Ég var einu sinni ömurlegur, en er núna frábær!
Stundum getur lífið verið bölvaður óþverri og þá er ekki gaman. En þegar það er gaman: Þá er gaman! Ég hef komist að því með vísindalegum aðferðum að þarna eru bein tengsl á milli.
Mannskepnan er stundum svolítið einkennileg. Ef hún viðurkennir rangindi upp á sig, þá passar hún sig á að það komi skýrt fram að mistökin hafi átt sér stað í fortíðinni og eru ekki lengur í gildi. Það heyrir til algerra undantekinga ef mistakarinn staðnæmist meðan á yfirsjóninni stendur og segir eitthvað á þessa leið: Hey, ég er að gera mistök! Ég er nú meira fokking fíflið! Eða: Guð, í himinhæðum, Jesú, María og Jósef, hvað ég er ömurlegur! Nei, þannig einfaldlega gengur það ekki fyrir sig í lífinu. Mistök, eða misbrestir í skapgerð, fyrirfinnast einungis í fortíð sérhverrar manneskju. Sömuleiðis kjánaleg atvik, eða uppákomur þar sem einhver verður sjálfum sér til minnkunar. Það er mun þægilegra að horfast í augu við að maður gerði sjálfan sig að fífli fyrir nokkrum misserum síðan, en tildæmis fyrr sama dag, eða í gær. Hugmyndafræðin: “Ég var einu sinni ömurlegur, en er núna frábær!” er kennd í poppuðum sjálfshjálparhópum. Þar er hægt að læra að sættast á að einu sinni var maður kannski frekar mislukkaður, en í núinu er maður orðinn ótrúlega efnileg manneskja með gullfallegt hjartalag. Allt er þetta gott og blessað, nema að í dag kom babb í bátinn, ég komst að því að ég er ennþá fokking fáviti.