SiggiSiggiBangBang

Vorþrá

Feb
12

[media id=201 width=520 height=300]

Ég var þó aldrei skáti!

Endurtekningar

Feb
10

Mér hafa borist aðfinnslur í vælukenndum kvörtunartón um að ég sé farinn að endurtaka mig. Það þykir mér ekki skrítið, þar sem sömu illfyglin tísta inn í hausnum á mér frá ári til árs. Einhver lagði til að ég færi að lifa lífinu. Hvernig geri ég það? Verður ekki hver og einn að leggja sína eigin merkingu í hvað felur í sér að lifa lífinu? Eða er mér uppálagt að fylgja einhverjum reglusettum um hvernig lífi skal lifað? Einhver sem leggur til að einhver annar lifi lífinu, hlýtur með því að vera að segja að hann sjálfur lifi lífinu, og þeir sem lifi lífinu ekki á sama hátt, séu ekki að lifa lífinu.

Nokkrir málaflokkar koma ítrekað fyrir í ritmáli mínu. Þar ber fyrst að nefna samskipti. Ég velti samskiptum mikið fyrir mér þar sem mér finnst ég sjálfur félagslegt slys. Ég veit ekki hvernig ég á að haga mér í samskiptum við annað fólk, hvað ég á að segja, hvenær mér er óhætt að heilsa fólki sem ég er málkunnugur, osfrv. Ég er svo hræðilegur í samskiptum, að ég stundum tel betur heima setið, en af stað farið. Þess vegna eru samskipti mér mjög hugleikin.

Neðri byggðir er annað sem ég skrifa oft um. Kynbræður mínir bregðast ókvæða við þegar ég skrifa um menn, sem ganga þessa jörð í þeim tilgangi einum að brúka á sér kynfærin. Þeim finnst að ég ætti að hætta þessu kjaftablaðri og fá mér að ríða, líkt og menn fá sér að borða. Þetta get ég ómögulega skilið. Afhverju þarf ég þess? Hvernig er þessu hrint í framkvæmd? Fyrir alla muni. Liggið ekki á þessum upplýsingum eins og ormur á gulli.

Alveg frá því að ég man eftir mér hefur Dauðinn verið eitt af mínum stærstu áhugamálum. Mörgum finnst áhugi minn vera merki um óheilbrigði af verstu sort, en því get ég ekki verið sammála. Það er þegar ég gleymi því að ég er dauðlegur, sem líf mitt tekur að brenglast. Ég á ekki langt að sækja þennan áhuga minn, því pabbi hefur alla tíð rætt við mig teprulaust um dauðann. Hann nálgast nú áttrætt og er hinn sprækasti. Fyrir einhverjum árum, þóttist hann viss um að dauðinn nálgaðist. Hann útbjó því segulband, með tilmælum um hvernig málum skyldi háttað þegar hann væri allur. Inngangurinn hljómaði eitthvað á þessa leið: “Jæja, þá er ég að öllum líkindum dauður…”

Hann pabbi minn er fyrirtaksmaður.

Barnaleg hljómblíða í þríriti

Feb
09

Kreppan er skrímsli sem hið sjálfiska gen bjó til. Nú lifir hún sjálfstæðu lífi, líkt og SkyNet í Tortímandanum. Það skiptir engu máli hver situr í Seðlabankanum, eða hver brúkar munn á Alþingi. Kreppan fitnar bara og fitnar eins Oprah á tyllidegi.

Í morgun, á leið minni til vinnu, flautaði karldurgur fyrir aftan mig, vegna þess að ég var ekki nógu snöggur inn á Hringbrautina. Þá gerði ég eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Ég reiddi upp hnefann, líkt og ég væri að stjaksetja manninn. Undrandi á viðbrögðum mínum, lét ég hnefa reiðinnar síga. Bros varð til á andliti mínu, og áður en ég vissi, var ég farinn að skellihlæja og hló langleiðina upp(niður) í Skipholt.

Hér er This must be the place – naive melody í þríriti.

[media id=198 width=520 height=390]
MGMT

[media id=199 width=520 height=390]
The Arcade Fire

[media id=200 width=520 height=390]
Talking Heads – Stop Making Sense

Við höldum okkur til á bannsvæðunum

Feb
08

Fyrir fólk sem fær sér að ríða, líkt og það fær sér að kúka, eða borða, skiptir máli að sækja réttu staðina. Sumir fara á AA fundi, aðrir fara í hugleiðslu hjá guðspekifjelaginu, og enn aðrir fara með hungruð þvagfærin sín á líkamsræktarstöðvar.

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki stórkarlalegur í þessum málum, þannig að ég legg vel við hlustir þegar útriðið fólk eys úr skálum visku sinnar. Ég hef verið svo lukkulegur í gegnum þau ár sem ég hef kastast til og frá á þessari jörð, líkt og kúla í kúluspili, að fá að kynnast mönnum sem kunna til verka þar sem tveir, eða fleiri einstaklingar bera á sér kynfærin. Einn þeirra vann með mér hjá virðulegri stofnun hér í borg. Hann var löðrandi í kynþokka. Testósterónið draup af honum. Ég gat ekki annað en öfundað hann fyrir allar kellingarnar sem hann tantra jógaði; fékk hann því nafngiftina: ríðingarmaðurinn. Í öllum sínum samskiptum við hið gagnstæða kyn, reyndi hann á einhverjum tímapunkti að taka út á sér dindilinn. Stundum féll dindillinn á honum í grýttan jarðveg, en oft var honum boðið inn fyrir í te og bakkelsi. Hvað um það. Ég er kominn langt út fyrir efnivið þessa pistils.

Ég er nýbyrjaður að hlaupa aftur, og gengur vel. Ég hleyp annan hvorn dag u.þ.b 6 kílómetra, án þess að finna fyrir slæmsku. Einu sinni fyrir langa löngu, fór ég í líkamsrækt niður í Laugar. Ég hef alltaf verið með hræðilegar áhyggjur af holdafari mínu. Greypað í heilann minn er sú hugsun að ef ég er yfir kjörþyngd, þá geti enginn elskað mig. Skrítinn þessi heili. Þannig að ég hef reynt eftir fremsta megni að halda mér undir kjörþyngd, sem hefur gengið svipað og hjá Opruh minni Winfrey.

Laugar er ógeðslegur staður. Þar er vond fýla. Leiðinlegast þótti mér að hitta þar einhvern sem ég þekkti. Á líkamsræktarstöðvum liggur í loftinu sú yfirþyrmandi krafa að þú verðir að vera ógeðslega hress á því. Ekkert er mér jafn óeðlislægt og að vera hress. Ef ég neyðist til að leika mig hressan, morknar eitthvað í sálinni minni. En vegna þess að ég er svo fallega upp alinn, og mér er svo umhugað um tilfinningar meðbræðra minna, fann ég mig tilneyddan til að eiga þar einhver samskipti. Oft var ég spurður: Jæja, er bara verið að taka á því? Öhhhhhh..

Þrátt fyrir viðbjóð minn, var ég mjög duglegur og öll ástundum til mikillar fyrirmyndar. Ég hafði ekki með í ráðum einkaþjálfara, eins og þótti smart að gera, til að ná hámarksárangri. Allir hér á Íslandi eru alltaf að reyna að ná hámarksárangri í öllum andskotanum. Ég fór ekki niður í Laugar til að efla félagsleg tengsl mín. Ég var ekki að leita mér að eldheitri gellu. Ég var þarna staddur til að vinna á aukakílóum sem komu í veg fyrir að ég er elskaður.

Einu sinni sem oftar var ég að gera svokallaðar uppréttur á uppréttubekk. Ég gerði 300 uppréttur daglega, enda fátt eftirsóknaverðara í lífinu en stinnir magavöðvar. Þarna voru tveir uppréttubekkir hlið við hlið. Á hinn bekkinn settist kona, litlu eldri en ég. Hún var tígrisdýramynstruðum teygjubuxum. “Við verðum að hætta að hittast svona!” kraumaði í henni. “Öhhhhh, ehhhh, öhhhhh” svaraði ég karlmannlega meðan ég hamaðist á bekknum. Samskiptin urðu ekki meiri.

Í eitt og hálft ár sótti ég Laugar, en hætti því og ákvað að ég fara aldrei aftur inn fyrir dyrnar á svona stað. Ég hef verið hlaupari síðan, með hléum vegna meiðsla.

Á næstu dögum skrifa ég um fleiri ákjósanlega staði til pörunar, og hinar og þessar aðferðir sem mér hafa verið kenndar af svokölluðum ríðurum.

Haltu kjafti! Grillveislunni er lokið!

Feb
07

“Haldið þið djöfulsins kjaftinum á ykkur saman!” heyri ég reiðilega rödd hrópa inn í hausnum á mér þegar ég les bölvað pípið sem Sjálfstæðismenn láta hafa eftir sér í fjölmiðlum. Eruð þið ekki búnir að grilla nóg? Helvítis grillveislurnar ykkar hafa lagt landið mitt í rúst! Það sjúka samfélag sem þið bjugguð til á þeim árum sem þið sátuð við stjórnvölinn, hefur valdið heiðvirtum borgurum leiðindum af áður óþekktri stærðargráðu; sumum hryllilegum þjáningum, og dettur mér þá fyrst í hug maðurinn sem tók sitt eigið líf vegna þess að hann eygði ekki von í skuldafeninu sem hann og fjölskylda hans voru að drukkna í. Grillveislunni er lokið, og sjáið ykkur því sóma í að halda kjafti. Þið eruð búnir að grilla nóg.

Svo biðst ég afsökunar á blótsyrðum, yfirleitt er ég mjög kristilegur í orðavali.

Tilhlökkun í 10 stiga frosti

Feb
04

[media id=197 width=520 height=300]

Einhverjum er farið að lengja eftir sumrinu.

Frá Bláfjöllum til Tíbet

Jan
27

razorÍ nótt var ég staddur með stórum hóp útlendinga í tjaldbúðum upp í Bláfjöllum. Framundan var langt og strangt ferðalag til Tíbet og því eðlilega Bláfjöll fyrsti áningarstaðurinn. Í hópnum kom ég auga á undurfagra kínverska konu, sem ég gaf mig á tal við. Ég sagði henni að mig hefði dreymt um að fara til Tíbet síðan ég las The Razor’s Edge eftir W. Somerset Maugham. Hún sagði ekki eitt einasta orð. Allt í einu kviknaði innra með mér áður óþekkt stærð af ást. Ég fann að þetta var konan sem ég vildi elska þar til ég yrði 21 grammi léttari. Við féllumst í faðma og létum vel að hvoru öðru. Mér leið dásamlega.

Ég ætla nú að leggja mig og athuga hvort ég hitti hana ekki aftur.

Gæfa og gjörfileiki

Jan
26

Ég hef verið með ógeðslega pest undanfarna daga og þankagangur minn því meira morbid en vanalega. Einhver myndi ætla að nú væri ástæða til að fagna, en ég finn meira fyrir sorg en gleði. Því meira sem ég heyri í pólitíkusum, því sannfærðari verð ég um að við eigum okkur ekki viðreisnar von. Ég vona að ég geti kennt pestinni um þessi viðhorf mín og þá tilfinningu að þjóðfélagið mitt sé aðeins rétt á fyrstu metrunum niður í díki örbirgðar og volæðis.

Hverfulleiki lífsins hér á fangaeyjunni hefur sjaldan verið sýnilegri. Það sem er í dag, endist stundum ekki fram á morgundag. Menn sem hafa til þessa álitið sig nokkuð örugga með atvinnu, missa hana fyrirvaralaust.

Afhverju mér er þetta hugleikið, veit ég ekki, en þegar Ólafur Fokkings tók við borgarstjórastöðu, fór ég eins og sönnum ólátabelg sæmir niður í ráðhús til að láta í mér heyra. Þar mætti ég fréttamanni sem horfði með mikilli vanþóknun á þá sem heyrðist hæst í. Ég ýki ekki, fyrirlitningin draup af honum. Þessi maður missti vinnuna ekki alls fyrir löngu. Ég sá hann í síðustu viku að mótmæla. Hann var reiður og hrópaði slagorð.

Hefði einhver sagt mér að ég ætti eftir að standa fyrir framan Alþingi og misþyrma makkintossdollu með skússíkapli, hefði ég ekki trúað því. Þannig er það. Og ég get ekki ímyndað mér hvernig þetta skúespil fer á næstu mánuðum. Eitthvað sem hljómar fráleitt í mínum eyrum í dag, á kannski eftir að verða að þeim veruleika sem ég bý í á morgun.

Núna þegar þetta er skrifað er ég að hlusta á viðtal við forsprakka Frjálslynda flokksins í Kastljósi. Ég var að spila tónlist fyrr í dag, og tölvan því tengd við magnara. Formaður frjálslynda, á milli þess sem hann skyrpir út úr sér gífuryrðum og svartsýnisspám, andar með skerandi andardrætti sem er einkennileg blanda af mæðuveikri rollu og Svarthöfða.

Allt í einu man ég að ég á súkkulaði.

Piparlúði

Jan
26

Þegar ég fylgdist með viðureign lögreglu við trukkabílstjóra á síðasta ári fylltist ég hryllingi. Það var í fyrsta skipti í mótmælum hérlendis sem piparúða var beitt. Hver man ekki eftir: Gas! Gas! Gas! Ég held þó að enginn hafi notað þessa upphrópun í viðvörunarskyni eftir þessi mótmæli, enda aumingjans lögreglumanninum, sem öskraði sem hæst, upplóðað á jútjúb, þar sem þúsundir samlanda hans, ýmist hneyksluðust, eða gerðu grín að honum. Þetta var í fyrsta skipti sem ég heyrði minnst á piparúða. Nú á nýju ári er piparúði orðinn ómissandi hluti af daglegu skemmtanalífi. Það liggur við að maður spreyi honum sjálfur á sig, áður en maður bregður undir sig betri fætinum og skellir sér niður í bæ. Hvað fleira ætli verði samdauna okkar þjóðfélagi á komandi mánuðum?

Tilfinningasemi

Jan
23

Þegar ég vaknaði í morgun var ég orðinn veikasti maðurinn í litla Skerjarfirði, ef ekki öllum heiminum. Framan af degi leið ég svo miklar vítiskvalir, að ég hugsaði með sjálfum mér að betra væri að vera dauður en að líða svona.

Margar súrar og einkennilegar hugsanir urðu til í hausnum mínum, meðan ég engdist sundur og saman í fleti mínu. Mér varð hugsað til þess tíma sem ég vann á Grund. Á deildinni minni var rúmliggjandi kona, sem ég sinnti margsinnis. Við urðum miklir vinir. Líkami hennar hafði hrörnað svo mikið, að hún var lítið annað en skinn og bein. Öldrunin hafði þó farið mjúkum höndum um toppstykkið. Ég sprellaði mikið í henni, og hún sagði mér margsinnis að það væri sama hversu illa henni liði að alltaf gæti ég komið henni til að hlæja. Ég vona að hún hafi skynjað það, en hún gladdi mig mikið með þeim orðum. Ætli henni hafi liðið svona hræðilega illa? hugsaði ég þar sem ég lá sjálfur fyrir í hálfgerðu móki. Verður þetta svona hjá mér í ellinni, að liggja fyrir og geta mig hvergi hreyft, kvalinn á sál og líkama, skýr í kollinum svo ég geti örugglega fylgst með minni eigin niðurlægingu. Sumsé, mjög morbid og súrar pælingar.

Síðdegis tók ég að hressast. Ég fór að hugsa um atburði síðustu daga, og varð öllu tilfinningasamari en ég á að mér að vera. Ég byrjaði að vatna músum þegar ég hugsaði um unga fólkið sem gekk á milli óeirðarsveitarinnar og bauð þeim upp á heimabakaðar smákökur. Það var svo fallegt. Og ekki var síður fallegt að sjá þá lyfta upp plastinu á hjálmunum, til að stinga þeim upp í sig.

Ég hugsaði um Geir Jón, og hvað ég dáist af þeim gullfallega manni. Hann er með svo traustvekjandi og góða nærveru, að fólk fyllist þrá til að gera gott. Ég fékk grátstafinn í kverkarnar af að hugsa um þessar mínútur sem mótmælendum bárust fréttir af að ríkisstjórnin væri fallin. Hamingjan og gleðin ætlaði allt um koll að keyra, og uppábúnu mennirnir í svartgöllunum létu skildi sína síga og það lifnaði yfir þeim af feginleika. Því miður áttu þær fréttir ekki við rök að styðjast.

Ég hef þó ekki grátið Geir, eða aðra pólitíkusa í dag. Ég vona að allt blessist hjá Geir, og held þrátt fyrir allt sé hann vel meinandi maður í afar slæmum félagsskap. Ég er allur að verða betri, og vona að á næstu klukkustundum verði loku skotið fyrir þessa tilfinningasemi mína, og ég komist aftur til míns harðgerða sjálfs.

Fitubrennslan á Austurvelli

Jan
22

Ég hugsa að ég sé búinn að brenna 2-3 kilógrömmum síðan á mánudag. Síðustu þrjá daga hef ég dillað mér, dansað, hoppað, sungið, gargað og barið með misendingargóðum prikum, í sælgætisdós og nú síðast eftirlætispoppkornsskálina mína. Ég er sæll og glaður. Ég ætlaði ekki að taka þátt í dag sökum lasleika, en dreif mig af stað eftir að ég reiddist manneskju, sem eins og fleiri, sat heima hjá sér og dæmdi mótmælin út frá nokkrum villingum sem fyrirfundust í 3000 manna hópi. Samkvæmt hennar rökum hefði mér verið hollast að fara aldrei út úr húsi, þar sem fólk á það til að vera fífl.

Ég kastaði ekki neinu, heldur bjó bara til hávaða og hrópaði slagorð. Ég er ekki að fara að biðjast afsökunar á einhverjum ræflum sem köstuðu steinum, eggjum, bombum og kúk í laganna verði. Það er grunnhyggið að dæma þessi mótmæli út frá fáeinum vanvitum. Þar fyrir utan eru mótmælin að þroskast. Það var nóg af hávaða. Það var dansað og sungið. Flestir voru annaðhvort klæddir í appelsínugult, eða báru appelsínugula slaufu, en appelsínuguli liturinn er yfirlýsing um að viðkomandi vilji mótmæla friðsamlega. Lögreglumennirnir voru með blóm í hnappagatinu. Ungt fólk gekk á milli og buðu þeim óeirðarklæddu upp á bakkelsi, sem þeir þáðu með þökkum. Þegar líða fór á samkomuna, og stemningin orðin æðisleg, þá yfirgáfu þeir varðstöður sínar.

Ég hef ekki í hyggju að fara skrifa hér um pólitík. Pólitík er fullorðinsleikur sem ég hef aldrei verið góður í. Ég hinsvegar þekki vel muninn á réttu og röngu, og finn mig knúinn til að fylgja því sem ég tel vera rétt hverju sinni.

Svo vil ég tengja í uppáhaldsmoggabloggarann minn, Sigurð Þór Guðjónsson, hann skrifaði svo prýðilega færslu um viðhorf manna til mótmælanna síðustu daga: Mótmæli og óeirðir.

Ég er skríll

Jan
21

Án þess að ætla mér það sérstaklega öðlaðist ég í dag heiðursnafnbótina “skríll” og ekki annað hægt að segja en ég sé nokkuð hreykinn. Ég hafði ekki verið lengi við mótmælin við Alþingishúsið, þegar ég sá mér ekki annan leik á borði en að ganga til liðs við skrílinn. Ég hafði þar á undan ekki haft neinar fyrirfram hugmyndir um hvernig mótmælin kæmu til með að vera. Mótmælin sem ég hef hingað til sótt hafa verið hálf slöpp og eftir því sem ég best fæ séð vita gagnslaus.

Stuttu eftir hrun mætti ég einmitt á Austurvöll, tilbúinn til að mótmæla eins og berserkur, en þegar ég var rétt að komast í mótmælastuð byrjaði einhver maður að glamra á gítar. Hann söng: Ég á eeeeeeeenga peeeeeeeeninga! trallalllalla…rælælælæ.. Vissulega er gaman að heyra ljúfa gítartóna og fallegan söng, bara ekki þegar maður er stjarfur af adrenalíni að mótmæla ljóta fólkinu á Alþingi.

Í dag þegar ég vaknaði, sagði ég við sjálfan mig eitthvað á þessa leið: “Sigurður! Nú ferð þú og mótmælir við Alþingishúsið.” og upp úr hádegi keyrðum ég og vinnufélagi minn niður í bæ. Við vorum í ágætis skapi, með kærleik í hjarta. Stemningin við Alþingishúsið var frískandi og hreif okkur samstundis með. Við tókum til við að hrópa taktföst slagorð, og ég fann lund mína léttast í hvert skipti sem ég gargaði: Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn!

Undanfarnar vikur hefur mér leiðst lífið hér á Íslandi ægilega. Ég hef ekki mátt heyra á þetta ástand minnst án þess að finna fyrir depurð og vanmáttarkennd. Ég hef reynt að takmarka inntöku mína á fréttum til að sogast ekki inn í svarthol neikvæðni og vonleysis, en hversu mikið sem ég hef reynt hefur verið ómögulegt fyrir mig að leiða þetta ástand hjá mér.

Í hallargarðinum stóðum ég og félagi minn. Búið var að kasta nokkrum handjárnuðum mótmælendum í hrúgu við nýbygginguna. Þar lágu þeir og virtust þjakaðir eftir að hafa fengið framan í sig gusu af piparúða. Sumir þeirra höfðu ekki gert neitt annað en að vera þarna. Mér var gróflega misboðið. Er þetta Ísland? heyrði ég mann hrópa í geðshræringu. Ég veit ekki afhverju ég allt í einu stóð í fremstu víglínu. Líklega hefur mér fundist ég þurfa að leggja mitt af mörkum til að koma í veg fyrir frekari valdníðslu. Ég er mjög friðsamur maður. Ég hef aldrei á minni ævi gengið í skrokk á meðbræðrum mínum. Ég er enginn slagsmálakall. Ég kom þarna til að búa til hávaða og hrópa slagorð, en ekki til að slást við verkamenn í svörtum heilgöllum.

Uppáklæddir lögreglumenn, samkvæmt nýjustu tísku, höfðu fengið fyrirskipun frá einhverjum sem átti að hafa dómgreind til að meta aðstæður og bregðast við þeim. Fyrirskipunin var að tæma hallargarðinn. Tilhvers í ósköpunum? Hvað var unnið með að tæma garðinn? Lögreglumaður gargaði í gjallarhorn hótunum sem virkuðu eins og olía á eldinn. Starfsfélagar hans settu sig í stellingar og bjuggu sig undir atlögu við lýðinn. Þeir sem stóðu fremst, þar á meðal ég, réttu upp hendurnar, til að sýna þeim fram á að við hefðum ekki í hyggju að standa í barsmíðum. Það dugaði skammt, því þeir byrjuðu með offorsi að þrýsta á hópinn.

Þarna leið mér orðið mjög einkennilega. Nokkrir settust niður. Ég sá að það var lítið annað að gera og settist líka. Ég huldi andlitið, viss um að þeir ætluðu að fara að sprauta yfir okkur eitri. Þar sem við sátum og hreyfðum okkur ekki spönn frá rassi, fann ég fyrir mikilli samkennd. Þarna sat ég með fólki sem ég þekkti ekki neitt og beið þess að við yrðum beitt ofbeldi að hálfu lögreglunnar. Ég leit yfir hópinn sem sat þarna með mér. Þetta var fólk á öllum aldri úr öllum þrepum þjóðfélagsstigans. Frá 10 ára pjökkum til eldri borgara á níræðisaldri. Að við skyldum setjast niður dróg úr Operation: Tæma hallargarðinn, og þeir bökkuðu örlítið. Eftir að hafa setið blautur og kaldur í snjónum, að mér virtist eilífð, stóð ég upp. Ég sá náunga labba hjá sem ég þekki. Hann er atvinnuljósmyndari. Eitthvað gerðist og þrír lögreglumenn kasta sér á hann og handjárna. Síðar um kvöldið, þegar honum hafði verið sleppt, spurði ég hann hvað hefði gerst. Hann sagðist hafa tekið mynd af lögreglumanni sem stóð þarna skammt frá mér. Sá tapaði sér og réðist á hann. Þegar hann hafði haft hann undir, þá öskraði hann: “Ég veit hver þú ert og ef þú birtir myndina sem þú tókst af mér þá leita ég þig uppi og drep þig!” Á lögreglustöðinni eyddu þeir öllum myndunum á vélinni hans.

Enn og aftur mynduðu lögreglumenn keðju í þeim tilgangi að ganga á fjöldann og koma honum úr garðinum. Við sem vorum þarna fremst mynduðum þá tvöfalda keðju og stóðum sem fastast. Við snerum baki í lögregluna, til að fá ekki piparúða beint framan í okkur. Spölkorn frá þar sem við stóðum, tók lögreglumaður upp kylfu og barði ungan mann í keðjunni aftan frá í hausinn. Ekki kom til átaka á okkar væng, en allt logaði í óeirðum, þar sem pilturinn var barinn. Piparúðinn gekk í allar áttir og fleiri fengu að finna fyrir kylfunni.

Mér er verulega brugðið eftir atburði dagsins. Ég er svo reiður. Ég hef aldrei á minni ævi séð annað eins harðræði, nema þá í sjónvarpi. Lögregluembættið telur að með þessum hætti hafi þeir gert fólki grein fyrir að þeir séu fullfærir um að halda niðri mótmælendum. En því fer fjarri. Aðgerðir lögreglu hleypa einungis illu blóði í fólk. Mér eins og fleirum finnst þetta komið gott og ég skal persónulega taka þátt í að bera ykkur, sem eruð ábyrg, út úr þeim stofnunum sem þið hafið notað til að eyðileggja landið mitt.