SiggiSiggiBangBang

Vaíla Veinólína

Mar
21

Hér er orðið ári dapurlegt um að litast og framleiðsla á tímamótahugsunum mikið til legið niðri. Hvernig stendur á því? Þessi brennandi þörf mín til að fjalla um sannleikann, eins og hann kemur mér fyrir sjónir, hefur dvínað undanfarin misseri. Ég að sama skapi fylgist lítið orðið með bloggi. Sumir halda því fram að kreppubloggin hafi drepið niður alla stemningu. Það kann að vera. Bloggin sem ég fylgist með eru teljandi á fingrum annarrar handar og ekkert þeirra er pólitískt.

Á árunum fyrir hrun, þá gekk allt út á að vera ríkur og eftirsóttur. Nú eftir hrun, væla allir, þusa og þrasa og eru duglegir að finna einhvern/eitthvað til að skella skuldinni á. Allt frá því að heimstyrjöldinni síðari lauk hefur fólk spurt sig hvað olli því að þjóðarsál Þýskalands gat orðið svona hræðilega ill. Mér finnst einnig forvitnilegt hvernig stendur á því að flestir íslendingar trúðu því að auðsöfnun og ríkidæmi væri eina rétta leiðin til að lifa lífinu. En fæstir velta þessu fyrir sér. Núna gengur líf Íslendingsins út á að væla og hata. Fáir hafa hugrekki til að mæta sinni eigin spegilmynd. En nú er ég farinn að hljóma eins og þjóðfélagsrýnir og það vil ég síður. Mér er andskotans sama. Það er ekki mitt að syrgja hvernig meðbræður mínir í þessum heimi kjósa að lifa lífinu, nóg er nú sorgin fyrir.

Þessa daganna er ég mjög upptekinn af muninum á að vera og að lifa. Flestir eru bara – fæstir lifa.

Ég ætla að halda áfram að skrifa. Ég er svolítið búinn að týna niður tilgangnum, en hann er að rifjast upp fyrir mér. Ég hef skráð hér þau spor sem ég hef tekið í lífinu síðan 2002. Þetta er þroskasaga. Fyrir mig eru þetta ómetanleg verðmæti.

Hitler í stuði

Mar
15

Þessi hreyfimynd kætir mig alveg ægilega.

Þegar manneskjan fyrnist

Mar
10

Á lífsleið minni hef ég fyrirhitt heila hjörð af fólki sem ég hefði helst aldrei viljað þekkja. Svonefndir viðbjóðar og drulluháleistar, sem ganga þessa jörð mér til ama og leiðinda. Þetta á sérstaklega við um skóla- og unglingsárin, þar sem ég fékk litlu eða engu um það ráðið hverja ég átti í samskiptum við. En nú hefur fæðst með mér enn ein tímamótahugsunin. Ég hef í rauninni aldrei hitt þetta fólk! Þetta fólk er ekki lengur til! Einstaka sinnum hefur orðið á vegi mínum einhver sem ég þekki úr fortíðinni. Suma finnst mér gaman að sjá, en aðrir eru þannig gerðir að ég vil helst aldrei rifja upp kynni mín af þeim. En nú er mér ljóst að tengsl mín við viðkomandi eru einungis huglæg og langt því frá að vera raunveruleg. Þetta get ég þakkað líffræðinni. Líkamsfrumur eru svo duglegar að endurnýja sig að á u.þ.b átta árum á sér stað svo mikil umskipting að með réttu er hægt að segja að maðurinn sé ekki sá hinn sami og hann var. Að hann sé nýr og vonandi betri maður. Þó mín reynsla sé að fúlegg verði einungis fúlari með aldrinum. Fúlari og fyrirferðameiri á þverveginn. Það má því segja að hitti ég einhvern sem ég hef ekki séð í rúm átta ár út á götu, þá þekki ég viðkomandi ekki neitt, enda ekki sama manneskjan. Þetta eru góðar fréttir fyrir mig og alla drauga fortíðar.

Svíþjóð fyrr í dag – myndband

Mar
07

[media id=233 width=520 height=290]

Í dag dauðleiddist mér lífið og hefði helst bara viljað vera dauður. Til að lyfta mér á kreik skrapp ég yfir lækinn til Svíþjóðar. Allt er gott í Svíþjóð meðan Danmörk er viðbjóður. Allir voru vinalegir og fullir af fölskvalausri gleði. Ég fékk mér fair trade kaffi og ökkólógíska pönnsu með jurtarjóma. Ég brá mér á salernið, og svei mér þá, þar var allt svo dásamlegt. Í hátalara var falleg músik og skilaboð til mín um hvað ég get gert til að verða að betri og meðvitaðri manni. Já, Svíþjóð er fullkomin. Þegar strætisvagn keyrir um göturnar hljómar kvenmaður í hátalarakerfi utan á honum sem segir eitthvað fallegt á sænsku. Svo er sænska miklu fallegra tungumál en danska og þegar Svíar tala ensku þá hljóma þeir ekki eins og þeir vilji þukla á þér lærin.

“Það er valt, lífið allt”

Feb
14

– sagði barþjónninn í draumnum mínum um leið og hann rétti mér líterskrús af bjór sem ég smakkaði á. Mmmmmm, eða hitt þó heldur. Flatur og gruggugur líkt og bjórinn sem ég bruggaði á árunum rétt undir aldamótin. Hann var lagaður í fimmtíu lítra kút settur svo á eins til tveggja lítra plastflöskur sem voru látnar standa við ofn í minnst sólarhring, rétt nóg til að fá í hann örlítið gos. Hann var ógeðslegur, en allir urðu af honum yndislega fullir. Bragðið sem ég fann í draumnum mínum þegar ég saup af krúsinni hefur verið tekið úr einni löguninni. Sveinn hnippti harkalega í mig, en hann stóð við hliðina á mér í draumnum. Hann gaf til kynna að ég ætti ekki að drekka of mikið, þar sem ég væri akandi. Barþjónninn brosti sínu breiðasta. Hann var vinalegur og líktist nokkuð gamanleikara sem ég man ekki nafnið á. Breiðleitur, með Ernest Borgnine bros og ferköntuð gleraugu. Ernest Borgnine er annars enn að. 93 ára gamall, enn skælbrosandi.

Ég vaknaði aðeins, rétt nóg til að muna setninguna sem barþjónninn sagði við mig. Það er valt lífið allt. Þetta er ein mesta lífsspeki sem ég hef heyrt, tuldraði ég í svefnrofunum, en sofnaði svo aftur og var þá staddur í strjálbýla hverfinu rétt hjá Rauðhólum. Það var niðdimmt kvöld. Eina birtan var af tunglinu. Þarna voru tvö hús. Annað stóð við vatn. Ég hugsaði með mér í draumnum, að það væri nokkur framför hjá draumapersónu að ríma jafn fallega og barþjónninn gerði í síðasta kapítula. Húsið heillaði mig og ég gekk hringinn í kringum það. Svei mér þá, hérna langar mig til að eiga heima. Ég hikaði. En ég er nýfluttur burt af landinu! Ég ætla ekki að snúa aftur fyrr en á síðustu metrum ævi minnar. Þegar dauðinn nálgast. Kannski dey ég í þessu húsi? Svo vaknaði ég, með hausverk náttúrulega.

Að eilífu ungur

Feb
14

[media id=232 width=520 height=400]

Það sem af er þessu ári hefur mér þótt ósköp leiðinlegt að vera til. Ég hef meira og minna verið lasinn og því frekar dapur. Hér í Danmörk djöfulsins er skítkalt, dimmt og napurlegt. Danir þurfa ekki mikið annað en að opna munninn og tala dönsku til að vera leiðinlegir. Ég hef þó hitt dani sem ekki hafa sagt neitt, heldur bara brosað. Það er töfrum líkast hvað bros getur gert. Innflytjendur frá Arabalöndum og Afríku eru líka langflestir drepleiðinlegir. Drungalegir, tortryggnir, óvinsamlegir og stundum sóðalegir. Vel nærðar arabakonur vagga um göturnar í fullum skrúða, sumar það vel búnar að aðeins sést í augun á þeim. Aumingja konurnar, hugsa ég með sjálfum mér. Aumingja allt trúaða fólkið sem elst upp í einhverjum fyrirfram ákveðnum hugmyndum um hvernig heimurinn virkar. Búið að ræna því þessu einstaka tækifæri sem hver lifandi manneskja hefur til að kanna sjálf leyndardóma og mögulegan tilgang lífssins. Þessi tilvera sem reynist undarlegri en nokkur Lost þáttur.

Svona er þankagangur minn, en sorg mín yfir örlögum mannsins vex töluvert þegar ég er lasinn og illa á mig kominn. Þá er gott að gera eitthvað sem mögulega gleður hjartað, eins og að rifja upp ömurleg unglingsárin, sem er einmitt ástæðan fyrir því að þetta lag er hér að ofan: Forever young með Alphaville, en það var feykivinsælt þegar ég var unglingur. Í það minnsta stendur það eftir sem eitt af mínum uppáhalds eitíslögum.

Mikið vorkenni ég annars unglingum. Unglingsárin mín hófust reyndar hér í Danmörku. Sumarið 1985 dvaldi ég hér með systur minni og frænda. Þetta sumarið urðu á mér líkamlegar breytingar sem ég hefði helst viljað sleppa við. Ég fór úr því að vera krakki yfir í að vera kynvera. Fólk breyttist gagnvart mér og samskipti urðu afar einkennileg. Ég er enn kynvera, en ég get satt best að segja ekki beðið eftir ég umbreytist úr kynveru yfir í gamalmenni. Ef þessi leiðindi eru tekin úr jöfnunni, er ég viss um að öll samskipti við meðbræður mína verði mun fágaðri en þau eru dæmd til að vera í dag.

Hvert var ég kominn? Jú, ég var unglingur í Danmörku; einn af betri tímum sem ég hef lifað. Ég fór í sleik við einhverja stúlku frá Tyrklandi. Ég hafði aldrei farið í almennilegan sleik. Ég sá Purple Rain og þótti hún mergjuð. Drakk bjór og fann á mér. Heyrði fyrst um AIDS. Kynntist frábærum manni, vini systur minnar, sem átti eftir að deyja úr þessum sjúkdómi sem enginn vissi neitt um. Systir hans, varð 12 árum eftir þetta barnsmóðir mín. Skrítið er þetta líf.

Meira ætla ég ekki að skrifa um unglingsárin mín. Ég á þó mjög líklega eftir að skrifa meira um nágrennið sem ég bý í. Það er meira en lítið undarlegt.

Kjörklefakúkarinn

Feb
12

Mörgum þótti litla stúlkan með hattinn krúttíleg þegar hún girti niður um sig buxurnar og kúkaði einum af þeim fallegasta kúk sem kúkað hefur verið sunnan Hringbrautar. Ég veit ekki fyrir víst afhverju ég er að hugsa um hana. Líklega vegna þess að ég hef áhuga á hvernig fólk – ég þar með talinn – breytist með árunum.

Ég átti einu sinni kærustu sem var mikil hippi og hugsjónamanneskja. Er hún nálgaðist þrítugt var hún komin í nákvæmlega sama kassann og hún formælti á þeim árum þegar hún var hugsandi yngismey. Flestir af 68 kynslóðinni, einni mestu byltingarkynslóð allra tíma, hreiðruðu um sig í sama andskotans kassanum. Hugsjónirnar viku fyrir keppni um nýja eldhúsinnréttingu, árlegri fyllerísferð til heitari landa og fleira í þeim dúr.

En þó litli krúttlegi kjörklefakúkarinn héldi í sínar hugsjónir næstu 20 árin og mundi halda áfram að kúka í kjörklefa þar til hún er langt komin á fimmtugsaldurinn, mun engum þykja hún krúttleg lengur, sama hversu fagurlega formaðar hægðir hún skilur eftir sig. Hvað getur hún gert? Farið á þing? Opnað reykelsisbúð? – detox miðstöð?

Á árunum milli tvítugs og þrítugs finnst manni nánast allt mögulegt. Þetta eru árin þar sem frjóasta hugsunin á sér stað. Hvað gerist eftir það skil ég ekki. Það er engu líkara en eitthvað drepist innra með fólki. Eins og það gefist upp þegar það er komið á fertugsaldurinn og sættir sig við stritið svo lengi sem þeir hafa sjónvarp og snakk til að maula á.

Flestir fara sofandi í gegnum lífið.

Clean house – íslensk stuttmynd

Feb
08

[media id=231 width=520 height=290]

Afrakstur einnar kvöldstundar. Hana er einnig að finna á youtube.

Samkennd

Feb
02

Að gleðjast með náunganum er fágæt tilfinning. Maðurinn er sjálfselskur óþverri í grunninn. Hann gerir EKKERT sem ekki hefur eitthvað með hans eigin vellíðan að gera, hversu göfugur sem hann þykist vera. Þetta eru vondar fréttir fyrir þá sem voru búnir að ljúga því að sjálfum sér að þeir væru dygðugir.

Ég sjálfur finn æ sjaldnar fyrir því að ég í raun og veru samgleðjist með náunganum. Mér er yfirleitt bara andskotans sama. Ég veit þó að til að þrífast í mannheimum, þarf ég að sýna tilfinningar burtséð frá því hvort þær séu raunverulegar. Ef einhver deyr, eða einhver fæðist, er til þess ætlast að maður flíki viðeigandi tilfinningum, og skiptir þá engu hvort viðkomandi sé manni nátengdur, eða ekki. Ég veit að ef ég læt mér fátt um finnast, heldur yppti bara öxlum, þá er ég umsvifalaust stimplaður drulluháleistur. Það er reyndar þannig með öll samskipti við fólk, ef ég færi ekki eftir reglum og sýndi þær tilfinningar sem væru í raun og veru að brjótast um í mér í stað þess að gera mér upp gæðavottaðar tilfinningar, þá kæmi ég ekki til með að endast lengi meðal manna. Kuldalegt ekki satt. Samt er eiginlega ekkert ógeðslegra í lífinu en uppgerðarsamkennd, nema þá kannski þjóðarmorð og kæst skata.

Og þar sem raunveruleg samkennd er af takmörkuðu upplagi, kom mér þægilega á óvart fyrir nokkru, þegar góður vinur minn og ástkona hans eignuðust barn, hversu mikið ég gladdist. Gleði mín var alveg ómenguð. Hún var ekki lituð afbrýðissemi, eigingirni, né öðrum skítakleprum mannlegrar tilveru. Ég var himinlifandi yfir þessu fallega barni, og gleðinni sem það færði samferðafólki mínu. Áður en þetta var, man ég ekki hvenær ég síðast fann fyrir fölskvalausri samkennd.

Sumartíð 2010

Jan
24

í gær þegar ég fór upp á háaloft til að týna þvott af snúrunum, fór mig að lengja eftir vorinu. Fyrsti veturinn í borg konungsins, hefur verið dimmur, nístandi kaldur og mjög drungalegur.

Þegar ég var búinn að brjóta saman nokkur handklæði brast ég í söng. Svo skemmtilega vildi til að ég var með videomyndavélina á mér. Ég festi því sönginn á band. Hér að neðan má sjá afraksturinn.

[media id=230 width=520 height=310]

Fleiri pistlar um vor og sumar:
Vorþrá
Sumar og hamingja
Vorhret í lofti
Porgy and Bess

Er hægt að lifa án lyginnar?

Jan
21

Varúð! Þetta er ekki pólitískur pistill. Smelltu hér til að fylgjast með pólitísku fjasi.

Hefst þá pistillinn:

Á uppvaxtarárum mínum var ég viss um að einhver, mögulega foreldrar mínir, vissi nákvæmlega hvernig heimurinn virkar og hvaða reglum væri snjallt að fylgja til að tryggja hamingju til dauðadags. Ég var alinn upp við gömul og góð gildi. Lærði nægjusemi, hógværð, heiðarleika, að þeir fiskuðu sem sóttu sjóinn, osfrv. Foreldrar mínir lifðu hefðbundnu lífi, byggðu hús, eignuðust börn, reistu girðingu við lóðatakmörkin, fóru í útilegur, ferðuðust reglulega til fjarlægra landa og gerðu allt samkvæmt óskrifaðri bók um hvernig lifa skal eðlilegu lífi. Þau bæði gengu sér til húðar við að viðhalda þessari hugmynd, sem var ekki einu sinni þeirra eigin. Með tíð og tíma, fór að örla á sprungum í glansmyndinni, og á endanum molnaði hún niður ásamt öllu því sem þau trúðu á.

Nú á dögum er þetta mun tíðara. Skilnaður er í flestum tilfellum orðinn óumflýjanlegur hluti þess að ganga í hjónaband og bara hrekklaus fífl sem reiða sig á það eitt að hjónabandið gangi upp og þar með lífið. Ekkert er fyrir víst í þessum heimi og þegar mér varð ljóst að foreldrar mínir voru engu nær um hver ég var, hvað ég væri að gera hérna og í hvað stefndi, leitaði ég annað.

Nú þegar ég á aðeins örfáa mánuði í fertugt hef ég á lífsleiðinni hitt urmul af fólki sem telur sig vita hvernig ber að lifa þessu lífi. Ég sjálfur er hinsvegar alveg grunlaus. Á síðustu tíu árum hef ég breyst úr einhverjum sem hefði feginn verið tilbúinn að tileinka sér einhverja andskotans vitleysu, trúarlega eða heimspekilega, – í mann mikilla efasemda. Þó svo mér finnist efinn vera eina skynsamlega nálgunin á nánast alla hluti, þá hef ég ekki með efanum fundið mér stað í heiminum þar sem ég get sungið óáreittur lollypop, lollypop og gefið sjálfum mér frí frá þessum eilífu vangaveltum um lífið og tilgang þess. Þess í stað hefur hugsun mín orðið kaldari, það köld að stundum á ég bágt með að trúa á að maðurinn geri nokkuð ef það breytir ekki hans eigin líðan til hins betra.

Ég hef verið í tilvistarklípu alveg frá því að ég man eftir mér. Ég get ekki að því gert. Það er óhugsandi fyrir mig úr því sem komið er, að hola mér niður í sófa með feitabollupakkningar af Doritos flögum, glápa á sjónvarp og kalla það líf. Þrátt fyrir að líf efasemdamannsins innihaldi meiri sársauka, er það mun eftirsóknarverðara en líf þess sem lifir fyrir það eitt að runka líkamanum.

Fyrirsögnin á þessum veflók gæti gefið til kynna að ég hefði í hyggju að svara þessari spurningu, en svo er ekki. Ég á engin svör.

[flowplayer id=229 width=520 height=390]

Veflókar Comments Off on Er hægt að lifa án lyginnar?

Sveinn forseti

Jan
10

Sama dag og andlit okkar út á við tilkynnti ákvörðun sína um að bera Ísbjörg númer tvö undir sauðheimska þjóðina, fór ég út að hlaupa í nýjum og glæsilegum þartilgerðum galla sem prýðileg heitmey mín gaf mér í jólagjöf. Nístandi kuldinn í borg Kóngsins hafði ekki áhrif á mig, þar sem ég logaði af bræði. Þegar ég hleyp, framleiðir líkaminn svokölluð gúddí gúddí boðefni sem hafa góð áhrif á heilastarfsemina. Þá oftar en ekki verða til tímamótahugsanir af þeirri tegund sem vitnað er í. Það var þó ekki í þetta skiptið. Ég fann engan nýjan vinkil á þessum skelfilega þykjustuleik mannsins sem gengur aðallega út á þjáningu, að undanskildum fáeinum gleðistundum. En reiðin brann innra með mér og ég hugsaði spjátrungnum á Bessastöðum til heitasta helvítis fyrir að framlengja þessum ósköpum sem gert hefur margan Íslendinginn niðurdreginn.

Ekki langt frá kirkjugarðinum á Jagtvej, rifjaðist upp fyrir mér þegar ég vann hjá hjá Kópavogsbæ. Þar kynntist ég kærum vin og miklum fjörkálf, Sveini Sverri Sveinssyni, þá á sjötugsaldri, en nú horfinn yfir lækinn. Ég átti í bölvuðum erfiðleikum með að skilja hlutverk mitt í lífinu. Hann tók að sér að lóðsa mig inn fyrir hafnargarðinn, en þar hef ég staðið í stað síðan leiðir okkar skildu. (Hugsanlega leggst ég svo upp að bryggju um það leiti sem ég kveð þennan heim.)

En þegar þetta var vissi Sveinn nógu mikið til að segja mér hvaða stefnu ég ætti að taka og fyrir það dýrkaði ég hann. Flest af því sem hann hafði að segja fyrstu árin sem við þekktumst var í mínum huga heilög ritning. Hann var guðdómlega orðljótur og af honum lærði ég fallegustu orðin sem ég kann. Orð eins og legáti, drulluháleistur, láfa; allt orð sem ég nota enn þann daginn í dag, sérstaklega þegar ég vil komast til meta í viðskiptaheiminum.

Hann tók mig með sér á fundi hjá samtökum sem hafa að geyma leiðinlegasta fólk sem fyrirfinnst á jörðinni. Hann var í forsvari fyrir einn af þessum fundum, sem voru haldnir vikulega hvern fimmtudag. Oft tók hann sjálfur að sér að leiða fundina og notaði þá allan fundartímann til að ræða ítarlega um menn og málefni; þá yfirleitt mennina sem sátu fundinn og málefni sem tengdust þeim. Fundirnir sem áttu að vera klukkutími, urðu stundum tveggja tíma langir. Sveinn sá þá um innganginn sem var um 45 mín, leyfði svo einhverjum leiðindarskjóðum að blaðra í kannski hálftíma, og notaði síðan önnur þrjú korter til að slíta honum. En það voru góðu fundirnir. Vondu fundirnir voru þegar hinir komust of lengi að.

En hvað hefur þetta með forsetann að gera?

Einu sinni sem oftar sátum ég, Sveinn og fleiri í kaffikróknum, drukkum kaffi, reyktum tóbak og ræddum málin. Það var farið að líða að hádegi þegar inn gengur borubrattur Ólafur Ragnar Grímsson og boðar til framboðsfundar í matsalnum. Hann spyr hvort við ætlum ekki að koma á fundinn. Sveinn horfir á hann illum augum, og hreytir síðan út úr sér: “Ég sit engan helvítis fund með þér!” Ólafur umlar eitthvað, verður vandræðalegur og gengur inn í matsalinn og á eftir honum allir rassakyssararnir sem störfuðu þarna á þessum tíma. Ég ekki þar á meðal! Ég var ekki að fara að sitja fund sem haldinn var í óþökk læriföður míns. Ég vissi ekki út af hverju honum var svona illa við hann, en ég veit að margir af sömu kynslóð og Sveinn, þar á meðal pabbi minn höfðu og hafa horn í síðu hans.

Sveinn Sverrir Sveinsson lést árið 2004, 80 ára gamall. Hann rífur reglulega kjaft við mig í draumum mínum. Eftir þær nætur vakna ég skælbrosandi.

Hér stutt myndband af Sveini sem ég tók, þegar við sáum saman um brennu, áramótin 1991/92.

[media id=228 width=420 height=236]

Mér hlýnar alltaf um hjartaræturnar þegar ég sé kallinn.

Meira um Svein:

Bæjarmelir
Svenni
Hann er einn tittlingur!