Hvar ertu nú?
Þetta æðisgengilega lag Gunnars læknis bergmálar í hausnum á mér. Þess ber að geta að mér og mínum vinum finnst Óttar Proppé kynþokkafyllstur allra karlmanna á Íslandi; Megas fylgir honum fast á eftir.
Þetta æðisgengilega lag Gunnars læknis bergmálar í hausnum á mér. Þess ber að geta að mér og mínum vinum finnst Óttar Proppé kynþokkafyllstur allra karlmanna á Íslandi; Megas fylgir honum fast á eftir.
Garland Briggs sem festur er á skotskífuna á lokaorðin á þessum sögulega degi.
En sú kvöð að vera orðinn fullorðinn. Það er gert ráð fyrir því að maður kominn á fertugsaldur hafi áhuga á allskyns leiðindum. Þvílík mæða. Ég neita að taka þátt í þessum sirkus mannskepnunnar. Ég nenni ekki að hafa fyrir því að gera sjálfan mig gáfulegan í framan meðan ég reyni af sérstakri fákunnáttu að tjá mig um hitamál líðandi stunda. Sú krafa er þó gerð á mann á mínu reki að hann beri eitthvað skynbragð á pólitík og önnur ámóta leiðindi. Það er svo langur vegur frá því. Ég meira að segja vinn markvisst gegn því að mynda mér skoðun á þeim málefnum sem bera hæst.
Einnig er gert ráð fyrir að ég sem fullorðinn karlmaður, hafi einhvern sérstakan áhuga á þartilgerðum male bonding ritúal. Því fer víðsfjarri. Ég ræði ekki við karlmenn sem ég þekki lítið sem ekki neitt um karlamálefni. Á siglingu minni um lífsins ólgusjó hef ég fyrirhitt fulltíða karlmenn sem vilja ræða við mig um neðri byggðir kvenna. Hvernig stendur á því að þeir draga þá ályktun að ég hafi einhvern áhuga á að ræða þennan sívinsæla hluta konulíkamans? Jú, þeir ganga út frá því vísu að við sem kynbræður, bindumst leyndardómsfullum böndum í gegnum dindilinn á okkur.
Hér missi ég svo þráðinn og byrja að röfla.
Ég man svo sérstaklega eftir, þegar ég var presenteraður fyrir fyrrum orthodox gyðingi sem nýbúið var að höggva lokkana af. Við vorum fjegur, tvær konur og tveir karlar. Við gengum um fjölfarna götu í Brandararíkjunum, konurnar gengu á undan og ræddu fatnað og hvað væri kosher og hvað væri ekki kosher og mér og þessum fyrrum “Baruch attah” var uppálagt að leggja ástund á einhverja tegund af male bonding þar sem við lúpuðumst á eftir þeim. Hann, sem var töluvert betur að sér í mannlegum samskiptum, upphóf klámfengið tal við mig, þess viss að það væri örugg leið til að kynnast mér. Ég varð eins og helvítis asni, og vissi ekki hvernig ég átti að bregðast við. Hann hefur líklega þarna á fyrstu mínútunum talið mig þrælsamkynhneigðan. Talið barst að gyðingdóm og poppbókmenntum. Þegar líða fór á kvöldið, kom í ljós að hann var sá eini af okkur sem var reglulega heilsteyptur. Hann hafði hlotið þjálfun í mannlegum samskiptum og þar á meðal male bonding, svo vitanlega tjaldaði hann því sem hann þekkti í þeirri hugsun að koma vel fyrir. Eitthvað annað en ég, sem alltaf hef átt félag við bölvaðar teprur og kann þar af leiðandi ekki gefandi samskipti fullvaxta karlmanna. Þessi veflókur ætti að heita, úr einu í annað. Eða tilgangslaust þvaður manns á breytingarskeiðinu. Ég held ég kalli hann: Byrði fullorðna fólksins, eða “úr einu í annað” þvaður fullvaxta karlmanns á breytingarskeiðinu.
Því er svo farið með marga mannskepnuna, að henni er ókleift að finna til gleði vegna útlitsgalla af ýmsu tagi. Í skúmaskotum sálartuðru sinnar halda sumir að ef nefið á þeim væru aðeins lögulegra, varirnar bústnari, brjóstin stinnari, typpalingurinn örlítið lengri, kílóunum færri osfrv. -þá geti þeir fyrst gengið um fjölfarnar götur, hnarreistir eins og guðs börnum sæmir. Ég sem hef orðið að sætta mig við að vera rassaborugatsljótur, er ekki laus við þennan hégóma. Ég hef tildæmis aldrei verið í ásættanlegri þyngd. Þrátt fyrir að vera á stundum nokkrum kílóum undir kjörþyngd, þá finnst mér ég alltaf geta verið aðeins grennri. Ég er líka um það viss að ef ég væri grennri, þá væri ég mun hamingjusamari en ég er.
Á dögunum sá ég heimildamynd um manneskjur með þá allra einkennilegustu sálrænu vankanta sem ég hef heyrt um: BDD eða Body Dismorphic Disorder. Margt er mannanna meinið, varð mér að orði þegar ég horfði opinmynntur á þessa mynd.
Mér finnast lýtaaðgerðir margar hverjar alveg óttalega asnalegar; þó í sumum tilfellum get ég skilið að fólk vilji aðeins hressa upp á sig. Fólk með BDD, finnst það hinsvegar ekki fullkomnað nema það missi útlim. Þá ekki hvaða útlim sem er, heldur finnst þeim kannski hægri fótur, eða báðir fætur flækjast fyrir sér. Í þessari mynd sem hét: Complete Obsession: Body Dysmorphia, fylgjumst við með tveimur manneskjum sem reyna að berjast í gegnum kerfið til að fá útlimi fjarlægða með aðgerð. Gregg sem er ósköp venjulegur vel gefinn langskólamenntaður maður, er að öllu leiti eðlilegur nema að honum finnst hægri fóturinn sinn gera sig afbrigðilegan, ljótan og ógeðslegan. Hann hefur reynt eftir fremsta megni að skilja ástand sitt, sótt sálfræðitíma í áratugi, menntað sig sjálfur í sálfræði, ekkert af þessu hefur borið árangur, hann vill ekki lifa lífinu með hægri fót áfastan líkamanum. Auðvitað, hver skilur þetta ekki. Ömurlegt að vera með fætur.
Ég hinsvegar, er viss um að ég lifi ekki hamingjusömu lífi fyrr en hausinn á mér hefur verið fjarlægður.
Skrítin er hún tilvera. Hvenær ætli geimskipið sem skildi mig hérna eftir, komi eftir mér? Ég verð að viðurkenna að ég er svolítið sár út í þá. Gátu þeir ekki valið einhverja aðra plánetu í öðru sólkerfi? Nei, þeir þurftu að setja mig hérna með stjörnuvitlausri mannskepnunni, sem hagar sér eins og fucking fífl, hvenær sem færi gefst.
Einstaka sinnum hitti ég fyrir manneskjur sem hrífa mig með sér á annað tilverustig, þar sem gilda önnur lögmál en ég á að venjast í þessari barnalegu uppfærslu sem ég hef verið svo djarfur að kalla líf. Meiri skrúðlanglokan þessi setning. Þegar þetta gerist gleymi ég því að við erum öll fífl og fábjánar, upptekin af því að reyna að ganga í augun á hvoru öðru. Í flestum tilfella eru það mikil mistök.
Mér finnst einkennilegt eftir kynni af því tagi sem ég greini frá í orðagjálfrinu hér að ofan, þegar viðkomandi manneskja, eða öllu heldur nafn hennar fer ítrekað að dúkka upp þar sem ég ven komur mínar. Tildæmis á vefsíðum, í netpóstum, auglýsingum, osfrv. Ég hef þar á undan aldrei heyrt á þann er um ræðir minnst. En eftir að viðkomandi hefir hrifið mig á ógnarhraða inn í geðsýki óskilgreindrar hrifningar, þá rétt eins og um töfrabrögð sé að ræða, er hún alls staðar, eins og umheimurinn sé að sprella í viðkvæmu og umfram allt róstursömu tilfinningalífi undirritaðs.
Ég hef ákveðið að taka árið 2008 frá í þessa fyrsta flokks þráhyggju.
Svo eru einhverjir sem segðu að ég veiti því ekki eftirtekt, því sem ég ekki hef haft einhver kynni af, en þeir hinir sömu er gersneyddir allri rómantík og vita ekki hvað það er að lifa og elska.
Hér er svo mynd af mér í litlu Tvídrangateboði sem ég hélt á Óðinsgötunni síðastliðið sumar. Teboðið var ekki fjölmennt, en góðmennt var það.
Þá get ég haldið óhindrað áfram, án þess að það sé endalaust verið að grípa fram í fyrir mér.
Hefst þá pistillinn.
Ég hef verið Twin Peaks böff síðan gamall vinur presenteraði fyrir mér þættina í kringum 1990. Við í sameiningu marineruðum í þessu gúmmilaði. Aldrei hafði sést eins frískandi sjónvarpsefni.
Áður en að hinn uppátækjasami grallari David Lynch, ásamt Mark Frost, sem framleiddi þar á undan Hill Street Blues, hófu framleiðslu þáttanna, -þótti ekkert sérstaklega fínt að gera efni fyrir sjónvarp. Þeir sem unnu í sjónvarpi, voru mestmegnis fallnar stjörnur, aukvisar og niðursetningar. David Lynch, sem er ákaflega nýjungagjarn maður, umbylti miðlinum og ruddi leiðina fyrir frumlega og metnaðarfulla dagskrárgerð. Á undan Twin Peaks, voru hápunktar í sjónvarpi The Golden Girls og Love Boat. Þess ber að geta að ekki má nefna The Golden Girls í mín eyru án þess að upp komi í hugann myndarlegt búrsax og uppstoppaðir fuglar; Love Boat er svo dallur sem ég vona að hafi sokkið með alla innbyrðis.
Síðustu ár hefur mig langað á svokallaða Twin Peaks ráðstefnu. Ráðstefnan er ekki ósvipuð Star Trek ráðstefnu, nema þemað er Twin Peaks. Þykir þá flott og skæs að klæða sig upp eins og ein persónan í þáttunum og leggja á minnið nokkrar góðar tilvitnanir. Ég er ekki að fara á svona ráðstefnu, en ef ég færi, þá færi ég sem konan með lurkinn.
Ég er hinsvegar að fara í ferð til Washington fylkis þar sem Twin Peaks þættirnir voru sumpart teknir upp.
Hér gefur að líta brotabrot af því sem ég kem til með að skoða.
Fyrri myndin er úr þáttunum, sú hin seinni úr veruleikanum.
Snoqualmie, WA – “Velkominn til Tvídranga” skiltið úr innganginum.
Snoqualmie, WA – Reinig Bridge – Þar sem Ronette Pulaski finnst í tættum tötrum eftir hafa verið týnd.
Snoqualmie, WA – Lögreglustöðin.
Kiana Lodge’s – Fuglhelvítið úr intróinu. Ströndin þar sem Pete finnur Laura Palmer “wrapped in plastic” er á sama stað.
North Bend, WA – Yndislegi double R, dænerinn, heitar bökur og eðalkaffi.
Snoqualmie Falls Lodge – The great northern, hótel Ben Horne.
Ferðina fer ég rétt fyrir páska. Þá verður gaman, núna er hinsvegar drepleiðinlegt.
Einhverra hluta vegna fæddist ég karlkyns. Ég hef ekki neina skoðun á því hvort kynið ég hefði valið mér, hefði einhver sýnt mér þá lágmarkskurteisi að spyrja áður en mér var plantað hér á þessa jörð. Kannski var ég spurður, en hef ekki hugmynd um það. Ekki kann ég heldur á því fræðilega skýringu hvers vegna ég fæddist karlmaður. Eitt veit ég þó, að ekki er tekið út með sældinni að vera karlmaður, einfaldlega vegna þess að sú kvöð fylgir að karlmaður hafi áhuga á úrval alveg sérstaklega leiðinlegra áhugamála.
Eitt af því er stangveiði.
Stangveiði, er án efa eitt það órómantískasta af öllum órómantískum athæfum mannskepnunnar. Það er fátt eitt eins ókynþokkafullt(er þetta orð?) og einhver ístrubelgur standandi út í miðri á í þartilgerðum vaðstígvélum með stöng í hendi. Stangveiði er því – ásamt öðrum áhugamálum sem þykir hefðbundið að karlmenn tileinki sér – eitt af því allra leiðinlegasta sem ég hef nokkurn tímann á ævinni prufað.
Stangveiði er svo ógeðslega leiðinleg að þegar ég prufaði þessa mjög svo karlmannlegu “íþrótt” þá var ég hálfpartinn að vona að ég – fyrir einhverja slembilukku – hrasaði í ánni og drukknaði. Ég fer aldrei aftur sjálfviljugur að veiða. Í rassaborugat andskotans með stangveiði og stangveiðimenn.
Í fallega innréttuðu sálarlífi mínu dreymdi mig eftirfarandi draum, nóttina sem leið:
Ég er á leiðinni í svokallað bekkjarríjúníon. Ég finn kyrfilega fyrir því að mig langar ekki vitund til að mæta. Ríjúníonið er haldið í fallegum veislugarði með sundlaug. Þegar þangað er komið kasta ég kveðju á nokkra bekkjarfélaga og hlakka yfir því í huganum hvað þeir eru orðnir gamlir og feitir, sem er eitthvað annað en ég sem er slim og slank. Ég er ekki búinn að vera lengi í gylleríinu, þegar allir karlgestirnir setja á höfuð sér kippot(gyðingahúfur) og fara að syngja gyðingasöng, nánar tiltekið Ma’Nishtana, sem er bæn sungin í kringum páska, eða Pesach. Ég færist allur í aukanna, en átta mig á að ég þekki í raun og veru engan þarna lengur, sem er fínt því allt er betra en að eyða tíma með þeim skoffínum sem voru með mér í skóla. Ég tek undir með söngnum, en það næsta sem ég veit, þá er ég á botni sundlaugarinnar, sem er galtóm. Ég er ekki einn, því með mér eru Marx bræður að berja á ásláttarhljóðfæri sem ég kann ekki deili á. Groucho er með vindil í kjaftinum og veifar til mín kumpánlega. Ég finn að eitthvað vott snertir andlit mitt, lít upp og sé að það ganga yfir okkur blóðgusur í takt við ásláttinn. Okkur þykir það ekki neitt óhugnanlegt, heldur lítum við á gusurnar sem ómissandi þátt í alveg prýðilegri skemmtan. Við dönsum, hamingjusamir, glaðir og frjálsir.
Um þetta leyti, vakna ég til þessa heims.
Ég vaknaði til meðvitundar sönglandi og trallandi, sjálfum mér og kettinum sem sefur mér til fóta til sérstakrar ánægju. Meðan ég saup á mjólkurkaffinu mínu, las ég nokkur moggablogg, fáeina þræði á barnalandi og horfði á eitt til tvö myndbönd með Erpi á jútjúb. Hægt og bítandi, án þess að ég fengi við það ráðið, þyrmir yfir mig. Ástin sem ég hafði á heiminum, þegar ég vaknaði, fjarar út fyrirvaralaust. Það næsta sem ég veit er ég staddur á vefsíðu vopnasala, þess viss að ekkert annað sé í stöðunni en að koma sér upp vopnabúri og setjast að í óbyggðum, þar sem ég get varist Erp, Geir Ólafs, barnlendingum og moggabloggurum.
Ég hef náð þeim merka áfanga að fatta Gísla á Uppsölum.
Hvort skorar meira í himinhæðum: Að vera auðmaður sem gefur yfirnáttúrulegar fjárhæðir til góðgerðamála og þegir yfir því, vitandi að hann uppsker ekki aðdáun pöpulsins og deyr jafnvel í minningunni sem sjálfshyggjurunksvín, eða þá að vera auðmaður sem gefur stórar fjárhæðir til góðgerðamála, mætir í fjölmiðla og röflar um hugsjónir sínar, sér og þeirri maskínu sem aflar honum peninga til upphefðar?
Einhvern tímann las í litla sæta dæmisögu í Kabbalah-poppfræðum um durt sem bjó í litlu þorpi einhversstaðar í miðjunni á andskotans engu. Hann var óvinsamlegur einfari, sem engum þótti vænt um. Í hvert sinn sem einhver af þorpsbúum óskaði eftir að hann legði sitt af mörkum til samfélagsins, hreytti hann í viðkomandi ónótum og skít. Kom svo að því að karluglan datt dauð niður og allir urðu guðs lifandi fegnir. Enginn af þorpsbúum mætti þegar honum var holað niður nema velviljaður Rabbíni, en meira að segja hann var einungis þarna staddur skyldu sinnar vegna. Við skulum kalla rabbínann Shalom og gefa honum eftirnafnið Achshav.
Rétt rúmum hálfum mánuði eftir gróðursetningu þessa ódæla manns, stóð Shalom Achshav hnarreistur í kokkhúsinu heima hjá sér og vaskaði upp eftir sérstaklega góða máltíð, sem konan hans Haviva Achshav eldaði með ást í hjarta sínu. Shalom var svo langt yfir allar spurningar um kynjahlutverk hafinn. Hann hafði þá einföldu reglu að leiðarljósi, að allir á heimilinu tæku þátt í heimilishaldinu. Honum fannst það sér síður en svo til minnkunar að taka að sér uppvask, meðan konan eldaði.
Skyndilega er drepið á dyr á kærleiksríku heimili hans. Fyrir utan er aumingi einn, sem ber sig illa. Shalom spyr hann hvað í ósköpunum ami að honum. “Jú, þannig er nú mál með vexti að síðustu ár hef ég átt ákaflega erfitt og ég hef af þessum sökum ekki getað aflað mér og fjölskyldu minni vegna erfiðleika minna,” segir auminginn og ber sig aumingjalega. “Fyrir langa löngu, ég man ekki einu sinni nákvæmlega hvenær, fóru mér að berast pakkar vikulega með peningum sem gerðu mér og mínum kleift að lifa af vikuna,” auminginn ber þess enn betur merki að hann er aumingi. “Nú, hver var svona hoffmannlegur við þig?” spyr Shalom Acshav og tjaldar þartilgerðum undrunarsvip. “Það er nú það sem ég ekki veit. En hvernig sem á því stendur, þá eru mér hættar að berast þessir pakkar og nú erum ég og fjölskylda mín að deyja úr hungri!” Auminginn þarf ekki að segja meira, því Shalom Acshav seilist í pyngju sína og gefur aumingjanum silfurpening. Auminginn verður ægilega glaður og hefur sig á brott.
Shalom heldur áfram að sinna heimilinu. Ekki líður á löngu þangað til aftur er bankað upp á hjá honum. Fyrir utan stendur annar aumingi, eins og það sé ekkert lát af aumingjum í þorpinu hans litla og sæta. Auminginn, rekur raunir sínar og segir Shalom Achshav að honum hafi einnig borist vikulegar pakkasendingar. Shalom Achshav, sem veður í peningum, gefur aumingjanum nóg til að hafa í sig og á, allavega út vikuna, ef ekki mánuðinn. Rétt í þann mund sem Shalom er að sjæna eldhúsborðið með grænsápu, er aftur bankað á dyrnar hjá honum. Enn einn auminginn stendur fyrir utan, illa á sig kominn af hor og vosbúð. Hann hefur sömu sögu að segja. Fyrir hálfum mánuði síðan hætti honum að berast pakkasendingar, með gúmmilaði og gersemum. Shalom reiðir fram pening og auminginn hverfur á braut. Næst þegar bankað er hjá Shalom, stendur fyrir utan röð af aumingjum. Allt í einu áttar Shalom sig á hvernig í pottinn er búið. Karlkvikindið sem allir lögðu sig fram um að fyrirlíta og hata, stóð ábyrgur fyrir þessum pakkaútdeilingum og á meðan allir sem fordæmdu hann fara til andskotans, drekkur þessi andlegasti maður þorpsins fínasta koníak úr kaleik með Jesú, Ghandi og Villa Vill.
Reyndu að haga þér eins og maður, var sagt við mig í gær, er ég brá á leik. Ég lét mér fátt um finnast, sem er frávik frá reglunni, því samkvæmt öllum kúnstarinnar reglum, hefði ég átt að verða miður mín. Hvað þýðir það nákvæmlega? Það að haga sér eins og maður? Ég var kominn spölkorn frá manninum sem lét tilmælin falla, er ég sneri mér við og kallaði til hans: Hvað í andskotanum þýðir það, að haga sér eins og maður? Hann heyrði ekki í mér, svo ég gargaði nokkur vel samansett fúkyrði sem ég ætla ekki að hafa eftir hér á siðprúðu vefsetri mínu.
Ég hélt mína leið.
Síðar sama dag, sat ég í leðursófa hjá Obi Wan Kenobi. Eftir að hafa tíundað lífssýn mína, var Obi sjálfur kominn á þá skoðun að öll værum við uppfull af bulli, í óendanlegri leit af viðurkenningu hjá fólki sem er líka uppfullt af bulli. Ég kvaddi hann með heillaráðum sem ég lærði þegar ég sat fundi hjá Samtökum Iðnaðarins. Heillaráð eins og “Treystu guði” eða “Það virkar ef þú verkar það”, ráð sem bjargað hafa mörgum góðum drengnum frá barmi andlegs gjaldþrots, Obi var þar enginn undantekning.
Svo var það maðurinn sem ég heyrði garga á afkvæmið sitt: Ekki haga þér eins og barn!
Hefði þá barnið kannski átt að haga sér eins og maður?
Skrítin er hún tilvera.