Meðan ég læt mig dreyma dagdrauma um að sötra molakaffi með Þórbergi Þórðarsyni, spyr ég sjálfan mig hvort mögulega sé einhver núlifandi af sama kaliberi, sem ég gæti hugsað mér að kasta kveðju á. Ég man ekki eftir neinum, sem ég hef lesið, sem skrifað hefur af jafn miklum heiðarleika og Þórbergur. Enginn af mínum samtíðarmönnum hefur gert jafn mikið gys að sínum eigin kjánalega þankagangi og hann. Flestir þeirra sem skrifa, skrifa um bresti í skapgerð annarra, og hafi þeir eitthvað við sjálfan sig að athuga, þá eru það misfellur sem þeir eru fyrir löngu búnir að jafna út. Þeir sem skrifa, og þá á ég ekki einungis við bókmenntir, heldur líka þá sem skrifa pistla á netið, hnýta í hugmyndir annarra og draga upp hallærislega mynd af öðru fólki. Þeim er svo umhugað um virðingu meðbræðra sinna að allar tilraunir til heiðarleika verða tilgerðarlegar.
En eins mikinn hlýhug og ég ber til Þórbergs, er spurning hvort hann hafi verið í raun og veru, eins og hann lýsir sér. Sumir álíta að hann hafi verið allt annað en sannur. Pabbi minn sagði mér sögu af því, þegar skólafélagi hans, mikill kommúnisti, fór þess á leit við Þórberg að hann héldi erindi á fundi hjá Ungliðahreyfingu Kommúnista. Þetta hefur verið í kringum 1950. Ég veit reyndar ekki hvort félagsskapurinn hafi heitið Ungliðahreyfing Kommúnista, en þetta var meðan pabbi var í menntaskóla og hann í kringum tvítugsaldurinn, þannig að Ungliðahreyfing er ekki svo slæm ágiskun. Þórbergur leit með fyrirlitningu á þennan unga mann, sem gerði þau hræðilegu mistök að þúa Þórberg, og sagði: Erum við dús? Menn sem voru góðir með sig, heimtuðu að þeir væru þéraðir. Samt las ég, eða heyrði, að Þórbergur hefði aldrei kunnað við menn sem snobbuðu fyrir honum, og mikið talaði hann niður til þeirra sem voru góðir með sig.
Fyrst þegar ég heyrði þessa sögu, var ég undir sterkum áhrifum frá Sálminum og reyndi vitanlega að bera í bætifláka fyrir Þórberg, þess viss að skólabróðir föður míns hefði skapraunað honum eitthvað áður, en ekki látið það fylgja sögunni. Faðir minn sagði að svo væri ekki. Skólabróðirinn hefði borið upp erindið, fengið þessi viðbrögð og snúið aftur vonsvikinn til félaga sinna í Ungliðahreyfingunni og sagt þeim að þessi maður væri enginn kommúnisti, hann væri bara merkikerti.
Ef það væri einhver í nútímanum sem ég væri sérstaklega hrifinn af, hvort sem um er að ræða bókmenntir, eða aðra listsköpun, þá vildi ég ekki kynnast honum persónulega. Ég vil eiga mína höfunda út af fyrir mig og ekki eyðileggja þá ánægju sem ég hef af verkum þeirra, með að láta persónu þeirra spilla fyrir. Þess vegna er svo gaman að ímynda sér molakaffi með löngu dauðu fólki og þó maður hafi einhverja hugmynd um það að þeir hafi ekki verið það sem þeir sögðust vera, hefur maður engin tæki til að sannreyna það.