SiggiSiggiBangBang

Once Upon A Time In America

Nov
30
[MEDIA=52]

Þarna má sjá Jennifer Connelly í einu af sínu fyrstu hlutverkum.

David ‘Noodles’ Aaronson njósnar um æskuástina sína, Deborah. Henni er fullkunnugt, að á sig er horft. Það vantar reyndar upp á þetta atriði, en í endann á dansinum afklæðir hún sig til að stríða Noodles.

Ennio Morrocone á í henni alla tónlist. Einhver mistök í skriffinnsku urðu þó til að hann var ekki hafður með á Óskarnum þetta árið(1984). Hann hefði hreppt eitt stykki er ég viss um, enda er hér um listasmíð að ræða sem unun er í áhlustun. Samspil tónlistar Morrocone og myndmáls Sergio Leone hafði áður skapað frábæra stemningu í öðrum myndum eftir leikstjórann og ber þar að nefna The Good, Bad and The Ugly, ásamt hinum dollaramyndunum.

Once Upon A Time In America verður hér ekki tíunduð frekar, en allir sem hafa áhuga á myndum um skipulagða glæpastarfsemi, ættu ekki að láta það fréttast út að þeir hafi ekki séð þessa mynd.

Hér gefur svo að líta trailer úr þessu síðasta meistarverki leikstjórans Sergio Leone.

[MEDIA=53]

En

Nov
29

hvaða mynd er þetta?

[MEDIA=51]

Skoðanafestublogg

Nov
29

Ég gæti tekið mig til og gert mér upp einhverja skoðun á málefnum líðandi stunda, en það yrði klaufalegt af minni hálfu vegna þess að ég kæri mig orðið kollóttan um flest þeirra málefna sem allir elska að fá tremma yfir, þar fyrir utan veit ég í hjarta mínu að þessum málefnum er gerð góð skil bæði á moggablogginu og á barnalandinu. Ég halla mér því aftur alveg ugglaus, vitandi að ég er í góðum höndum.

Það elska allir að hafa skoðanir. Skoðanafesta er týnd til sem ein af dyggðum íslendinga. Frá mínum bæjardyrum séð er skoðanafesta ullaskítabjakk íslensks samfélags. Þeir hinsvegar, sem hafa hæfileika til að taka annan pól í hæðina og skipta um skoðun, eru manneskjur sem að mínu mati uppskera gleði og hamingju.

Því í andskotanum er ég að skrifa hér um skoðanafestu? Ég geri mér enga grein fyrir því. Hvar eru mölkúlurnar mínar? Hver tók þær?

Christine – show me

Nov
29

Þegar hér er komið við sögu, er Arnie Cunningham söguhetja myndarinnar Christine staddur niðurbrotinn á bílaverkstæði Will Darnell. Nóttina áður brutust drulluháleistar inn á verkstæðið og rústuðu því sem er Arnie kærast í heimi hér: Plymouth Fury 57, bifreið sem hann hefur kostað öllu sínu í að gera upp. Í atriðinu – sem vegur þungt – uppgögvar Arnie að bíllinn er ekki alveg hefðbundinn.

[MEDIA=49]

Til að gera gátuna aðeins erfiðari, klippti ég í burtu fyrripartinn.

Títtumræddir tveir og tveir

Nov
28

Eftirlæti mitt á þeim árum sem myndin kom út. Ég tala ekki með óæðri endanum, þegar ég fullyrði að ég hafi séð hana minnst 50 sinnum. Ég var gersamlega hugfanginn af henni; það skal engan undra þegar lagðir eru saman títtumræddir tveir og tveir.

Hvaða mynd er þetta?

[MEDIA=48]

Dah dah dahhh dahh dahhhhhhh

Nov
27

Þegar ég var strákalingur, vorum ég og besti vinur minn í gervöllum heiminum miklir kvikmyndalúðalabbar. Fátt annað komst að en kvikmyndir, tæknibrellur, framúrskarandi leikstjórar og skæslegir leikarar. Ég hafði reyndar talsverðan áhuga á stelpum líka, en ég hélt þeim áhuga algerlega út af fyrir mig, enda þótti sá áhugi veikleikamerki. Seinna komst ég reyndar að því að það er sannleikur.

Til að stytta okkur stundir, hittumst við heima hjá öðrum hvorum okkar og lögðum fyrir hvorn annan kvikmyndagátur. Annar hafði þá yfir að ráða kvikmyndahandbók sem hann spurði hinn upp úr. Tildæmis: Í hvaða mynd léku John Cassavettes og Kirk Douglas saman í og hver leikstýrði þeirri mynd? Í dag er auðsótt fyrir hvern sem er að fletta upp öllu gúmmilaðinu á internet múví databeisnum stóra og fína, en á þessum tíma voru þessir getraunaleikir okkur mikil áskorun.

Þessi æskufélagi minn, óx líkt og ég upp úr grasi og við héldum hvor í sína áttina. Ég hef margsinnis fyrirhitt fólk með kvikmyndaáhuga, en enginn hefur haft burði til að leika þennan leik með mér. Ég freistast því til að svala þörf minni hér á vefsetri mínu. Ég geri mér grein fyrir að fyrsta spurningin – að því gefnu að ég komi með fleiri spurningar – er skítlétt.

Úr hvaða mynd er þetta stef?

[MEDIA=47]

20th century fox

Nov
26
[MEDIA=45]

Þetta þykir mér fyndið.

Andlegir yfirburðir

Nov
25

Það kemur fólki á óvart þegar það verður þess áskynja að ég er afskaplega andlega þenkjandi maður. Vegna áhuga míns á málefnum tengdum fallvaltleika lífsins var ég einu sinni staddur á ráðstefnu fólks sem lifir í andlegum vellystingum. Á ráðstefnunni var talað um Guð og hvernig hann hefði lagt hönd á plóg við að hjálpa þeim sem þarna voru samankomnir.

Eins og oft, þar sem nærvera Guðs er sterk, kostar fólk öllu sínu í að sýna fram á yfirburði sína í andans heimi. Er það þá yfirleitt búið að finna út hvar það er statt í hinni andlegu goggunarröð og því hærra sem það telur sig trjóna nærri toppnum þeim mun meira er því uppálagt að ráðast til atlögu gegn þeim sem eiga lengra í land.

Innan veggja þessa samfélags, gerði ég mér grein fyrir að ég var ekki svo mikið sem hálfdrættingur á við marga af þeim andlegu risum sem heiðruðu mig og meðbræður mína með dásamlegri nærveru sinni. Ég átti bágt með mig, því ég vissi aldrei í hvorn fótinn ég átti að stíga, hvernig ég ætti að haga mér, hvað ég mætti segja, hvað ég mætti ekki segja, osfrv.

Ráðstefnan var þéttsetin og í hvert skipti sem einhver í hinni andlegu elítu sagði eitthvað smellið, gelti fólk af hrifningu: Voff! Voff! Þegar herlegheitunum lauk, skimaði ég eftir útgönguleið. Ég fann að ég þurfti að komast á brott hið snarasta áður en einhver gæfi sig að mér og segði mér til syndanna.

Ekki horfa í augun á neinum, brýndi ég fyrir sjálfum mér. Flóttalegur hóf ég að fóta leiðina í átt að dyrunum. Ég gerði mér grein fyrir að því örvæntingafyllri sem ég kom mannmergðinni fyrir sjónir, þeim mun auðveldara skotmark yrði ég fyrir hina svokölluðu postula, sem þráðu ekkert heitar en að læsa skoltum sínum í berskjaldaða sálu mína. Vitneskja mín, gerði einungis illt verra og taugaveiklun mín sótti í sig veður og vind. Sviti spratt fram. Ekki gefa neinum gaum! Ekki gefa neinum gaum!

Skelfing og óhamingja. Andspænis mér stóð maður sem gerði sig líklegan til að umvefja mig guðlegum kærleik. Ég reyndi að leiða hann hjá mér, en allt kom fyrir ekki, hann tók mig sér í faðm. Mér leið eins og óknytta barni í örmum þessa manns, sem ég vissi að hefði hlotið ótal viðurkenningar fyrir andlegt ríkidæmi sitt. Ó mig auman, sagði ég við sjálfan mig. Maðurinn sleppti af mér tökunum og neyddi mig til að horfa beint í augun sér. Ég skalf örlítið. Ætli hann verði þess var?

“Ég var einu sinni eins og þú,” segir hann við mig. Hvað á hann við, hugsaði ég með sjálfum mér. Hvernig þá? Var hann einu sinni fáviti? Mér verður svarafátt. Þessi samskipti eru hans. Hann er herra Mónólókur. Ekkert sem ég get sagt, vegur þyngra en það sem þessi maður hefur fram að færa. “Ég var einu sinni eins og þú,” endurtekur hann, “það var illa fyrir mér komið.” Nú já, ég er sumsé ömurlegur, sagði ég við mig sjálfan.
“Mér var farið að líða það illa að ég var farinn að berja konuna mína,” segir hann mér hróðugur. Já, einmitt það já. Ef það er eitthvað sem ég get samhæft með þá er það með manni sem lemur konuna sína. Ég er hólpinn, ég er kominn í höfn. Guði sé lof.
“En svo tók ég Guð almáttugan inn í mitt líf,” segir hann og það lifnar yfir honum.

Ég er upphrifinn. Ef ég bara gæti sjálfur hætt að berja konuna mína, hugsa ég. En bíddu nú við. Haltu hestum þínum innan girðingar. Það skyndilega rennur upp fyrir mér ljós: Ég á enga konu! Ekki bara það að ég eigi enga konu, heldur hef ég aldrei lamið einn né neinn þá daga sem ég hef lifað. Meðan ég íhuga stöðu mína, heyri ég að hann er að tala um Guð og hvernig Guð hefði gripið inn í og hjálpað honum til að hætta að berja á konunni sinni. Ég, sem í sífellu efast um mitt eigið ágæti, tel fullvíst að þessi maður sé mér samt sem áður skör ofar í lífsins leikni. Ég álykta því með sjálfum mér að ef ég ætti konu, þá væri ég líklega alltaf að berja hana, og þá væri aðeins eitt fyrir mig að gera og það væri að finna Guð og það ekki seinna en strax, svona rétt áður en allt færi til andskotans.

Með þennan nýja sannleik, kemst ég loks út úr húsi. Ég er svo andlega impóneraður að mér finnst eins og fætur mínir snerti ekki almennilega jörðina. Fyrir utan húsið standa fleiri andlegar fyrirmyndir og keðjureykja sígarettur. Ég hefði slegið til og fengið mér reyk, hefði ég ekki verið hættur að reykja.

Nokkrum mánuðum síðar tók ég mér tak vegna offitu og hóf að æfa skanka og bæseppa í flottustu líkamsræktarstöð landsins. Þar hitti ég marga andlega forkólfa, þar á meðal þennan mann, sem lagði stund á kraftlyftingar. Stundum sá ég konuna hans með honum.

John Denver er dauður.

Nov
20
[MEDIA=44]

Hverju mannsbarni er fullkunnugt um hversu mikill söngfugl ég er. Ég gersamlega elska að þenja á mér raddböndin og verða þá oftar en ekki söngvar um ástina fyrir valinu. Hver sem haft hefir af mér kynni veit að ég er dyggur aðvókat ástarinnar. Ég elska að elska. Ég elska að syngja. Að lifa er að elska. Ást, ást, ást.

Með fallegri ástarlögum sem ég hef heyrt, er án efa Perhaps Love með John Denver. John Denver er steindauður, en þetta fallega lag lifir í hjörtum allra meðvitaðra manna. Ég er meðvitaður maður. Ég hef kynnst ástinni.

Núna nýverið söng okkar ástsæli Garðar Cortes þetta lag með miklum tilþrifum. Lag þetta rataði til mín í gegnum pípur alnetsins og hitti mig beint í hjartastað. Ég hugsaði með mér, ekki get ég verið eftirbátur Garðars og því ákvað ég að syngja þetta lag inn á myndband fyrir aðdáendur þessarar síðu. Undir spilar John Denver á veðraðan kassagítar, en ég sé alfarið um söng. Má segja sem svo að þetta myndband sé óður minn til ástarinnar. Megi sem flestir finna ástina og lifa hamingjusömu lífi, þangað til við fetum í fótspor John Denver og drepumst.

Tónaflóð

Nov
13

Vöxtur minn er orðinn framúrskarandi eftir að ég fór að ástunda dans.

Nafnakall í gehinom

Nov
12

Að stíga léttan dans á jarðsprengjusvæði er eftirlætis nálgun mín við að lifa þessu lífi. Oftar en ekki kallar einhver velviljaður til mín: Sigurður minn, viltu ekki heldur hrista á þér skankana á hunangsakrinum þarna við hliðina á. Hunangsakur??? Ég hræki rafgeymasýru í augun á viðkomandi. Fullur af fyrirlitningu, þreyttur, lúinn, í köldum heimi garga ég tímamótaóhroða. Ég verð að finna fyrir því að ég sé á lífi og það gerist ekki ef ég er að stunda kynvillu á einhverjum helvítis hunangsakri.

nostalgía

Nov
09

Ég hef alla tíð borið í brjósti mér óskilgreindan ljúfsáran söknuð til áranna í kringum 1928-1936. Tónlist, arkitektúr, fatnaður og stemning þessa tímabils fyllir sálu mína af hlýjum og notalegum tilfinningum. Söknuður sem þessi er stundum kallaður nostalgía, þrátt fyrir að nostalgía sé upprunalegum skilningi notuð um heimþrá.

Fyrir mörgum árum síðan kynntist ég konu sem starfar enn þann daginn í dag sem miðill. Einn föstudag eftir skóla, bauð hún mér að koma á miðilsfund á heimili hennar. Ekki var laust við að örlítill beygur væri í mér, en ég þáði þó heimboðið með þökkum. Þegar þar var komið útskýrði þessi góða kona fyrir mér hvernig fundurinn færi fram. Hún félli í trans og á meðan hún væri í transinum, ætti ég samskipti við eldri mann sem hún nafngreindi. Hann hefði aðgang að fólki með allar þær upplýsingar sem þeim væri heimilt að láta mér í té.

Rödd konunnar sem var frekar mjóróma breyttist eftir að hún féll í trans og varð hrjúf og karlmannleg. Það hefði komið meira á mig, hefði þessi vinkona mín ekki verið búin að undirbúa mig. Gamli maðurinn kynnti sig og hóf síðan að útskýra fyrir mér hvernig lífið virkaði. Hann tjáði mér að megintilgangur okkar væri að læra af mistökum okkar og þroskast.

Fyrir fæðingu væru okkur úthlutuð markmið sem við þyrftum að keppa að áður en yfir lyki. Næðum við markmiðum okkar, yrði okkur sett ný verkefni til að kljást við í næsta lífi. Tækust okkur ekki að ná markmiðum okkar, þyrftum við að þreyta sömu þrautir í næstu atrennu. Hann sagði mér að fólk sem gerði slæma hluti, væri á fyrstu lífunum sínum. Ég man ekki til þess að hann hafi sagt mér hvað gerðist áður en fyrsta lífið væri lifað, eða hvaðan allar þessar sálir koma. Ekki man ég heldur hvort hann hafi skýrt það út fyrir mér hvað yrði þegar öllum markmiðunum hefur verið náð.

Þegar við höfðum spjallað saman um tilgang lífssins og hann hafði svarað öllum mínum spurningum um þroskaferli og endurfæðingar, spurði hann hvort það væri eitthvað sem mig fýsti að vita um mína persónulegu tilveru. Ég spurði hann þá, hvers vegna ég væri haldinn nostalgíu gagnvart þessu ákveðna tímabili í sögunni. Hann leit upp og til hliða og virtist eiga í einhverjum samskiptum við einhverja sem ég heyrði ekki í. “Já, var það þannig,” sagði hann, “já, einmitt.” Hann jánkaði. Eftir að hann virtist hafa viðað að sér svar við spurningu minni, sagði hann mér að ég hefði verið uppi á þessum tíma. Hann sagðist sjá mig í sjakket með pípuhatt. Ég bjó ekki á Íslandi, heldur á erlendri grundu. Hann segist sjá á öllum aðbúnaði að ég hafi verið heldri borgari. Skör ofar en almúginn. “Þú stendur við hliðina á sjálfrennireið,” sagði hann mér, “ekki margir á þessum tíma áttu þessa tegund af bíl; aðeins efnað fólk gat leyft sér þann munað.” Hann sagði mér að ég hefði verið ástfanginn af ungri konu. Eitthvað sem hann gat ekki útskýrt gerðist, varð þess valdandi að upp úr slitnaði. Þjakaður og kvalinn batt ég enda á líf mitt með að keyra bifreið minni inn í tré.

Þegar vinkona mín kom aftur úr transinum, sagði hún mér að hún hefði séð mig í mínu fyrra lífi, þar sem ég stóð hnarreistur íklæddur sjakket með pípuhatt í fjarlægu landi. Hún sagðist upplifa transinn sem áhorfandi, þar sem hún væri notuð sem samskiptatæki fyrir þennan gamla mann og félaga hans.

Ég sjálfur er fullur af efasemdum. Ég held þó að það sé meira í heimi hér en mætir augum okkar. Það eru einhver einkennileg óskilgreind lögmál, sem laga það af sem aflaga fer. Einhver töfrabrögð sem við getum ekki útskýrt.

Ég vil vita meira um þessi töfrabrögð. Ég ætla ekki að dala uppi, svínalinn sitjandi í sófa glápandi á ömurlegt raunveruleikasjónvarp.