SiggiSiggiBangBang

Aspartame

Mar
31

aspartame.pngÉg kom heim í eftirmiðdaginn og lagði mig. Þegar ég hafði fest svefn, dreymdi mig draum þar sem ég átti í töluverðum útistöðum við mann, sem ég hef lítið hugsað um undanfarið.
Þegar ég vaknaði var ég harðákveðinn í að gera mér sérstaka ferð til að pissa á leiðið hjá honum og fleirum sem ég á sökótt við. – Það ætti að verða leikur einn, þar sem ég er nokkuð viss um að ég lifi flest samtíðarfólk mitt. Þessi viðbrögð mín komu mér hinsvegar á óvart, því inn að beini er ég mjög kærleiksrík og hlý persóna, sem tamið hefur sér kristileg gildi og fussar yfir fátæku siðferði meðbræðra sinna. Hvaðan kemur öll þessi illska, spurði ég sjálfan mig, alveg hissa.

Eins og oft, þegar ég skil ekki neitt í hátterni mínu, reyni ég að fara yfir það sem ég hef borðað síðustu daga, því skýringar og hinum og þessum dyntum í skapgerð minni – er oft að finna í hrjóstugu matarræði mínu. Og viti menn, það rann upp fyrir mér ljós, sem rennir enn frekari stoðum undir þær kenningar mínar að Aspartame er eitur fyrir líkama og sál.

Í síðustu viku, snæddi ég hádegisverð upp í Akademíu. Í góðri trú, ákvað ég að kaupa mér ósykurskertan Fanta drykk með matnum. Þar sem ég sat við borðið með fyrirfólki og át matinn, sem mig minnir að hafi verið kínarúllur með hrísgrjónum, víkur talið að kristilegu ungliðastarfi. Eitthvað sagði ég sem fór fyrir brjóstið á sessunaut mínum, svo til að fela hversu skömmustulegur ég varð, fór ég að lesa á Fanta dósina og komst að því mér til mikillar hrellingar, að þó svo ég hefði keypt sykrað Fanta, var þar samt sem áður að finna rotvarnarefni sem innihélt Aspartame. En eins og áður hefur komið fram í pistlum mínum, fyllist ég mannfyrirlitningu og hatri á bræðrum mínum og systrum, þegar ég hef innbyrgt þetta baneitraða íbætiefni.

Ég verð samt að viðurkenna að mér finnst góð hugmynd að míga á leiði þeirra sem ég ber kala til.

Hvað er málið með hvað er málið?

Mar
30

Á google.com ef leitað er að “Hvað er málið?”, innan gæsalappa, skilar leitin 74,800 niðurstöðum. Ef gæsalappir eru notaðar í leit á google, veit leitarvélin að hún á eingöngu að skila þeim niðurstöðum þar sem leitarstrengurinn kemur orðrétt fyrir. Mér dettur því í hug að þetta sé ein ofnotaðasta og jafnframt hundleiðinlegasta spurning/upphrópun notuð í íslenskum texta á netinu.
Ég leitaði einnig að “málið er dautt” – sem er enn eitt ofnotað orðatiltæki – og skilar leitin 7,360 niðurstöðum. Hvað þýðir þetta annars? Hvaða mál er dautt? Afhverju er okkur keppikefli að drepa málið? Hvað gerði málið af sér?
Einu sinni sat ég kynningu hjá virðulegu fyrirtæki hér í borg. Sölumaðurinn, sagði 30 sinnum: “málið er dautt” og 20 sinnum: “on the fly.” “On the fly” skilar 15,500,000 niðurstöðum.

Ef einhver veit um íslenskt orðatiltæki, sem skorar hærra en “Hvað er málið?”, þá væri gaman að heyra af því.

Framhjáhald

Mar
26

Framhjáhald er vinsæl dægradvöl hér á landi, og með tilkomu internetsins, er hægt að kokkála meðbræður sína án mikillar fyrirhafnar. Hér á landi, er hægt að stunda stórkarlalegt framhjáhald með hjálp einkamálavefsins einkamal.is. Gárungar og öfundsjúklingar, sem ekki hafa dottið í bullsjóðandi lukkupott ástarinnar á þessum vettfangi, – kalla þetta þokkafulla vefsetur svínastían.is, – og er bitur og kynsveltur undirritaður þar engin undantekning.

Maðurinn, eða konan sem leitast við að nugga kynfærin sín saman við önnur kynfæri sem svipað er ástadd fyrir, setur saman litla kjarnyrta auglýsingu, sem oftar en ekki hljómar svona: Er gift/ur, langar í tilbreytingu, er hreinleg/ur, 100% trúnaður.

Oft fylgja með hagnýtar upplýsingar eins og líkamsþyngd, hvort viðkomandi sé iðinn í ræktinni, og svo að auglýsandinn sé lítið gefinn fyrir rugl. Sjaldgæft er að skarta auglýsingar af þessum toga – persónutöfrum, enda tilgangurinn ekki sá að hittast til að ræða vonir, væntingar, eða eilífðarmálin, – en framhjáhaldarar leiða sjaldan hugann að dauðanum, eftirlífinu, eða hvort þeir þurfi að svara fyrir léttúðina.
Eitthvað þykir mér þó skjóta skökku við að heita 100% trúnaði, þegar fífla á maka sinn. Hvernig getur manneskja sem hefur í hyggju svik af þessu tagi,- heitið 100% trúnaði. – Er hér ekki á ferðinni hið títtumrædda catch 22?

Að framhjáhaldinu loknu, er svo hægt að fara á barnaland.is, til að gorta sig hróðugur af dáðinni. Þykir þá einkar skemmtilegt að skilja eftir sig slóð sem vísar á mögulegan afrakstur framhjáhaldsins, en um 10% barna eru rangfeðruð hérlendis.

Ég?

Ég trúi á ástina, þó hún lifi og dafni aðeins í mínum eigin hugarheimi.

Kaffibaunir

Mar
24

Ég hef með öllum ráðum reynt að fá hana Þórkötlu mína til að éta kaffibaunir sem ég keypti fyrir slikk. Ég hef það nefnilega fyrir víst að úr kattaskít verði fínasta uppáhelling. En mikið helvíti er kvikindið dyntótt.

Ég er ekki frá því að Þórkatla sé eigingjarnasti kötturinn í öllum Þingholtunum.

Um kartöfluflögur og dauðann

Mar
24

Undanfarna mánuði hef ég átt rómantíska drauma um að byggja mér hreiður í hundrað og einum Reykjavík. Ég hef líka verið mjög upptekinn af að vera Íslendingur. Hvað ég á sameiginlegt með löndum mínum. Hvernig enginn nema sá sem er fæddur hér geti skilið menningu okkar. Og fleira í þá veruna.

Ættjarðarást mín vaknaði fyrst á síðasta ári, og varð sú ást til í kjölfarið á að ég sættist við uppruna minn. Að því leitinu til, var árið 2007 afskaplega gott. Ég kolféll fyrir Gufunni, harðfisk, Þórbergi Þórðarsyni, götum borgarinnar, séríslenskri geðveiki, og fleiru sem einkennir okkar samfélag, – en þar á undan, var ég þjakaður af einhverju sem ég kýs að kalla Íslandsóþol. Óþol mitt fyrir Íslandi, hafði þó ósköp lítið með Ísland að gera.

Svo ástfanginn varð ég af Íslandi, Gerði G. Bjarklind og Sigvalda Júlíussyni, að í fyrsta skipti í tilveru minni fann ég hjá mér löngun til að festa fé í huggulegri íbúð, þar sem ég gæti eytt næstu 60 árum í að lesa bækur og sanka að mér allskonar djöfulsins drasli sem ég kæmi ekki til með að hafa nein not fyrir, – en eins og flestir Íslendingar kannast við er ekki hægt að lifa hamingjusamur í þessum heimi, án þess að stútfylla vistarverur sínar af því dóti, sem þykir flottast hverju sinni.

En þessa helgina hafa orðið alger umskipti í þankagangi mínum, og hafa þessi umskipti eitthvað með yfirvofandi efnahagsástand að gera. Er því mögulegt að ég hafi látið glepjast af svokölluðu góðæri okkar Íslendinga, þar sem matvælaverð hefur aldrei verið jafn hátt. – Að búa sér hreiður, fjármagnað með okurlánum, til að grotna niður í, er í mínum huga – lítið aðlaðandi framtíðarsýn.

Ég eins og fleiri, gleymi að við mennirnir lifum ekki að eilífu, og eftir því sem ég fæ best séð, á allt að snúast um þá stund, þegar í okkur hryglir. Þó svo að flest okkar sættum okkur við að liggja eins hrúgald upp í sófa, étandi kartöfluflögur, horfandi á Bandið hans Bubba, – þá er ég á þeirri skoðun að lifa eigi lífinu með tilliti til þess, hvernig við viljum deyja. Hafandi unnið á nokkrum öldrunardeildum, hef ég séð mikið af fólki skilja við, og er mjög mismunandi hvernig fólk ber sig á þeirri ögurstundu. Sumir hverjir, fara alveg óhræddir, og virðast sáttir við sitt lífshlaup. Aðrir, – virðast ekki vera búnir að klára það sem þeir settu sér fyrir að gera, og líkist banalega þeirra, miklu fremur vígvelli, en fallegum aðskilnaði líkama og sálar.

Hugur minn reikar því út í heim, og hef ég enn á ný orðið áhuga á að eyða þeim árum sem ég er enn ungur og heilsuhraustur í að kynnast öðrum menningarsamfélögum, en hundrað og einum Reykjavík, – þó hundrað og einn sé að sjálfsögðu nafli alheimsins.

J’ai une âme solitaire.

Mar
22

Ég sat á Sólon Islandus fyrr í dag. Ég hef reyndar setið á einum þremur kaffihúsum í dag, sem er nokkuð mikið afrek fyrir mig á einum degi. Með mér var fólk, sem Gvuð hefur vandað sig alveg sérstaklega við að búa til. Þegar ég hugsa það, þá eru langflestir af þeim sem ég á samskipti við með fallegt hjartalag, nema kannski ________, sem er viðurstyggilegur viðbjóður.

Nema hvað, þarna sat ég á Sólon, og spjallaði við þessa vini mína, sem mér þykir, eins og fyrr segir – mikið til koma. Eitthvað var af efasemdum og depurð í hjarta mínu og þegar þannig er ástatt fyrir mér, panta ég mér mat, sem ég nota til að spartla í holuna í sálarlífi mínu. Fyrir valinu varð Minastrone súpa, afgreidd af þjónustukonu með afskaplega lögulegt nef, en ég er einmitt mikill áhugamaður um nef, og þá sér í lagi miðjarðarhafsnef, – sem eru með þeim glæsilegustu.

Inn kemur maður, sem ég sé stundum ganga göturnar. Hann er ekki fyllikall, heldur aðeins öðruvísi, en við hin, sem þykjumst vera svo heilbrigð í samanburði. Hann horfir yfir salinn, fórnar höndum og segir með hljómfagurri röddu, þannig að það fór ekki fram hjá neinum: Ég er einmana! Hann horfir spurnaraugum á gestina, og lætur hendurnar síga, eins og hann langi til að spyrja: Er ykkur alveg sama? Ég muldra: Þú ert ekki einn um það! Ég veit ekki hvort hann hafi heyrt til mín, eða hvort hann hafi veitt mér einhverja athygli, en áður en nokkur hafði tóm til að bregðast við, var hann á brott.

Eins og svo oft, þegar eitthvað undursamlegt gerist, kemur mér til hugar Biflían mín: Twin Peaks.

Harold Smith er haldinn hryllilegum fólksótta, sem er þess valdandi að hann fer aldrei út úr húsi. Laura Palmer vinnur fyrir heimsendingarþjónustu sem heitir Meals on Wheels, og er Harold Smith einn af þeim sem kaupir heimsendan mat. Laura finnur fljótt að henni stendur engin ógn af Harold, sem sjálfur er hræddur við allt og alla. Hún fer því smátt og smátt að treysta honum, og með þeim tekst vinskapur. Þegar Laura, finnst svo dáin í fjörunni, upplifir Harold þá mestu einmanakennd sem þjakað getur eina sál. Hann lýkur sínu lífi og skilur eftir miða, sem á stendur “J’ai une âme solitaire.”

[MEDIA=119]

Það sem gerðist svo á öðru kaffihúsi, seinna sama daga, er mér hulin ráðgáta. Lífið er mikið ævintýri.

E.S.
En það rangt munað hjá mér. Harold Smith var ekki með Social Phobia, heldur er hann með það sem kallast Agoraphobia, en það er hræðsla við að fá “panic attack”, á stöðum þar sem engrar undankomu er auðið. Þetta verður oft til að sá sem er haldinn þessari röskun, víkur ekki úr öryggi heimilis síns.

Og eftir að hafa rifjað aðeins betur upp þessa persónu, þá kemur í ljós að hann drepur sig ekki alveg beint í kjölfarið á dauða Laura Palmer, heldur verða svik Donna Hayward, til þess að hann fær nóg af okkar tilveru.

harold_smith.jpg

Hér er svo mynd af Harold og Donna.

Hryllilegir hlutir hafa gerst hér á Óðinsgötunni

Mar
18

Ég vaknaði upp hamingjusamur, glaður og frjáls – fékk mér espresso, las netrusl og fór því næst í sturtu. Vorið er komið og grundirnar gróa, söng ég hástöfum, meðan ég þreif mig. Ég sté út úr sturtuklefanum, þerraði mig og hugsaði með sjálfum mér: Best að stíga á vigtina, nú er ég búinn að vera svo temmilegur í sukkinu þessa vikuna, ég hlýt að hafa lagt af eitt, ef ekki tvö.

Garghhhhhh – $#%%/##$$%!$!#$.

Og á þeirri stundu var dagurinn ónýtur. Vigtin sýndi að ég hafði ekki lagt af, heldur bætt á mig heilum þremur kílóum. Ó, harmur lífs míns. Afhverju ég? Öhhhhhhh, ahhahhhahhah, með smá meira af öhhhhhhhhh.
Allan daginn, muldraði ég með sjálfum mér: Það á enginn eftir að vilja tala við mig, nú þegar ég er orðinn svona ægilega feitur. Andskotans Húsavíkur jógúrtið sem ég hef þambað alla vikuna, er svínfitandi. Ó, ó, ó, ég sem hafði svo mikið fyrir því að ná aftur anorexíulúkkinu sem fer mér alltaf svo ægilega vel. Nú, verður tekið á því. Majones og sékur bindindi þangað til að ég er farinn að lúkka nógu vel til að geta leikið í Schindlers List 2.

Í lok dags hljóp ég síðan 12 kílómetra, og þegar ég kom heim, steig ég aftur á vigtina, og var þá strax orðinn þremur kílóum léttari. Ég tók gleði mín umsvifalaust á ný.

Ég veit ekki hvort ég þori að skrifa þetta. – Jú, ég læt vaða. Þegar ég var að hlaupa, hálf grátandi yfir því hversu vondur fituguðinn er við mig, tók ég eftir gullfallegri konu í hjólastól. Hún var skælbrosandi að keyra stólinn sinn yfir þúfur og aðrar hindranir til að komast aðeins nær vinkonu sinni, sem stóð í fjörugarðinum. Þá skammaðist ég mín svolítið fyrir að hafa verið í fýlu í allan dag, bara út af því að vigtin var mér ósammála.

Viðurstyggilegur tónlistarsmekkur

Mar
17

shining3.jpgMaðurinn sem deilir með mér skrifstofu er með ógeðslegan tónlistarsmekk. Meðan ég auðga anda hans með Bob Dylan, David Bowie, Jefferson Airplane, Coco Rosie, Pixies, Cat Power, brýtur hann mig á bak aftur með endurtekinni spilun á drullukuntunni henni Enyu, Enigma, U2 og einhverjum spænskum vælukjóum sem ég til allrar guðs blessunar kann ekki nafn á.

Nú, get ég ekki haldið stillingu minni lengur – ég ræðst á hann með exi.

Bidda systir

Mar
16

Í síðasta bréfi sem Þórbergur skrifar Biddu systur, gerir hann sér grein fyrir að dauðinn er skammt undan og veltir því fyrir sér hvernig eftirlífið gangi fyrir sig á Bláu eyjunni. Þeir sem lesið hafa Sálminn, vita að Bláa eyjan er staðurinn sem við förum á þegar við deyjum; Bláa eyjan eða góðu sveitirnar. Í bréfinu ímyndar hann sér, að hann sé nýkominn til Bláu eyjunnar.
Á Bláu eyjunni er haldið manntal líkt og á jörðinni, nema þar er manntalið ekki notað sem uppflettirit fyrir málaflutningsmenn, fógeta eða sýslumenn. Hann fer að spyrja þá sem halda manntalið um Biddu systur, hvort hún sé komin á Bláu eyjuna, en fær þau svör að hún sé ennþá á jörðinni alveg sprellilifandi. Hann fær líka að vita að þó svo honum finnist hann vera nýkominn til Bláu eyjunnar sé hann í raun og veru búinn að vera þarna í 16 ár. Hann er undrandi á þessu tímaleysi.
Nokkrum mánuðum eftir að hann skrifar þetta bréf, deyr Þórbergur. 16 árum síðar deyr Bidda systir úr krabbameini.

Það var regulega gaman að sjá Lillu Heggu hjá Evu Maríu. Sálmurinn um blómið, er ein snjallasta lífsspekibók sem ég lesið. Einnig var dásamlegt að sjá fáein brot úr viðtali Magnúsar Bjarnfreðssonar við kallinn, en ég hef aldrei heyrt í honum né séð af honum hreyfimynd. Hér er brotabrot, í óþökk Ríkissjónvarpssins:

[MEDIA=118]

Sumar og hamingja

Mar
14

Ég hef legið í Summertime útgáfum síðan í gær, og út af því að Fóstradamus vinur minn nefndi Devendra Banhart í athugasemdainfrastrúktúrindexdatabasakerfinu, – þykir mér við hæfi að kunngjöra bloggheimum þessa fínu og flottu útgáfu með þessum æðisgengilega söngvara. Hann er ekki þarna einn á báti, því þetta vidjó prýðir alveg sérstaklega hæfileikaríkur nærbuxnadansari. Hann dansar satt best að segja ekkert ósvipað undirrituðum.

Andskotans snillingar.

[MEDIA=116]

Vorhret í lofti

Mar
13

6661i.jpgÍ þessari bloggþurrkuntutíð, ætla ég að tefla fram tveimur útgáfum af tvö þúsund og sex hundruð mismunandi útgáfum, sem til eru af laginu Summertime eftir George Gershwin. Einnig er þetta fyrsta lag sem ég skammarlaust lærði að spila á klarinettið mitt sáluga, og því óumflýjanlega eftirlætis lag nágranna minna, sem mér er frekar hlýtt til, eins og lesendum er fullkunnugt um.

Ég hef einnig spilað Summertime á nýja rauða klarinettið mitt, sem ég hef komist að með vísindalegum aðferðum að er ekkert annað en sorphljóðfæri. Ég hef því pantað þriðja klarinettið, á ebay, og þetta skipti ákvað ég að eyða aðeins meiri pening í þetta áhugamál mitt. Ég spurði sérfróða menn um þessa tegund klarinetta, af gerðinni Selmer, en ég spyr yfirleitt ekki sérfróða menn um eitt né neitt, því ég þykist alltaf vita allt betur, þangað til ég kemst að því að ég er búinn að pissa í buxurnar. Þetta klarinett er úr viði, en hin tvö sem ég á fyrir, eru úr ömurlegu plasti. Ég hlakka gríðarlega til að fá það upp í hendurnar, því ég hef aldrei prufað að spila á almennilegt klarinett. Já, þá verður gaman.

Með vor í hjartanu kynni ég Summertime, úr byrjunaratriði myndarinnar Porgy and Bess:

[MEDIA=114]

 

Svo í flutningi hinnar gullfallegu og jafnframt steindauðu Janis Joplin:

[MEDIA=115]

 

Þetta er ekki eina skiptið sem ég hef skrifað um Porgy and Bess. Hér er færsla um P&B, og ferð mína til Ameríku, en nú vill svo skemmtilega til að ég er að hugsa um að skreppa til Ameríku um páskana, til að skoða Tvídrangana.

Juno og Kimya Dawson

Mar
11

Ég og Magga frænka Best sáum þessa dásamlegu mynd, sem er drekkhlaðin tónlist Kimya Dawson, sem ég hef áður líst aðdáun á. Loose Lips er spilað undir kreditlistanum, og er lýrikin í þessu lagi, sem og flestum hennar lögum, alveg sérstaklega hnyttin og skemmtileg.

Hér er lagið, af plötunni Remember That I Love You:

[MEDIA=112]

 

Og svo fann ég þessa live útgáfu á þúskjá. Skemmtilegt er hversu hressilega fólk tekur undir í kaflanum þar sem hún syngur: Fuck Bush, and fuck this war. Gjörið svo vel:

[MEDIA=113]

Hér er textabrot úr viðlagi:
so if you wanna burn yourself remember that I LOVE YOU
and if you wanna cut yourself remember that I LOVE YOU
and if you wanna kill yourself remember that I LOVE YOU
call me up before your dead, we can make some plans instead
send me an IM, i’ll be your friend

Kimya Dawson hélt úti síðu, fyrir einhverju síðan, þar sem hún gaf upp símanúmerið sitt og heimilisfang – ef ske kynni að einhver hefði áhuga á að hringja, fara í heimsókn, eða senda henni línu. Hér er allavega bloggið hennar.