SiggiSiggiBangBang

Alþjóðlegir móðurríðarar

Mar
10

imf

Hvað þýðir “internasjónal” pabbi? spurði dóttir mín, er við brunuðum á Opel bifreið minni eftir Kleppsveginum. “Alþjóðlegt, eða Alþjóðlegir ” sagði ég með föðurlegri og djúpri viskurödd. “Internasjónal Moðer Fokkers, væri þá – Alþjóðlegt…. Mömmu…. ?” hana setti hljóða, meðan hún reyndi að pússla saman orðunum í höfði sér. Án þess að beinlínis vilja það, heyrði ég sjálfa mig segja hátt og snjallt: “Alþjóðlegir móðurríðarar” og um leið og ég sleppti orðinu óskaði ég sjálfum mér norður í rassaborugat, þar sem orðljótir pabbar eru grillaðir í húminu af gráðugum Sjálfstæðismönnum.

Djembe og við erum þjóðin

Mar
07
vid_erum_thjodin

Hlið við hlið stóðu íslendingar, sem undir venjulegum kringumstæðum hefðu ekki yrt á hvorn annan, og slógu magnþrunginn byltingartakt – séríslenskan rutma, gegn hinu spillta authorítet sem lagt hefur landið okkar í rúst.
Mótmælin, þá þrjá daga sem ég mætti, er viðburður sem ég mun ekki gleyma svo lengi sem ég lifi. Ég kenni í brjóst um þá sem sátu heima, þusuðu eins og moggabloggarar og neituðu sér um að taka þátt í einum af merkilegustu viðburðum Íslandssögunnar. Ég ímynda mér að það sé svipað og að hafa verið uppi á sjöunda áratugnum, búsettur í Saugerties, New York, en misst af Woodstock hátíðinni, sem var haldin í aðeins 40 kílómetra fjarlægð.

Stéttaskipting, eða hver þú ert, hvað þú heitir, hvernig þú lítur út – hætti að skipta máli við mótmælin á Austurvelli. Þarna var samankomið fólk úr öllum stigum þjóðfélagsins, sem átti það sameiginlegt að hafa fengið nóg af þeim skít sem valdamenn hafa sótt í rassaboruna á sér undanfarin ár og makað framan í þjóðina.

Hvað um það. Ég finn ekki hjá mér þörf til að endurtaka eitthvað sem poppskáld hafa sagt á litríkari og ljóðrænni máta en mér er fært. Það var annað sem ég uppgötvaði í mótmælunum. Ég komst að því að það er beinlínis frelsandi fyrir mannshugann að slá takt, hvort sem það er tromma, eða makkintoss dós. Ættbálkastemningin, dansinn og gleðin, þrátt fyrir erfiða tíma, – gaf anda mínum vængi.

Í desember sá ég mynd sem heitir The Visitor. Hún er um prófessor í hagfræði(Walter Vale), sem lifir lífinu sofandi. Hann er stífur og formfastur, og hefur átt fáa gleðidaga síðan konan hans dó. Hann er í raun fangi sjálfs síns. Fyrir hendingu kynnist hann manni(Tarek Khalil), sem kennir honum að slá á djembe trommu. Hér má sjá brot, þar sem Tarek sýnir Walter hvernig á að handleika trommuna:

[media id=205 width=520 height=390]

Eftir að hafa æft sig, fer Tarek með Walter á uppákomu í Central Park, þar sem djembe trommarar safnast saman og slá taktinn. Hann er smeykur við að setjast með þeim, en lætur sig þó hafa það.

[media id=206 width=520 height=390]

Í dag greip mig æðisgengileg löngun til að keyra sem leið liggur til hrokapunganna í Tónastöðinni og kaupa mér Djembe. Því miður, eða sem betur fer, var búið að loka. Ég hef eytt kvöldinu í að kynna mér betur þessa tegund af trommu. Ég vissi tildæmis ekki að tromman héti Djembe, sem dregur nafn sitt af málshættinum: “Anke dje, anke be” á bambarísku sem þýðir bókstaflega “sameinumst öll”. Dje + be, verður einhverra hluta vegna að djembe. Ég vissi ekki heldur að til er búð á Klapparstígnum sem selur hljóðfæri úr þessum hluta heimsins. Þannig að eftir helgi ætla ég á Klapparstíginn að festa fé í djambe, að því gefnu að hún kosti ekki aleigu mína. Ef ég kemst hjá því að fara í Tónastöðina, þá get ég glaður við unað.

Á meðan heimurinn hatar okkur

Mar
06

Fjölgar litunum í tilveru minni.

Titillinn er sóttur í viðtal við fiskiverkakonu í ónefndu bæjarfélagi fjarri 101 Reykjavík.

Blómum skreyttar hugsanir um kreppuklám

Feb
25

Nú hefur einhver, með umfram starfsemi í heilanum sínum, plantað fallegu litlu samviskublómi í hjörtum þegna þessa lands. Nýtt skammaryrði hefur verið fabríkerað: KREPPUKLÁM. Hver sá er verður uppvís að kreppuklámi, er talaður niður með uppbyggjandi tilmælum. “Vertu jákvæður!”, “Vertu bjartsýnn!”, “Þetta verður allt í lagi!” eða kannski bara: “Þetta reddast!”

Það grípur mig löngun að tileinka mér samhug landa minna sem rembast við að hugsa fallegar hugsanir skreyttar blómum og krúsídúllum í öllum regnbogans litum. Svo fallega þenkjandi er ég orðinn að fengi ég einhverju um það ráðið yrði lögð inn pöntun á tankskipi fullu af vellyktandi sem hægt væri að nota til að vinna á skítafýlunni sem liggur eins og slikja yfir landinu. Grunar mig þó að það skipti engu hversu mörgum tonnum af ilmvatni væri sprautað yfir mykjuhauginn, stækjan blandaðist bara ilminum og úr yrði alveg ný og fersk lykt: la la la la træ træ læ, allt er í lagi, eigum við ekki bara að gleyma þessu – lyktin.

Hva, ég? Ég er ekkert nema sól og sumar. Ég er já-ið í jákvæðni. Ég er svo hress að ég hef lítið annað gert en að þamba ógeðsdrykki síðan ég lauk vinnudegi. Ég er einmitt að vonast til að ég gubbi bráðum. Ekkert er eins fyndið og skemmtilegt og þegar ég gubba. Allt er svo fyndið og skemmtilegt. Lífið á Íslandi er eitt risastórt dansiball. Undirspilið er taktur sem hljómar eitthvað á þessa leið: Davíð Odds, búmm, Davíð Odds, búmm, Davíð Odds, búmm. Það þarf engum að leiðast. En bara fyrir alla muni, ekki hafa orð á því hversu dapurlegt þetta allt er – það skemmir stemninguna.

No one cares like Colon Care

Feb
24

79572Þegar kona og karl — að því gefnu að þau sé þannig hneigð — hafa sérstaka velþóknun á hvoru öðru, handsala þau hrifningu sína með að ulla upp í hvort annað. Þessi gerningur hefur lítið með skynsemi að gera, því hvergi er að finna meira samansafn af illa innrættum bakteríum en í munninum. Hverjum datt þetta fyrst í hug? Var einhver frumkvöðull, eitthvað manngrey á þessum árum fyrir fæðingu frelsarans sem flaug í hug að gaman væri að prufa að klessa munninn sinn saman við annan munn og reka út úr sér tunguna. Er þetta hátterni kannski innbyggt í manneskjuna? Var það sjálfur Guð almáttugur, forritari manneskjunnar, sem ákvað að skrifa fall sem kveikir í manninum þrá til að beita sér á þennan hátt.

Að öðru, en alls ekki óskyldu máli. Ég komst að því að allar birgðir af Colon Care eru uppseldar í Apótekum landsins. Slagorðið: “No one cares like Colon Care” segir meira en allt orðagjálfrið sem kemur hér á eftir.

Þeir sem haft hafa hægðir jafnlengi og ég, vita að ekkert er fegurra en ristill sem er svo hreinn að hægt er að spegla sig í honum. Fyrir fyrstu ferð mína til Bandaríkjanna, sem var farin í nafni ástarinnar, tók ég hús á einum af meiri ristilsérfræðingum höfuðborgarsvæðisins. Ég gat bara ekki hugsað mér að fara til Bandaríkjanna með ristilinn allan útbíaðan.

Maður þessi varð snemma meðvitaður um að líkaminn er fullur af óæskilegri drullu sem hefur slæm áhrif á daglega líðan. “Þessi drulla þarf út með öllum tiltækum ráðum!” heyrði ég hann segja af miklum þunga. Sannfærður þáði ég spennandi seyð, sem hann hristi saman úr hinu ýmsasta glundri, þar á meðal Colon Care. Hann útskýrði fyrir mér virknina, og komst ég ekki hjá því að finna fyrir eftirvæntingu, ekki ólíkt þeirri sem fylgir því að prufa nýtt vímuefni. Ég átti von á að tæma ristilinn algerlega, í einni gífurlegri sprengingu, en varð fyrir vonbrigðum eins og með svo margt annað í þessari tilveru. En ég fann að galdraseyðurinn hafði góð áhrif á meltinguna, og flaug ég til Bandaríkjanna vel undirbúinn undir þarlent offitufæði. Ég hef síðan þá lagað Colon Care kokteila heima hjá mér eftir stífa sælgætis- og kolvetnisneyslu. En nú er kreppan skollin á og bærinn tómur. Baráttan er vonlaus þegar miðin eru dauð.

“Ohhhh ég þoli ekki Hitler!”

Feb
23

Ég og elskuleg dóttir mín fórum í kvikmyndahús í gær og sáum hina stórmerkilegu mynd Beverly Hills Tjúvává, sem fjallar um líf og ástir smáhunda í Ameríku. Við hlógum eins og fífl alla myndina á milli þess sem við tróðum í okkur klístraðar bananasprengjur og poppkorn. Í hléinu skemmtum við okkur við að lesa allar auglýsingar sem birtust á tjaldinu upphátt eins og við værum í vinnu á hressri útvarpsstöð þar sem engum verður misdægurt.

Eftir bíóið keyrðum við niður í Nauthólsvík og spásseruðum þar um. Þar hittum skáld sem er ekki bara flinkur að skálda, heldur er hann öllum mönnum fremri í að fleyta kellingar. Sumir steinarnir sem hann fleytti skoppuðu á vatninu minnst átta sinnum, meðan steinvölur okkar feðginanna sukku til botns eftir að hafa skvampað aðeins einu sinni. Skáldið hélt sína leið og ég stelpan mín vorum sammála um að hann væri fyrirtaksskáld og því vinkuðum honum eins og við værum aðalpersónurnar í Húsinu á sléttunni, en eins elstu menn muna þá var mikið lagt upp úr vinki í þeim þáttum.

Stutt frá ylströndinni er virki frá stríðsárunum sem við skoðuðum. Þar sem það er í hlutverki pabbans að uppfræða dóttur sína sagði ég henni frá þegar Bretar og síðan Bandaríkjamenn pössuðu upp á að Hitler kæmist ekki inn í landið okkar fína og flotta í seinni heimstyrjöldinni. Þá hnussaði dóttir mín. “Ohhhhh, ég þoli ekki Hitler!” sagði hún pirringslega eins og Hitler væri einn af stríðnispúkunum í bekknum hennar.

Þetta var hinn besti dagur.

Fjöldamorðingjabloggarinn

Feb
21

keyboardÍ nótt dreymdi mig að nafntogaður bloggari væri í raun fjöldamorðingi. Vitanlega féll í minn hlut að stöðva þennan vonda og blóðþyrsta bloggara. Þetta var nú einu sinni minn draumur.
Ég rakti blóði drifna slóð hans frá Reykjavík til Kópavogs í hús sem stendur við Hlíðarveginn. Húsið kemur ítrekað fyrir í draumum mínum. Ég gekk inn fyrir. Innréttingar voru hálkláraðar, milliveggir ófrágengnir, loftið ómálað og verkfæri út um öll gólf. Sá hluti sem vísaði inn í stofuna, var þakinn plasti. Það var lítil lýsing, nánast myrkur.
Ég heyrði þrusk á bak við plastið og vissi samstundis að þetta var drápsmaðurinn. Ég setti mig í stellingar, en áður en ég sjálfur gæti gert árás spratt hann fram og réðist á mig öskrandi með hníf sem ég fann stingast í síðuna. Hann dróg hann út og gerði sig líklegan til stinga mig aftur þegar ég barði hnífinn hetjulega úr hendi hans og sneri hann niður, þar sem ég hélt honum föstum. “Mér þótti nú ósköp skemmtilegt að lesa rætna bloggpistla þína, en aldrei hefði mig grunað að þú værir svona morðóður” sagði ég rétt áður en ég heyrði heimilisköttinn fara þess á leit við mig að ég vaknaði og hleypti honum út.

Nema þetta ljóð…

Feb
21

Ég er varla búinn að lýsa því yfir að ég sé ólæs á ljóð, þegar mér dettur í hug flutningur sem ég fæ gæsahúð af að hlusta á. Þetta er ljóð Adrian Mitchell Tell me lies flutt af honum sjálfum í London 1964.

[media id=204 width=520 height=390]

Stefnumót og hvar á að staðsetja ástina

Feb
20

Fyrir þá sem eru þannig þenkjandi þá held ég að ein af áhrifaríkari leiðum til að öðlast betri skilning á lífinu sé með hjálp listsköpunar. Hvort sem maður er neytandi eða gerandi. Listformið skiptir mig ekki höfuðmáli. Ég álít ekki að eitt listform sé ofar öðrum, eins og tíðkast hjá þeim sem eyða öllu sínu þreki í að aðgreina sig frá einhverjum sem þeir telja sér ekki samboðnir. Ég verð þó að viðurkenna að ég er ekki mjög læs á ljóð. Þó ég einbeiti mér sérstaklega, þá í flestum tilfellum reikar hugur minn inn í minn eigin draumaheim þar sem alltaf er dansiball.

Kvikmyndalist er form sem ég hef verið hrifinn af síðan ég var krakki og þær myndir sem betrað hafa líf mitt orðnar æði margar. Ein af þeim er Magnolia leikstjórans Paul Thomas Anderson. Fáar (þó þær séu reyndar nokkrar) gera tilfinningalífi mannskepnunnar betri skil. Ég á mér nokkur eftirlætisatriði úr henni, en hér að neðan eru tvö þeirra. Persónur Magnolia spanna nokkuð marga liti í regnboga sálarinnar og reynist auðvelt fyrir mig að samhæfa jafnt með aumkunarverðustu persónunni sem og þeirri sem hefur til að bera flestu mannkostina.

[media id=202 width=520 height=244]
Fyrsta atriðið sýnir stefnumót lögregluþjónsins Jim Kurring og kókaínfíkilsins Claudia Wilson Gator. Claudia er viss um að þegar Jim kemst að því hvernig lífi hún lifir þá eigi hann eftir að verða henni afhuga. Hún leggur því til að þau láti af allri tilgerð sem fylgir hefðbundnum stefnumótum. Myndbrotið hefst þar sem Clauda kemur af klósettinu eftir að hafa sogið hressingarduft upp í nefið á sér.

[media id=203 width=520 height=244]
Quiz kid Donnie Smith, er ein af ömurlegustu persónum Magnolia, en samt svo dásamlegur. Í gegnum myndina gerir hann vonlausar og niðurlægjandi tilraunir til að finna sjálfum sér og tilfinningum sínum samastað. Í þessu guðdómlega atriði játar hann fyrir Jim, sem hann þekkir ekki neitt, að þrátt fyrir alla þá ást sem hann hafi að gefa, viti hann ekki hvar hann eigi að staðsetja hana.

Þvílíkt sælgæti.

Benedikt kennara batnar geðveikin

Feb
20

“Sælt veri fólkið!” sagði maðurinn hátíðlega er hann kom askvaðandi inn í setustofuna. Hann tók hárkolluna af höfði sér, hneigði sig örlítið meðan hann sveiflaði kollunni riddaralega í nokkra hringi fyrir framan sig. Ég hló lágt, en samt nógu hátt til að hann varð mín var. “Hvað heitir þú ungi maður?” spurði hann og hagræddi kollunni sem nú sat skökk og skæld á höfði hans. Ég þorði ekki að segja neitt. Ég var ekki viss um hverju hann tæki upp á.

“Ég heiti Benedikt og er kennari!” sagði hann og reiddi hraustlega fram höndina. Á þessum tíma kynntu menn sig ekki bara með nöfnum, heldur var til siðs að láta fylgja með við hvað þeir störfuðu. Það mátti heyra á röddu Benedikts að honum þótti kennaratitillinn tilkomumikill. Kennari var í mínum huga traustvekjandi og góður starfstitill, þá aðallega vegna þess að pabbi var kennari og ábyrgari mann hafði ég ekki kynnst.

Ég leit upp þar sem hann stumraði yfir mér og rétti honum hönd mína. “Ég heiti Sigurður!” hvíslaði ég, hræddur um að setja af stað óværu ef ég talaði fullum rómi. Hann spurði mig hversvegna ég væri þarna, og ég sagði honum það. Mér til mikillar undrunar róaðist hann niður við að heyra mig gera grein fyrir sjálfum mér. Þegar ég hafði lokið máli mínu fann hann sig knúinn til að segja mér hvernig ástatt væri fyrir honum.

“Ég er geðveikur!” sagði hann “-Ég tek æðisköst og fæ þá flugu í höfuðið að ég skilji lífið og ekkert fái mér grandað. Svo sækir að mér efi og ég átta mig á að þetta er bara geðveikin í hausnum á mér. Þá verð ég svo ægilega dapur, að ég ligg í rúminu dögum og stundum vikum saman.” Hann settist niður við hliðina á mér. Það var allt loft úr honum. Hann starði þögull út um gluggann.

Þannig var það þegar ég hitti Benedikt kennara í fyrsta skipti. Ég var aðeins 16 ára.

Einhverju síðar hoppaði Benedikt út um glugga af þriðju hæð. Þegar niður var komið, spratt hann á fætur örlítið ringlaður. Hann stóð kyrr um stund, meðan hann áttaði sig á að hann var líklega ekki dauður. Hann hélt því næst heim á leið til konu og barna. Honum batnaði geðveikin og enginn heyrði hann framar tala um skilning sinn á lífinu.

Skan

Feb
18

jacobs-ladder-075

Til að fá útrás fyrir þau íþyngjandi leiðindi sem fylgja því að vera íslendingur þetta misserið, ætla ég að þusa um yfirlæti í munn- og skriflegum samskiptum.

Er það beinlínis skylda mín að nefna fyrst af öllu ömurlega styttingu á einu af mínum eftirlætisorðum. Orðskræmið er “skan” og er eins og marga grunar, stytting á orðinu “elskan” sem er eitt af hjartnæmari og fallegri orðum í okkar pissvolga móðurmáli. Elskan, er orð sem ég sjálfur nota einungis á tyllidögum þegar ég vil ávarpa kynþokkafullan aðila af gagnstæðu kyni sem ég ber eldheitar og lostafullar tilfinningar til. Að hefja eða enda mál sitt með orðinu skan, eða elskan, gengisfellir merkingu orðsins, og orðið hættir að vera brúklegt til að kunngjöra einhverjum ást sína. Sem betur fer hefur engum íslenskuníðingi hugkvæmst að taka orð eins og ástin(sbr. ástin mín) og stytta það í tin, eða stin.

Og pirringnum er síður en svo lokið.

Ekkert virkjar manndrápseðlið í mér eins mikið og þegar einhver, sem mér er ekkert sérstaklega vel við, eða er mér ekki mikið annað en málkunnugur, kallar mig vinur. Ég man eftir hræðilega leiðinlegum manni sem ég átti í samskiptum við vinnu minnar vegna, en hann hafði þann háttinn á, sama hversu þurrkuntuleg samskipti okkar voru, að kalla mig vinur. Ég er enginn vinur þinn! hugsaði ég, meðan ég óskaði honum langleiðina til helvítis. “Já, alveg sjálfsagt” svaraði ég mjúklega.
Vinur, eða kútur. Hvort um sig er jafn ógeðslegt. Að kalla einhvern vin, sem maður er ekki vinveittur er yfirlætisfullt og viðurstyggilegt. Einhver kann í einfeldni sinni að halda að viðkomandi væri að reyna að vingast við mann, en sú er ekki raunin.

Til eru fleiri orð sem gera mig arfavitlausan. Fátt veit ég eins hryllilegt og þegar ég er titlaður meistari. Ég er ekki að mér vitandi neinn meistari, þannig að ef einhver ávarpar mig með þessari nafngift, geri ég að sjálfsögðu ráð fyrir að sá hinn sami sé að gera grín að mér. Að kalla einhvern meistara, sem ekki hefur lokið meistaraprófi, er móðgun sem enginn ætti að taka óstinnt upp.

Kútur, krúsídúlla, kappi, tappi, eru allt ömurleg orð, sem notuð eru af fólki sem fyrir einhvern hræðilegan misskilning heldur að allir þurfi að vera eins hressir og Simmi og Jói, annars sé það úr leik.

Ég? Ég er annars bara hress!

Bjartur svartur og frelsi

Feb
12

Ég færi á allar myndlistaropnanir hér í borg, ef ekki væru 99% líkur á því að hitta sama fólkið á þeim öllum. Að hitta endurtekið sama fólkið við sömu kringumstæður er þreytandi fylgifiskur þess að búa á fangaeyjunni. Ég tala nú ekki um ef haldið er til í einu svæðisnúmeri.

“Jæja, bara verið að skoða málverk?” gæti einhver spurt mig, og klappað mér kumpánlega á bakið. Þó frekar ólíklegt, þar sem stemningin á myndlistarsýningum er ekki alveg sú hin sama og á líkamsræktarstöðvum. Sennilegra væri að einhver segði eitthvað hnyttið og kaldhæðnislegt, því á myndlistarsýningum eru allir svo ægilega meðvitaðir um kómedíuna í tilgangsleysi lífsins.

Frelsi er orð sem kemur óneitanlega upp í hugann.

Frelsi er að syngja óperu, meðan maður gengur sperringslega niður Laugaveginn. Óperusöngvarinn sem mætti mér að morgni dags á Laugaveginum fyrir nokkrum árum, getur örugglega ekki gert sér í hugarlund hversu mikil áhrif hann hafði á mig með söng sínum. Frelsi! hugsaði ég. Hann hikaði þó um stund þegar hann sá mig nálgast, og íhugaði hvort hann ætti að láta undan illfyglunum og hætta að syngja. En hann sniðgekk allar innri bollaleggingar og hélt áfram:

Daß, wo brünstig sein Gebet
Einzig um Erlösung fleht,
Da der Engel niederschwebt,
Und es sanft gen Himmel hebt.

Frelsi er ekki að sturta í sig brennivíni, skakklappast svo niður Laugaveg, syngjandi Óle Óle Óle Ó lei.