SiggiSiggiBangBang

Þeir eru að koma að ná í þig Barbara mín

Jan
19

Manninum er ekki hollt að vera sjálfum sér of eftirlátur.* Ég er alinn upp fyrir sunnan og norðan skítalæk, þar sem hús voru byggð í áföngum og af vanefnum. Sem ungur maður lærði ég að nægjusemi væri dyggð sem eftirsóknarvert væri að tileinka sér. Heraga var haldið upp á heimilinu og ekkert látið eftir okkur systkinunum. Mér til óbærilegra leiðinda var tildæmis ekki keypt inn á heimilið myndbandstæki þegar þau komu á markað og slógu svo eftirminnilega í gegn. Nammidagar voru á laugardögum, og bara drulluháleistar og sóðadónar úr Reykjavík mauluðu nammi á virkum dögum.

Er ég fór að bera ábyrgð á sjálfum mér, gerði ég eins og flestir sem alast upp við harðræði af þessari stærðargráðu: Ég flippaði gersamlega út. Þegar ég hafði flippað út í nógu mörg ár lofaði ég sjálfum mér bót og betrun. Ég snurfusaði mig og gerði mig fínan. Ég setti mér reglur og tók til við að aga mig. Ekki leið á löngu þangað til ég var farinn að lifa eftir svipuðu reglusetti og í æsku. Ekkert nammi á virkum dögum. Hætta að reykja. Hugleiðsla tvisvar á dag. Engan sékur og ekkert majones. Hlaupa 80km á viku. Hætta að baktala fólk. Bjóða öllum sem ég hitti góðan daginn. Eyða aðeins 20 þúsund í mat yfir mánuðinn. Missa 8 kíló á tveimur mánuðum. Og nú það nýjasta: Viku Facebook straff.

Já, það kemur heim og saman. Ég hef hangið á facebook, meira en ég kæri mig um. Ég þoli illa þegar ég er farinn að gera eitthvað sem mig langar ekki að gera, en geri samt. Að undanskilinni þeirri bráðskemmtilegu aðgerð að póka, svo ekki sé minnst á ánægjuna sem fylgir því að þiggja pók, er facebook tilgangslaust rusl. Ég hef því sett upp í tölvunni minn hugbúnað, sem ég hef stillt þannig að þegar ég reyni að fara inn á facebook, birtist síða sem á stendur: “They are coming to get you Barbara!” Hver er svo þessi Barbara kann einhver að spyrja sig.

[media id=196 width=520 height=390]

* Pistill dagsins hófst á alhæfingu um mannskepnuna. Ég hef gert svona áður og virðist þetta virka vel á þá kirtlastarfsemi líkamans sem sér um að dæla vellíðunarefnum inn í heilann minn. Með því að alhæfa á þennan máta, þegar ég er í raun að tala um sjálfan mig, líður mér eins ég sé hluti af heild, en ekki skrítni einsetukallinn í sætabrauðshúsinu.

Ég er orðljótur

Jan
17

Ég hef verið orðljótari í skrifum mínum undanfarið en ég kæri mig um. Það sæmir ekki jafn hjartahreinum manni og mér að rita sorp. Það er draumur sérhvers bloggara að í hann sé vitnað. Það er ekkert launungarmál. Það eru meira að segja haldin þartilgerð námskeið fyrir bloggara, sem vilja öðlast virðingu og verða marktækari í skrifum sínum. Ég þangað!
Líkurnar á að í mig verði vitnað fara minnkandi, enda netpistlar mínir útflingraðir með orðum sem eiga uppruna sinn í skítugum neðri byggðum. Í mig vantar alla ást. Ef ég væri ástfanginn, eða tryði á ástina, væri ritmál mitt ekki eins og salernisaðstaða eftir verslunarmannahelgi.

Annars var ég að ráfa um netið í gær að lesa eitt og annað sem viðkemur þjóðfélagsmálum og til marks um viðkvæmni mína, langaði mig til að flýja hina svokölluðu siðmenningu, ganga í búddaklaustur, eða hverfa inn í svörtustu Afríku og eiga einungis samskipti við apa og gíraffa, þangað til eitthvert ljónið sæi aumur á mér og æti mig. Samfélag manna, þá sérstaklega hérlendis, finnst mér síður en svo hrífandi.

Blogg sem ætlar frá A til B, en hoppar yfir B og endar í F

Jan
15

Þegar ég ferðaðist til Akureyrar í nóvember á síðasta ári, fór ég meðal annars á myndlistarsýningu um Jesú Krist Jósefsson. Þar vakti aðeins eitt verk áhuga minn, en það var verk eftir konu sem ég man ekki hvað heitir. Hún hafði, á þeim tíma í tíðarhringnum sem flestar konur halda sér tilbaka og fara ekki á Nasa, notað rottuna á sér sem stensil og stimplað með henni á striga sem þakti heilan vegg. Það er alveg stolið úr mér hvað í lífi Jesú þessar klessur áttu að tákna, en listamanninum tókst ætlunarverk sitt, sem er að skapa umræðu. Umræðu um hvað, er ég ekki viss en leitast við að komast til botns í.

Piss, æla, kúkur og tíðarblóð hafa listamenn löngum notað til að löðrunga listunnandann og vekja hann til vitundar um að hann er bara skepna sem þarf á einhverjum tímapunkti að skila af sér úrgangi. Þetta er ekki eina skiptið sem ég hef séð kúk eða aðra líkamsvessa notaða í listsköpun. Hver man tildæmis ekki eftir frábærum listgjörningi á Kjarvalsstöðum, þar sem listamaðurinn spilaði myndband þar sem hann fór vel að sjálfum sér. En hér endar þetta blogg, sem ég man ekki hvers vegna ég fór að skrifa. Kannski svolítið svipað því að tala, í þeim tilgangi einum að geta hlustað á sjálfan sig.

Böggull fylgir skammrifi

Jan
13

Fyrir stuttu las ég í bók(hvaða bók, man ég ekki) að fólk sem segir frá draumum sínum er óspennandi og leiðinlegt. Ég, í mínum huga, er jafn spennandi og skemmtilegur og bloggari sem bloggar um bloggara sem endursegir fréttir á ömurlegum fréttamiðli. Þannig að ég móðgaðist ekki mikið við þessa lesningu. Ég gat ekki ákvarðað að höfundur væri fáviti, þar sem mér þótti flest annað í bókinni bæði töff og skæs, en sjaldnast ná menningarverðmæti því að vera hvoru tveggja.

Ef ég bara myndi hvaða bók þetta var?

Hvað um það. Nú hef ég hugleitt eins og móðurríðari í viku og hálfa og ekki tek ég of djúpt í árina, þegar ég segi að líf mitt hefur náð nýjum hæðum. Ég bókstaflega sprett fram úr rúminu á morgnana raulandi lagstúf og valhoppa fullur af ákafa inn í daginn, tilbúinn að takast á við öll þau spennandi verkefni sem kosmósið úthlutar mér. Sem dæmi um spennandi verkefni, þá reyndi ég í dag að ráða fram úr prentaravandræðum öllum hlutaðeigandi til stórbrotinnar gremju og leiðinda. Þó ég hefði undirbúið mig andlega undir þennan dag og hugleitt í 6 klukkustundir samfleytt, hefði ég ekki getað komið í veg fyrir örlítinn brest í skapgerð minni, þar sem ég froðufelldi eins og óður hundur.

Hvað ætlaði ég upphaflega að skrifa um?

Já, draumar og hugleiðsla. Síðan ég tók til við að hugleiða, hefur mér liðið afar vel. Kærleiksský hefur umlukið sætabrauðshúsið í litla Skerjarfirði(sem er by the way: til sölu) og smáfuglar sem löngu voru flognir til heitu landanna, snéru aftur til að syngja söngva um sameiningu Evrópu í stóra trénu við hlið hússins. Efnahagsáhyggjur íbúa litla Skerjafjörðs leystust upp og hvarvetna mátti sjá fólk að kyssast, knúsast og fista. Allt þetta, aðeins vegna þess að einn íbúi býr til nógu mikið af kærleiksorku til að smita nágrennið.

En oft fylgir böggull skammrifi – seisei já. Síðan ég byrjaði að hugleiða hef ég átt hryllilegar draumfarir. Í einum draumnum rifnaði Avraham köttur í tvennt þegar hann reyndi að smeygja sér í gegnum gaddavírsgirðingu. Hann var sprellilifandi og mjálmaði angurvært þrátt fyrir að vera í tveimur hlutum. Hann bað mig um að ég sauma sig saman svo hann gæti haldið áfram að éta og sofa.

Í dag þegar ég fékk mér lúr, dreymdi mig að hræðilegur morðingi gengi laus. Hann murkaði lífið úr móður minni(sem var leikin af einhverri amerískri leikkonu sem ég man ekki nafnið á), og hóf svo að týna úr henni innyflin. Til að bjarga eigin skinni þóttist ég vera áhugasamur um mannát og hjálpaði honum að bera líkið, sem var ekki dautt þrátt fyrir að vera með stóra holu í miðjum brjóstkassanum. Jesús minn.

Svona hefur mig dreymt síðan ég byrjaði að hugleiða. En einkennilegt.

Nostalgíuflipp

Jan
12

Nú segir frá er ég varð ástfanginn í fyrsta skipti á ævinni. Ég var 16 ára gamall og sökum óhefðbundinna aðstæðna var ég sendur burt úr foreldrahúsum til betrunar í sveit. Þar kynntist ég öðrum villuráfandi sauðum, þar á meðal ungri og lögulegri Reykjarvíkurkind, með 5 ára forskot í lífsins skúespili. Fyrir mér var hún fullnuma kona og ég aumur glórulítill unglingur. Ég hefði því aldrei, þrátt fyrir mjög fjörugt ímyndunarafl, getað giskað á að hún hefði á mér rómantískan áhuga. Það einfaldlega hvarflaði ekki að mér.

Þegar þetta var hafði ég ekki enn kynnst læriföður mínum í lífsins kúnst, og hann því ekki búinn að uppfræða saklausan mig um vergjarnar konur sem höfðu það sem tómstundargaman að fleka unga hrekkleysinga.

Dag einn, stakk þessi fullorðna kona upp á því við mig að við færum saman í lautarferð. Hún tók til rúmteppi, súkkulaði og gos með sykri í. Ég varð upp með mér. Í þessum skaðræðishóp, var hún óumræðanlega sá einstaklingur sem mest var í spunnið. Grönn, hávaxin, með sítt liðað hár og örlitla bauga undir augum sem undirstrikuðu hversu lífsreynd hún var. Manneskjuleg, full af vísdómi, sem hún fór ekki sjálf eftir. Forskrift allra kvenmanna sem ég átti eftir að hafa kynni af á næstu árum.

Meðan við gengum, man ég hvað ég hugsaði. Ég var nokkuð viss um að ástæðan fyrir að ég var á leiðinni í lautarferð með henni var sú að henni þætti vænt um mig, eins og manni þykir vænt um yngra systkin. Það þótti mér ekkert skrítið. Hvað annað kom til greina en að láta sér þykja vænt um þennan umkomulausa ungling sem ég var. Góður og velmeinandi strákur, sem vann engum tjón nema sjálfum sér.

Veðrið var dásamlegt og sólin skein. Fleira fólk var í göngutúr á sama svæði. Í rjóðri fundum við okkur fallegan stað þar sem við breiddum úr rúmteppinu og lögðumst á það. Mér leið ofurvel þar sem við lágum saman og nutum sólskinsins. Hún spurði hvort hún mætti halda utan um mig og ég jánkaði því. Það var eins og ég væri örlítið ölvaður þar sem hún hjúfraði sér upp að mér. Mér þótti hún falleg og sá okkur fyrir, mjög ljóðrænt, tvö ein saman í vondum heimi, þar sem ekkert fengi okkur grandað. Svo á augabragði breyttist staða mín og varð ívið vandasamari. Hún byrjaði að kyssa mig. Ég hélt það myndi líða yfir mig. Ég var ekki alveg klár á hvað var að gerast, en mér leið dásamlega. Lautarferðirnar urðu fleiri og án þess að ég hefði nokkuð um það að segja hrapaði ég í pytt ástsýki og brjálæðis.

Einn daginn gufaði hún upp. Enginn vissi hvert hún fór og enginn gat sagt mér nokkuð um afdrif hennar. Í vikur og mánuði engdist ég sundur og saman af sálarkvölum, og þó ég væri viss um að ég liti aldrei glaðan dag á ný, gréru mín sár og ég jafnaði mig. Löngu seinna sá ég hana í bíl sem keyrði eftir götunni þar sem ég átti heima. Hún sá mig líka. Bíllinn staðnæmdist ekki. Hún sat í farþegasætinu, en bílstjóramegin sat maður miklu eldri en ég.

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig henni vegnar og hvernig árin hafa leikið hana. Hún er í dag 43 ára gömul. Síðan það komst í tísku að gúggla, hef ég nokkrum sinnum slegið inn nafn hennar, en ekki fengið neinar krassandi niðurstöður. Ekki nema að hún býr út á landi og á mann.

Í fyrradag í nostalgíuflippi leitaði ég að henni á timarit.is og fann út eitt og annað. Ég fann mynd af henni 9 ára gamalli ásamt vinkonum sínum sem héldu hlutaveltu til styrktar Rauða Kross Íslands. Einnig fann ég grein í Alþýðublaðinu frá 1982 um verkalýðsbaráttu fiskiverkanda, þar sem hún var spurð álits. 1982 var hún 17 ára gömul.

1991 giftist hún og á brúðkaupsmyndinni brosir hún fallega með nýtilkomnum eiginmanni sínum. Maðurinn hennar kemur mér fyrir sjónir sem vænsti maður. Þegar hún giftist voru einungis 5 ár liðin frá því að leiðir okkar skildu. Þá var ég orðinn jafn gamall og hún var þegar við bjuggum til rómantík undir sólinni.

Að lokum fann ég tvær yngri myndir af henni, í hópi kvenfélagskvenna út í sveit. Hún er á þessum myndum, á svipuðum aldri og ég er núna, og mjög auðþekkjanleg. “Ég var að gera eitthvað sem ég hefði ekki átt að gera, en gerði samt!” les ég úr svip hennar og get ekki varist brosi.

Skrítið þetta líf.

Kvenkyns áhrifavaldar

Jan
08

Ég sveiflast upp og niður með Oprah og Ellý Ármanns. Samkvæmt frétt á DV hefur sú síðarnefnda sagt skilið við Facebook. Hvað er í gangi? spyr ég skjálfmæltur. Hafa nú einhverjar ótuktirnar flæmt hana Ellý mína út úr fésbókarsamfélaginu. Það er ljótt, ef satt er.

Svo margar tímamótaspurningar vakna við þessa frétt. Fóru heilu og hálfu dagarnir í að póka og að þiggja pók? Eða sem verra er: var hún kannski aldrei pókuð? Hún átti 1000 vini, segir í fréttinni. Það má nú ætla að þar á meðal hafi verið nokkrir pókarar.

Ég verð alveg ómögulegur á því að hugsa um þetta. Mér er umhugað um velferð Ellý. Ég hef ekki enn gleymt frábærum ríðingarpistlum hennar frá árdögum moggabloggsins. Það er henni að þakka að ég lærði að nota kúk í kynlífi. Hverjum hefði dottið í hug að það væri hægt? – ekki mér. Mér hugkvæmist ekkert spennandi þegar kynlíf er annars vegar. En til allrar guðs blessunar halaði ég niður allar sögurnar, lesnar af henni sjálfri, áður en hún yfirgaf ömurlegt Morgunblaðið til að ráða sig inn sem flaggskip á einhvern annan miðil.

Fátt gleður mig jafnmikið og að klæða mig upp sem töframaður, maka á mig rækjusalati og hlusta á Ellý lesa með æsandi röddu sinni sögur um alvöru ríðingar, þar sem ríðarinn ríður eins og móðurríðari.

Þegar einfaldir hlutir eru gerðir óskiljanlegir

Jan
07

Hóphugleiðsla er áhrifaríkari, en að hugleiða einsamall í regnvotum og köldum heimi. Gallinn við að sækja jóga- eða hugleiðslutíma hjá einhverjum sem gefur sig út fyrir að vera sérfræðingur á því sviði, er að oft fylgir með einhver leiðindarsannleikur sniðinn til að gera mann ruglaðan og jafnvel afhuga þessari snjöllu tækni til að þagga niður í kjúklingabúinu í efri byggðum. Ég get reyndar vel skilið að fólk sem sækir jógatíma vilji fá að hlusta á eitthvað kjaftablaður um hvernig heimurinn virkar osfrv. – en ekki ég. Ég er búinn að fá mig fullsaddan af fólki sem þykist geta útskýrt þessa tragíkómedíu sem gengur undir nafninu líf. Ég hef enga trú á að nokkur maður viti hvað við erum að gera hérna.

modern_talkingFyrir nokkrum mánuðum keyrðum ég og vinur minn á Opel bifreið minni yfir í annað bæjarfélag til að sækja hugleiðslunámskeið. Það var bjart yfir mér og ég fullur af áhuga. Ég hélt ég væri að fara að hugleiða með hóp fólks, en sat megnið af tímanum í stól og hlustaði á mann sem minnti svolítið á annan söngvarann í Modern Talking útskýra fyrir þeim er þarna voru, tilgang lífsins, hvers vegna við værum svona eins og við værum – og fleira í þeim dúr. Hann endaði með að láta okkur stara á glitrandi glingur og fara með möntruna: Ég er friðsæl sál. ….Herra minn! Ég er engin fokking friðsæl sál og þó ég tauti það fyrir munni mér þá verð ég það örugglega aldrei. Ég þarf varla að taka það fram að ég fór ekki annað námskeið þarna.

Stuttu seinna fór ég ásamt sama vini til að hitta jógakennara. Við sögðum honum frá því sem við höfðum reynt hjá Modern Talking söngvaranum. Hann fussaði og sagði að allt sem við hefðum lært hjá honum væri gagnslaus vitleysa. Svo hóf hann að rakka niður hinar ýmsustu jógabragðtegundir, meðan hann kynnti þær aðferðir sem hann sjálfur hafði tileinkað sér. Enn og aftur barst talið út í kosmósið áður en við tókum til við að hugleiða. Ég fór ekki í annan tíma.

Nú hef ég tekið málin í mínar eigin hendur, og reynt mátt hugleiðslunnar á eigin skinni. Trú mín á henni vex og vex. Ég veit að margar vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu dularfulla fyrirbæri. Ég geri mér þó grein fyrir að það sem telst til vísinda í dag, eru ekkert endilega vísindi á morgun.
Það er mikill munur á að hugleiða einn og með öðrum. Ég veit ekkert út af hverju, þó ég sé nokkuð viss um að einhver kunni flóknar og langdregnar skýringar á því. Staðreyndin er sú að mér er skítsama. Ég hef prufað hvoru tveggja og ég veit að það er rafmagnaðra að vera í hóp. Ég vildi að hér væri einhver staður sem hægt væri að fara og hugleiða með öðrum. Ég væri til í að geta komið þar við, og án þess að þurfa að blaðra einhverja yfirborðsþvælu gæti ég þegjandi klætt mig úr skónum, komið mér fyrir á stól, eða á dýnu og hugleitt í kannski klukkustund. Þar væri engum trúarbrögðum eða heimspekilegum kenningum troðið upp á fólk. Hver gæti notað þá möntru sem honum þykir þægilegust. Að klukkutíma liðnum klæddi ég mig í skó og valhoppaði sem leið liggur heim til mín.

Þetta var pistill um hugleiðslu.

Líkamsfita, karlmennska og virðing

Jan
01

Ég bætti á mig 6 kílóum á liðnu ári, og er nú orðin eins og stærri útgáfan af Oprah, en ég og hún eigum það sameiginlegt að þenjast út og dragast saman líkt og físibelgur. Þannig að á næstu tveimur mánuðum mun ég kosta öllu því sem ég á í að minnka umfang mitt hér á þessari jörð. Einkunnarorð mín eru: Því minna af mér hér – því betra!

Kílóaaukningunni vil ég ekki eingöngu kenna um hömlulausu áti, heldur varð ég fyrir þeirri ólukku rétt upp úr páskum að fá slæmsku í hnésbótina og þurfti þess vegna að hætta að hlaupa. Það þótti mér miður, því ég hef ekki enn fundið líkamsþjálfun sem ég elska meira en hlaup. Ég veit fátt meira frískandi en að setja á mig iPod, klæða mig upp eftir veðri og hlaupa 10-16 kílómetra.

Eitt og annað hef ég hug á að betrumbæta á nýju ári. Ég á mér tildæmis þann draum að verða karlmannlegri en ég er. Guð í himninum hefur blessað mig með nokkuð breiðu raddsviði, þannig að ég á til djúpa og karlmannlega rödd, þó svo ég noti mjúku röddina mína mun meira í samskiptum við annað fólk. Ef ég er dimmraddaður þá upplifir fólk mig ógnandi. Ég vil það ógjarnan, en ef það eykur á karlmennsku mína, læt ég mig hafa það.

Ég geri mér grein fyrir að ég þarf að gera ýmislegt annað en að dýpka í mér röddina til að koma fyrir eins og ég sé karlmannlegri en ég er. Ég er tildæmis alltaf flautandi og syngjandi eins og argasti hómóseksjúal. Menn sem syngja, dilla sér og flauta eru sko ekki karlmannlegir. Þeir eru bara fáranlegir og fáranlegur vil ég ekki vera. Þannig að ég er hættur að syngja, og hættur að flauta.

Til að rækta í mér karlmanninn ætla ég að taka upp á því að reyna við allar konur sem á vegi mínum verða. Ég ætla ekki að eiga samskipti við neinn af gagnstæða kyni án þess að troða typpinu á mér inn í þau samskipti. Það kemur í veg fyrir að ég eignist vinkonur sem tala við mig um grindarbotnsæfingar og hvernig best sé að hafa háttinn á þegar óhreinka skal karlmann – eitthvað sem þær myndu ekki nefna ef þær hefðu einhverja tilfinningu fyrir því að ég er gagnkynhneigður.

Einnig ætla ég að hætta að koma sjálfum mér í niðurlægjandi aðstæður. Ég hef örlítið fórnað virðulegri persónu minni fyrir grín og stundargaman. En nú dreg ég loku fyrir hátterni af því sauðahúsinu. Ég ætla að breyta þessu bloggsetri, og hér eftir skrifa ég eingöngu um þjóðfélagsmál og legg mig fram um að vera eins og fokking leiðinlegur og ég mögulega get. Með þessu öðlast ég þá virðingu sem ég sækist eftir frá meðbræðrum mínum. Ég get þá gengið um götur borgarinnar hnakkakerrtur, viss um að ég njóti aðdáun samborgara minna.

2008 var æðislegt, og þetta ár verður geðveikislega geðveikislegt.

Hott-sjott biss-ness-maður

Dec
29
coney_island1

Fyrir um tveimur árum síðan var ég staddur á Baltimore flugvelli. Ég var sorgmæddur eftir að hafa lokið þrálátum kafla í lífi mínu. Kafla sem ég kýs að kalla: The Burning Bridges Project, og entist mér í heil 10 ár (kaflanum lauk ekki þarna). Með súra blöndu af feginleik og ógleði stóð ég við hliðið og beið eftir komast inn í flughöfnina. Ekki steinsnar frá gekk maður fram og aftur, klæddur í dýr og flott jakkaföt. Honum var mikið niðri fyrir og talaði digurbarkalega á hinu ylhýra í farsíma, fullviss um að allir í flugstöðinni væru áhugamenn um það sem hann var að segja. Hann hafði, eins og ég, verið í New York. Meðan ég gekk fram og aftur Manhattan aumur í sálinni, var hann að landa tímamótaviðskiptum.

Hversu mikið sem ég reyndi að leiða hann hjá mér, tókst mér það ekki. Ég óskaði honum norður og niður, en reyndi þó að hafa taumhald á hugsunum mínum, þar sem samfélagið mitt hafði með aðstoð töfrabragða náð að telja mér í trú um að ég væri haldinn sjúkdómi sem heitir afbrýðisemi. Andskotinn hafi það, mér fannst hann bara samt vera eins og fábjáni.

Nú hinsvegar þykir ekki lengur töff að vera hott-sjott biss-ness-maður. Kvenfólki þykir meiri fengur í manni sem er vel skóaður, en einhverjum sjálfumglöðum fávita á stórum dýrum bíl.

Om nama shiva….. Om nama shiva….. Om nama shiva….. Ahhhhhhhhhhhhhhhh…

Hugskeyti

Dec
29

Ég vil biðja þann sem hefur verið að senda mér hugskeyti upp á síðkastið að hætta því tafarlaust. Þetta hefur truflandi áhrif á kosmósið.

cosmos

Úr andans heimi

Dec
27

Fyrir um ári síðan fékk ég mann, með reynslu af hugleiðslu og andlegum fræðum, til að kenna mér kúnstina að hugleiða. Hann hafði dvalið í eitt ár á hugleiðslubúgarði í Nýju Jórvík og lært að hugleiða og lifa í samfélagi við fólk með áhuga á andlegu lífi. Ég hafði þá lengi langað til að prufa, en aldrei verið jafn opinn fyrir því og þá.

Í fyrstu skiptin vorum við bara tveir. Hann uppfræddi mig um þessa tegund hugleiðslu og hvernig hún var framkvæmd. Hann hafði meðferðis disk, með konu sem talaði okkur seiðandi röddu inn í hugleiðsluna. Í allavega tvígang komst ég í afskaplega þægilegt ölvunarástand, sem var kærkomið frelsi frá róti hugans. Eftir að hafa hist í 3-4 skipti, og hugleitt bara tveir, bættist í hópinn ósköp indæl stúlka frá Þýskalandi. Hún var að ganga í gegnum erfiðleika í lífinu, þannig að við buðum henni að vera með, í von um að það gerði eitthvað fyrir hana. Það gekk fínt, þó svo að ég efist um að líf hennar hafi orðið léttara við hugleiðsluna.

Vinkona mín vissi að við værum þrjú að hugleiða heima og vildi ólm vera með. Hún var örlítið frábrugðin stúlkunni frá Þýskalandi, að því leitinu til, að hún hefur kynþokka. Eftir að við vorum orðin fjögur, breyttist stemningin í hópnum. Maðurinn sem fram að þessu hafði haft það eitt að markmiði að hjálpa okkur út úr myrkrinu inn í ljósið, varð allur annar í hátt. Hann hóf að mæta í sinni bestu skyrtu angandi af fínum rakspíra. Rödd hans varð hrjúfari og viðmótið smeðjulegra, en það hafði verið þegar við vorum aðeins þrjú.

Í síðasta skiptið sem við hugleiddum komum við okkur fyrir á gólfinu, eins og áður, með púðum og teppum, til að sem best færi um okkur. Hugleiðslan hófst og ég lokaði augunum og reyndi hvað ég gat að hverfa úr þessum heimi inn í draumaveröld hugleiðslunnar. Alveg óumbeðið læddist sama hugsun að mér aftur og aftur. Sú hugsun, að meðan við hin vorum með lokuð augun að froðufella í andans heimi, var lærimeistari okkar með augun opin starandi á vinkonu mína, hugsandi tantrafistinghugsanir.

Ég vil þó taka fram að ég hafði þar engra hagsmuna að gæta. Mér var nokkuð sama þó þessi maður hefði kynferðislegan áhuga á vinkonu minni. En testosterónmagnið sem hann dældi inn í hugleiðsluna fór fyrir brjóstið á mér og eyðilagði fyrir mér ánægjuna að hugleiða í hóp. Allavega þessum hóp.

Í klukkutíma, beið ég í óþægilegum jógastellingum eftir að hugleiðslunni lyki. Þegar henni svo lauk, fórum við að spjalla saman, en ekki um andans málefni, heldur um ástina og erfiðleika henni tengdir.
Hans helsta umkvörtunarefni, voru íslenskar konur. Jú, hér var hann staddur á Íslandinu góða, rómantískur, með svo mikla ást að gefa, en einu konurnar sem hann tengdist voru þær sem hann endaði með upp í rúmi blindfullur eftir djamm í Reykjavíkurborg. Þær vildu einungis hólkast á honum eins og á tilfinningalausum hamborgarhrygg, en gáfu honum að því loknu ekki svo mikið sem símanúmer sem hann gæti hringt í.

Frá og með þessu kvöldi fjaraði vinskapur okkar út. Ég er honum þó þakklátur fyrir það sem hann kenndi mér, en ég hef aldrei átt lengi vingott við menn sem eyða öllum sínum tíma í neðri byggðum.

Ég hélt í áhuga minn á hugleiðslu, þó svo að ég hafi ekki stundað hana af neinu ráði síðan. Ég hef þó skoðað nokkur jógaafbrigði og prufað eitt og annað. Þessa daganna er ég að lesa bók, sem telst án efa til kvennabókmennta, en hún heitir Eat, Pray, Love – og er ákaflega innspírandi. Hana skrifar Elizabeth Gilbert, en heimur hennar hrundi eitt kvöld inn á baðherbergi í glæsilegri íbúð hennar á Manhattan. Í kjölfar hrunsins ákveður hún að skilja við manninn sinn og fyrra líferni. Hún heldur út í heim í leit að lífsgleði. Hún fer meðal annars til Indlands þar sem hún dvelur á svokölluðu Ashram, en það er einskonar hugleiðslumiðstöð. Þar heyjir hún hatramma orustu við sjálfa sig, sem hún lýsir af frískandi heiðarleika í bókinni.

Ég byrjaði í gær að hugleiða aftur. En í þetta skiptið einn.

Tilkynningaskyldan

Dec
23

Klukkan er 22:07 að kvöldi Þorláks. Nú klæði ég mig í úlpu og held út í illviðrið í þeim tilgangi einum að kaupa súkkulaðibitasmákökur í 10/11 versluninni á Eggertsgötu. Svona er þetta oft. Ég bara ræð ekki við mig.