Eftirlífið og örlög trúleysingjans
4. nóvember 2068
Jæja, þá er ég dauður. Ég er kominn á einhvern stað sem mig grunar að sé eftirlífið. Hér er myrkur og ég sé ekki glóru. Ég heyri eintóm Windows kerfishljóð og áætla því að ég sé kominn til Helvítis. Því skyldi ég vera í helvíti? Ég sem var svo hjartahreinn og fagurlundaður. Þau skipti sem hægt er að segja að ég hafi verið ódæll eru teljandi á fingrum annarrar handar. Og ef ég skipti skapi, bitnaði það sárasjaldan á nærstöddum. Einstaka sinnum þó, en miklu sjaldnar en oft.
Dauði minn var ekki alveg eins og ég hafði ráðgert. Jú, ég lifði vel flesta sem ég þekkti og dó hundgamall, en ég hefði gjarnan viljað deyja við aðeins huggulegri kringumstæður í notalegra umhverfi. Kannski í fallegu timburhúsi við sjóinn, í Trékyllisvík, á Ítalíu, eða jafnvel í Nýju Arabíu. En dauði minn var hrottalegur. Ég var orðinn veikburða og mér fannst ég vera að missa glóruna. Er ég nálgaðist níræðisaldurinn hét ég því að ef ég hefði minnstu grunsemdir um að ég væri að missa vitið, þá skyldi ég koma sjálfum mér fyrir. Sök sér að vera rúmfastur, og geta ekki kúkað hjálparlaust, en að vera kolvitlaus í hausnum öllum til ama og leiðinda er óbærileg tilhugsun. Gamall kolruglaður kall sem veit ekki lengur hvað hann á að gera við skeinipappír… Nei, þá er betra að vera dauður. Ekki að nokkur af mínum nánustu sé eftir til að horfa upp á þá hryggðarmynd sem ég var að verða. Æ, það er alveg sama. Ég gat bara ekki hugsað mér að veslast uppi á köldum spítala froðufellandi tóma vitleysu. Þá er betra að hverfa af sviðinu labbandi, en að skríða af því ekki vitandi í þennan heim né annan.
Ég keypti mér ferð með kjarnorkuknúnu skemmtiferðaskipi, og á miðju Atlantshafi stökk ég útbyrðis. Ég reyndi að stökkva eins langt frá skipinu og ég gat, í von um að ég færi ekki í skrúfuna. Ég hafði líka heyrt að það væri svo ósköp notalegt að drukkna, allavega þegar á liði. En þrátt fyrir stökk sem mér þótti sjálfum nokkuð tígulegt fyrir nær hundrað ára gamlan mann, rotaðist ég á skipsskrokknum og sogaðist í risavaxna skrúfuna sem afgreiddi mig á augabragði. Kjarnorkudrifin skip eru með skrúfur sem snúast mun hraðar en skrúfur knúnar gömlu olíuvélunum. Skipin ná ógnarhraða. Það tekur aðeins innan við dag að fara frá London til Nýju Arabíu. En ég varð sumsé að ekki neinu. Engar líkamsleifar, ekki einu sinni snakk fyrir sjávardýrin. Ég bara breyttist á örskömmum tíma í mauk og blandaðist sjónum. Dauði minn varð eins og allar aðrar ráðagerðir mínar í lífinu, meira og minna misheppnaður, nema að því leitinu til að ég er dauður.
Hversu lengi ætli ég þurfi að húka hérna í myrkrinu? Ég er þó öllu frískari en þegar ég var lifandi verð ég að segja. Engin gigt, ég get meira að segja gengið klakklaust sýnist mér, ekki að ég sjái nokkurn skapaðan hlut. Jú, ég stend í hnakkakerrtur í lappirnar. Ég stappa niður báðum fótunum til skiptis og heyri hljómmikla dynki. Ætli einhverjum þyki Windows kerfishljóð falleg? Er þetta mitt persónulega helvíti? Sérsniðið að öllu því sem ég þoli engan veginn.
Einhver kemur við öxlina mína. Mér verður bilt við og sný mér. Eigandi handarinnar er horuð vera sem virðist vera manneskja, nema að skrokkurinn er ekki þakinn skinni heldur harðfisk. Það umlar í honum og hann vaggar fram og tilbaka eins og mörgæs. Hann er klæddur í, að mér virðist, mjög dýr jakkaföt. “Komdu sæll manni!”, segi ég hressilega, ósköp glaður að sjá einhvern, þó hann sé líkari harðfisk en manni. Hann segir ekki neitt, umlar bara. Þrátt fyrir harðfiskskinnið finnst mér ég kannast við hann. Hvar hef ég séð þennan mann áður? Einhver aukahljóð bætast við umlið í honum og hann byrjar að tútna út eins og blaðra sem blásið er jafnt og þétt í. Þegar hann er orðinn mjög búlduleitur átta ég mig á hver þetta er. “Ég veit hver þú ert”, hvísla ég eins og ég vilji ekki koma upp um hann, “þú ert Sigurður Einarsson bankastjóri gamla Kaupþings!” Hann gjóir til mín augunum, en orð mín virðast ekki hafa nein önnur áhrif á hann.
“Ég hlýt að vera í helvíti”, segi ég sannfærður, “það getur ekki annað verið, þú hér og þannig.” Mér líst ekkert á hann. Hann heldur áfram að bólgna út, og byrjar síðan að kúgast. Hann beygir sig luralega fram og gubbar heilu fjalli af hálfmeltum ruslmat, sumt ekki einu sinni melt, heilir kjúklingabitar, pizzasneið og snickers. Eftir að hafa gubbað í dágóða stund, er hann aftur orðinn horaður. Hann réttir úr sér og þurrkar munninn með erminni. Smá harðfiskur sáldrast niður. Mikið er eftirlífið skrítið.
Úr innri jakkavasa sínum tekur hann út krumpað bréf sem hann sléttir úr, ræskir sig og les: “Sigurður Þorfinnur Einarsson, fæddur 3. júlí 1970, dáinn 4. nóvember 2068. Þú ert dæmdur til að lifa sama lífið aftur. Með bestu kveðju, Guð”
Sigurður Einarsson bankastjóri sem er byrjaður að tútna út aftur, vöðlar bréfinu saman og kastar því kæruleysislega út í tómið. “Einhverjar spurningar?” kurrar í honum. Ég veit ekki hvað ég á að segja? Hver er meiningin með þessu? Ég sem er nýdauður? Sama lífið aftur?
“Afhverju þarf ég þess?” spyr ég nafna minn höstuglega. “Uhhhhhhh, urrrrr, ummmmm.” Ég er ekki frá því að bankastjórinn líti betur út í eftirlífinu en hann gerði þegar hann lifði, þó hann gangi sundur og saman eins og físibelgur og sé eins og harðfiskur. Hann segir: “Þann tólfta apríl 2009, skrifaðir þú færslu sem bar titilinn: “Er Guð til?” og svo svaraðir þú spurningunni sjálfur neitandi.” Hann virðist ætla að gubba en bætir við: “Annar eins hroki er vandfundinn.” Ég gapi af undrun. Hafði ég á röngu að standa. Er svo bara til Guð. Andskotinn sjálfur. Ég depla augunum Bambístæl, í von um að bankastjórinn harðgerði sjái aumur á mér, en honum er andskotans sama. Hann þrútnar og byrjar svo aftur að gubba. “Lifa sama lífið aftur?”, heyri ég mig tuldra, “neiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiii – ZzzzzzzzzzzZzz.”
3. júlí 1970
Það er komið kvöld á fæðingarheimili Reykjarvíkur. Dæmdur til að endurtaka líf mitt fæðist ég aftur inn í þennan heim hágrenjandi.