SiggiSiggiBangBang

Myndin af Dorian Gray

May
15

Foreldrar mínir höfðu fyrir reglu að skipa mér fram á gang, þegar þeim grunaði að eitthvað hræðilegt ætti eftir að gerast í bíómynd kvöldsins. Man ég tildæmis eftir að hafa fengið að húka við lokaðar dyr þegar George neyddist til að drepa Lenny í Músum og mönnum. Sömuleiðis varð ég af atriðinu þar sem Gloria þiggur kúlu í hausinn úr byssu kærasta síns í myndinni They shoot horses don’t they.
En eitthvað hafa mamma og pabbi verið ókunnug niðurlagi sögunnar um örlög hins sjálfsupptekna Dorian Gray. Samt er eins og mig minnir að systir mín hafi verið passa mig kvöldið sem þessi mynd var sýnd? Hvernig sem stendur á því að þessi mynd slapp í gegnum harðgert kvikmyndaeftirlit Löngubrekkunnar, gefur hér að líta myndbrotið sem kostaði barnæsku mína óteljandi andvökunætur. Þegar ég svo horfði á þetta atriði aftur fyrir nokkrum dögum, fór um mig hrollur; ég efa þó að nokkur krakki myndi kippa sér upp við þetta núna.

[MEDIA=157]

Hotel Chevalier

May
13
[MEDIA=156]

Dásamlegt atriði úr stuttmyndinni Hotel Chevalier, sem er undanfari myndarinnar The Darjeeling Limited. Jack L. Whitman hefur í lengri tíma falið sig frá umheiminum á hinu franska Hotel Chevalier. Kona, sem virðist vera ástin í lífi hans, kemur til að finna hann. Rétt áður en hann opnar hurðina til að hleypa henni inn, setur hann af stað lag sem honum finnst passa vel við aðstæður. Unaðslega þurr kímnigáfa. Wes Anderson er snillingur.

Leigusalinn ódæli

May
09

Það er mjög mismunandi hvernig fólk upplifir sjálft sig. Sumir misbjóða fólki í guðs nafni, fullvissir um að þeir séu hlýjar og kærleiksríkar persónur, meðan aðrir læðast meðfram veggjum, sakbitnir yfir að taka pláss í heiminum.

Einu sinni fyrir ævalöngu kynntist ég sérstaklega ódælum manni, betur en ég nokkurn tímann kærði mig um. Hann var almennt illa liðinn, enda með eindæmum ókurteis og fráhrindandi. Hann var alveg blindur á hvað fólki fannst um hann. Í hans huga var hann skemmtilegur, frumlegur og frískandi athafnamaður. Hvert sem hann fór lét hann móðann mása. Hann hafði skoðanir á öllu og þröngvaði þeim með ofbeldi og kjafthætti upp á fólk.

Einhvern tímann sagði hann mér frá því að hann hefði þurft að taka inn þunglyndislyf. Alveg upp úr þurru, honum til mikillar undrunar, fannst honum eins og fólki væri illa við sig. Hann gat varla farið út fyrir hússins dyr, því honum fannst allir horfa á hann ásökunaraugum. Hann fór því til læknis og bað um hjálp. Heimilislæknirinn sagði honum að líklega væri hann þunglyndur og skrifaði upp á nýjasta og flottasta þunglyndislyfið á markaðnum, sem hann tók inn samviskusamlega. Eftir tvær til þrjár vikur, var hann búinn að ná sér og gat haldið áfram að troða á fólki án þess að fá yfir því samviskubit.

Þessi maður, með hjálp geðlæknisfræðinnar, heldur mjög líklega áfram á sömu braut í gegnum lífið, iðrast einskis og deyr einn og yfirgefinn öllum til léttis.

Þórbergur

May
07

Góður vinur minn, var sorgmæddur í sálu sinni um daginn, svo ég plataði hann með mér í göngutúr út í Fossvogskirkjugarð. Það er fátt eins hressandi, þegar lífið virðist óbærilegt, og að labba um í kirkjugörðum. Í göngutúrnum köstuðum við kveðju á Sobbegga og Mömmugöggu. Mér þykir þó líklegt að hjónin hafi verið víðsfjarri gröf sinni, enda talaði Þórbergur um það sjálfur að það þýddi lítið fyrir fólk að heimsækja hann í kirkjugarðinn, hann yrði ekki þar. Hver ætti svosem að nenna hanga í einhverjum bévítans kirkjugarði eftir að hann laus héðan?

Hrollvekjandi

May
06

Færslan hér að neðan, um vel nærðar konur og ástmenn þeirra, er svo hryllileg að ég get ekki haft hana fyrir augunum stundinni lengur. Ég birti því hér mynd sem ég tók, þegar ég skrapp í göngutúr upp í Heiðmörk í gær.

Konueldi

May
04

Til að brynja mig gegn offitufaraldrinum sem geysar hérlendis, festi ég fé í róðrarvél, sem kostar rétt undir verði 32″ Plasma, en ég stæri mig einmitt ómælt af því að hafa ekki átt sjónvarpstæki í rúm tvö ár. Ég tel róðrarvélina meiri búbót en risasjónvarp.

Í morgun þegar ég undirbjó róður á eldhúsgólfinu, ákvað ég að snjallt væri fyrir mig að nýta tímann meðan ég réri og auðga anda minn með að horfa á heimildarmyndir. Þrátt fyrir sjónvarpsleysið, get ég með hjálp nútímatækni horft á nánast hvað sem mig lystir á skjánum í tölvunni minni. Ég fer bara inn á þartilgert svæði, panta mér úr lista yfir efni sem er í boði þá stundina, smelli með músinni minni og stuttu síðar, rétt eins og um töfrabrögð sé að ræða get ég horft á vönduðustu hreyfimyndir.

Ég kann ekki á því neina skýringu, en fyrir valinu varð heimildarmyndin: Fat girls and feeders. Mikið hefur verið talað um þessa mynd í mínum vinahóp, en ég hef ekki fengist til að horfa á hana því að tilhugsunin um mann nær fertugu, sitjandi einn á heimili sínu horfandi á mynd sem þessa, er vægast sagt hrollvekjandi. Hvað svo varð til þess að einmitt í dag að ég valdi þessa mynd úr safni mun fágaðri mynda, get ég sennilega aldrei útskýrt. Kannski einhversstaðar í undirmeðvitund minni hef ég haldið að það virkaði hvetjandi fyrir mig, meðan ég brenndi kaloríum, að hafa fyrir augunum fólk sem er bókstaflega að springa úr spiki.

Myndin fjallar um karlmenn sem hrífast af konum, sem ekki eru ósvipaðar í laginu og Esjan. Því hjálparlausari sem konan verður, þeim mun meira finna þeir fyrir sínum eigin tilgangi, sem er að bera í konuna meiri mat.

Og ég sem hélt að ég væri í tilvistarkreppu.

Myndin hér að ofan, er af hjónum sem svona er ástatt fyrir. Þarna sitja þau hróðug, fletta myndaalbúmi og ræða hversu mörg kíló hann hefur hjálpað eiginkonunni að bæta á sig.
Myndirnar eru samviskusamlega merktar frá 200 upp í 600. Ein myndin í albúminu, sýnir konuna nakta, þar sem hún fyllir upp í ganginn að klósettinu.
En ég rak augun í nokkuð merkilegt í þessu viðtali. Plakatið á veggnum bakvið manninn, er úr bíómyndinni The Empire Strikes Back, en í þeirri Stjörnustríðsmynd mætir til leiks spikfjallið Jobbi Höttur. Svo ég fór að velta fyrir mér hvort þessi maður hafi ekki í raun kynferðislegan áhuga á Jobba Hött, og þess vegna reynir hann að breyta konunni sinni í hann? Það er allavega ekki annað að sjá á myndinni, en að honum hafi tekist ætlunarverk sitt, því ef einhver lifandi manneskja líkist þessari ódælu sögupersónu þá er það þessi kona.

Kannski ég reyni bara ekkert að skilja þetta. Ég allavega hætti að horfa á þessa mynd, ég fæ ekki séð myndir af þessu tagi geri mig að betri manni.

45

May
03
[MEDIA=154]

Þetta er ekkert tímamótaverk, það get ég fullyrt. Ég er að læra á nýtt klippiforrit, sem heitir Final Cut Pro, og er þetta afrakstur einnar kvöldstundar. Örstutt, um ást mína á vor og sól.

Myndirnar tók ég í gær á löngum göngutúr. Húsnúmerið í myndbandinu er á Hringbrautinni, þar sem Þórbergur Þórðarson átti heima, en ég og félagi minn heimsóttum einmitt leiði Þórbergs í gær. Þarna er einnig bakhlið hússins og auðvelt er að ímynda sér Þórberg standandi á svölunum á fjórðu hæð hellandi vatni yfir börnin sem hlupu um í túninu fyrir neðan full af ákafa og æsingi. Myndbandinu líkur svo á Hressó, þar sem Luydmyla the great, eiginkona Pjeturs Geirs, sötrar mjólkurhristing með jarðaberjum.

Tilvistarspurningar

May
02

Tilvistarspurningar naga anda minn. Ég skil ekki hvaðan þær koma, eða hvers vegna þær hringla í hausnum á mér. Ég er viss um að ég er mun meira kvalinn af tilvistarspurningum, en næsti maður. Næsti maður virðist sáttur svo lengi sem hann fær tóm til að éta, horfa á sjónvarp og ganga örna sinna. Enginn maður hugsar jafn mikið um fallvaltleika tilverunnar og ég. Nepjulegt tilgangsleysi mannskepnunnar, sem berst í bökkum, til þess eins að öðlast viðurkenningu meðbræðra sinna, sem svo sjálfir berjast í bökkum til að öðlast ámóta viðurkenningu. Lífsspeki mín er stundum skítköld og á köflum andfélagsleg.

Ég er viss um að einhver sálarinnar sérfræðingur ætti ekki í miklum erfiðleikum með að klístra merkimiða á afstöðu mína til lífsins. Í lífinu kemst enginn af án þess að finna heppilegan merkimiða til að klína á brothætta ímynd sína. Og hvað er ímyndin annað en lygaþvæla sem maður kappkostar við að aðrir trúi. Ef aðrir gleypa við þvælunni, þá kannski á endanum trúir maður sjálfur vitleysunni.

Allt er þetta góðra gjalda vert og nærandi fyrir sálarlífið. Gallinn er að sá, að þegar ég er svona þenkjandi, þá á ég ákaflega bágt með að vera með í þykjustunnileiknum sem okkur fullorðna fólkinu er uppálagt að taka þátt í. Og þetta kom greinilega í ljós, þar sem ég neyddist með þetta hugarfar að sækja afmælisveislu innan ættarinnar, sem er mun fallegri en mig minnti. Þar var ég gersamlega á flæðiskeri staddur.

Hefði ég mátt vera ég sjálfur í veislunni þá hefði útkoman orðið eitthvað á þessa leið:

Ættingi: Komdu sæll Sigurður minn. Ég hef ekki séð þig í 20 ár. Hvað ertu að gera?
Siggi Siggi Bang Bang: Mannskepnan hefur frá dögun mannkyns, reynt að skilgreina sjálfan sig í gegnum stöðu sína í samfélaginu. Þetta má glögglega sjá á legsteinum manna, sem oftar en ekki eru skreyttir með starfstitli, sem sönnun á því að sá hinn grafni hafi ekki lifað til einskis. Það skýtur skökku við að reyna að skilgreina sjálfan sig út frá atvinnu. Það er hátindur tilgangsleysisins. Hvernig maðurinn vinnur fyrir sér og aflar sér tekna hefur ekkert með það að gera hver hans innsti kjarni er. Og þegar öllu er á botninn hvolft, er öllum alveg skítsama hvort þú varst múrari eða skipstjóri í hinu lifanda lífi. Á endanum eru starfstitlar eða stéttarstöður ekkert nema stafir á legstein.
Ættingi: Ehhhhh, ehhhhhh, ahhhhhh.
Siggi Siggi Bang Bang: Afhverju er ekki letrað á legsteina hvernig manneskja viðkomandi var? Sem dæmi: Hér liggur Sigurður Einarsson, hann var hjartahreinn og velviljaður maður, sem reyndi og reyndi, en mistókst. Eða: Sigurður Einarsson bakaði fyrirtaks speltbrauð og flautaði eins og rauðbrystingur.

Ég veit ekki hvernig þessum ættinga mínum hefði orðið við, hefði ég svarað honum með þessum hætti. En í raunveruleikanum flissaði ég eins og skólastelpa, roðnaði og óskaði þess að ég væri einhversstaðar annars staðar.

E.S. Ég reyndar verð að viðurkenna að mér finnst svolítið gaman að vita hvað fólk gerði meðan það lifði. Það er þó eftirtektarvert að legsteinar kvenna, bera yfirleitt enga titla. Jú, á einstaka legstein eru konur titlaðar sem húsmæður.

Mary Poppins og lyfjafíkn

Apr
30
[MEDIA=153]

Einu sinni át ég reiðinnar býsn af pillum í öllum regnbogans litum. Það þótti mér prýðilegt. Ég átti pillur við öll tækifæri: ef ég var leiður, ef ég var reiður, ef ég var hress, ef ég var að fara á ættarmót, ef ég dansaði diskó, ef ég fór í skóla, ef ég hætti í skóla, ef ég fór til útlanda – sama á hvaða vígstöðvum ég þurfti að standa mig(eða ekki), alltaf var til pilla eða skammtastærð sem gerðu mig að hæfari ræðara í lífsins ólgusjó. Færustu sérfræðingar í heilsugeiranum aðstoðuðu mig í að éta mig í gegnum nokkur bindi af eftirlætis bók þeirra tíma: lyfjabókinni – þar til einn daginn fannst mér ég vera fullmettur og sagði skilið við lyfjaða tilveru mína. Ákaflega velviljað fólk hjálpaði mér í gegnum mestu erfiðleikanna, með að skófla í mig fleiri pillum – en þegar á leið urðu skammtarnir minni, þangað til á endanum stóð ég uppi berstrípaður. Sveittur og skjálfandi söng ég: “a spoon full of sugar, helps the medicine go down.”

Það þarf enginn að halda aftur af sér í söng, því með myndbandinu fylgir lagatexti. Allir saman nú!

Söknuður

Apr
30

Undanfarið hefi ég ekki mikið skrifað um hefðarköttinn Þórkötlu, enda hefur ekkert til hennar spurst í þrjár vikur. Ég verð að viðurkenna að ég sakna hennar sárgrætilega og má segja að líf mitt hafi verið þrungið harmi frá því að hún hvarf sporlaust. Sálarlausa kvikindi! Ef hún vissi hvað mér var farið að þykja vænt um hana.

Ég eyddi drjúgum tíma í að klappa henni og klóra í hausnum. Það fannst henni fyrirtak. Þegar ég sat við eldhúsborðið og vann á tölvuna, stökk hún fimlega upp á borð til mín og néri nefinu utan í mig. Ég svaraði henni í sömu mynt og nuddaði nefinu mínu tígulega upp við hana. En ef ég ætlaði mér að fá vinnufrið þá þurfti ég að bera í hana kræsingar, því annars lét hún mig ekki vera. Já, við vorum mestu mátar. Á nóttunni þegar ég svaf á maganum, svaf hún á herðum mér. Þegar ég svo svaf á bakinu, lá hún á brjóstkassanum.

En hvar ertu nú Þórkatla?

Þórkatla var þó ekki í minni eigu. Ég vissi aldrei hver átti hana. Fyrir um tveimur mánuðum síðan hvarf hún í tíu daga, en skilaði sér aftur í kærleikann og ylinn hjá Sigga Sigga Bang Bang. Mér kom þá til hugar að raunverulegir eigendur, hefðu náð í hana hingað í hverfið og ferjað hana upp í hryllilegt Breiðholtið. Þar hafi hún orðið aðframkomin af söknuði og því strokið og fundið leiðina aftur heim á Óðinsgötuna. Svona er nú hægt að hugsa kjánalega.

Einhver stakk upp á því við mig að ég fengi mér minn eigin kött, að ég héldi ekki annarra manna köttum í gíslingu. Ég sló viðkomandi utan undir og hrækti framan í hann. Þórkatla skilar sér! hreytti ég í þennan ósensitíva mann.

Ég er þó farinn að efast.

Jimmy Scott

Apr
29
[MEDIA=129]

Hinn þjóðsagnakenndi og jafnframt gullfallegi Jimmy Scott skemmtir gestum meðan þeir bíða eftir að þeim sé sinnt.

Þessi færsla er flokkuð undir flokknum:trít.

Hamsa

Apr
28


Það er lítið gaman að heita Sasson Ben Yehuda og vera fúlasti maðurinn í öllu hverfinu. Sasson þýðir nefnilega á hebresku kæti, gleði, fögnuður, en kátína var það síðasta sem Sasson kom til hugar þar sem hann sat eins og klessa fastur í hjólastól, ekki einu sinni fær um að kasta af sér vatni án þess að verða sér og arfleifð sinni til háborinnar skammar.
Ekki aðeins var Sasson lamaður upp að mitti, heldur átti hann einnig í mestu erfiðleikum með mæli. Allt sem hann reyndi að segja – og hann hafði margt til málanna að leggja – ummyndaðist á tungu hans og varð að hræðilegu umli sem ekki nokkur maður skildi. Fólk sem áður hafði hlustað af óskilgreindri virðingu í hvert sinn sem Sasson opnaði á sér munninn, hristi hausinn yfir hinum nýja talanda.
Sasson vissi vel hvaða kenningar voru uppi um örlög hans. Ástæðan fyrir að hann gat ekki lengur talað, var sú að Guð hafði þaggað niður í honum. Munnurinn á Sasson, sagði fólkið, – er illur. Því hafði Guð tekið þá ákvörðun á stjórnarfundi að Sasson yrði refsað með hressilegu heilablóðfalli. Það heilablóðfall varð honum næstum að aldurtila.

Sasson virti mig fyrir sér með vanþóknunarsvip. Hver er þessi maður? var honum spurn. Hann er ekki héðan. Hvað kemur hann? Frá fjarlægu landi? Íslandi? Hvar í andskotanum er þetta Ísland? sagði hann án þess að mynda orð. Ísland? Þetta hljóta að vera svik, virtist Sasson segja með þónokkri fyrirlitningu.
Í NORÐUR ATLANTSHAFI! gargaði Rami sonur hans á mölbrotinni kúrdísku. Rami hélt að pabbi sinn skildi hann betur ef hann talaði tungumál Kúrdistan. Hann kunni samt eiginlega ekkert í kúrdísku – aðeins orð og orð.
Það fór óheyrilega í taugarnar á Sasson þegar sonur hans reyndi af mikilli vankunnáttu að tala tungumálið sem Sasson ólst upp við. Hann missti algerlega stjórn á sér og varð snarbrjálaður, en verandi ófær um að lesa Rami pistilinn – eins og hann gerði ítrekað þegar hann stóð lappirnar -, barði hann sjálfan sig af töluverðum þunga í hausinn til að tjá óánægju sína.
Ma’gibett Aba? hrópaði Rami, viss um að ef framburður hans væri nógu góður, ef hann talaði nógu hátt og endurtæki svo allt sem hann segði, þá kæmi pabbi hans til með að skilja hann.
Gibett la’mita? hélt Rami áfram, og skildi ekki afhverju pabbi, sem einu sinni hafði verið svo mikill karl, sat og bankaði sig í hausinn eins og geðsjúklingur í amerískri bíómynd. Rami, sem var umhugað að láta bæði Guð og viðstadda halda að hann væri með sál, draup höfði og felldi nokkur slepjuleg tár.
Ég vissi að tárin felldi hann ekki einungis fyrir hinn sírefsandi Guð, heldur voru þau einnig mér ætluð – svona til að bjóða mig velkominn í fjölskylduna.

Hamsa er einn af verndargripum gyðinga. Hamsa eða Hamesh, þýðir fimm og táknar fimm bækur Torah. Hamsa er einnig tákn fyrir bæði súnní- og sjíta múslima. Gripurinn er hönd, stundum skreytt með fiskum, stundum með auga. Hún er notuð í hálsmen, veggjaskraut, og hvar sem þörf er á vernd gegn hinu hræðilega illa auga. Hið illa auga er samkvæmt sögusögnum – öfund í garð þeirra sem eru blessaðir með mikilli lukku. En Hamsa er ekki einungis verndargripur, því einnig er hægt að nota Hamsa til að leggja álög og svipta fólk lukku sinni.
Sá sem bregður á það óráð að nota Hamsa í þeim tilgangi – afskrifar sjálfan sig sem eftirlæti Guðs, og mál hans sett í forgang á stjórnarfundum.

Sasson hataði mig eins og hann hataði allt og alla. Hann hataði Rifku svo mikið að hann lagði á hana Hamsa álög. Rifka hafði verið gift inn í fjölskylduna í mörg ár. Helen, eiginkona Rami, sagði mér að fegurri konu hefði ekki verið að finna í Maoz Tzion. Hún var svo falleg að það lýsti af henni.
En Sasson var illa við hana frá því að hann hitti hana fyrst. Eitt sinn þegar Rifka sneri við honum baki, reiddi hann út höndina með opinn lófa í átt að henni, án þess að snerta hana.
Þeir sem urðu vitni að því, voru sammála um að þarna hefði Sasson kallað yfir Rifku ógæfu með að nota hönd sína sem Hamsa, enda hófst þrautaganga Rifku upp frá þeirri stundu. Skelfilegur húðsjúkdómur lagðist á hana með svo mikilli kvöl og pínu að hún hugðist taka sitt eigið líf. Hún gekk á milli lækna, rabbína, hómópata til að fá lækningu. Á endanum var orsökin rakin til Sasson og Hömsunnar. Þegar ég hitti Rifku, var enga gleði að finna í sálu hennar og það lýsti ekki lengur af henni.

Þegiðu karlandskoti! hreytti ég út úr mér á íslensku. Tóntegundin í röddinni, hefur án efa skilað meiningunni. Stundum þarf fólk ekki tala sama tungumál til að eiga skiljanleg samskipti, að því hafði ég komist á þeim fjórum mánuðum sem ég hafði dvalið með Ben Yehuda fjölskyldunni.
Ég beygði mig niður til að þrífa upp jógurt og salat sem ég hafði haft talsvert fyrir að skera niður fyrr um morguninn. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem þreif upp æti af gólfinu, og á þegar hér var komið við sögu var ég orðinn langþreyttur á því.
HAMSA!, gargaði Helen. Ég sneri mér við skelkaður og vissi ekki alveg hvernig ég átti að bregðast við. Helen sýndi mér með lófanum, hvernig Sasson gerði í bakið á mér. Er það virkilega, spurði ég Bení sem sat þarna í sófa. Bení jánkaði.

Ég verð að komast héðan, hugsaði ég með sjálfum mér og kveikti í sígarettu.

Israel, Veflókar Comments Off on Hamsa