég hringdi í leigusalann og mælti mér mót við hann. Þegar ég sá húsið, ákvað ég með sjálfum mér að hér ætlaði ég að eiga heima. En sætt lítið rómantískt hús. Sá sem sýndi mér það, tjáði mér að eitthvað í kringum 30 manns hefðu sýnt því áhuga. Hann bað mig um að senda sér stutta útlistun á eigin ágæti með rafskeyti, sem ég og gerði. Sama dag, ákveðinn í að ég væri að fá þetta hús, hóf ég að pakka saman. Á sunnudaginn hringdi þessi prýðismaður í mig og bauð mér húsið til leigu. Ég var fluttur á mánudeginum með hjálp góðra manna.

Ég er ægilega lukkulegur, eins og má sjá á þessari mynd. Og ekki er Avraham fúli kötturinn í þessu sérkennilega máli. Hann hefur núna, frá og með deginum í dag, í fyrsta skipti fengið að hlaupa um frjáls og hamingjusamur veiðandi flugur í fallegu sumarveðri í 101 Reykjavík. Já, ég er auðvitað ennþá í 101 sko.

Sjálfsmat

Jul
13

Ég hef mikið velt því fyrir mér hvers vegna sumir hafa til að bera stórt og þrútið sjálfsálit, meðan aðrir læðast meðfram veggjum þjakaðir af minnimáttarkennd. Persónulega, er allur gangur á því hvaða hugmyndir ég hef um sjálfan mig. Suma daga finnst mér eins og ekkert sé mér ómögulegt. Ég veð uppi, viss um að ég sé snjall, fallegur og skemmtilegur. Svo koma dagar þar sem ég er sannfærður um að ég sé eitt af heimskari og ljótari kvikindum þessa heims.

En hver er raunveruleikinn þegar kemur að sjálfstrausti og tröllatrú á eigin getu?

Fræðimenn á virtum stofnunum hafa með vísindalegum rannsóknum stutt þá tilgátu að fólk sem hneigist til þunglyndis með tilheyrandi efasemdum um eigið ágæti, hefur heilbrigðara sjálfsmat, sem er mun nærri raunveruleikanum, en það fólk sem hefur óbilandi trú á sjálfu sér.

Það eru gleðifregnir fyrir okkur blúsarana.

Að öðru ekki svo óskyldu.

Ég hef talið mér til tekna undanfarna daga að vera með sérstaklega stinn læri. Ég hef hamast eins og móðurríðari á fjölþjálfanum mínum. Eins og lesendum er kunnugt um, er ekkert sem íþyngir mér meira en umfram líkamsfita. Ég lærði það snemma á lífsleiðinni að enginn vingast við feitt fólk. Feitt fólk endar yfirleitt uppi eitt og yfirgefið og engum þykir vænt um það. Svo ég kosta öllu sem ég á, til að vera mjór. Það er erfitt, því ég er ekki ólíkur Oprah að því leitinu til að ég blæs sundur og saman eins og fýsibelgur.

En nú er ég með stinn læri og ekki laust við að ég hafi örlítið meira sjálfsálit fyrir vikið. Stjórnast lundarfar mitt virkilega af því í hvaða vigt ég er? Er ég búinn að vera sæll og glaður undanfarnar vikur vegna þess að ég er í temmilegri þyngd?

Hvað um það.

Ég er með stinn læri og ég þreytist ekki á að hafa orð á því við meðbræður mína. Um daginn bjó ég til auglýsingu á einkamal.is sem hljómaði eftirfarandi: Maður á fertugsaldri með stinn læri, allt sitt á hreinu, veit hvað hann vill, elskar að liggja upp í sófa og hafa það kósí, óskar eftir mjórri konu. Ekkert rugl. Svo samdi ég aðra auglýsingu þar sem ég óskaði eftir íbúð: Reglusamur og reyklaus maður með stinn læri, óskar eftir íbúð í 101 Reykjavík.

Það liggur ljóst fyrir hvar sjálfsvirðingin mín liggur þessa daganna. Ég sem hélt að ég væri lengra á veg kominn.

Áreynsla

Jul
09

Sumt fólk þarf að leggja töluvert á sig til að vera almennilegt. Margir sækja tildæmis þartilgerða fundi til að sporna við dusilmenninu í sjálfu sér. Þar má heyra fólk tala roggið um að ef það sæki ekki fundina, þá verði það illt inn að beini á mjög skömmum tíma. Má þá ganga út frá því vísu að það sé fallega þenkjandi svo fremi sem það viðheldur fundasókninni. En svo eru aðrir sem eru bara ósköp vel meinandi og góðir í grunninn og þurfa ekki að sækja í nein félagasamtök til að læra að gera sér upp góðmennsku.

Vel á minnst. Fyrir utan nokkrar maltflöskur, þá hef ég verið til fyrirmyndar á öllum sviðum mannlífsins í átta ár.

Róttækur heiðarleiki

Jul
06

Ég hef litla hæfileika til að taka þátt í þykjustuleik okkar fullorðna fólksins. Ég reyni þó eftir bestu getu að eiga sómasamleg samskipti við fólk; samskipti sem verða ekki til þess að mig langi til að sturta sjálfum mér niður um klósettið að þeim loknum. Samskipti eru mikil kúnst og útheimta alveg gífurlega orku. Þegar orka mín fer þverrandi er mér gersamlega um megn að taka þátt í þessari lygaþvælu sem 80% samskipta eru. En nú tel ég mig hafa fundið lausn á þessu hvimleiða vandamáli.

Um daginn horfði ég á This American Life, sem eru skemmtilegir og mjög innspírandi þættir sem mér áskotnaðist í stafrænum heimi. Í þætti númer tvö, er umfjöllunin: And Nothing but the Truth, og er um sálfræðinginn Brad Blanton og þerapíu sem hann er upphafsmaður að sem heitir: Róttækur heiðarleiki, og gengur út á að vera heiðarlegur í öllu því sem maður segir og gerir. Ekki þá bara í þerapíunni, heldur alls staðar í lífinu. Brad álítur að það sé eina leiðin til að öðlast frelsi.

Mörg okkar þykjumst geta státað af heiðarleika í lífinu, en þegar betur er að gáð þá erum við alltaf að reyna að selja hvoru öðru fríkkaða og stundum ósanna mynd af því sem við í raun og veru erum. Í Róttækum heiðarleika er allt látið flakka og engu haldið tilbaka. Þegar þú ert spurður hvernig þú hefur það, þá ber þér að segja sannleikann, hvort sem þú ert hræddur, reiður, glaður, graður, eða hvernig sem ástatt er fyrir þér. Eins mælist Brad til þess að maður segi öðru fólki sannleikann um það sjálft, eins og hann blasir við manni sjálfum .

Brad þessi Blanton, fór í framboð í sínu umdæmi, en náði ekki kjöri, þar sem hann lifir sjálfur eftir þessari hugmyndafræði. Hann var tildæmis spurður að því hvort honum væri hlýtt til U and S of the A, og hann svaraði að hann gæti ómögulega verið stoltur af því að vera ameríkani.

Í gær fór ég á kaffihús, sem þykir svosem ekki tíðindum sæta, nema fyrir það að ég hafði ákveðið að tileinka mér það sem ég veit um hugmyndafræði Brads.

Þar hitti ég stúlku sem ég var einu sinni skotinn í, en vildi mig ekki. Í staðinn fyrir að tíunda fyrir henni allt sem mér hefur áskotnast upp á eigin spýtur í lífinu – án hennar tilkomu – þá sagði ég henni í róttækum heiðarleika að ég hataði hana fyrir að hafa ekki endurgoldið mér ást mína. Ég sagði við hana, að enn þann daginn í dag, bæri ég kala til hennar hennar og að hún hlyti að vera illa gefin fyrir að gera sér ekki grein fyrir hversu mikill afbragðsmaður ég er. Einnig sagði ég henni að hún væri hóra og ég vonaði að hún dræpist og þegar væri búið að jarða hana kæmi ég valhoppandi með typpið mitt og pissaði á leiðið hennar.

Árangurinn lét ekki á sér standa, því eftir að hún rauk í burtu frá mér, tautandi fyrir munni sér einhvern óhroða, þá leið mér miklu betur í sálu minni. Ég var hamingjusamur glaður og frjáls innan í mér.

Eftir að hafa sagt við eina þjónustukonuna að hún væri feit og mætti missa nokkur kíló, og spurt aðra hvort hún hefði verið alin upp í Breiðholti, þá gekk ég léttur í lundu heim til mín blístrandi lítinn lagstúf.

Eckhart Tolle er maður gærdagsins, Brad Blanton er maður dagsins í dag.

Nú loksins, get ég mér um frjálst höfuð strokið.

Kominn í höfn

Jul
01

Langskemmtilegast finnst mér að lesa tímaritagreinar um fólk sem einu sinni var ömurlegt, en hefur undið sínu kvæði í kross og er orðið framúrskarandi. Það gefur mér von um að ég geti gert slíkt sama. Greinarnar eru afar innspírandi, oftast um einhvern sem hefur átt í meiriháttar erfiðleikum, tildæmis verið hrikalega feitur, og misst ósköpin öll af kílóum með hjálp nýstárlegs megrunarkúrs. Eða einhver sem var ægilega feitur og fór í spinning, og er núna mjór og eftirsóknarverður. Svo eru vinsælar greinar um fólk sem var einu sinni ljótt, en hefur með hjálp nýrra aðferða, fríkkað heilan helling. Og ekki má gleyma þeim sem átu heilu fjöllin af allskyns lituðum pillum, en eru hættir því og farnir að trúa á Jesú Krist.

Ég verð þó að segja að mér þykir mun fýsilegra að bryðja pillur, heldur en að elska Jesú Krist, sem sennilega var aldrei til – og ef valið stæði á milli þess að lifa í blekkingu pilluáts og að ljúga sjálfan mig uppfullan af Jesú, þá tæki ég pillurnar fram yfir.

Rétt er að taka það fram að ég þarf ekki að sækja í neinn félagsskap til að mega hafa þessi viðhorf!

En greinarnar eru gefandi, sérstaklega fyrir mann eins og mig sem leitast eftir að skilja betur þessa súru tilveru. Og það er svo einkennilegt, að tilvera mín verða einungis súrari eftir því sem árin verða fleiri. Er ég þó alltaf allsgáður, hugsandi fallegar hugsanir, bakandi spelt brauð og lesandi uppbyggilegar bækur.
Fólkið, sem er alveg hætt að vera ömurlegt, en er þess í stað orðið frábært, fá auðtrúa hrekkleysing eins og mig til halda að það sé raunverulega hægt að komast í höfn í þessu lífi. Að ég geti fetað í fótspor þeirra sem, hafa fattað lífið og uppskorið hamingju sem endist, þangað til í mér hryglir. Það eina sem ég þarf að gera er að missa 50 kíló, finna góða konu, fara í kynskiptaaðgerð, sprauta í mig Botox, klæðast réttu fötunum, taka réttu trúnna, þekkja rétta fólkið og þá þarf ég aldrei aftur að gubba í lífsins ólgusjó.

Ég á annars afmæli á næstu dögum. Mikið væri nú fallegt ef einhver gæfi mér eitt stykki Hummer – það er hægt að fá þá á svo fínu verði hef ég heyrt. Flestir þeirra sem í góssentíð Íslands sigldu í höfn/keyrðu í hlað, á þessum glæsibíl, eru að reyna að losna við þá.