SiggiSiggiBangBang

Utan vébanda

Sep
01

Fáir af þeim sem villast inn á þennan vef fyllast réttlátri reiði og hella úr skálum gremju sinnar í umkvörtunarkerfinu. Afhverju ætli það sé? Liggur í skrifum mínum og myndbandagerð, hversu óstöðugur persónuleiki ég er? Ég hef skrifað hugrenningar mínar á netið frá því 2002 og eru þeir teljandi á fingrum annarrar handar sem hafa móðgast út í mig og lesið mér pistilinn. Þóttafullir moggabloggarar virðast halda sig innan vébanda moggabloggsins, en þar er hvorki vítt til veggja né hátt til lofts.

Já, Siggi minn, Moggabloggið er víða, ekki aðeins spítali, ekki aðeins höll, heldur mynstur ofið úr þráðum svo fínum að enginn greinir þá, hvorki keisarinn né börnin, hvorki ég né þú.

Jósef Spritzl

Aug
24

[MEDIA=170]

jútjúb

Heppilegt hjartaáfall

Aug
23

Það skýtur nokkuð skökku við að ég sé meðlimur í önfirska karlakórnum Fjallabræðrum. Fyrir það fyrsta, þá er ég ekki beint karlmannlegur, í annan stað er ég langt frá því að vera þessi hressa félagssálarmanngerð, í þriðja lagi ólst ég upp í Kópavoginum en ekki vestur á fjörðum. Oftast þegar ég hitti kórinn, líður mér eins og blökkumanni sem hefur fyrir einhvern misskilning fengið inngöngu í Klanið. En hversu kjánalega sem mér líður í félagi við annað fólk, veit ég þó fyrir víst að ég hef mikið yndi af að syngja. Ég er eiginlega sísönglandi og ef ég er ekki syngja eða ralla eitthvað lag, þá er ég blístrandi eins og rauðbrystingur.

Í kórstarfi með hinum karlalegu körlum, hef ég komist að því að ég er með alveg fyrirtaks bassarödd. Í kórnum er ekki margir sem syngja bassa, þeir eru eiginlega teljandi á fingrum annarrar handar. Á þeim tíma sem ég hef verið í kórnum hef ég komið fram með þeim opinberlega í fjórgang, og var fjórða skiptið núna í kvöld á Miklatúni. Þrátt fyrir að ég ætti von á að syngja fyrir þúsundir, var ég ekkert taugaspenntur. Gott þykir í kórstarfi að súpa örlítið áður en stigið er á svið. Sopinn tekur í burtu alla spennu og fyllir menn sjálfstrausti og karlmennsku. Ég sjálfur drekk þó í mesta lagi kók með sykri áður en við syngjum.

Í kvöld var ég klæddur í mitt fínasta fínt, stífrakaður, með vellyktandi. Þegar ég var að hafa mig til spurði ég fröken Sigríði, sem gerði sér ferð út í litla Skerjarfjörð til að lána mér bindi, hvort ég ætti að fara í doppóttu litríku nærbuxunum mínum eða þeim hefðbundnu bláu með röndunum. Frúin skipaði mér í þær doppóttu og sagði að ef sviðið félli saman og sjúkraflutningamennirnir þyrftu að klippa utan af mér buxurnar, þá væri mun skæslegra að vera í röff og töff nærbuxum. Frúin veit hvað hún syngur, enda er alltaf verið að klippa af henni buxurnar.

Þegar ég svo stóð á sviðinu, umkringdur félögum mínum í kórnum að syngja fyrsta lag af tveimur fæ ég skelfilegan verk fyrir hjartað. Ég kippi mér ekki mikið upp við það. Ég fæ stundum svona verki, en þeir staldra yfirleitt ekki lengi við. Ég hafði þó aldrei reynt að syngja bassarödd með þennan verk áður. Í fyrsta millikaflanum, sem er eitthvað á þessa leið: Farið höfum yfir heiðar háar, sprænur bláar, þúfur smáar, og mosabreiður gráar, – ágerist verkurinn. Jæja, hugsa ég með sjálfum mér, – nú fæ ég loksins að deyja. Mér verður hugsað til eitt af eftirlætis atriðum mínum úr kvikmyndasögunni, atriðið þar sem tvífari Veroníku í myndinni Tvöfalt líf Veroníku, fær hjartaáfall og deyr á sviði syngjandi gullfallega óperu. Í hugrenningum mínum þessa stundina, fannst mér reyndar dauðdagi Veroníku flottari en væntanlegur dauðdagi minn fyrir framan örfáar regnblautar hræður á Miklatúni í Reykjavík. 38 ára gamall, fær hjartaáfall og deyr á sviði. Ég sem var fullviss um að ég þyrfti að hanga hér mun lengur en ég kærði mig um. Ég stóð klár á að ég ætti eftir að verða hundgamall geðstirður prumpukall, sem engum þykir vænt um. Guð hefur nefnilega verið þekktur fyrir að launa þeim sem aldrei hafa unað sér í þessum heimi – með langlífi. Svona er guð nú ægilega góður. En ef ég dey ekki, hugsa ég. Hvað ef ég fæ bara hjartaáfall og eyðilegg stórtónleika Fjallabræðra? Mikið hvað það væri ömurlegt. Sú tilhugsun verður óbærileg. Ég lem sjálfan mig tvisvar í brjóstkassann, eins ég sá einu sinni gamlan vin gera þegar hann átti í erfiðleikum með hjartað sitt. Í næsta millikafla finn ég að verkurinn er horfinn. Ég hef sjálfan mig til flugs og syng eins og það sé enginn morgundagur.

Chiquitita

Aug
21

Þegar ég var krakki, þá heyrðist mér Abba syngja Siggi kýta. Kýta er annars steinbítsmagi, ekki að ég hafi vitað það þá. En hvað er í ósköpunum er Chiquitita?

Ég hélt aldrei upp á Abba. Ef ég var spurður, þá fannst mér fannst sú ljóshærða sætari. Ég var hinsvegar mikill aðdáandi Bee Gees bræðra, þeir voru svalir töffarar.

Fullorðna fólkið

Aug
19


Þegar ég var barn, sór ég þess eið að fullorðnast ekki.

Eins og oft þegar ég er að vaska upp og sýsla í dúkkuhúsinu mínu í litla Skerjarfirði, hlusta ég á gömlu góðu gufuna. Vönduð dagskrárgerðin hefur mig oft upp í hæstu hæðir og auðgar anda minn. Ég man ekki hvaða þátt ég var að hlusta á, en mig minnir að hann hafi í og með fjallað um hvernig við týnum niður mikið af okkar góðu eiginleikum þegar við fullorðnumst. Sumir halda því fram að við öll fæðumst sem skapandi manneskjur, en svo gloprum við niður sköpunargáfunni þegar við eldumst. Í þættinum var sögð saga af manni sem hafði á uppvaxtarárum sínum látið húðflúra á handarbak sitt: “mundu”, vegna þess að hann vildi aldrei gleyma því hver hann var þegar hann var barn.

Þegar ég sjálfur var gutti þótti mér fullorðna fólkið alveg skelfilega leiðinlegt. Pabbi minn var vel menntaður og gegndi embætti hjá þunglamalegri menntastofnun. Þrátt fyrir að hann tilheyrði fullorðna fólkinu, var hann oftast léttur og skemmtilegur, í það minnsta þegar við vorum tveir saman. En fólkið sem hann átti í samskiptum við fannst mér viðurstyggilega leiðinlegt. Það var svo upptekið af að vera virðulegt, hugsanlega í þeirri von að aðrir héldu að það væri gáfað. Ég sem krakki hélt að fullorðna fólkið vissi sínu viti, en þar hafði ég á röngu að standa.

Stundum þegar foreldrar mínir tóku hús á vinafólki sínu, neyddist ég til að fara með. Þau klæddu sig upp í sitt fínasta fínt. Mamma puntaði sig og setti á sig vellyktandi. Boðið var til dönsku stofunnar, sem alltaf var óaðfinnanleg, skreytt flottustu og dýrustu munum sem hægt var að fá út úr búð, hérlendis eða erlendis. Ég man ekki hvað þau ræddu heilu og hálfu kvöldstundirnar, en ég tel víst að það hafi verið eitthvað sem skipti höfuðmáli. Karlarnir hafa án efa talað saman um eitthvað sem þótti karlanna að tala um, svosem menntamál, stjórnmál og annað í þá veruna. Þeir báru sig vel, reyktu vindla og drukku koníak, og töluðu í takt við menntun sína. Konurnar ræddu saman um það sem þótti við hæfi að konur töluðu um, hannyrðir, barnauppeldi og fólk sem ekki lifði lífinu eftir fyrirfram ákveðnum reglum um hvað telst eðlilegt. Hvað sem þau ræddu, þótti mér þau óspennandi, tilgerðarleg og umfram allt – hundleiðinleg.

Að einhverju leiti finnst mér eins og ég sjálfur hafi aldrei náð að fullorðnast almennilega. Stundum þegar ég sit í hópi manna, sem jafnvel eru yngri en ég, líður mér eins og krakka. Oft fjarlægist ég þó hinn unga litla bang bang og fer að taka tilveru mína alltof hátíðlega. Ég verð þrasgjarn og hugsa hugsanir sem eru ekki svo ólíkar hugsunum sem verða til í hausnum á sögupersónunni Georg Bjarnfreðarsyni. Ég verð óánægður og þóttafullur. Undir niðri kraumar réttlát reiði, og ég fæ óstjórnlega löngun til að hella mér yfir meðbræður mína, líkt og tíðkast í netheimum, þar sem allir keppast við að niðurlægja hvorn annan. En það er einmitt þegar ég les sumt af því sem fullorðna fólkið skrifar á netinu að ég man afhverju mig langaði ekki til að verða fullorðinn.

Nóbelsblogg

Aug
17

stiginn til himnaríkisÉg hafði einungis verið vakandi í rúma þrjá tíma, þegar sótti að mér alveg ægilegur lífsleiði. Ég íhugaði hvað ég gæti gert til að létta mína lund, en það eina sem mér kom til hugar var að baka heilan stafla af pönnukökum, þeyta líter af rjóma og éta mig síðan í ómegin. Ég sé þá fyrir mér koma að mér þar sem ég ligg ósjálfbjarga í rjómapolli á gólfinu. En þar sem ég átti ekki hvorki hveiti né rjóma prílaði ég upp á svefnloftið og lagðist aftur til hvílu.

Ekki leið á löngu þar til ég yfirgaf þennan leiðinlega veruleika og hélt á vit ævintýra í öðrum heimi þar sem mér eru engar skorður settar. Ég rankaði við mér í leikfimishúsi Kópavogsskóla, en þaðan á ég margar hunangssætar minningar. Í leikfimishúsinu var áhorfendapallur, en á honum sat ég ásamt nokkrum íslenskum celeb bloggurum. Fram í sal var prúðbúið þjónustulið að leggja glæsilegar kræsingar á langt veisluborð sem svignaði undan gúmmilaðinu. Á miðju borðinu var heilbakaður geirfugl á skrúðbúnu silfurfati með epli eða appelsínu í gogginum. Í salnum var einnig stórt svið, þar sem einhver var að koma fyrir míkrafóni.

Mikið tilstand er þetta, hugsa ég, hvað ætli sé á seyði? Ég spyr mann sem situr skammt frá mér hvaða athöfn þetta sé. Hann horfir undrandi á mig, en segir mér síðan að við séum öll tilnefnd til Nóbelsverðlauna fyrir besta bloggið. Það munar ekki um það, segi ég. Hann horfir á mig með vanþóknun og hreytir út úr sér að einu sinni hafi hann verið kona, en hann hafi látið breyta sér í karlmann. Ég hvái, en hann hunsar mig.

Áður en ég skildi við draumaheiminn, reyndi ég eftir fremsta megni að útskýra fyrir fjölmiðlakonu, sem var að gera heimildarmynd um Nóbelsbloggarana, að ég væri í raun ekki bloggari, heldur skrifaði ég pistla á netið mér til upplífgunar. Að blogg væri ömurleg iðja, sem gengi út á að lappa upp á brotna sjálfsmynd með að niðurlægja alla sem ekki eru á sömu skoðun og bloggskrifari. Svo vaknaði ég og varð þar af leiðandi af verðlaununum.

Tvífarar vikunnar

Aug
15



Tvífarar vikunnar að þessu sinni eru hin dagfarsprúða Ókind og uppátækjasami grallarinn Bubbi Morthens.

Hvernig tækla skal tjellingar

Aug
11

Að vera einhleypingur, er að margra mati – síðasta sort. Einhleypingar eru oft illa hirtir runkkallar og áhugamenn um afbrigðilegt klámefni. Einhleypingar eru þjóðfélaginu til vansa. En nú er í sjónmáli bjartari tíð með blóm í haga, því út hefur verið gefin spáný sjálfshjálparbók fyrir ömurlega slefandi einhleypinga. Hún heitir: The Game, og kennir vesalingum eins og mér að ná sér í tjellingu(tjelling, er kvenkyns mannvera sérstaklega ætluð til uppáferða). Og nú verður gaman í litla Skerjarfirði, þar sem undirritaður kemur til með að tækla hverja tjellinguna á fætur annarri líkt og hann sé að verka fisk í frystihúsi. The Game, kennir mér og öðrum beljum á svelli mannlegra samskipta, að ná yfirhönd í nálgun okkar við veikara kynið. Veikara kyninu er stillt upp sem viðfangsefni, þar sem nauðsynlegt þykir að beita nokkrum vel útfærðum bolabrögðum til að fella bráðina. Til að ná yfirhöndinni, er besta leiðin að finna einhvern annmarka á konunni og núa henni upp úr þeim annmarka. Svo þegar konan er miður sín og allur vindur úr henni er lítið annað eftir en að girða niður um sig og bera á sér þvagfærin.

Hér er dæmi: Nonni er óframfærinn og feiminn og á erfitt með að eiga samskipti við konur. Með hjálp bókarinnar: The Game, lærir hann að ef hann með einhverju móti nær að niðurlægja konuna/viðfangsefnið, þá eflir það sjálfstraust hans og gerir honum kleift að eiga við hana samskipti þar sem hann ræður ríkjum. Eitt kvöld er Nonni út á lífinu. Hann finnur konu sem hann gefur sig á tal við. Eftir smá tjitt/tjatt, þykist hann koma auga á horköggul í nefinu hennar og býðst til að fjarlægja hann. Við það missir hún umsvifalaust allt álit á sjálfri sér og telur sig heppna ef Nonni sér aumur á henni. Með þessari aðferð vinnur Nonni hug og hjarta meyjarinnar. Hann virðist í augum hennar, vera sjálfstraustur og sjálfumglaður hrokapungur, en eins og öllum er kunnugt – elska allar konur þannig menn. Restina af kvöldinu, malar og malar Nonni uppfullur sjálfstrausts yfir kvenpíslinni, þar til að það kemur óhjákvæmilega að því að hann njóti bráðarinnar.

Það þarf ekki að koma neinum manni á óvart, en bók þessi er einna vinsælust í félagsskap, þar sem fólk vinnur mishörðum höndum að því að reyna að koma skikki á sitt líf. Ekki ósvipað því að stunda BDSM kynlíf í nafni Jesú.

Það er líka skrítið að einhver gerist aðvókat fyrir aðferðafræði sem þessa, í ljósi þess að mannskepnan sækir í samskipti við það fólk sem lætur henni líða vel með sjálfa sig. Það er þó ekki algilt, því margt er í mörgu í maganum á henni Ingibjörgu. Til er fólk sem eltist eins og barinn rakki við berjara sinn.

Lífið er skrítið.

Ruggandi, bakatil í hjarta mínu

Aug
09
[MEDIA=169]

Hér er svo trít úr Iðnvæddri Symfóníu Númer 1 eftir David Lynch, Angelo Badalamenti og Julee Cruise, ásamt nýjum og skemmtilegum fróðleik sem ég fann þegar ég las um þetta verk: Blikkandi ljós, eitt af mörgum vörumerkjum David Lynch, tákna nánast alltaf kaflaskipti eða óvænta stefnu í söguþræði.

Þetta vissi ég ekki.

Vegurinn og dyggðin

Aug
08

Til að geta hugsað tímamótahugsanir, er nauðsynlegt fyrir mig að næra anda minn. Menn sem hugsa tímamótahugsanir uppskera virðingu meðbræðra sinna. Þannig er það bara í lífinu. Þrá mín eftir virðingu og viðurkenningu, er brennandi heit. Ef þau bara vissu…..

Ég er andans maður, og til að víkka skilning minn á lífinu, glugga ég í andlegar bókmenntir. Á frídegi verslunarmanna, tók ég hús á Eymundssyni, í þeim tilgangi að festa fé í einni mestu lífsspeki sem skrifuð hefur verið: Bókin um veginn og dyggðina – eftir hinn hressa og jafnframt spaugsama Lao Tzu. Eftir kaupin, settist ég að kaffidrykkju með góðvini mínum á Hressingarskálanum. Hvaða bók er þetta, spurði hann fullur vanþóknunar. Ég sagði honum það og þrátt fyrir andstöðuna sem ég upplifði las ég fyrir hann nokkur ljóð úr Tao, meðal annars þetta:

Fylltu skálina að börmum
og það flóir út af.
Haltu áfram að herða sverðið
og það hrekkur í sundur.

Sankaðu að þér auðæfum
og þeim verður auðveldlega stolið.

Heimtaðu vegsemd og þakklæti
og þér mun illa farnast.

Vegna þess mun vitur sál
vinna störf sín
og láta lítið á sér bera.

Finnst þér þetta ekki fallegt, spurði ég vin minn sem var allur orðinn mýkri. Ekki gat hann neitað því. Við kláruðum úr bollunum okkar og gengum út. Er við göngum framhjá Eymundsson, biður hann mig blíðlega að bíða meðan hann kaupir sér sjálfur eintak af þessari fínu bók. Ég brosi fallega, hamingjusamur í sálinni yfir að hafa innspírað þennan ágæta vin.

Sólin skín og fuglarnir kvaka. Róni hóstar. Meðan ég bíð fyrir utan, ástunda ég í huganum lágmarks mótstöðu við lífið og mína persónulegu tilveru. Mér líður vel. Það er friður innra með mér. Ein og ein kona horfir til mín brosandi. Þær skynja mitt andlega góðæri, hugsa ég. Ég er vakinn af þessum hugrenningum þegar vinur minn kemur blaðskellandi út úr Eymundsson. Ég keypti mér lífsspekibók eftir Búdda, segir hann hróðugur. Hver andskotinn %$&#!%#&”!$, segi ég við sjálfan mig en reyni að opinbera ekki gremju mína. Mig langaði til að spyrja hann því í rassgatinu hann keypti ekki Bókina um veginn og dyggðina, hvort hún væri ekki fjandans nógu góð fyrir hann? En mér tókst að dylja tilfinningar mínar, sem er umtalsvert afrek.

Við héldum hvor sína leiðina. Ég fótaði mig eftir Veginum hans Lao Tzu og hann hlammaði sér undir tréð með Búdda.

Næst þegar við hittumst er komið annað hljóð í strokkinn. Eftir að hafa setið, sötrað kaffi og borið saman bækur okkar, vissum við ekki fyrr en við vorum farnir að hnakkrífast um hvor væri betri: Búdda eða Lao Tzu. Eftir að hafa slegist með kennisetningum um stund missi ég stjórn á skapsmunum mínum og slæ vin minn utan undir. Ég horfi á þennan mann, sem einu sinni var vinur minn, tútna út af reiði. Hann grípur með báðum höndum um borðið og reynir að velta því við, en tekst það ekki, helvítis fáráðurinn, þar sem borðið er boltað niður. Það var þá sem ég gríp tækifærið og pota vísifingri í augað á honum. Hann argar og gargar af sársauka. Ég hlæ og skríki af kátínu, en hlátur minn kafnar þegar ég fæ yfir mig kaffigusu úr tvöfalda capputjínó bollanum hans. Ég rek upp stríðsöskur og kýli hann í magann og þegar hann er kominn í keng, sparka ég í hausinn á honum.

Honum var nær að dissa Bókina um veginn og dyggðina, eftir hinn mikla risa í andans heimi: Lao Tzu.

Paul Thomas Anderson

Aug
07

Paul Thomas Anderson, er guðdómlegur snillingur. Hann á myndir eins og There Will Be Blood og Punch, Drunk, Love, sem hefur verið ein af mínum uppáhaldsmyndum, síðan ég sá hana fyrst. Hún er líka eina myndin þar sem Adam Sandler er ekki gersamlega óþolandi.

Magnolia sá ég fyrir 8 árum síðan, þegar ég var nýfarinn að tileinka mér heilnæmari lifnaðarhætti. Persónur myndarinnar, sem eru meira og minna brotnar og bugaðar, upplifa hræðilega vanlíðan og niðurlægingu. Á vendipunkti, þegar ömurleiki þeirra nær hápunkti gerir Paul Thomas Anderson svolítið óvenjulegt. Hann klippir saman senur þar sem allar persónurnar syngja saman undir Aime Mann laginu Wise Up. Þetta er svo áhrifaríkt að þegar ég horfði á þetta aftur fyrr í kvöld ætluðu tilfinningar mínar að bera mig ofurliði. Til allrar guðs lukku, varð enginn vitni að því hversu hrærður ég var, því ég veit ekkert verra en þegar fólk er til frásagnar um hversu viðkvæmt lítið blóm ég er.

Textinn í laginu hennar Amie Mann, rekur raunir manneskjunnar, þar sem hún telur sig finna farveg í lífinu, en kemst svo óhjákvæmilega að því að farvegurinn er svað, lausnin er lygi og þjáningin tekur engan enda fyrr en hún sleppir takinu og gefst upp.

[MEDIA=168]

 

Tilveran hefur aldrei verið súrari, sérstaklega eftir að ég áttaði mig á, að þó margur maðurinn tali fjálglega, veit enginn hvert í andskotanum við erum að fara eða hvað í ósköpunum við erum að gera hérna.

Fordómar og betrun

Aug
04

Undanfarnar vikur hef ég hugsað mjög óguðlegar hugsanir, sem eru andlega uppljómuðum manni af minni stærðargráðu – ekki samboðnar. Ég ákvað því að nú væri kominn tími til að refsa sjálfum mér og athuga hvort ég gæti ekki mögulega skolað úr sjálfum mér saurinn sem skólpast til í höfuðkúpu minni. Því varð úr, þegar góður félagi og mikill syndari Augusto Pinochet kom að máli við mig, að við sáum að ekki dygði neitt minna í refsingarskyni, en að hjóla sem leið liggur til Þingvalla og þaðan austur á Selfoss. Samkvæmt mínum mæli telur leiðin sú 100 kílómetra.

Við lögðum af stað, birgir af vatni og súkkulaði rétt upp úr hádegi á laugardegi. Ekki höfðu margir jeppaeigendur með felli- eða hljólhýsi í eftirdragi farið fram úr okkur, þegar ég fór að finna fyrir ólgandi fordómum. Ég missti sjónar af því að þarna er á ferðinni fólk sem þráir ekkert meira en að vera elskað eins og það er, en kemur ekki orðum að því. Og þar sem ég sté pedalana á hjólinu mínu, rann í stríðum straumum lýsi niður í augu mér og gerði mig blindan fyrir því að einhversstaðar á lífsleið þessarra manna hefði orðið misbrestur á, og ekki væri við þá að sakast. Einhver í ábyrgðastöðu gagnvart viðkomandi hefði svo ósköp einfaldlega getað faðmað hann og látið hann vita að hann væri einhvers virði, bara fyrir það eitt að vera til. Í stað þess, varð allt lífið að einni stórri átveislu, þar sem keppt var í hver gæti troðið mestu í sig áður en hann dræpist. En það var ekki það sem ég hugsaði, þar sem svitnaði á hjólinu mínu. Ég hugsaði meira eitthvað í líkingu við: Hjólhýsapakk sem treður í sig kartöfluflögum og glápir á raunveruleikasjónvarp, fyllir út í jeppabílana sína, meðan ég rembist við að rækta með mér umburðarlyndi og kærleik og hugsa tímamótahugsanir. En svona er það oft með mig. Ég gleymi andlegum vangaveltum og fer að hugsa um hvað fólk er ógeðslegt, í stað þess að sjá hlutina í víðara samhengi. Þá er stutt í ljóta fordóma, í stað umburðarlyndis og fegurðar.

Hér er svo mynd af Augusto Pinochet þar sem hann vottar – fyrir hönd okkar beggja – Steingrími Eyfjörð virðingu sína. Þess ber að geta að aldrei kom til greina að míga yfir þetta fallega skilti. Einnig var til mynd af mér, þar sem ég hylli Steingrím, en ég er svo asnalegur á henni, að ég get ómögulega verið að flagga henni hér á vefsetri mínu. Mér er svo umhugað um álit annarra.