SiggiSiggiBangBang

Akureyri! Haltu hestum þínum innan girðingar: Hér ég kem!

Nov
05

Eitt og annað hef ég bitið í mig að gera ekki. Ég var búinn að sverja við nokkrar grafir að fara aldrei til Akureyrar. En fyrir sakir félagslegs þrýstings, fellur í valinn ein af þessum síðustu kreddum sem mér fannst gera mig að manni. Um 10 í fyrramálið, sest ég upp í rútu með ágætis fólki, tek mér söngbók í hönd og syng mig sem leið liggur norður. Í mér er örlítill beygur, íblandaður eftirvæntingu. Ég hef heyrt ægilega hluti um Akureyringa. Flosi Ólafsson orti á sínum tíma, óhroða um Akureyri, sem hann sagði vera ósköp krúttlegt bæjarfélag, alveg þangað til að þorpsbúar vöknuðu til lífsins. Það eru lítil meðmæli með Akureyringum. Annað kvöld fer ég svo með þessu fína fólki í leikhús til að sjá, ég man ekki hvað, eftir ég man ekki hvern. Svo endar þetta með fylleríi geri ég ráð fyrir, þar sem einhver gerir eitthvað sem hann þarf að skammast sín fyrir það sem eftir lifir árs. En það verður ekki ég, enda undirritaður í sjálfskipaðri stúku.

Ég hefi verið klukkaður kæra frú!

Nov
03

Ég hef verið klukkaður, sem er ekki ósvipað því að vera kýldur, nema margfalt verra. Klukkarinn eða gerandinn í þessum ljóta leik er hin langskólagengna Aðalheiður Rósa. Þakk fyrir það!

1. Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:
Verkamaður í bæjarvinnu Kópavogs : Þar kynntist ég mörgum dásamlegum persónum, eins og Sveini heitnum og Steina Bjarna.
Stuðningsfulltrúi á Kópavogshæli : Ég heyrði Stein Skaptason segja margsinnis að vistmenn Kópavogshælis væri besta fólkið í þessum heimi. Það er mikill sannleikur í þeim orðum.
– Aðhlynning á öldrunarheimilum í Ísrael : Ég starfaði á þremur öldrunarheimilum í Ísrael og svo við heimaaðhlynningu í kúrdísku gyðingahverfi. Á þessum heimilum kynntist ég þó nokkuð af eldra fólki sem lifði af helförina.
– Aðhlynning á Landakoti – öldrunardeild : Þar leið mér svo prýðilega. Ég átti dásamleg samskipti við gamla fólkið og undi mér vel við að aðstoða það. Þessi vinna hafði mjög sterk áhrif á viðhorf mín til lífs og dauða.

2. Fjórar íslenskar bíómyndir sem ég held upp á:
Brúðguminn : Besta íslenska mynd sem ég hef séð.
– Með allt á hreinu : Ég elskaði þessa mynd þegar ég var krakki, átti hljómplötuna og lét mig dreyma um að slá í gegn, án þess þó að þurfa að bera mig.
– Jón Oddur, Jón Bjarni : Dásamleg mynd. Dásamlegar bækur. Sérstaklega atriðið þar sem þeir strjúka. Ég var sjálfur barn í kristilegum fangabúðum og lét mig dreyma um að strjúka alla vistina.
– Englar Alheimsins: Frábær mynd og frábær bók.

3. Fjórir staðir sem ég hef búið á:
Kópavogur : Fólk í Kópavogi ólst upp við nægjusemi. Hús voru byggð af vanefnum og í áföngum. Flestir sem uxu þar úr grasi á þessum árum, lærðu að elska vangefið fólk, sem er hollt fyrir sálina.
Ísrael : Ég get samt ekki beint sagt ég hafi búið þar. Ég var farandverkamaður, eða kibbútsnikk sjálboðaliði í 1 og 1/2 ár.
– Reykjavík : Ég hef búið á óteljandi stöðum í Reykjavík. Best líður mér þó hér í litla Skerjó.

4. Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
Sikiley : Er ennþá með fín sambönd á Sikiley.
Bandaríkin : Þangað ætlaði ég aldrei að fara, en lét svo loks til leiðast í nafni ástarinnar.
– Ísrael : Ég er ennþá þar í draumum mínum.
– Egyptaland : Stoppaði við í 1 og 1/2 dag, reykti gras, át ommilettur og svaf í leirhúsi. Alger hryllingur.

5. Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
Twin Peaks : Guð kom að gerð þessara þátta.
Lost : Lífið er svolítið eins og Lost, alveg gersamlega óskiljanleg absúrd þvæla.
– Damages : Með betur skrifuðu þáttum sem ég hef séð.
– The Lost Room : Ég skil ekki afhverju var hætt að framleiða þessa þætti. Ég græt.
– Northern Exposure : Mannbætandi þættir.

6. Fjórar síður sem ég skoða daglega:
Google reader : Eftirlætin mín.
Google : Leitarvélin
1984.is : Fallega litla stafræna fyrirtækið, sem lét aldrei glepjast af græðgi né lélegu viðskiptasiðferði.
blogg.gattin.net : Bla bla bla bla! Hvað á það að þýða? Hvað er í gangi? Bla, bla, bla!
Dr. Gunni : Með morgunsopanum.

7. Fernt sem ég held upp á matarkyns:
Hummus og Falafel : Þetta kombó hef ég ekki fengið jafn vel matreitt og út í Ísrael. Ekki í Ameríku og ekki á Havivi Tryggvagötu.
– Jólasvín : Þá sérstaklega jólasvínið sem hún systir mín útbýr.
– Sushi : Ég elska sushi-ið í Iðu.
– Pakistanskur : Sterkur eins og á Halim Al, í Austurstræti.

8. Fjórar bækur sem ég hef oft lesið:
Ég hef ekki lesið sömu bækurnar aftur og aftur, allavega ekki á fullorðinsárunum. Ég væri þó til í að lesa Sálminn um blómið aftur, en það er fallegasta bók sem ég hef lesið.

9. Fjórir staðir sem ég myndi helst vilja vera á núna:
Mér leiðist lífið á Íslandi um þessar mundir. Ég vil þó helst alltaf vera annars staðar en þar sem ég er. Mér líður þó afskaplega vel í dúkkuhúsinu í litla Skerjó.

10. Fjórir bloggarar sem ég klukka:
Ég legg þetta ekki á neinn mann. Hverjum datt upphaflega þessi klukkvitleysa í hug?

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég bregst við klukki, hér er annað klukk frá því í árdaga.

Söngur um sameiningu Evrópu

Nov
02
[MEDIA=182]

Ég hef verið rómantískt þenkjandi síðan í gær, og finnst því við hæfi að gera opinbert hér á vefsetri mínu Sönginn um sameiningu Evrópu, eftir Preisner, úr Trois couleurs: Bleu eftir Kieslowski heitinn.

Hér er textinn, fyrir þá sem vilja syngja með:

Ean tais glosais toon antropoon lalo
kai toon angeloon,
agapen de me echo,
gegona chalcos echoon e kumbalon alaladzon.

Kai ean echo profeteian,
kai eido ta mysteria panta,
pistin ore metistanai,
agapen de me echo, outen eimi

He agape makrotumai, chresteuetai
he agape ou dzelloi, erpereuetai, ou fysioutai.

panta stegei, panta pisteuei, panta elpizei, panta upomenei.

He agape oudepotte piptei
eite de profeteiai, katargetezontai,
eite glosai, pausontai,
eite gnossis katargetesetai

Nuni de menei, pistis, elpis, agape,
ta tria tauta, meidzoon de toutoon, he agape.

Ég var einu sinni ömurlegur, en er núna frábær!

Oct
31

Stundum getur lífið verið bölvaður óþverri og þá er ekki gaman. En þegar það er gaman: Þá er gaman! Ég hef komist að því með vísindalegum aðferðum að þarna eru bein tengsl á milli.

Mannskepnan er stundum svolítið einkennileg. Ef hún viðurkennir rangindi upp á sig, þá passar hún sig á að það komi skýrt fram að mistökin hafi átt sér stað í fortíðinni og eru ekki lengur í gildi. Það heyrir til algerra undantekinga ef mistakarinn staðnæmist meðan á yfirsjóninni stendur og segir eitthvað á þessa leið: Hey, ég er að gera mistök! Ég er nú meira fokking fíflið! Eða: Guð, í himinhæðum, Jesú, María og Jósef, hvað ég er ömurlegur! Nei, þannig einfaldlega gengur það ekki fyrir sig í lífinu. Mistök, eða misbrestir í skapgerð, fyrirfinnast einungis í fortíð sérhverrar manneskju. Sömuleiðis kjánaleg atvik, eða uppákomur þar sem einhver verður sjálfum sér til minnkunar. Það er mun þægilegra að horfast í augu við að maður gerði sjálfan sig að fífli fyrir nokkrum misserum síðan, en tildæmis fyrr sama dag, eða í gær. Hugmyndafræðin: “Ég var einu sinni ömurlegur, en er núna frábær!” er kennd í poppuðum sjálfshjálparhópum. Þar er hægt að læra að sættast á að einu sinni var maður kannski frekar mislukkaður, en í núinu er maður orðinn ótrúlega efnileg manneskja með gullfallegt hjartalag. Allt er þetta gott og blessað, nema að í dag kom babb í bátinn, ég komst að því að ég er ennþá fokking fáviti.

Yggdrasill um Yggdrasil frá Yggdrasil til Yggdrasils

Oct
31

Vinsamlegast komdu við í Yggdrasil, sagði ég við fröken Sigríði þar sem ég sat í bifreið hennar af fólksvagengerð. Er ekki þágufallið af Yggdrasill, Yggdrasli? spyr fröken Sigríður. Ég held nú ekki, þágufallið af Yggdrasill er Yggdrasil, og þarf ekki neinn vísindamann til að finna það út, hreytti ég þóttafullur í frökenina. Úr varð deilumál sem ekki hefði verið hægt að útkljá á þeim tíma sem tekur að keyra frá Skipholti yfir á Skólavörðustíg, þannig að fröken Sigríður hringdi í hið Íslenska Málfræðifélag, til að skera úr um hvor okkar hafði rétt fyrir sér.

Þegar hér er komið við sögu er rétt að hafa orð á að mikilvægi þess að hafa rétt fyrir sér er ofar öllu öðru mikilvægi í dýraríkinu. Hafi maður rétt fyrir sér, þá óhjákvæmilega hefur einhver annar rangt fyrir sér og það gefur þeim sem hefur rétt fyrir sér gúddí gúddí tilfinningu í Jíhadinu sínu.

Kári hjá Íslenska Málfræðifélaginu, tjáði frúnni að ekki væri alveg vitað hvernig ætti að fallbeygja Yggdrasill, hann taldi þó að þágufallið væri mjög líklega Yggdrasil. Ég, þágufallssjúklingurinn, varð ánægður með málalok, gleðin hefði án efa enst mér fram á kvöld hefði ég fengið óyggjandi staðfestingu á hvor okkar hafði rétt fyrir sér. Svona er þetta oft í lífinu.

Góssentíð fúllynda

Oct
28

Fyrir okkur sem erum í eðli okkar fúllynd, eru kreppur og aðrar óhamingjur, mikil góssentíð. Nú, þurfum við ekki að gera okkur upp viðurstyggilega kátínu. Brosið sem við reyndum að framkalla, en umbreyttist í fáranlega grettu, heyrir nú sögunni til. Nú getum við gefið reiðinni og pirringnum lausan tauminn, og þurfum ekki að halda aftur af okkur. Óhindrað getum við ausið skólpi úr skálum reiði okkar, þannig að ófögnuðurinn slettist á alla sem voga sér að vera nærri.
Reyndir þú að halda aftur af þér og brosa eins og fífl, þegar góðærið var og hét? Nú gerist þess ekki þörf. Nú er alveg kjörið að missa stjórn á sér, tildæmis á vinnustað, eða heima í faðmi fjölskyldunnar. Það kemur enginn til með að áfellast þig. Þetta er þannig tími. Það eru allir reiðir. Nú getum við verið við sjálf og þurfum ekki að vera feimin við að sýna okkar rétta eðli. Guði sé lof fyrir kreppuna!

Leiðindi

Oct
28

Stundum bærist í brjósti mér ákaflega einkennileg tilfinning: Mér finnst eins og ég hafi ríka ástæðu til að vera leiður yfir einhverju, en ég man bara ekki hver hún var. Í annasömum eril dagsins, þar sem stórar fjárhæðir eru fluttar á milli herbergja, hefur eitthvað komið upp á, einhver hugsun orðið til, eitthvað áformað, sem mér finnst svo leiðinlegt að ég hef ákveðið að eyða ómældum tíma í að vera niðurdreginn yfir því. Í kingumstæðum sem þessum, verða mögulega til önnur leiðindi. Ef maður einbeitir sér. Það dugar þó skammt, því fátt er eins dapurlegt og verða af leiðindum sem mögulega geta stuðlað að réttlátri reiði sem kannski endist í margar vikur, jafnvel mánuði. Það er hreint út sagt, syndsamlegt. Líkt og þegar maður hefur ákveðið að vera ógeðslega fúll út í einhvern og steingleymir því og heilsar viðkomandi glaðlega. Það er ægilega hallærislegt. Þá er mun betra að vera bara alltaf fúllyndur í öllum sínum samskiptum við fólk.

Veitt í matinn

Oct
22

Það er lítil hætta á að síðuhaldari deyi úr hungri. Ísraelskur skógarköttur sem gengur undir nafninu Avraham, hefur tekið að sér að afla íbúum dúkkuhússins í litla Skerjarfirði matar.
Þegar ég kom heim eftir annasaman dag á skrifstofunni, lá fyrir utan bjálkakofann fugl sem flýgur aldrei aftur. Þó ég sé allur af vilja gerður, fæ ég ekki séð að ég geti tjaslað fuglinum saman og blásið í hann lífi.
Avraham hefur notað frægar Mossad drápsaðferðir og snúið bí bí úr hálsliðnum. Því næst hefur hann rifið úr honum hjartað og kreist úr því síðustu blóðdropana meðan hann hló illkvittnislegum hlátri. Svo hefur hann slitið restina af innyflunum úr fuglinum og dreift þeim skipulega í kringum fiður og stél.
Ég sem hef ekki gert mikið annað en að þjónusta þennan kött, er ánægður með að hann leggi loks eitthvað að mörkum til heimilisins. Ég kann honum bestu þakkir fyrir. Ég vona að hann taki því ekki illa þó ég steiki ekki bráðina í gúmmilaðisósu og leggi mér til munns. Til þess þarf að kreppa örlítið meira að.

Óhugur

Oct
22

í dag sá ég rass sem vakti með mér óhug. Til allrar guðs lukku náði ég að forða mér.

Í verslun djöfulsins

Oct
21

Mikið ægilega leiðist mér lífið hérna á Íslandi um þessar mundir. Samhyggðin, sem mér fannst ég finna fyrir í síðustu viku er lönd og leið, þess í stað er fólk fast svamlandi í þessum fúla pytt sem enginn stakk sér viljugur til sunds í. Viðmót fólks er þannig að manni dettur helst í hug að allir séu nú þegar lepjandi dauðann úr skel.

En það er sama hvað á dynur, ég er alltaf blístrandi. Sumir hata blístrandi karlmenn nær fertugu, og hef ég orðið fyrir aðkasti og fengið á mig fúkyrði þess vegna. Yfirleitt eru það konur á breytingarskeiðinu sem þola illa flautið í mér. Karlmenn hafa aldrei beðið mig um að hætta að flauta. Sumir þeirra hafa meira að segja tekið undir. En þó svo ég blístri eins og söngfugl, er það ekki nein ávísun á að ég sé glaður innan í mér. Ég get vel verið að hugsa dauðahugsanir, þó svo ég blístri söngleikjalög eins og A spoon full og sugar, eða Happy talking, talking.

Í dag kraumaði innan í mér fyrsta flokks gremja. Ég var búinn að nýta langan göngutúr í að kynda vel undir hana, næra og hlúa að henni. Á leið minni heim, kom ég við í verslun djöfulsins 10/11 til að kaupa mér túmata. Þar inni heyrði ég HAM syngja Voulez Vous í útvarpinu. Ég tók umsvifalaust undir með þeim og blístraði eins og ég ætti lífið að leysa. Þegar ég kom að afgreiðsluborðinu mætti mér ungur afgreiðslumaður, með eitt tonn af eyrnalokkum og pinnum í andlitinu. Mér þótti hann strax fyrirtak. Ég hef tekið eftir að í þessari verslun eru stundum að vinna alveg stórfínar manngerðir. Einn rokkarinn sem afgreiddi mig um helgina var tildæmis niðursokkinn í Njálu og fékk fullt hús stiga í hausnum á mér fyrir vikið.

“Varst það þú sem varst að flauta” spurði hann mig meðan hann vóg túmatana. Ég sagði svo vera. “Helvíti flott hjá þér” sagði hann, og kinkaði kolli í mikilli velþóknun. “Þetta lag er nú betra með HAM, en Abba” sagði hann og brosti. Ég íhugaði með sjálfum mér, hvernig ég ætti að bregðast við. Hvaða karakter ég gæti kallað upp á svið til að dylja gremjuna sem bullsauð í sálu minni. Ég ákvað að vera hressi gaurinn og tók undir þessi orð afgreiðslumannsins, en velti því fyrir mér á sama tíma, hvort ég hefði hljómað eins og ég væri of hress, því það væri ekki nógu sniðugt. Ég þakkaði fyrir afgreiðsluna og slaufaði þessu litla spjalli með að segja, að HAM hefði verið yndisleg hljómsveit. Þrátt fyrir að hugur fylgdi máli, fannst mér eins og ég væri að gera mér upp glaðlyndi, sem er það allra hryllilegasta sem ég geri. Hvað um það. Mér þótti vænt um að hitta þennan afgreiðslumann. Mitt í dauðanum og djöflinum sem gengur í þessu samfélagi, er gaman að hitta á einhvern eins og hann.

American Airlines

Oct
19

Ekki er nóg að andlegur maður beri sig vel og sé snyrtilega klæddur. Hann þarf líka að hljóma eins og hann gangi erinda guðs. Einu sinni átti ég hlut í American Airlines og sótti stjórnarfundi hjá því ágæta fyrirtæki. Þeir sem til þekkja vita að American Airlines, er ekki bara risastórt flugfélag, heldur líka samfélag manna sem náð hafa framúrskarandi árangri á andlega sviðinu.

Mér þótti alltaf svolítið skrítið að heyra hvernig hljómurinn í nýjum hluthöfum breyttist þegar þeim fannst þeir komast í aðeins meira návígi við almættið, en við hin. Ég heyri þennan sama hljóm, ef ég slysast til að opna fyrir útvarpið upp úr 11 á sunnudagsmorgni , nema rödd þess er þar talar nýtur oftast hljómburðar kirkjubygginga, meðan rödd hluthafans andlega í American Airlines virðist vera með þennan bergmálandi hljóm innbyggðan. Gunnar á Krossinum, er gott dæmi um mann sem hljómar guðlega. Það er engu líkara en að röddin bergmáli í iðrum hans. Hljómfögur með eindæmum. Ætli Jesú hafi hljómað svona guðlega?

Ég hef reynt eitt og annað í andlegum málum, og tel mig vera andlega þenkjandi milli þess sem ég ráfa um götur borgarinnar tautandi fyrir munni mér: Drepa, drepa, drepa – en aldrei hef ég tekið eftir að rödd mín næði þessum hæðum. Ég man eftir að það var flokkur manna innan American Airlines, og allir honum tilheyrandi virtust vera með þennan guðlega tón. Einn þeirra varð svo guðlegur að hann fór í Háskólann til að læra að vera prestur. Ætli menn sem trúa nógu heitt á Gvuð, fái þennan tón í kaupbæti frá almættinu?

Leggðu því vel við hlustir næst þegar þú fyrirhittir einhvern sem hljómar guðlega, því þar fer líklega helgur maður og helgir menn kúka ekki.

Moggaknús

Oct
16

Mannskepnunni þykir gott að knúsa aðrar mannskepnur og að láta aðrar mannskepnur knúsa sig. Við þessa athöfn verða til gúddí gúddí efnasamskipti í líkamsstarfsemi þeirra sem að knúsinu standa. Núna á ögurtímum í íslensku þjóðfélagi, þegar líkaminn framleiðir lítið sem ekkert af gúddí gúddí efnum, er mikilvægt að knúsast eins og móðurríðarar. Hvert sem augað eygir, má sjá fólk leggja stund á knús. Í stórmörkuðum, úti á götu, á kaffistofunni, eða bara heima í hlaði – allir eru að knúsast.

En nú þurfa moggabloggarar, til allrar guðs blessunar, ekki að fara út fyrir hússins dyr til að knúsa hvorn annan, því netdeild morgunblaðsins – sömu frumkvöðlar og færðu okkur hið vinsæla moggablogg – hafa bætt við þartilgerðum knúsmöguleika, sem gerir moggabloggurum kleift að knúsa aðra skráða moggabloggara. Þessi nýjung var kunngerð fyrst í dag, og alveg er ég viss um að moggabloggarar hafi sameinast í stórfelldu hópknúsi sem ekki er séð fyrir endann á.

Dagurinn sem hægt verður að ríða bloggvinum sínum með því að smella á takka, er dagurinn sem ég hætti að þusa einn út í horni og skrái mig á moggabloggið.