SiggiSiggiBangBang

Helvíti SiggaSiggaBangBang

Apr
20

Ég fór að hugsa um eftirlífið og hvernig er umhorfs í mínu eigin persónulega helvíti.

Ef til er helvíti, þá er helvíti í mínum huga að vera fastur allsgáður inn á Kaffi Reykjavík með blindfullu fólki syngjandi ættjarðarsöngva. Til að refsa mér fyrir jarðvistina þyrfti ég að láta sem ég væri hress, þrátt fyrir að vera illa þjakaður af tilvistarkreppu og blýþungu lundarfari. Önnur hugmynd mín um helvíti er að vera dæmdur til að ganga á milli myndlistasýninga í 101 Reykjavík, þar sem ég þyrfti að eiga yfirborðsleg menningarleg samskipti í þeim tilgangi að öðlast virðingu þeirra sem þykir fínt að ganga í augun á, þá stundina. Ef ég svo gæti ekki verið nógu hress eða menningarlegur þá væri ég sendur aftur niður á jörðina til að lifa sama lífið aftur – nákvæmlega eins.

Þessi hárkolla

Apr
20


Þessi hárkolla er farin að gægjast aftur upp á yfirborðið. Fyrir nokkru síðan höfðu Íslendingar ímugust á henni og vildu hana burt úr sjónmáli. En sama hversu hart var lagt að eiganda hennar að taka ábyrgð og sjá sóma sinn í að hafa sig á braut – það hafði ekkert að segja, því að eigin áliti var hann sjálfur gjöf Guðs til borgarbúa Reykjavíkur. Hann var kominn til að vera og andúð og fyrirlitning Íslendinga gat engu um það breytt. Hann vissi að ef hann héldi út óveðrið sem á honum dundi, þá fengi honum ekkert hnikrað. Og núna, nokkrum vikum síðar, eru allir búnir að gleyma því fyrir hvað þessi maður var óvinsæll. Hann er því farinn stíga varfærnislega inn í sviðsljósið – til að athuga hvort honum sé ekki óhætt. Samt tilbúinn að draga í land og halda sér aðeins lengur til hlés, ef það er honum persónulega í hag. En hann kemur alltaf aftur til með að skjóta upp kollinum, enda sumum jafnvel farið að þykja vænt um hann eins og gamlan slitinn bangsa. Ég mun hinsvegar kappkosta við að skrifa aðra færslu, til að koma þessari mynd neðar á síðuna.

Hér verða svo ekki skrifaðir fleiri pistlar þar sem ég agnúast út í menn, svo ég sjálfur geti verið glaður í mínu eigin skinni. Í þetta skiptið gat ég þó ekki setið á mér.

Mezúza

Apr
17


Mezúza er ílangt lítið stykki sem fest er á dyrakarm á heimilum gyðinga. Stykkið er holt og inn í því er að finna litla bókrollu, sem á er skrifuð hebresk bæn. Bænin má ekki vera skrifuð af hvaða lassaróna sem er. Til þeirra verka er fenginn þartilgerður prýðisgyðingur, með áralanga reynslu í að skrifa bænir á bókrollur.
Sumir gyðingar, eftir því hversu trúaðir þeir eru, láta sér nægja að festa mezúzuna á útidyrakarminn, en aðrir telja að öll herbergi hússins, að undanskildu baðherberginu, eigi að vera með mezúzu. Áður en gengið er inn í rými, sem verndað er með mezúzu, er hefðin sú að kyssa á fingur sér og snerta mezúzuna. Með því mótinu skilur viðkomandi alla illa vætti, sem mögulega fylgja honum, eftir fyrir utan dyrnar. Þessu trúa gyðingar í mismiklu mæli, enda haldast ekki alltaf í hendur trú og hefðir.

Ég bjó einu sinni inn á heimili með kurdískri gyðingafjölskyldu í útjaðri Jerúsalem. Hún var strangtrúuð þegar illa viðraði. Að öllu jöfnu virtu meðlimir fjölskyldunnar einungis þær reglur gyðingdómsins sem kostuðu þá ekki of miklar fórnir. Þann tíma sem ég dvaldi með þeim, hvort sem það tengdist beint eða óbeint veru minni þar, – dundi ógæfan á fjölskyldunni.

Ég kyssti sjaldan mezúzuna, og keðjureykti á Sabbat, sem varð hugsanlega til þess að Guð var þessari fjölskyldu ákaflega reiður, enda Guð gyðinga þekktur fyrir fátækt í geðheilbrigði, með litla stjórn á skapi sínu. Meðlimir fjölskyldunnar, fóru að athuga sinn gang og komust að því, eftir miklar vangaveltur, að mezúzúrnar væru líklega illa skrifaðar. Rollurnar voru því sendar til yfirprýðisgyðings í Jerúsalem. Hann úrskurðaði að misbrestur væri í ritmálinu og sendi til baka ferskar og brakandi rollur vottaðar af virtustu prýðisgyðingastofnun í bókrolluritmáli. Dagar liðu og áður en ég gat sagt þeim öllum að þau væru auðtrúa hálfvitar, leystust mál fjölskyldunnar á farsælan máta.

Stundum vildi ég óska þess að lífið væri svona einfalt.

Hemma Gunn jóga

Apr
17

Margur Íslendingurinn kannast við hversu leiðinlegt lífið getur orðið og hvað stundum virðist heppilegra að vera bara dauður. En enginn þarf að sætta sig við leiðindi og ládeyðu í vel upplýstum nútímanum, því nú í fyrsta skipti á Íslandi er hægt að stunda Hemma Gunn jóga.

“Ég var að fara að drepa mig, þegar mér var bent á Hemma Gunn jóga, síðan þá hef ég ekkert hugsað um dauðann. Ég er jafnframt síhlæjandi, hress og ferskur. Hress, ekkert stress, bless.” segir Siggi Siggi Bang Bang.

Gúgú Be

Apr
13

Megnið af uppvaxtarárum mínum áttu foreldrar mínir bláa Volswagen bjöllu með númerið Y 801. Ypsilon stóð fyrir Kópavogur í þeirri tíð. Fyrsti bíllinn sem ég eignaðist var af Trabant gerð, og keypti ég þá bifreið af föður mínum fyrir heilar 12 þúsund krónur, hann var með númerið Y 4772. Er ég eltist kynntist ég snillingnum Steini Bjarna, sem átti appelsínugula Skoda bifreið með númerið Y 3. Ég man ekki nákvæmlega söguna að baki þessum fyrstu Kópavogsnúmerum, en ef ég fer rétt með þá var bæjarstjóranum úthlutað Y 1, ruslabílnum Y 2, og svo afa hans Steina Y 3. Á þessum árum þótti ægilega spennandi að spá í númerum. Númerin áttu sér yfirleitt sögu, og fylgdu oftar en ekki fjölskyldum, bíl fram af bíli. Hvaða númerum ólust þið upp með?

Í dag eru númerplötur drepleiðinlegar og hafa engan sjarma. Ég gat þó ekki annað fyllst kátínu þegar ég sá þessa Lexus bifreið fyrir framan mig á ljósum í dag. Hrekklausa ungmennið Gísli P, hafði enga hugmynd um hvers vegna ég smellti af. Ef hann vissi það, þá þætti mér ólíklegt að hann skreytti sjálfsvirðingu sína með þessari númeraplötu.

Allir saman nú. -Já, þú líka Kalli!

[MEDIA=121]

Hinn arabíski shuk

Apr
12


Fátt er eins sárgrætilegt og þegar gullin tækifæri ganga manni úr greipum. Ég persónulega hef orðið af glæsilegum viðskiptatækifærum, vegna heimskulegra hugsjóna.

Fyrir um tíu árum síðan var ég staddur á arabíska markaðnum í Jerúsalem með fyrrum ástmey minni. Arabíski markaðurinn er fullur af allskonar helvítis skrani og skrauti, sem heillar glysgjarna túrhesta. Þar er hægt að gera góð kaup, ef maður er harður í horn að taka, og kann listina að prútta. Ég man ekki nákvæmlega hvað við vorum að skoða hjá einum kaupmanninum, hvort það voru teppi, eða 20 lítra vatnspípur – en við erum ekki búin að standa þarna lengi, þegar kaupmaðurinn gerir mér tilboð sem ástsjúkur fábjáni getur ekki annað en hafnað. “Þrír gæðaúlfaldar fyrir vinkonu þína” segir tannleysan og brosir ofurblítt. Ég trúi ekki mínum eigin eyrum og bið hann um að endurtaka tilboð sitt. Hann gerir það og ég og ástmey mín getum ekki annað en hlegið, þó svo kaupmanninum sé fúlasta alvara.

Árin liðu og þessi unga stúlka, sem ég hélt að ég myndi elska og vera með þangað til ég hrykki upp af – fór veg allrar veraldar og ég sat einn eftir með tárin í augunum. Þórkatla köttur, er stórfínn, ekki misskilja mig, en ef ég ætti þrjá eða fleiri úlfalda, þá væri gaman að vera til.

Svona er þetta oft í lífinu.

Kynþokkafull rödd

Apr
08

Það hefir verið orðað við mig að þegar ég kveð mér til hljóðs, þá hljómi ég eins ég sé rammöfugur. Mér persónulega er nokkuð sama þó fólk dragi þá ályktun út frá talanda mínum. Ég er og hef verið í tilvistarkreppu sem spannar alla liti regnbogans, en ég veit fyrir víst hvort kynið ég aðhyllist. Staðreyndin er sú að það er dagamunur á hvernig ég hljóma. Ég á til nokkuð marga persónuleika, og hvaða persónu ég vel mér að vera, fer algerlega eftir veðri og vindum. En oftast þá hljóma ég eins og samkynhneigð dramadrottning á barmi taugaáfalls. Eftir ábendingu vina minna, hefir mér komið til hugar, að mér gangi illa að ganga út, sökum þess hvernig ég hljóma. Ég hef því hafið æfingar fyrir framan spegil í karlmennsku. Röddin sem ég er að reyna að líkja eftir, er rödd Ingibjargar Sólrúnar, því ef það er einhver rödd sem geislar af kynþokka og karlmennsku, þá er það röddin hennar. Svo er að bíða og sjá, hvort ég með þessari raddbeitingu finni ekki ástina djúpt í rassaboru 101 Reykjavík.

Andlegt runk

Apr
07

Rétt eins og annars staðar í tilverunni leggur fólk, sem gefur sig út fyrir að vera andlega þenkjandi, sig fram um að gera sjálft sig eins óskiljanlegt og það mögulega getur – í þeirri von að það hljómi gáfulega og uppskeri þar af leiðandi virðingu. Einnig er til urmull af andlegum bókmenntum, sem gera ekkert annað en að rugla fólk enn meira í ríminu. Það veit ég – því ég á sjálfur fullan kassa af andlegu klámi. Sumar af þessum bókum, hafa einungis gert mig örvæntingafyllri í leit minni að betri skilning á hver þýðing tilveru minnar sé.

Ég talaði við mann fyrr í dag, sem hefur marínerað í andlegum fræðum. Ég spurði hann hvort ég ætti einhvern tímann eftir að finna frið. Ég vill taka það fram að ég gerði mér enga sérstaka ferð til að hitta þennan andlega mann, né er hann almennt álitinn ljósgjafi í andlegum málefnum. Hann svaraði mér, og svarið hljómaði eins og eitthvað sem hefði passað vel við undirspil engla. Eins og eitthvað sem hefur tekið þúsund ár að upphugsa. En þegar ég fór að spá aðeins í merkingu orðanna, áttaði ég mig á að spekin var alveg verðlaus. Það hefði verið áþreifanlegra, hefði hann leyst niður um sig og kúkað á gólfið fyrir framan mig. Ég hefði þá líka haft eitthvað til að tala um, út vikuna. En spurningin er, hversu margir andlegir runkarar, fá að ríða út á einhverja djöfulsins steypu, sem enginn skilur og enginn þorir að spyrja út í af ótta við að vera álitinn heimskur. Þeir eru fleiri en eitt dúsín, er ég viss um.

Nágrannar mínir á Óðinsgötu

Apr
06
[MEDIA=120]

4:10AM
Þess ber að geta að það er ekki vindurinn sem feykir gardínunni til og frá, og að
um miðbik klippunnar er ekki verið að stinga prjóni í kött.

Hvernig nýju nágrannarnir mínir komust að því að ég elska ekkert meira en að hlusta á 4 non blondes, Bubba Morthens, Kizz, píkuskræki, slammdans – til að ganga 5 á sunnudagsmorgni, fæ ég ekki skilið. Þau hljóta að lesa mig eins og opna bók, þegar ég mæti þeim, þar sem þau standa reykjandi í hurðargættinni. Eftir erfiða vinnuviku, veit ég ekkert betra, en þegar kærleiksríku heimili mínu er breytt í vígvöll skrækra viðbjóðslegra unglinga, sem eru eins og klipptir út úr Larry Clark mynd. Það er svo afslappandi og endurnærandi fyrir róstursamt tilfinningalíf mitt. En ég hef í hyggju að launa þeim vinsemdina í minn garð. Ég veit það nefnilega fyrir víst að þau dýrka að hlusta á mig æfa klarinettuleik. Ég hef því hljóðritað æfingarnar og ætla að spila þær meðan ég bregð mér í pönnukökuát til vina minna. Þarna er mér rétt lýst – alltaf að reyna að koma að gagni í þessari dásamlegu tilveru.

Hórköttur

Apr
05
thorkatla_upp_i_rumi.jpg

Í morgun vaknaði ég ákaflega leiður yfir að eiga ekki Range Rover jeppa. Ég lá undir sæng í góða stund og íhugaði hvernig mér hefur mistekist að eignast allt draslið sem gott þykir að eiga, til að geta gengið um götur borgarinnar keikur og tígulegur. Ef ég ætti Plasma, væri ég ekki svona vansæll, hugsaði ég. Ég var truflaður í þessum andlegu vangaveltum mínum, af kettinum fallega, henni Þórkötlu.

Þórkatla, hefur litlar áhyggjur af því hvernig bíl skaffari hennar á. Henni er nokkuð sama þó húsbóndi heimilisins, fari í vont skap og éti mublur til að ná sér niður. Þórkatla elskar Sigga sinn Bang Bang, svo fremi sem hann sér henni fyrir túnfisk og kattagúmmilaði. Hreinni ást hefur ekki til þessa, fundist í Þingholtunum. En Þórkatla elskar ekki aðeins mig og mig einan. Þórkatla er það sem kallast á fræðimáli: hórköttur. Hún heldur til þar sem maturinn er bestur. Ég þarf því að hafa mig allan við að bera í hana kræsingar búnar til úr ferskasta og besta hráefni sem til er á matvælamarkaðnum. Því ef ég ber á borð stökkbreytta kattakæfu frá Ameríku, verður hún afundin og hótar að finna sér annan samastað. Þá geri ég mér stundum ferð, jafnvel seint að kveldi, til að kaupa eitthvað sem hæfir ketti af hennar kyni betur. Gvuð einn veit, að það síðasta sem ég vill, er að vita af henni Þórkötlu minni, étandi svínasteik hjá ríðurunum hérna á hæðinni fyrir ofan. Maður veit aldrei hvernig ríðarar koma fram við blessuð dýrin. Ég sá einu sinni mynd………………….

Heimilisofbeldi

Apr
04

Að loknum hefðbundnum vinnudegi, kom ég heim til mín, flautandi: Happy talking, talking, happy talk, sem er lagstúfur sem ég nota óspart til að tjá ánægju mína. Eftir vel lukkaðan kvöldverð, settist ég niður í græna ljóta sófann minn til að vinna örlítið að hagsmunum fyrirtækisins.

Ég hafði einungis setið við tölvuna og sýslað í rúma klukkustund þegar ég finn að ég er orðinn örlítið óþolinmóður. Ég held þó áfram að vinna, en undir yfirborði sálarlífs míns – kraumar örfínn pirringur, sem bólgnar út. Því meira sem ég reyni að glíma við viðfangsefni mitt, því verr gengur mér og ég verð bara afundnari og önugri með hverri sekúndu sem líður. Allt í einu – mér gersamlega að óvörum – heyri ég sjálfan mig reka upp skaðræðisöskur. Ég lem höndunum í græna sófann, eins og krakki sem fær ekki sínu framgengt. Mér finnst ég ekki fá nógu mikla útrás við þetta, svo ég ríf í teppi og slæ því eins og svipu í gólfið. Sama hvað ég arga, garga og banda höndunum, ekkert gengur mér að ná mér niður.

Eitthvað er eftir af skynsemi, því ég vill reyna að fyrirbyggja að tölvan endi í veggnum. Ég skima því í kringum mig til að reyna að finna bræðinni farveg. Ég sé ekkert handbært, annað en tölvuna, svo ég bregð á það ráð að læsa tönnunum í sófann og bít úr sófabakinu myndarlegt stykki. Ég urra og frussa, með stykkið í kjaftinum, – sigri hrósandi, – á hátindi mannlegrar tilvistar minnar. Mér verður þá litið á aumingja Þórkötlu, sem situr blýsperrt í sæti við skrifborðið og horfir steinhissa á aðfarir mínar. Við horfðumst í augu um stund, ég og Þórkatla, og það var þá sem ég gerði mér grein fyrir – að ég var engu minni skepna en hún. Ég hafði að vísu ekki drepið bráð mína, til að éta hana, heldur drap ég sófann til að ráða bót á ójafnvægi í skapgerð minni. Þórkötlu þykir allt tilfinningalegt umrót skaffara síns – alveg ótrúlega hallærislegt. Hún hefur heldur aldrei þurft að vinna á tölvu.

Karmískur eftirmáli:
Fyrr um daginn, gerði ég óspart grín að vinkonu minni sem froðufelldi yfir einhverju tölvutengdu í vinnunni sinni. Ég hefði betur látið það ógert. Svona virkar refsandi karmatittlingur Gvuðs.