Að loknum hefðbundnum vinnudegi, kom ég heim til mín, flautandi: Happy talking, talking, happy talk, sem er lagstúfur sem ég nota óspart til að tjá ánægju mína. Eftir vel lukkaðan kvöldverð, settist ég niður í græna ljóta sófann minn til að vinna örlítið að hagsmunum fyrirtækisins.
Ég hafði einungis setið við tölvuna og sýslað í rúma klukkustund þegar ég finn að ég er orðinn örlítið óþolinmóður. Ég held þó áfram að vinna, en undir yfirborði sálarlífs míns – kraumar örfínn pirringur, sem bólgnar út. Því meira sem ég reyni að glíma við viðfangsefni mitt, því verr gengur mér og ég verð bara afundnari og önugri með hverri sekúndu sem líður. Allt í einu – mér gersamlega að óvörum – heyri ég sjálfan mig reka upp skaðræðisöskur. Ég lem höndunum í græna sófann, eins og krakki sem fær ekki sínu framgengt. Mér finnst ég ekki fá nógu mikla útrás við þetta, svo ég ríf í teppi og slæ því eins og svipu í gólfið. Sama hvað ég arga, garga og banda höndunum, ekkert gengur mér að ná mér niður.
Eitthvað er eftir af skynsemi, því ég vill reyna að fyrirbyggja að tölvan endi í veggnum. Ég skima því í kringum mig til að reyna að finna bræðinni farveg. Ég sé ekkert handbært, annað en tölvuna, svo ég bregð á það ráð að læsa tönnunum í sófann og bít úr sófabakinu myndarlegt stykki. Ég urra og frussa, með stykkið í kjaftinum, – sigri hrósandi, – á hátindi mannlegrar tilvistar minnar. Mér verður þá litið á aumingja Þórkötlu, sem situr blýsperrt í sæti við skrifborðið og horfir steinhissa á aðfarir mínar. Við horfðumst í augu um stund, ég og Þórkatla, og það var þá sem ég gerði mér grein fyrir – að ég var engu minni skepna en hún. Ég hafði að vísu ekki drepið bráð mína, til að éta hana, heldur drap ég sófann til að ráða bót á ójafnvægi í skapgerð minni. Þórkötlu þykir allt tilfinningalegt umrót skaffara síns – alveg ótrúlega hallærislegt. Hún hefur heldur aldrei þurft að vinna á tölvu.
Karmískur eftirmáli:
Fyrr um daginn, gerði ég óspart grín að vinkonu minni sem froðufelldi yfir einhverju tölvutengdu í vinnunni sinni. Ég hefði betur látið það ógert. Svona virkar refsandi karmatittlingur Gvuðs.