Ég hef verið klukkaður, sem er ekki ósvipað því að vera kýldur, nema margfalt verra. Klukkarinn eða gerandinn í þessum ljóta leik er hin langskólagengna Aðalheiður Rósa. Þakk fyrir það!
1. Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:
– Verkamaður í bæjarvinnu Kópavogs : Þar kynntist ég mörgum dásamlegum persónum, eins og Sveini heitnum og Steina Bjarna.
– Stuðningsfulltrúi á Kópavogshæli : Ég heyrði Stein Skaptason segja margsinnis að vistmenn Kópavogshælis væri besta fólkið í þessum heimi. Það er mikill sannleikur í þeim orðum.
– Aðhlynning á öldrunarheimilum í Ísrael : Ég starfaði á þremur öldrunarheimilum í Ísrael og svo við heimaaðhlynningu í kúrdísku gyðingahverfi. Á þessum heimilum kynntist ég þó nokkuð af eldra fólki sem lifði af helförina.
– Aðhlynning á Landakoti – öldrunardeild : Þar leið mér svo prýðilega. Ég átti dásamleg samskipti við gamla fólkið og undi mér vel við að aðstoða það. Þessi vinna hafði mjög sterk áhrif á viðhorf mín til lífs og dauða.
2. Fjórar íslenskar bíómyndir sem ég held upp á:
– Brúðguminn : Besta íslenska mynd sem ég hef séð.
– Með allt á hreinu : Ég elskaði þessa mynd þegar ég var krakki, átti hljómplötuna og lét mig dreyma um að slá í gegn, án þess þó að þurfa að bera mig.
– Jón Oddur, Jón Bjarni : Dásamleg mynd. Dásamlegar bækur. Sérstaklega atriðið þar sem þeir strjúka. Ég var sjálfur barn í kristilegum fangabúðum og lét mig dreyma um að strjúka alla vistina.
– Englar Alheimsins: Frábær mynd og frábær bók.
3. Fjórir staðir sem ég hef búið á:
– Kópavogur : Fólk í Kópavogi ólst upp við nægjusemi. Hús voru byggð af vanefnum og í áföngum. Flestir sem uxu þar úr grasi á þessum árum, lærðu að elska vangefið fólk, sem er hollt fyrir sálina.
– Ísrael : Ég get samt ekki beint sagt ég hafi búið þar. Ég var farandverkamaður, eða kibbútsnikk sjálboðaliði í 1 og 1/2 ár.
– Reykjavík : Ég hef búið á óteljandi stöðum í Reykjavík. Best líður mér þó hér í litla Skerjó.
4. Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
– Sikiley : Er ennþá með fín sambönd á Sikiley.
– Bandaríkin : Þangað ætlaði ég aldrei að fara, en lét svo loks til leiðast í nafni ástarinnar.
– Ísrael : Ég er ennþá þar í draumum mínum.
– Egyptaland : Stoppaði við í 1 og 1/2 dag, reykti gras, át ommilettur og svaf í leirhúsi. Alger hryllingur.
5. Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
– Twin Peaks : Guð kom að gerð þessara þátta.
– Lost : Lífið er svolítið eins og Lost, alveg gersamlega óskiljanleg absúrd þvæla.
– Damages : Með betur skrifuðu þáttum sem ég hef séð.
– The Lost Room : Ég skil ekki afhverju var hætt að framleiða þessa þætti. Ég græt.
– Northern Exposure : Mannbætandi þættir.
6. Fjórar síður sem ég skoða daglega:
– Google reader : Eftirlætin mín.
– Google : Leitarvélin
– 1984.is : Fallega litla stafræna fyrirtækið, sem lét aldrei glepjast af græðgi né lélegu viðskiptasiðferði.
– blogg.gattin.net : Bla bla bla bla! Hvað á það að þýða? Hvað er í gangi? Bla, bla, bla!
– Dr. Gunni : Með morgunsopanum.
7. Fernt sem ég held upp á matarkyns:
– Hummus og Falafel : Þetta kombó hef ég ekki fengið jafn vel matreitt og út í Ísrael. Ekki í Ameríku og ekki á Havivi Tryggvagötu.
– Jólasvín : Þá sérstaklega jólasvínið sem hún systir mín útbýr.
– Sushi : Ég elska sushi-ið í Iðu.
– Pakistanskur : Sterkur eins og á Halim Al, í Austurstræti.
8. Fjórar bækur sem ég hef oft lesið:
Ég hef ekki lesið sömu bækurnar aftur og aftur, allavega ekki á fullorðinsárunum. Ég væri þó til í að lesa Sálminn um blómið aftur, en það er fallegasta bók sem ég hef lesið.
9. Fjórir staðir sem ég myndi helst vilja vera á núna:
Mér leiðist lífið á Íslandi um þessar mundir. Ég vil þó helst alltaf vera annars staðar en þar sem ég er. Mér líður þó afskaplega vel í dúkkuhúsinu í litla Skerjó.
10. Fjórir bloggarar sem ég klukka:
Ég legg þetta ekki á neinn mann. Hverjum datt upphaflega þessi klukkvitleysa í hug?
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég bregst við klukki, hér er annað klukk frá því í árdaga.